Stjórnarskipunarlög

8. fundur
Miðvikudaginn 26. ágúst 1992, kl. 14:05:41 (70)


     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er líklega til lítils að vera að deila um þetta hér úr ræðustól. En það vill nú svo til að ég þekkti þennan samning nokkuð vel eins og hann stóð. Og þó það væri að vísu ekki mjög ítarlega rætt um þetta í ríkisstjórninni þá ræddi ég um þetta allítarlega á þeim tíma við þá menn sem í því voru. Og staðreyndin er sú að bæði lokavald eftirlitsstofnunarinnar og dómstólsins hefur stórum aukist af því að EB taldi ekki fært að hafa það eins og var. --- Það þýðir ekkert að hrista höfuðið yfir því. Ég tel mig gjörþekkja þetta mál. Og ég held að það sé rétt að við tökum þetta vandlega upp í utanrmn.
    Ég verð að viðurkenna að ég hef þá misskilið Mannréttindadómstólinn ef við erum skyldugir til að fara eftir niðurstöðum hans. Það er þjóðréttarsamningur og hann er ekki æðri landslögum. Hins vegar má segja að það sé hefð hér að gera það. Það dettur engum í hug að ganga þar gegn. Við höfum breytt hér lögum af því að Mannréttindadómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að þau væru ekki rétt hjá okkur. En það er út af fyrir sig ekki skylda. Það er ekki lagaskylda til þess. Og það er ekki að ástæðulausu að dr. Guðmundur vekur athygli á því að til að geta gert þennan samning að landslögum þá þurfi að breyta stjórnarskránni. Það er í athugun núna hjá hæstv. dósmrh., ef ég veit rétt, að gera hann að landslögum og þá erum við bundnir af því sem þar kann að verða úrskurðað.