Stjórnarskipunarlög

8. fundur
Miðvikudaginn 26. ágúst 1992, kl. 14:30:50 (72)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Mér þótti ræða hæstv. forsrh. --- hvernig orðar hann það? --- afskaplega sérkennileg að mörgu leyti. Hæstv. forsrh. tók sér fyrst fyrir hendur að sýna að þessi tillaga tengdist ekkert EES en sagði svo á eftir að við framsóknarmenn teldum okkur geta samþykkt EES ef svona stjórnarskrárbreyting yrði. Augljóslega tengist hún EES. Hún tengist bara miklu fleiru. Ég vísa aftur í hæstv. utanrrh. máli mínu til stuðnings.
    Mér þótti líka afskaplega sérkennilegt að hlusta á hæstv. forsrh. orða það svo að stjórnarflokkarnir væru því andsnúnir að framselja vald. Jafnvel fjórmenningar utanrrh. staðfesta að um framsal valds er að ræða. Þeir segja það hvað eftir annað að vissulega sé um framsal valds að ræða en það sé ekki með ólögmætum hætti og það sé ekki um of íþyngjandi. Það sé takmarkað o.s.frv. Hér á því að framselja vald með því að teygja og toga stjórnarskrána. Ég tek undir það með hæstv. forsrh. að ég er sannfærður um að þeir menn sem þá stóðu að því sem sumir töldu brot á stjórnarskránni gerðu það áreiðanlega ekki vísvitandi. En hér er vísvitandi verið að framselja hluta af ríkisvaldinu. Það er margsinnis staðfest. En það er ekki heimilað í 21. gr. stjórnarskrárinnar. Það er hvergi nefnt þar.