Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 10:35:15 (90)

     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég gerði hlé á ræðu minni í gær og hafði þá rétt hafið að vekja máls á því að stjórnarandstöðuflokkarnir fluttu í vor tillögu um að Alþingi bæði lagadeild Háskóla Íslands, Dómarafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands að velja sex menn í nefnd sem mundi meta það hvort samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði stangaðist á við stjórnarskrána. Ég hafði bent á það að í ýmsum löndum er talið nauðsynlegt að hafa annaðhvort sérstakan stjórnarskrárdómstól til þess að fjalla um atriði af þessu tagi eða hafa nefnd valinkunnra manna sem standa utan við vettvang stjórnmálanna og segja álit sitt á deiluefnum af þessu tagi. Hvorugt hefur fastan sess í okkar stjórnkerfi. Hins vegar var tillaga okkar stjórnarandstöðunnar efnislega á þann veg að koma á fót vegna þessa sérstaka máls slíkum óháðum vettvangi valinkunnra manna.
    Tillaga okkar var sú að það yrðu ekki stjórnmálaöflin í landinu, ekki flokkarnir eða þær stofnanir sem þeir stjórna sem veldu slíka menn heldur væru það þrír aðilar sem skipa sérstakan virðingarsess í röðum íslenskra lögfræðinga og á starfsvettvangi og menntavettvangi lögmannastéttarinnar í landinu, lagadeild Háskóla Íslands, Dómarafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands.
    Ég rakti það hér mjög lauslega að í mínum þingflokki benti ég 1. flm. þessarar væntanlegu tillögu og hugmyndasmiði þess að fara þessa leið, hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, á það að með þessari aðferð væri hann og við vissulega að taka þá áhættu að niðurstaða þessara manna yrði á annan veg en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði áður sagt og fram hefur komið í umræðum hér á þessu þingi. Ég tel það hins vegar sýna pólitíska yfirsýn og víðsýni að bæði hann, sem eins og allir vita í þessum sal hefur verið einhver mesti ákafamaður í gagnrýni á þennan samning, og aðrir voru reiðubúnir að leggja málið í dóm slíkra aðila sem á engan hátt væru valdir af fulltrúum hins pólitíska valds. Og það er því miður að hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin var ekki reiðubúin til að gera slíkt hið sama. Hún var ekki reiðubúin að leggja málið í mat og dóm aðila sem valdir væru af öðrum en pólitískum valdhöfum. Hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstjórn kaus að fara þá leið að velja með pólitísku valdi þá sem beðnir voru um álit. Það er mjög miður í stórmáli af þessu tagi og ég er viss um að hver einasti þingmaður í þessum sal veit í hjarta sínu að ef við hefðum sameinast um það sl. vor á þinginu að biðja lagadeild Háskólans, Dómarafélagið og Lögmannafélag Íslands að velja sex manna ráð af þessu tagi og hefðum nú í höndum þeirra niðurstöðu, á hvorn veginn sem hún hefði farið, þá væri málið allt öðruvísi statt.
    Segjum nú að þessir sex aðilar valdir með þessum hætti hefðu komist að sömu niðurstöðu og fjórmenningar utanrrh. Þá lægi málið þannig fyrir að stjórnarandstaðan hefði haft frumkvæði að því að sú leið var farin, ríkisstjórnin hefði fallist á hennar tillögu og við mundum öll lúta þeim úrskurði.
    Mér finnst það sýna pólitískan vanþroska, skort á yfirsýn og skynsemi af ríkisstjórninni að hafna þeirri leið á sl. vori. Og það er auðvitað merkilegt að t.d. hæstv. utanrrh. var ekki reiðubúinn að taka sömu áhættu af úrskurði óháðra aðila og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Var það vegna þess að hæstv. utanrrh. hafði vantrú á eigin málstað? Var það vegna þess að hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin treysti sér ekki til þess að láta Dómarafélagið, lagadeild Háskólans og Lögmannafélagið velja í dóminn? Þeir vildu að utanrrh. veldi sjálfur í dóminn.
    Auðvitað þarf ekki að hafa mörg orð um það að dómur sem valinn er með þessum hætti af einum málsaðila er ekki marktækur. Það vita auðvitað allir. Hann er ekki marktækur. Það tíðkast hvergi í réttarríkjum að dómur sem valinn er bara af öðrum málsaðilanum sé marktækur. Það er grundvallarregla réttarríkisins að það verða óháðir aðilar að velja í dóminn. Hvernig væri það fyrir Hæstarétti ef sá sem stefnir veldi alltaf dómendurna? Halda menn að það yrði tekið mark á úrskurðum slíks Hæstaréttar? Nei, auðvitað ekki. En það var það sem gerðist í þessu máli. Annar málsaðilinn valdi í dóminn. Og svo koma menn hér með heiðarleikasvip eins og hæstv. viðskrh. og segja: Þar með er málinu lokið. Hann sagði reyndar strax sama morguninn og hann kom með skýrsluna á fund utanrmn.: Þar með er málinu lokið. Auðvitað lyktar þetta allt af pólitík.
    Nokkrum vikum áður en fjórmenningar utanrrh. skiluðu niðurstöðu var flokksþing Alþfl. búið að fá fullvissu fyrir því að fjórmenningarnir mundu þjónusta málstað utanrrh. vegna þess að flokksþing Alþfl. taldi það við hæfi að álykta á þá leið sem hér segir í samþykkt flokksþingsins frá í júní, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En niðurstöður þeirra munu væntanlega eyða efasemdum um að samningarnir standist heimildir stjórnarskrárinnar til þjóðréttarlegra skuldbindinga.``
    Flokksþing Alþfl. er látið álykta um það hver verði væntanlega niðurstaða fjórmenninganna. Slík var vanvirða utanrrh., formanns Alþfl., fyrir grundvallarreglum réttarríkisins að hann gat ekki beðið eftir niðurstöðunni heldur lét flokksþing sitt segja þjóðinni hver niðurstaðan yrði.
    Auðvitað ber að harma það að ríkisstjórnin hafði ekki pólitískan kjark til þess að fara að grundvallarleikreglum réttarríkisins í þessu máli og þess vegna er málið í þeim hnút sem raun ber vitni. Og maður veltir því fyrir sér: Hvað er það sem gerir það að verkum að ríkisstjórnin undir forustu utanrrh. og með liðsinni forsrh., því ég tel að í þessu máli hafi utanrrh. forustu en ekki forsrh., er í fyrsta lagi ekki reiðubúin að setja þetta álitamál í hendur á mönnum sem þingið sjálft í heild sinni kemur sér saman um að láta óháða aðila velja? Í öðru lagi er ríkisstjórnin ekki reiðubúin til þess að láta þjóðina dæma samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað óttast hún? Og í þriðja lagi er hún ekki reiðubúin að bíða eftir því að sjávarútvegssamningurinn liggi fyrir ef marka má orð utanrrh. sem ætlar sér að knýja fram samþykki á EES-samningnum hér á Alþingi án þess að sjávarútvegssamningurinn við Evrópubandalagið liggi fyrir. Ég hef ekki heyrt hæstv. forsrh. lýsa þessu yfir og ég ætla að vona að í lengstu lög að hæstv. forsrh. láti í þessum efnum hæstv. utanrrh. ekki stjórna sér og sjái til þess að málið verði ekki endanlega afgreitt hér á Alþingi fyrr en sjávarútvegssamningurinn liggur fyrir. Og svo mætti auðvitað í fjórða lagi bæta því við að hæstv. ríkisstjórn þolir það ekki að í formannssæti í utanrmn. sitji maður sem er svo vandur að virðingu sinni að hann hefur uppi heiðarlegar efasemdir.
    Ef litið er á allt þetta, þá hlýtur niðurstaðan að vera sú að ríkisstjórnin hefur annaðhvort svo mikla vantrú á eigin málstað eða óttast vanmátt sinn í að sannfæra þjóðina að hún leggur ekki í það að láta óháða aðila meta, láta þjóðina meta eða hafa sjálfstæða menn í forustu í málinu í þinginu. Þetta er ekki traustvekjandi.
    Ég tók líka eftir því að hæstv. utanrrh. notaði sem röksemd í framsöguræðu sinni hér fyrir samningnum þegar hann var að hafna þjóðaratkvæðagreiðsu um EES-samninginn að skoðanakönnun hefði sýnt að þeir sem mest vissu um málið væru með en hinir sem minnst vissu um málið væru á móti. Það kann að vera rétt. En ég spyr: Hvaða könnun var þetta? Því hefur ekki verið svarað og ég leyfi mér að fullvissa þingið um það að ekki hafa verið birtar opinberlega niðurstöður úr könnunum þar sem þetta hefur komið fram. En ég hef reyndar frétt, og ég vil spyrja að því hér hvort það er rétt, að utanrrn. hafi látið skoðanakannanastofnun, mér er sagt Gallup, framkvæma fyrir sig skoðanakönnun fyrir nokkrum vikum síðan um afstöðu þjóðarinnar til EES-samninganna og margvíslegra þátta þess máls og úrslitin séu slík að með niðurstöðu þessarar könnunar sé farið sem algert hernaðarleyndarmál í utanrrn. Þessi könnun hefur verið borguð af opinberu fé. Ef þetta er rétt, að utanrrn. hafi látið framkvæma slíka könnun, þá hefur hún verið borguð af opinberu fé. Ég geri þess vegna kröfu til þess hér og nú að þegar í dag verði því svarað skýrt og skorinort hvort utanrrn. hafi látið framkvæma slíka könnun og greitt fyrir sérstaka könnun á undanförnum mánuðum um afstöðu þjóðarinnar til EES. Ef það er rétt þá óska ég eftir því að þegar í dag verði lögð á borð þingmanna heildarúrslit þeirrar könnunar. Öll gögnin, svörin við öllum spurningunum og þingið hafi möguleika til þess að láta vinna úr könnuninni. Ríkissjóður Íslands er ekki einkasjóður utanrrh. eða Alþfl. Og ef utanrrh. hefur látið ríkissjóð Íslands greiða slíka könnun, þá ber honum að opinbera niðurstöðurnar. Við erum sem betur fer ekki í leyniríki þar sem utanrrh. getur látið kaupa kannanir um vilja þjóðarinnar og haldið þeim svo leyndum af því að þær passa ekki í kramið. Það er ekki leyniþjónusta á Íslandi og Gallup er ekki leyniþjónusta utanrrn. Ef þetta er rétt, að slík könnun hafi verið gerð --- og ég spyr: er það rétt? --- þá ber að leggja niðurstöðurnar þegar í dag á borð alþingismanna.
    Þess vegna segi ég við starfandi utanrrh.: Ég óska eftir því að það verði upplýst hér í dag skýrt og skorinort: Keypti utanrrn. slíka könnun á undanförnum mánuðum eða á síðasta ári? Hefur utanrrn. keypt sérstakar kannanir um EES-málið af einhverju tagi, annaðhvort sérstakar spurningar inn í t.d. kannanir Félagsvísindastofnunar eða sjálfstæðar kannanir hjá öðrum? Hvað er hið rétta í þessu máli og hvar eru niðurstöðurnar? Ef slíkar kannanir hafa verið keyptar þá óska ég eftir því að þegar í stað verði öll gögn þeirra kannana lögð á borð þingsins vegna þess að þær hljóta að vera opinber gögn, einkum og sér í lagi þegar hæstv. utanrrh. hefur vitnað í niðurstöður slíkra kannana sem meginrök fyrir því að hafna tillögunni um þjóðaratkvæði.
    Þegar hæstv. utanrrh. kaus sjálfur að velja í dóminn í stað þess að treysta óháðum aðilum fór hann þá leið að velja fjóra færa lögfræðinga. Það er alveg ljóst að Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari, Gunnar G. Schram prófessor, Stefán Már Stefánsson prófessor og Ólafur Walter Stefánsson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, eru allt saman færir lögfræðingar. Enginn dregur það í efa. En það er auðvitað ekki traustvekjandi að tveir þessara manna hafa með margvíslegum hætti unnið að málinu sjálfir fyrir ríkisstjórnina. Þeir höfðu unnið að því frv. um EES sem við erum að fjalla um og voru þess vegna beðnir um að segja álit sitt á því hvort það frv. sem þeir höfðu unnið við vikum eða mánuðum saman stæðist stjórnarskrána eða ekki. Auðvitað er það ekki traustvekjandi að menn séu beðnir um að dæma eigin verk með þessum hætti, því það lá auðvitað í hlutarins eðli að ef þeir teldu málið brjóta í bág við stjórnarskrána hefðu þeir þegar í upphafi vinnunnar sagt við dómsmrh. og ríkisstjórnina og utanrrh. að að sjálfsögðu væri ekki hægt að leggja málið með þessum hætti fyrir þingið heldur yrði fyrst að breyta stjórnarskránni. Þannig að þeir voru fyrir fram búnir að taka afstöðu í verkum sínum. Hvers vegna þurfti að skipa helming fjórmenninganna með þessum hætti? Taka þá tvo menn sem höfðu unnið við að semja frv. Var það vegna þess, enn og aftur, að hæstv. utanrrh. þorði ekki að hleypa óháðum mönnum í verkið? Ég spyr. Við eigum marga færa lögfræðinga í okkar landi. En það þurfti einmitt að velja tvo af fjórum sem fyrir fram voru búnir að taka afstöðu. Var það vegna þess að utanrrh. vildi líkt og flokksþing Alþfl. geta sagt þjóðinni fyrir fram hver yrði niðurstaða þessarar nefndar?
    Hinir tveir eru auðvitað virtir lögfræðingar, ekki dreg ég það í efa, en ég segi það alveg hiklaust

að ég taldi ekki heppilegt að velja þá í nefndina. Hvers vegna ekki? Gunnar G. Schram, ágætur fræðimaður, en hefur auðvitað unnið á síðustu 2--3 árum margvísleg verk fyrir ríkisstjórnina og ráðuneytin á vettvangi alþjóðamála og heldur því áfram, meira að segja verið í leyfi frá Háskóla Íslands til þess að þjónusta ríkisvaldið með þessum hætti. Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari hefur eins og kunnugt er setið í Mannréttindadómstól Evrópuráðsins um langt árabil og gegnt þar ágætis störfum, getið sér gott orð á þeim vettvangi. En það vita líka allir að almenn viðhorf hans í málunum eru hlynnt þessari Evrópuþróun. Ég segi það ekki í neinum ásökunarstíl, heldur er það bara einfaldlega eðli málsins. Þess vegna er það auðvitað þannig að ekki bara tilurð þessarar nefndar í sjálfu sér, að hún er sett upp vegna þess að utanrrh. þorði ekki að láta lagadeildina, Dómarafélagið og Lögmannafélagið velja nefndina, heldur er einnig skipan hennar á þann veg að það er ekki traustvekjandi.
    Samt sem áður er álitið á þann veg að það eitt hlaut að staðfesta verulegar efasemdir manna um það hvort EES-samningurinn stæðist stjórnarskrána. Og það er auðvitað það merkilega að jafnvel þessi fjórmenningahópur utanrrh. treysti sér ekki með óyggjandi rökum, án nokkurs vafa að segja: Þetta er í lagi. Hann treysti sér ekki til þess. Heldur vefur svar sitt inn í fyrirvara og huglægar forsendur sem þeir gefa sér með mjög hæpnum hætti. Þess vegna var það auðvitað mjög athyglisvert að strax daginn eftir að álitið er birt þá segir einn af fremstu hæstaréttarlögmönnum þessa lands, sá maður sem lögmannastéttin hefur valið til þess að gegna formennsku í sínum samtökum, Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, að hann hafi ekki sannfærst af þessu áliti fjórmenninga utanrrh.
    Ég skal taka það hér fram að það hefur komið fram á öðrum vettvangi að Ragnar Aðalsteinsson er ekki andstæðingur EES-samninganna efnislega, ef menn halda það. Það er hann ekki. Hann hefur meira að segja farið frekar jákvæðum orðum um þá almennu þjóðfélagsþróun og þróun í utanríkismálum sem leitt hefur til þessara samninga. En hann hefur auðvitað burði til að greina á milli þess sem er efnisleg afstaða til EES-samninganna og spurningin um stjórnarskrána. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, formaður Lögmannafélags Íslands, segir um álit fjórmenninganna, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þeirra niðurstaða er sú að um íþyngjandi valdaframsal sé að ræða.``
    Fjórmenningar utanrrh., eftir allt saman, jafnvel þessi hópur sem valinn var með þeim hætti sem ég hef gert að umfjöllun, getur ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu að hér sé um íþyngjandi valdaframsal að ræða.
    En svo bætir Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður við: En fjórmenningar utanrrh. --- og ég vitna orðrétt, með leyfi virðulegs forseta --- ,,eftir að hafa beitt huglægu mati að þetta framsal sé ekki svo verulegt og ekki íþyngjandi í svo ríkum mæli að það sé brot á stjórnarskránni.``
    En hann segir meira, með leyfi virðulegs forseta: ,,Þeir bæta síðan við að ef þær forsendur sem þeir nota breytist, t.d. að afskipti EFTA-stofnananna af samkeppisreglum og framkvæmd þeirra verði meiri en forsendur þeirra geri ráð fyrir, þá þurfi að skoða málið aftur og þá kunni að þurfa að breyta stjórnarskránni. Þannig að niðurstaða þeirra er í raun ekki byggð á mjög traustum forsendum og í meginatriðum er hún byggð á huglægu mati. Þeir gefa sér ákveðnar forsendur sem þeir eru óvissir um sjálfir.``
    Í raun og veru ættu stjórnmálamenn sem eru vandir að virðingu sinni, eins og t.d. hæstv. iðn.- og viðskrh., Jón Sigurðsson, eftir slík ummæli Ragnars Aðalsteinssonar að gæta sín í orðavali og haga sér ekki eins og einhver veraldarinnar ,,besservisser``, bæði hér í ræðustól á Alþingi og í opinberri fjölmiðlaumfjöllun. Ég verð að segja eins og sagt var hér í gær hæstv. forsrh. það til hróss, að hann hefur ekki treyst sér til þess að tala í þeim ,,besservissera``-tón sem hæstv. iðn.- og viðskrh. hefur gert í þessu máli, enda er hæstv. forsrh. lögfræðingur, en hæstv. iðn.- og viðskrh. bara hagfræðingur, svo ég noti orðalag sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur stundum notað um sjálfan sig hér á Alþingi.
    Ragnar Aðalsteinsson segir fleira. Hann segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Einnig er spurningin um hvaða túlkunaraðferðum er beitt á stjórnarskrána. Þeir túlka hana með hliðsjón af þeirri þróun sem á sér stað í Evrópu og víðar. Það er út af fyrir sig aðferð en setur enn meiri óvissu í niðurstöðu þeirra.``
    Með öðrum orðum: Ragnar Aðalsteinsson bendir á að fjórmenningar utanrrh. nota ekki túlkunarhefð íslenskrar lögfræði, nota ekki túlkunarhefð íslensks stjórnskipunarréttar í þessu máli, heldur fara út í hina almennu þróun í Evrópu sem, eins og allir vita, er byggð á allt annarri lögfræðihefð því suður-evrópska lögfræðihefðin og franska lögfræðihefðin er af allt öðru tagi en sú íslenska og norræna stjórnskipunarhefð sem við höfum haft hér í heiðri. Það er þannig verið að blanda saman gerólíkum grundvallarsjónarmiðum í lögfræði, fræðilega séð, til þess að teygja sig í þá átt að reyna að fá út það svar að þetta sé í lagi. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem virtir íslenskir lögfræðingar leyfa sér að fara inn í hina framandi suður-evrópsku lögfræðihefð til þess að lesa túlkun á hinni norrænu stjórnskipun inn í vafamál í íslensku stjórnarskránni.
    Vegna þess að hæstv. forsrh. kaus að gera mér þann heiður að setja mig á sama stall í fræðilegu ritúali og virðingarröð Sjálfstfl. og Bjarna heitinn Benediktsson, fyrrv. forsrh. og lagaprófessor, --- og þakka ég að sjálfsögðu fyrir það ,,komplíment`` sem þar kemur fram --- þá er það auðvitað öllum ljóst að í þeirri umræðu sem bæði dr. Bjarni Benediktsson setti fram á sínum tíma og ég og fleiri hafa einnig gert í umfjöllun um þessi atriði, er gerður verulegur greinarmunur á því sem er annars vegar breytingar á valdi í gegnum túlkun og reynslu innan viðkomandi stjórnskipunar, þ.e. milli þeirra aðila sem sannanlega mynda

það þjóðríki sem stjórnskipunin er byggð á og svo hins vegar færsla á valdi út fyrir þjóðríkið sjálft, inn á annan vettvang til annarra aðila.
    Ég hef að vísu ekki lesið mikið um þessi efni frá dr. Bjarna Benediktssyni með kerfisbundnum hætti nýverið, ég gerði það fyrir nokkuð löngum tíma síðan í tengslum við önnur störf, en ég minnist þess ekki að hafa fundið kafla --- þó kunna þeir að vera til, það væri fróðlegt ef hægt væri að reiða þá fram --- í fræðiritum dr. Bjarna Benediktssonar þar sem hann með skýrum hætti segir að gegnum túlkun á íslensku stjórnarskránni sé hægt að flytja með afgerandi hætti vald út úr þjóðríkinu sjálfu og yfir til alþjóðlegra stofnana.
    Í öðru lagi er auðvitað mikilvægt að átta sig á því að í fyrri umræðum um eðli stjórnskipunarlaga á almennum, fræðilegum grundvelli er það auðvitað alkunn staðreynd að í sumum ríkjum, t.d. í Bandaríkjunum og ýmsum ríkjum í Evrópu, þó ekki hjá okkur eða norrænum ríkjum sem hafa hliðstæða stjórnskipun og við, tíðkast með afgerandi hætti að þróa stjórnarskrána í gegnum viðurkennda venju eða túlkun hæstaréttar á pólitískum grundvelli. Skýrasta dæmið um það er t.d. bandaríska stjórnskipunin þar sem það er jafnvel deiluatriði í forsetakosningum, eins og nú, hvernig hæstiréttur kunni að verða skipaður af forsetanum. Allt þetta er auðvitað mjög fróðlegt og vissulega er ég reiðubúinn að taka þátt í umræðum um það, en mér finnst það með engum hætti duga sem rök til þess að eyða vafanum sem tvímælalaust er uppi í þessum efnum.
    Það er auðvitað líka athyglisvert að Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður lýkur ummælum sínum um skýrslu fjórmenninga utanrrh. á þann veg að greinilega séu þeir að framkvæma það sem annar lögfræðingur, Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur, hafi kallað ,,að beygja og brjóta stjórnarskrána``. Í heildinni segir Ragnar Aðalsteinsson: ,, . . .  beiti ég meiri varkárni í mínum aðferðum sem lögmaður, ég hef ekki sama léttleika í þessu og þeir.``
    Nú vita það allir sem til þekkja að Ragnar Aðalsteinsson hefur getið sér það orð í lögmannastétt, sem m.a. hefur gert hann að einum færasta hæstaréttarlögmanni þessarar borgar og þessa lands og skapað honum þann sess að lögmannastéttin velur hann til forustu í sínu félagi, vegna þess að hann er vandaður og varkár lögfræðingur og hann velur orð sín af mikilli gaumgæfni. Þess vegna er það auðvitað mjög harður dómur frá Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni þegar hann afgreiðir álit fjórmenninga utanrrh. á þann hátt að það sé byggt á ,,léttleika í lögfræði`` --- léttleika í lögfræði.
    Auðvitað veit Ragnar Aðalsteinsson hverjir skipa fjórmenningahópinn. Hann veit að hann er að segja álit sitt á tveimur prófessorum við háskólann, einum hæstaréttardómara og skrifstofustjóranum í dómsmrn. Engu að síður velur hann þessi orð.
    Auðvitað er margt í þessu áliti fjórmenninga utanrrh. sem vissulega væri þess virði að vekja athygli á. Ég ætla ekki að gera það hér nema á örfáum atriðum. Á bls. 11 í þeirri útgáfu sem við fengum í utanrmn. þar sem verið er að reyna að komast í kringum þá staðreynd að auðvitað verður lagasetningarvald Alþingis nánast svipur hjá sjón þegar og ef EES-samningurinn verður staðfestur, segja fjórmenningarnir á þessa leið:
    ,,Náist hins vegar samkomulag í sameiginlegu EES-nefndinni um nýja EES-reglu tekur hún gildi ef og þegar uppfyllt eru skilyrði stjórnskipunarréttar allra samningsaðila. Oftast þarf að leggja samningsbreytinguna fyrir Alþingi. Síðan getur þurft lagabreytingu, en reglugerðarbreyting byggð á lagaheimild getur verið nægileg. Við þetta allt er þörf á samstarfi íslenskra stjórnvalda og Alþingis.`` --- Samstarfi íslenskra stjórnvalda og Alþingis. Alþingi er sem sagt ekki að þeirra dómi hluti af íslenskum stjórnvöldum. Merkilegur hugmyndaheimur.
    Það er hins vegar alveg ljóst að svar þeirra við þessari flækju er að það þurfi að koma á nýju samstarfi íslenskra stjórnvalda og Alþingis. Það kemur þó fram í þessari skýrslu fjórmenninganna. Það sé þörf á því. Þeir sem taka mark á þessari skýrslu, eins og hæstv. viðsk.- og iðnrh. og hæstv. forsrh. og utanrrh., þurfa þá auðvitað að svara því hér í þinginu: Hvað hugsa þeir sér um þetta samstarf íslenskra stjórnvalda og Alþingis í þessu lykilatriði við framkvæmd og breytingar EES-reglnanna? Hvað á að breytast? Hvernig á að koma þessu samstarfi fyrir? Hverjar eru nýjungarnar í starfsháttum Alþingis og samskiptum þess við framkvæmdarvaldið sem þá eiga að eiga sér stað, vegna þess að fjórmenningar utanrrh. segja: Það verður að koma til ný tegund af samstarfi Alþingis og íslenskra stjórnvalda. --- Og verður mjög gaman þegar við á Alþingi förum að hafa samstarf við íslensk stjórnvöld á EES-svæði. Það liggur við að þessi menn séu komnir með hugann hálfan út í Brussel og komnir með vegabréfið blátt með gylltum stjörnum, fyrst þeir ekki einu sinni strika svona út úr sínum eigin texta og segja þá kannski bara ,,stjórnvalda og Alþingis``, fyrst þeir vildu halda fram þeirri kenningu að Alþingi væri ekki hluti af stjórnvöldum. Nei takk, þeir segja: samstarfið milli íslenskra stjórnvalda og Alþingis. Makalaus setning. Á örugglega eftir að lifa lengi í lögfræði og sögu þjóðarinnar. Svona álíka og hin setningin sem er hér síðar í álitinu á bls. 16 sem lykilröksemd hjá fjórmenningunum, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ekki er tekið fram [í 2. gr. stjórnarskrárinnar] að þetta skuli vera alíslensk stjórnvöld og hugsanlegt er að alþjóðastofnanir séu stjórnvöld eftir 2. gr.``
    Virðulegi forseti. Ég held líka að þessi setning muni lifa lengi sem fádæmi um það sem mönnum dettur í hug. Að segja núna árið 1992 að vegna þess að forustumenn sjálfstæðisbaráttunnar, Jón Sigurðsson sem hér er á veggnum, Jón Guðmundsson, ritstjóri Þjóðólfs, Benedikt Sveinsson eldri og Benedikt Sveinsson yngri --- og er nú synd að Halldór Blöndal skuli ekki vera í salnum en Björn Bjarnason er í salnum. --- Landvarnarflokkurinn. Og vegna þess að forustumenn Landvarnarflokksins, Benedikt Sveinsson yngri, faðir Bjarna Bendiktssonar, skyldi ekki láta sér það til hugar koma að setja í stjórnarskrána að þetta yrðu að vera alíslensk stjórnvöld, þá sé þetta í lagi. Skúli Thoroddsen, Hannes Hafstein, Einar Arnórsson, Sigurður Eggerz, aumingja mennirnir, allir foringjar íslenskrar sjálfstæðisbaráttu höfðu ekki hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að segja í stjórnarskránni: Alíslensk stjórnvöld. Þeir voru haldnir þeirri þjóðernishyggju og þeirri einfeldni, að dómi fjórmenninga utanrrh., að þeir létu sér nægja að segja: Íslensk stjórnvöld. Benedikt Sveinsson yngri, Benedikt Sveinsson eldri, Jón Sigurðsson, Sigurður Eggerz, Einar Arnórsson, hann er langur listinn sem er dæmdur með þessari setningu í greinargerð fjórmenninganna.
    Nei, auðvitað er þessi setning fjórmenninganna út í hött, þessi röksemdafærsla fáránleg, gegnsæ í hæsta máta. Og það er ekki samboðið skynsömum mönnum að byggja afstöðu sína á svona röksemdafærslu.
    En það er auðvitað merkilegt að þessar tvær setningar, lykilsetningar sem ég hef hér vitnað til, að það þurfi að koma á samstarfi milli íslenskra stjórnvalda og Alþingis. Alþingi er ekki hluti af íslenskum stjórnvöldum í hugarheimi þessara manna. Og af því að það stendur ekki alíslenskur í stjórnarskránni, þá sé bara heimilt að fíra ríkisvaldinu út til útlanda, yfir til Brussel og Evrópubandalagsins, án takmarkana. Og Jón Sigurðsson er á veggnum og situr uppi með þá skömm að hafa ekki látið sér detta það í hug í Nýjum félagsritum að segja þar að það yrðu að vera alíslensk stjórnvöld.
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað þannig að sú greinargerð sem fjórmenningar utanrrh. settu fram stenst á engan hátt einfalda, fræðilega gagnrýni. Og það er líka mjög merkilegt í ljósi þess sem ég las í gær af ummælum hv. alþm. Björns Bjarnasonar fyrir ári síðan um þann stjórnskipulega óskapnað sem hann taldi EES vera og valdi því orð sem ég vitnaði til í gær og eru þingmönnum væntanlega í fersku minni. Stjórnarfarsleg flækja, sagði hann um EES-samninginn. Enginn veit hvernig stjórnarháttum á Evrópska efnahagssvæðnu verður háttað, sagði Björn Bjarnason fyrir ári síðan og að réttarstaða Íslendinga væri enn óljósari gagnvart því heldur en Evrópubandalaginu sjálfu. Réttarstaða Íslendinga sjálfra enn óljósari. Þá er hv. þm. Björn Bjarnason engu að síður í dag reiðubúinn að falla frá öllum þessum orðum sínum vegna álits fjórmenninganna. Nei, auðvitað er það þannig ef það er einhver í þessum sal sem er að hlaupa frá fyrri skoðunum sínum af pólitískri hentisemi, þá er það hv. þm. Björn Bjarnason því að hann skuldar þjóðinni og þinginu skýringu á því hvort og þá hvers vegna hann hefur breytt um skoðun frá því fyrir ári síðan. Hvort og þá hvers vegna. Og fyrr en hann gerir það hér á Alþingi þá verður hann að lúta því lögmáli sem utanrrh. er tamast á tungu að orð skulu standa. Orð skulu standa. Og ég árétta það sem ég sagði í gær, að það er auðvitað sérstök nauðsyn að hv. þm. Björn Bjarnason geri það vegna þess að hann hefur nú verið valinn til þess trúnaðarstarfs ekki bara Sjálfstfl. heldur íslensku þjóðarinnar að vera formaður í utanrmn. lýðveldisins. Og það er rétt að þeir gleymi því ekki í Sjálfstfl. að lýðveldið er ekki flokksdeild í fulltrúaráði Sjálfstfl. í Reykjavík, lýðveldið er okkar allra. Og sá maður sem hefur verið kjörinn til formennsku í utanrmn. íslenska lýðveldisins ber sérstaka ábyrgð vegna þess að hans orð hafa á innlendum og alþjóðlegum vettvangi meira vægi en orð annarra þingmanna. Og þetta veit ég að hv. þm. Björn Bjarnason veit og honum er það fullkunnugt. Þess vegna skuldar hann þjóðinni og þinginu skýringar á því hvort hann hefur breytt um skoðun frá því í fyrra.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson og fleiri hafa rakið hér mjög rækilega þær álitsgerðir tvær sem fram hafa komið í utanrmn., önnur frá prófessor í stjórnsýslurétti, Birni Þ. Guðmundssyni, og hin frá Guðmundi Alfreðssyni þjóðréttarfræðingi. Ég vil aðeins vitna hér í örfá atriði í álitsgerð Björns Þ. Guðmundssonar, með leyfi forseta:
    Í fyrsta lagi segir hann:
    ,,Ef litið er á stjórnarskrárviljann einan, þ.e. það sem vakti fyrir Íslendingum þegar þeir settu sér stjórnarskrána, þykir mér alveg ljóst að hann teldi valdframsalið samkvæmt EES-samningnum óheimilt. Því til stuðnings nægir að nefna þær aðstæður sem Íslendingar bjuggu við þegar stjórnarskráin var sett. Það hefur varla hvarflað að nokkrum Íslendingi þá að við myndum framselja ríkisvald til erlendra aðila eða þjóðréttarlegra stofnana.
    Í öðru lagi segir prófessorinn:
    ,,Framsal framkvæmdarvalds samkvæmt stjórnsýslurétti til utanaðkomandi aðila, þegar lögbær aðili er til í landinu á því sviði, er mjög sjaldgæft hér innan lands. Óþekkt er að slíkt framsal eigi sér stað til útlanda.``
    Prófessorinn í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands segir að það sé óþekkt að slíkt framsal til útlanda hafi átt sér stað, en það er einmitt það sem verið er að gera með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Í þriðja lagi segir prófessor Björn Þ. Guðmundsson:
    ,,Með EES-samningnum er íslenskt refsivald framselt að hluta. Slíkt vald er svo mikilsvert að óverjandi er að það verði fengið öðrum en dómstólum og stjórnvöldum þeim, sem getur nú í stjórnarskránni, nema þá að breyta henni.``
    Prófessorinn í stjórnsýslurétti, Björn Þ. Guðmundsson, sem hefur skrifað fjölmargar fræðibækur og lærdómsrit í lögfræði á undanförnum áratugum, segir hér alveg afdráttarlaust að það sé ekki bara verið að

framselja vald Alþingis og stjórnsýslustofnana heldur er verið að framselja það vald sem er kannski mikilvægast sem grundvallarþáttur í réttarríkinu, refsivaldið sjálft, út úr landinu. Og það sé ekki hægt að gera nema með breytingum á stjórnarskránni.
    Sjálfstfl. hefur sagt oft að hann vilji vernda rétt einstaklingsins, það sé grundvöllurinn í tilveru Sjálfstfl. Hann telji réttarríkið og lýðræðisríkið vera grundvallarþátt stjórnskipunar siðaðra manna. Það undrar mig að það skuli vera svo létt mál fyrir núverandi forustumenn Sjálfstfl. að standa að þessum samingi þegar þeir menn, sem falinn hefur verið trúnaður að sitja á kennarastóli um þessi efni við Háskóla Íslands, benda með svo afgerandi hætti á það að verið sé að framselja sjálft refsivaldið gagnvart einstaklingunum út úr landinu. Hvar er nú um frelsi einstaklingsins? Hvar er nú um rétt borgaranna gagnvart ríkisvaldinu? Hvar er nú um sjálfstæði þess sem sóttur er til saka? Er það allt saman týnt og gleymt af því að það þarf að þjóna þeirri kröfu Jóns Baldvins Hannibalssonar að fá að vera áfram í ríkisstjórn? Er það virkilega svo að öllum prinsippum Sjálfstfl. sé ýtt til hliðar til þess að þjónusta utanrrh.?
    Prófessor Björn Þ. Guðmundsson segir fleira. Hann segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Með því framsali ríkisvalds, sem hér er til umræðu, er ekki einasta þjóðréttarlegum stofnunum falið bindandi ákvörðunarvald á tilteknum sviðum gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum á Íslandi, heldur`` --- og ég bið forustumenn Sjálfstfl. að hlusta vel, ,,afsala sömu aðilar sér þeirri réttarvernd sem þeir njóta samkvæmt íslenskum lögum . . .  ``
    Það er ekki bara verið að framselja refsivaldið. Það er verið að afsala réttarverndinni sem einstakingurinn nýtur. Og ég spyr enn á ný: Er allt talið um frelsi einstaklinganna, sjálfstæði þeirra gagnvart valdhöfum, réttur þeirra til að verja sig, réttarríkið sjálft, er það allt svo léttvægt að það sem allir vita að er fyrst og fremst pólitískt metnaðarmál fyrir hæstv. utanrrh., að hann fái að ráða efnismeðferð málsins, sé ofar þessu öllu? Hér segir sá maður sem prófar íslenska lögfræðinga á þessum sviðum, ræður því með einkunnagjöf sinni hverjir fara í lögmannastétt á Íslandi, hverjir verða dómarar, einn af þeim, Björn Þ. Guðmundsson, sem hefur þetta vald falið af forseta lýðveldisins að úrskurða um hæfni laganemanna, hann segir hér alveg afdráttarlaust að það sé verið að afsala réttarvernd einstaklinganna út úr landinu. Þeirri réttarvernd, eins og segir orðrétt í áliti hans, sem ,,er fólgin í því að mega bera athafnir stjórnvalda undir umboðsmann Alþingis, undir æðra stjórnvald og að lokum dómstóla.``
    Það var talin mikil réttarbót að embætti umboðsmanns Alþingis var sett á laggirnar. Prófessor Gunnar Thoroddsen, doktor í lögfræði, forustumaður Sjálfstfl., forsætisráðherra, hafði um langa hríð vakið athygli á þeirri nauðsyn og í stjórnarskrárnefnd var það talinn mikilvægur þáttur og þingið féllst á það og fyrrverandi prófessor, Gaukur Jörundsson, núverandi umboðsmaður Alþingis, hefur með glæsibrag gert embætti umboðsmanns Alþingis að veigamiklum þætti í réttarvernd einstaklinganna á Íslandi. Hér segir hins vegar að með EES-samningnum sé að verulegu leyti verið að víkja þeirri réttarvernd til hliðar. Er þetta svona einfalt að það megi bara gera það án þess að staldra við og tryggja að rétt sé gert?
    Að lokum vil ég vitna hér í það sem Björn Þ. Guðmundsson segir einnig, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hér er um að ræða hluta ríkisvalds sem framselt er í hendur fyrirbrigðis`` --- fyrirbrigðis, takið eftir orðalaginu, ,,sem er nýtt á alþjóðavettvangi og engin reynsla er fengin af. Stjórnskipun þess byggir á réttarhugmyndum og réttarhefðum sem eru í veigamiklum atriðum frábrugðnar þeim forsendum sem stjórnskipun okkar byggist á.``
    Það vill svo til að í þessum orðum prófessors Björns Þ. Guðmundssonar kemur fram svipuð afstaða til stjórnskipunar Evrópska efnahagssvæðisins og kom fram í grein hv. þm. Björns Bjarnasonar í Morgunblaðinu 26. mars í fyrra. Þar talaði hann einmitt um stjórnarfarslegar flækjur og að enginn vissi hvernig stjórnarháttum á Evrópska efnahagssvæðinu yrði háttað og réttarstaða Íslendinga gagnvart því yrði mun óljósari en gagnvart Evrópubandalaginu sjálfu. Það er athyglisvert að prófessor Björn Þ. Guðmundsson staðfestir þannig í áliti sínu þær skoðanir sem hv. þm. Björn Bjarnason setti fram fyrir ári síðan.
    Virðulegi forseti. Álit Guðmundar Alfreðssonar hefur einnig verið gert hér að umtalsefni. Ég hef auðvitað ekki háskólapróf í lögfræði eins og menn vita, en þó er það nú þannig að ýmsir þættir stjórnmálafræðinnar tengjast stjórnskipunarréttinum innan lögfræðinnar þannig að þeir sem fást við a.m.k. þær kennslugreinar sem ég annaðist á sínum tíma við Háskóla Íslands innan félagsvísindadeildar þurfa að tengja sína umfjöllun að nokkru við stjórnskipunarréttinn, eins og reyndar hefur komið fram í tilvitnunum sem hæstv. forsrh. flutti hér. Þess vegna tel ég að þeir sem þá fræðilegu þjálfun hafa á vettvangi félagsvísindanna hafi auðvitað vissa hæfni til þess að gera sér almenna grein fyrir því hvort röksemdafærsla lögfræðinga í stjórnskipunarrétti sé sterk eða veik, ekki hvað sé hið endanlega rétta heldur hvort röksemdafærslan sé sterk eða veik. Ég vil segja það hér alveg skýrt að sú greinargerð, sem dr. Guðmundur Alfreðsson sendi Alþingi, utanrmn. þingsins, í þessum mánuði er ótrúlega sterk. Hún er ótrúlega skýr og sterk sem fræðilegt verk að mínu mati og það þarf ansi mikla burði til þess að hafna því. Ef ég væri í sporum fjórmenninga utanrrh. og vildi varðveita fræðilegan heiður minn, þá teldi ég nauðsynlegt að svara ítarlega þeim sjónarmiðum sem fram koma hjá dr. Guðmundi Alfreðssyni.
    Það dugir auðvitað ekki fyrir dr. Gunnar G. Schram að koma bara í útvarpið og afgreiða það með einhverjum fáeinum almennum setningum. Ekkert nýtt. Ekkert nýtt. Ekki vildi ég sitja sem prófessor við Háskóla Íslands og fá frá afburðanemanda mínum sem Guðmundur Alfreðsson tvímælalaust var, einn af afburðanemendum sumra þessara manna við Háskóla Íslands, frá þeim Íslendingi sem lokið hefur glæsilegu doktorsprófi frá fremsta lagaskóla veraldar, Harvard Law School, sem að dómi allra er fremsti lagaskóli veraldar, glæsilegu doktorsprófi og á grundvelli þess valinn ungur maður, ótrúlega ungur, til mikilla trúnaðarstarfa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem einhver harðasta alþjóðlega samkeppnin fer fram þegar menn eru valdir í þau störf. Að slíkur maður þótt ungur sé að árum legði fram fræðiverk af því tagi sem hans greinargerð er, þá vildi ég ekki sitja áfram sem prófessor við Háskóla Íslands án þess að svara því ítarlega og fræðilega. Og það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort einstaklingar úr fjórmenningahópi utanrrh. gera það eða ekki. Ég tel að ef þeir gera það ekki þá sé það vegna þess að þeir treysta sér ekki fræðilega til þess að hrekja sjónarmið Guðmundar Alfreðssonar svo óyggjandi sé.
    Í sjálfu sér er óþarfi að endursegja í ræðustólnum fjölmargt af því sem fram kemur í þessu áliti. En ég vil þó vekja athygli þingmanna á því að hvergi hefur dr. Guðmundur Alfreðsson tekið afstöðu gegn EES-samningnum efnislega, nema síður sé. Hann verður þess vegna með engu móti settur í hóp manna sem efnislega séu á móti EES-samningnum. Það er allt annað mál. Og hann hefur reyndar sérstaklega vandað sig til þess að gefa það til kynna.
    Ég vil líka vekja athygli manna á því að sá starfsvettvangur sem dr. Guðmundur Alfreðsson hefur fengist við er auðvitað mjög mótaður af umræðu alþjóðlegra sérfræðinga um ríkisvaldið, um mannréttindi, um stöðu einstaklingsins gagnvart alþjóðlegum stofnunum og ríkisstofnunum, um réttarstöðu einstaklinganna í heimi þeirra breytinga sem við höfum orðið vitni að. Mér finnst hans greinargerð bera glæsilega vitni yfirsýn þessa unga fræðimanns.
    Það er einnig mjög athyglisvert að í greinargerðinni bendir hann á þátt sem mjög lítið hefur verið ræddur af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það er það að með EES-samningnum er stigið tröllaukið skref, tröllaukið skref í að auka vald framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafarvaldsins. --- Mér finnst nú synd að hæstv. heilbrrh. Sighvatur Björgvinsson skuli ekki vera hér í salnum. Mér er reyndar til efs að það samrýmist samkomulagi eða a.m.k. skilningnum í samkomulagi okkar hér á Alþingi um meðferð þessa máls að enginn ráðherra Alþfl. skuli vera við þessa umræðu, virðulegi forsrh. Ég sakna þeirra ekki, en ég bið virðulegan forsrh. að hafa það í huga að það er kannski ekki alveg kórrétt að fyrst utanrrh. er fjarverandi og við gerðum ekki athugasemd við það, skuli hinn svokallaði staðgengill hans flýta sér út úr salnum eftir tæplega klukkustundar viðdvöl og enginn annar af ráðherrasveit Alþfl., mér vitanlega, hér á vettvangi. Ég ætla ekkert að biðja um að það sé náð í hann. En mér finnst þetta nú ekki alveg kórrétt.
    Margir forustumenn Alþfl. og reyndar Sjálfstfl. einnig, m.a. sá virðulegi þingmaður sem nú situr á forsetastól, hv. þm. Pálmi Jónsson, hafa með réttu á undanförnum árum talið það mjög mikilvægt að styrkja löggjafarvaldið, að styrkja löggjafarvaldið og draga úr áhrifavaldi framkvæmdarvaldsins. Og m.a. í því skyni voru sett hér lög sl. vor, veigamikil lög, sem t.d. ýmsir utan þings, Morgunblaðið, DV og fjölmargir aðrir, töldu tímamótalagasetningu. Það tók að vísu tvö, þrjú ár, virðulegur forseti, að koma þeim í gegn, en það tókst. Og það var talinn mikill áfangi. Þar með væri búið að styrkja löggjafarvaldið Alþingi og draga úr því sérstaka valdi sem framkvæmdarvaldið hafði haft á undanförnum árum og áratugum. Nú er allt í einu í EES-samningnum komið með þunga vagna í þessari hraðlest og völdunum mokað frá Alþingi yfir til framkvæmdarvaldsins í hverjum vagninum á fætur öðrum. Mokað frá Alþingi yfir til framkvæmdarvaldsins. Og ég spyr þá menn sem í alvöru hafa verið samferða okkur hinum um að styrkja löggjafarvaldið á kostnað framkvæmdarvaldsins á grundvelli lýðræðishugsjónanna: Er þetta líka bara allt í lagi? Er þetta eitthvað sem menn gera bara í haust? Sjálfsagt mál þannig að allt hitt sem búið er að tala um á undanförnum árum verður eins og ómerkilegt peð í þeim samanburði? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að ræða það hér við meðferð málsins, einkum þegar kemur að frumvörpunum, fylgifrumvörpunum með EES-samningnum, með hve stórfelldum hætti er verið að rýra vald Alþingis og færa embættismönnum og ráðuneytum og alþjóðlegum stofnunum og ráðherrunum meira vald en þeir hafa nokkru sinni haft í íslenskri stjórnskipun.
    Mér finnst líka alvarlegt og ég vek á því athygli hér að dr. Guðmundur Alfreðsson hefur bent á misvísandi þýðingu á lykilgrein í EES-samningnum, 6. gr. Þessi ábending hans knýr auðvitað á um það að menn skoði með alvarlegum hætti hvort í íslenska textanum sem ráðuneytið hefur gengið frá sé verið að gefa --- ég vil nú ekki segja vísvitandi --- villandi mynd af innihaldinu. Ég átti satt að segja ekki von á því að það væri hægt að finna gagnrýni stað um þýðingar á slíkum lykilatriðum í samningnum. En fyrst þessi ábending hefur komið fram þá er auðvitað nauðsynlegt að gera það.
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið og rétt er að árétta hér aftur þá varð dómur Ragnars Aðalsteinssonar, formanns Lögmannafélagsins, um álit fjórmenninga utanrrh. sá að það væri léttleiki í lögfræði. Dr. Guðmundur Alfreðsson velur túlkun fjórmenninganna þá einkunn, orðrétt, með leyfi virðulegs forseta: ,,Þetta er ævintýramennska í lögfræði.`` Ævintýramennska í lögfræði. Auðvitað veit hinn ungi fræðimaður dr. Guðmundur Alfreðsson að hann er þar að dæma fyrrum kennara sína, hann er að dæma virðingarmenn í íslenskri lögfræðingastétt. Það vita líka allir að mönnum er annt um virðingu sína í íslenskri lögfræðingasétt. Um það er hægt að reiða hér fram mörg dæmi frá síðustu áratugum. Þess vegna segi ég aftur: Ekki vildi ég sitja undir því sem kennari við háskólann og prófessor í fræðigrein að vera sakaður um ævintýramennsku af einhverjum mesta afburðarnemanda sem ég hefði haft, manni sem lokið hefði doktorsprófi frá fremsta skóla veraldar í lögfræði Harvard Law School. Þá mundi ég fara heim til mín og

leggja vikur og mánuði í það að reyna að afsanna þennan dóm eða segja af mér ella. Því þetta eru ekki léttvæg orð.
    Það er þess vegna staðreynd að tveir af fremstu lögfræðingum Íslands, formaður Lögmannafélagsins og lærðasti Íslendingur í alþjóðarétti, hafa annars vegar dæmt álit fjórmenninganna sem léttleika í lögfræði og hins vegar sem ævintýramennsku í lögfræði. Engu að síður segir maðurinn sem flúði hér úr salnum, hæstv. viðskrh., að álit fjórmenninganna leysi málið.
    Virðulegi forseti. Það er einnig rétt að vekja rækilega athygli á því sem Guðmundur Alfreðsson segir um það sem í skýrslu fjórmenninganna er kallað ,,afmarkað``, ,,takmarkað`` og ,,ekki verulega íþyngjandi`` valdaframsal``. Það er líka mjög harður dómur, mjög harður dómur um þá niðurstöðu fjórmenninganna.
    Hann segir einnig í 65. lið álitsgerðarinnar, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Það er umdeilt í samtímanum og líka umdeilanlegt hvort og að hve miklu leyti ríkið skuli láta hluta af sínu fullveldi í hendur yfir- eða samþjóðlegra stofnana. Þetta er framkvæmt í alvöru í aðeins einni alþjóðastofnun, það er EB, og nú er stefnt að því sama í EES þótt ekki sé það í jafnríkum mæli. Það er samt algjört einsdæmi í stofnanagrein þjóðaréttarins að lagt sé til að ríki skuli framselja yfirþjóðlegt framkvæmdar- og dómsvald til alþjóðastofnunar sem viðkomandi ríki er ekki aðili að. Þetta er kannski ekki meiri háttar álitamál í löndum sem eru að sækja um og búast við aðild í náinni framtíð [þ.e. aðild að Evrópubandalaginu]. Fyrir ríki sem er ekki að sækja um aðild hljóta hins vegar fullveldis- og ríkishugtökin og það sem í þeim felst að koma til skoðunar. Engin bein svör fást við þessari spurningu við lestur stjórnarskrárinnar eða í ritum um íslenskan stjórnskipunarrétt vegna þess að engum hefur dottið þessi firra í hug fyrr en nú.``
    Firra, engum hefur dottið í hug þessi firra fyrr en nú, segir dr. Guðmundur Alfreðsson um álit fjórmenninganna. Ég segi aftur: Ef þeir svara ekki þessari greinargerð dr. Guðmundar Alfreðssonar ítarlega og með rökstuddum hætti þá stendur hún. Þá stendur hún. Vegna þess að öll lögmál hins fræðilega starfs í háskólum og í samfélagi fræðimanna eru þess eðlis að hafi prófessor og forustumaður í fræðigrein fengið í hendur dóm og álitsgerð af manni með þann sess í fræðigreininni bæði innan lands og erlendis, sem dr. Guðmundur Alfreðsson, samkvæmt námsárangri sínum og doktorsprófi sínu frá Harvard Law School tvímælalaust hefur, og svarar ekki ítarlega og rökstutt greinargerðinni, þá er hann að játa sig sigraðan fræðilega. Hann er að játa sig sigraðan fræðilega. Þannig eru lögmálin í heimi fræðanna.
    Það eru auðvitað margir fleiri sem hafa sagt að samningurinn standist ekki stjórnarskrána þótt hv. þm. Björn Bjarnason vilji gera lítið úr því og sé byrjaður að telja. Það er t.d. athyglisvert að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur í blaðaviðtölum í sumar látið það álit sitt í ljósi. Hann hefur einnig gegnt lögmannsstörfum um langt árabil og hefur núna orðið að líða fyrir það að hafa leyft sér þá sjálfstæðu skoðun. Ég held að það séu engin dæmi þess að forustumaður í stjórnmálaflokki sem situr í ríkisstjórn hafi talið sig tilknúinn til þess að refsa fyrir slíkan málflutning að setja mann úr forustu í nefnd á vettvangi þingsins fyrr en nú. Ég held að það sé ekki hægt að nefna neitt annað dæmi. Og það er ekki dæmi sem ég vildi hafa í minni æviskrá sem frumkvöðull að. En forsrh. kaus að hafa það í sinni æviskrá að hann hefði fyrstur manna gengið inn á þá braut.
    Virðulegur forseti. Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. sagði ítrekað að þessu máli ætti að vísa til stjórnarskrárnefndar sem væri starfandi. Hins vegar tók nú sem betur fer hæstv. iðn.- og viðskrh. það fram að eðlilegt væri að kjósa hér samkvæmt þingsköpum sérstaka nefnd til þess að fjalla um þetta frv. Og ég vona a.m.k. að ( Forsrh.: Ég tók það fram sjálfur.) Þá þakka ég fyrir það. Ég hef þá eitthvað misskilið ráðherrann, þessa umfjöllun hans um að vísa málinu eða að málið gengi --- ég held að hann hafi notað það orðalag --- til stjórnarskrárnefndar sem situr utan þings undir forustu Matthíasar Bjarnasonar. Og er nú mikilvægt að Matthías Bjarnason njóti þó þessa trausts enn þá að rétt sé að vísa málinu til hans. En sá misskilningur er þá leiðréttur og það er ekki ætlun stjórnarinnar að gera annað en að fylgja venju í þinginu að vísa málinu til eðlilegrar meðferðar.
    Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað að segja hér nokkur orð vegna sérkennilegrar ræðu hæstv. iðn.- og viðskrh., en hann er nú farinn og ég tel það satt að segja ekki skipta miklu máli hvað hann sagði í þessari umræðu og tel því miður að hann hafi kosið að taka á þessu máli á þann hátt að það er ekki vænlegt til áframhalds. En ég vil að lokum árétta það að í okkar huga er þetta mál mjög mikilvægt. Við erum að gera tilraun til þess að halda í heiðri stjórnskipan íslenska lýðveldisins. Tryggja það að stjórnarskráin haldi sínum sessi sem grundvallarskjal í okkar lýðræðisskipan. Við vorum og ég leyfi mér að segja, við erum enn reiðubúin til viðræðna og samvinnu við ríkisstjórnina ef hún vill hafa einhvern annan hátt á þessu máli en við erum hér að leggja til. Við skrifuðum sérstaklega ríkisstjórninni til þess að árétta það. Ég setti fram fyrir hönd Alþb. í júlímánuði þá ósk að forustumenn flokkanna ræddu saman um málið, stjórnarskrárvandann, áður en þing kæmi saman. Því miður var ekki orðið við þeirri ósk. Því miður var það þannig að utanrrh. vildi ekki hlusta á neitt annað en sína eigin rödd í þessu máli. Ég vona hins vegar að í meðferð málsins á næstu vikum muni opnast hugur forustumanna ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Og ég bið þá einnig að hugleiða að í þessu samhengi höfum við líka flutt tillögu um þjóðaratkvæði. Það er auðvitað mjög víðtækur stuðningur við þá ósk í þjóðfélaginu. Mjög víðtækur stuðningur. Langt úr fyrir raðir stjórnarandstöðuflokkanna, langt út fyrir þær raðir.

    Ég vil að lokum biðja bæði ráðherrana og einstaka þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að hugleiða það hvort það sé ekki farsælt, hvað sem líður ágreiningi manna um það hvort þetta stangast á eða stangast ekki á við stjórnarskrána, hvað sem líður ágreiningi manna um efnisatriði EES-samningsins, að láta þann dómara sem er okkur æðri og við sækjum vald okkar frá, þjóðina sjálfa, segja sitt álit. Ég held að það mundi skapast miklu meiri friður um málið í framtíðinni ef það yrði gert. Og ég spyr: Eru ekki nægileg ófriðarefnin og átakaefnin í okkar litla samfélagi þó við förum nú ekki að bæta þessari olíu á þann eld? Það er til einföld leið í þeim efnum. Það er að láta þjóðina dæma málið í almennri atkvæðagreiðslu í nóvember eða desember á þessu ári. Ég held líka að það mundi greiða fyrir allri meðferð málsins hér á þinginu. Ef þjóðin segði já, þá mundi þingið að sjálfsögðu beygja sig undir það, virða þá niðurstöðu. Ef þjóðin segði nei, þá mundu menn auðvitað líka gera það. Satt að segja skil ég ekki þá menn sem vilja ekki fara þessa einföldu leið málinu sjálfu til framdráttar.
    Ég bið þess vegna þá ágætu menn sem stýra verkum í ríkisstjórnarflokkunum að hugleiða það á næstu vikum hvort það er ekki skynsamlegast að í septembermánuði eða í byrjun október, næðum við saman um það hér á Alþingi að láta slíka atkvæðagreiðslu fara fram.