Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 11:51:22 (93)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Þessi setning og reyndar það sem þingmaðurinn hefur áður sagt sýnist best hvaða mann hann hefur að geyma. Það var upplýst hér að kröfu hans sjálfs og annarra að þær fullyrðingar sem hann hefur haldið á lofti, bæði við menn opinberlega og við menn hér í frammíköllum um að utanrrh. hefði ekki rætt skýrslu í ríkisstjórn, voru ósannindi og tal hans um falsanir þar sem ónákvæmni var af minni hálfu, að þetta hefði verið kynnt með 30 daga fyrirvara eins og mátti skilja af mánuði en ekki 10 daga fyrirvara eins og mun hafa verið niðurstaðan, kom til vegna þess að handrit það sem dreift var í ríkisstjórninni var merkt í febrúar en skýrslan í þinginu var merkt í mars.