Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 11:55:45 (96)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var ekkert nýtt 5. mars að það væri ágreiningur í ríkisstjórninni milli ráðherra um samningana um EES. Það vissu allir sem sátu við það ríkisstjórnarborð. Hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að að mig minnir þann 28. des., alla vega seinni part desember, hafði utanrrh. lagt fram tillögur í ríkisstjórn um það hvernig samningsumboð hann fengi til þess að halda áfram samningaviðræðum frá ríkisstjórninni í heild. Það samningsumboð var aldrei afgreitt. Það vissu allir við ríkisstjórnarborðið að það var ekki afgreitt mál af hálfu ríkisstjórnarinnar. Og þess vegna þurfti ekkert að endurtaka það þó að ráðherrann upplýsti það á fundinum að hann ætlaði að leggja fram á Alþingi svar sitt við fyrirspurn frá Þorsteini Pálssyni og nokkrum öðrum þingmönnum Sjálfstfl. vegna þess að sú skýrsla sem hann var að leggja fram var ekki sjálfstæður gerningur. Hún var svar við fyrirspurn frá þingmönnum Sjálfstfl. um beiðni um þessa sérstöku skýrslu þar sem þeir lögðu fram sérstakar spurningar. Og það vita auðvitað allir að það tíðkast aldrei í ríkisstjórn að vera að ræða svör einstakra ráðherra við fyrirspurnum eða skýrslubeiðnum sem hér eru lagðar fram á Alþingi þó að skýrslurnar séu auðvitað lagðar fram til upplýsingar og kynningar í ríkisstjórninni. Ég reikna t.d. með að iðnrh. hafi lagt fram til upplýsingar í síðustu ríkisstjórn skýrslu sína um iðnaðarmál sem við báðum um á síðasta þingi. Ég reikna líka með að hæstv. heilbrrh. hafi lagt fram til upplýsingar í ríkisstjórn skýrslu sína um málefni aldraðra sem við báðum um á síðasta þingi. Þetta er auðvitað algengt fyrir alla þá sem hafa unnið í ríkisstjórn.
    Það var hins vegar aldrei með neinum hætti farið í launkofa með ágreininginn milli mín og utanrrh. í þessu máli og þar vil ég nú kalla enn á ný hv. þm. Björn Bjarnason til vitnis. Hann segir í grein í Morgunblaðinu 16. apríl í frásögn af fundi um EES-samninginn sem fór fram í þeim mánuði, tilvitnun orðrétt: ,,Var harkan mest í deilum þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar utanrrh. og Ólafs Ragnars Grímssonar fjmrh.`` Björn Bjarnason staðfestir það að þegar í apríl var það eitt af höfuðeinkennum málsins að harkan var mest í deilum hæstv. utanrrh. og þáv. fjmrh.