Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 12:01:18 (99)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Við ræðum hér frv. til stjórnarskipunarlaga sem lagt er fram vegna þess að það er ætlun ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar að keyra í gegnum Alþingi lagafrv. um Evrópskt efnahagssvæði þó það sé mat virtra lögfræðinga að EES-samningurinn samrýmist ekki stjórnarskránni.
    Í gær talaði hæstv. forsrh. og sagðist eiga erfitt með að fóta sig, eins og hann orðaði það, á því hvað við ættum við með því að flytja þetta frv., þ.e. tengsl milli þessa frv. og EES-málsins. --- Ég sé ekki hæstv. forsrh. hér í salnum. Ég hefði gjarnan viljað hafa hann viðstaddan. Ég hafði ætlað mér að ræða við hann um þetta mál þar sem það er óhjákvæmilega á hans málasviði þó að auðvitað hefði verið æskilegt að utanrrh. hefði verið hér einnig en það er þó alla vega lágmark að hæstv. forsrh. sé viðstaddur. Er hann ekki í húsinu, virðulegi forseti? ( Forseti: Forseti skal gera ráðstafanir til þess að athuga hvort forsrh. er ekki hér í húsinu og við umræðuna. --- Forseti vill taka fram að það er verið að leita að hæstv. forsrh. og væntir þess að hann komi fljótlega.) Ég þakka forseta fyrir. Ég hinkra, eða vill forseti að ég víki úr ræðustóli á meðan beðið er? ( Forseti: Við skulum fá svör við því hvort forsrh. kemur ekki. --- Forsrh. kemur alveg rétt í þessu og ef ræðumaður óskar að gera hlé á ræðu sinni þangað til hann kemur, þá er það auðvitað frjálst og getur þess vegna verið í ræðustólnum en ella farið í sæti sitt. --- Forsrh. er kominn og heldur þá hv. 15. þm. Reykv. áfram ræðu sinni.)
    Virðulegur forseti. Það gleður mig að sjá að hæstv. forsrh. ætlar að vera hér og hlýða á mál mitt. Mér þykir rétt að hann fái nokkra skýringu á því hvers vegna þetta frv. er flutt, alla vega þá skýringu á því hvers vegna ég er einn af flm. þessa frv. og Kvennalistinn telur eðlilegt að flytja frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. En hann átti erfitt með að fóta sig á þessu, eins og hann tók til orða í gær, og átti mjög erfitt með að sjá tengslin þarna á milli. En eins og hann e.t.v. veit mjög vel, þá er í 21. gr. stjórnarskrárinnar að finna ákvæði um heimild til forseta Íslands til samningsgerðar við önnur ríki. Feli slíkir samningar í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins þarf samþykki Alþingis að koma til.
    Þetta ákvæði er búið að vera í stjórnarskránni efnislega alveg frá því 1920 og hefur kannski ekki verið mikill ágreiningur um túlkun þess þangað til núna. En það er ekkert sem stendur í því sem leyfir framsal á ríkisvaldi. Við sem stöndum að þessu frv. teljum ekki að Alþingi sé heimilt að samþykkja EES-samning að óbreyttri stjórnarskrá. Það eru engin ákvæði í stjórnarskránni, hvorki þessari grein né öðrum greinum sem heimila Alþingi að framselja ríkisvald til fjölþjóðlegra stofnana. Um það er ekki deilt að EES-samningur gerir ráð fyrir framsali ríkisvalds en lögfróðum mönnum ber ekki saman um hvort þetta framsal er heimilt samkvæmt stjórnarskránni. Raunar efast sumir um að Alþingi hafi verið heimilt að gera ýmsa samninga þar sem þeir hafa falið í sér ákveðið eða mjög takmarkað framsal á ríkisvaldi. Það hefur verið nefnt t.d. aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum, Mannréttindasáttmálum, ýmsir Norðurlandasamningar hafa verið tíndir til og fleira hefur verið nefnt í þessu sambandi. En þótt menn hafi komist að því að stjórnarskráin hafi e.t.v. verið brotin einu sinni eða jafnvel oftar veitir það enga heimild til að gera það enn og aftur. Slík rök eiga á engan hátt rétt á sér að mínu mati þótt jafnvel hæstaréttardómarar leyfi sér að nota slík rök en það gerðist ekki alls fyrir löngu í viðtali við hæstaréttardómara í útvarpinu.
    Varðandi EES-samninginn, þá fæli samþykkt hans í sér valdaframsal í verulegum mæli til alþjóðastofnana, þ.e. stofnana EFTA og EES sem Ísland yrði þá aðili að en einnig til EB sem Ísland á ekki aðild þótt EES-samningurinn yrði samþykktur, a.m.k. ekki sjálfkrafa. Þarna á ég ekki síst við EB-dómstólinn og lagasetningarvald sem verður að meira eða minna leyti hjá EB á sviði samningsins.
    Í umræðunum hér í gær sagði hæstv. iðnrh., sem því miður er ekki hér en ég vænti þess að hæstv. forsrh. muni skýra honum frá þeirri umræðu sem hér fer fram þar sem hann virðist greinilega ekki sjá sér fært að vera hér viðstaddur, en hann sagði í umræðunum í gær að það væri ekki um neitt framsal á valdi að ræða til EFTA eða EB og tók m.a. fram að úrskurðir EFTA-dómstólsins væru aðeins leiðbeinandi, eins og hann orðaði það. Þetta kom nokkuð á óvart þar sem á því sem fram kemur í þessum samningi og þeim plöggum sem við höfum hér, er ekki hægt að sjá annað en að úrskurðir EFTA-dómstólsins séu bindandi á því sviði sem þeir eru með vald til, þ.e. sem hann á að dæma. Í þeim plöggum sem við höfum, þ.e. bæði í 110. gr. og einnig í nánari útskýringum, þá segir, með leyfi forseta:
    ,,Hlutverk EFTA-dómstólsins er í meginatriðum þríþætt. Í fyrsta lagi dæmir EFTA-dómstóllinn í málum er varða ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA vegna framkvæmda EES-reglna í EFTA-ríkjum. Í öðru lagi dæmir hann í deilumálum er upp kunna að koma á milli EFTA-ríkjanna innbyrðis vegna framkvæmdarinnar á EES-reglum. Í þriðja lagi getur EFTA-dómstóllinn til að stuðla að samræmdri túlkun gefið dómstólum í aðildarríkjunum ráðgefandi álit um túlkun EES-reglna.``

    Þannig er í tveim fyrstu tilvikunum alveg greinilegt að þar er um að ræða að EFTA-dómstóllinn hefur það hlutverk að dæma. Og það er ekkert um það að þetta séu neinar leiðbeiningar. Það stendur jafnframt í 10. gr. að dómstólar í aðildarríkjunum geti ekki endurmetið sektarákvörðun eftirlitsstofnana dómstóla EB og EFTA-dómstólsins. Það er alveg greinilegt að þarna er um endanlegar ákvarðanir að ræða. Enda kemur greinilega fram í áliti fjórmenninga utanrrh., sem hæstv. iðnrh. tekur nú mest mark á af öllum álitum sem fram hafa komið og ég tek mikið mark á því áliti líka, en þar segir, með leyfi forseta, eins og það er prentað á bls. 24 í þskj. 30:
    ,,Ákvarðanir eftirlitsstofnunarinnar um þau atriði sem nú voru greind`` --- það er búið að lýsa því á undan, ég hirði ekki um að lesa það --- ,,(þar á meðal ákvarðanir um févíti og sektir) verða ekki bornar undir dómstóla í aðildarríkjunum heldur undir EFTA-dómstólinn til endanlegrar úrlausnar eða EB-dómstólinn ef um svonefnd blönduð samkeppnismál yrði að ræða.``
    Þannig kemur greinilega fram í áliti fjórmenninganna að þarna er um bindandi niðurstöður að ræða. Það stenst því ekki það sem hæstv. iðnrh. sagði hér í gær. ( Gripið fram í: Það er ekki í fyrsta skipti.) Það skal ég ekki um dæma.
    Á bls. 55 í þessu sama þingskjali segir Björn Þ. Guðmundsson um þetta sama atriði sem hæstv. iðnrh. virtist að vísu ekki vera eins áfjáður í að taka mark á og taldi hann ekki alveg eins virtan og aðra lögfræðinga, hann verður að hafa sínar skoðanir á því, en þar segir hann, á bls. 55, með leyfi forseta, þar sem hann gagnrýnir m.a. fjórmenningana:
    ,,Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt hjá fjórmenninganefndinni að túlka megi EES-samninginn þannig að dómar EB-dómstólsins séu einungis leiðbeindi en ekki bindandi fyrir dómstóla og stjórnvöld hér á landi. Þrátt fyrir þá takmörkun sem gerð er í samningnum`` --- og þá er hann að tala um þetta þriðja atriði sem þarna er um að ræða --- ,,þ.e. að dómarnir skipti máli og séu efnislega samhljóða, tel ég miklu líklegra að reynslan muni leiða í ljós að líta beri svo á að hér sé um bindandi fordæmi að ræða, enda segir skýrum stöfum að það beri að fara eftir þeim þegar svo stendur á sem í EES- og ESE-samningunum segir. Þessa skoðun byggi ég ekki síst á víðtækri túlkun EB-dómstólsins sjálfs á hlutverki sínu og valdsviði.``
    Það er því greinilegt að um einhvern misskilning er að ræða hjá hæstv. iðnrh. eins og kollegi hans hæstv. utanrrh. notar svo oft þegar menn eru að túlka þetta EES-mál.
    Ég tel einnig að ótvírætt sé um verulegt afsal á dómsvaldi að ræða í bókun 34, þar sem um er að ræða að EB-dómstóllinn á að túlka EES-reglurnar fyrir dómstóla EFTA-ríkjanna og skuli dómsúrskurðir þeirra vera bindandi. Ég tel að þarna sé einnig um verulegt framsal að ræða á dómsvaldi en ætla hins vegar ekki að ræða það sérstaklega hérna. Þetta er einungis í tilefni ummæla hæstv. iðn.- og viðskrh. sem hér talaði í gær.
    Stjórnarflokkarnir eru á móti því að afsala fullveldi þjóðarinnar, sagði hæstv. forsrh. hér í gær. Og að því er virtist þá notaði hann það sem rök gegn þessu frv. Ég áttaði mig alls ekki á hvað ráðherrann átti við. Telur hann að eitthvað í þessu frv. fjalli um afsal fullveldis? Það er auðvitað af og frá og hef ég ekki heyrt nokkurn alþingismann tala um að það komi til greina að afsala hér fullveldi þjóðarinnar. Auðvitað er þetta aðeins hártogun af hans hálfu. En hann bætti við að stjórnarflokkarnir vildu heldur ekki veikja fullveldið, ef ég man rétt og tók rétt eftir, en það er einmitt það sem verið er að gera með þessum samningi og það án þess að samstaða sé um að gera það, hvorki hér á Alþingi né meðal þjóðarinnar.
    Forsrh. sagði einnig að það væri að hans mati óeðlilegt að þjóðin kæmi ekki að málum og vildi meina að það frv. sem hér er til umræðu mundi minnka líkurnar á því að þjóðin gæti haft áhrif ef t.d. íslensk stjórnvöld ákvæðu að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Ég er honum sammála að því leyti til að það á auðvitað að spyrja þjóðina álits á slíkum málum en þetta frv. kemur ekki á nokkurn hátt í veg fyrir það.
    Ég vil einnig benda honum á að ásamt þessu frv. flytja fulltrúar frá öllum stjórnarandstöðuflokkunum frv., sem reyndar eru ekki til umræðu hér og skal ég ekki fjalla sérstaklega um þau, á þskj. 31 og 32. Á þskj. 31 er frv. til stjórnarskipunarlaga þar sem einmitt er gert ráð fyrir að þjóðin sé spurð um álit þegar um er að ræða samninga eins og t.d. samninga um Evrópskt efnahagssvæði eða eitthvað á svipuðum nótum. Einnig hefur stjórnarandstaðan lagt fram till. til þál. um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Hæstv. forsrh. hlýtur því að vera algerlega sammála þessu þar sem hann sagði hér í gær að það ætti auðvitað að spyrja þjóðina í mikilvægum málum, ég man ekki hvernig hann orðaði það nákvæmlega, en ég tók það þannig að hann teldi að það væri rétt að þjóðin væri spurð, t.d. ef til ingöngu í Evrópubandalagið kæmi, eða sú spurning yrði tekin upp. Nú er það alveg ljóst að EES-samningurinn er stórt skref inn í Evrópubandalagið eða eins og hv. þm. Björn Bjarnason, nýkjörinn formaður utanrmn., segir bæði fyrsta og annað skrefið inn og þá er kannski bara það þriðja eftir. Því er mjög eðlilegt að þjóðin verði spurð í þessu efni og hlýt ég að gera ráð fyrir því að forsrh. styðji þá tillögu.
    Hins vegar er iðnrh. algjörlega á móti því að þjóðin fái að segja álit sitt. Hann spurði m.a. hér í gær hvers vegna Alþingi ætti að vísa málinu til þjóðarinnar. Þessi hæstv. ráðherra telur lýðræðið ekki skipta miklu máli. Það á að vísa málinu til þjóðarinnar vegna þess að hún hefur rétt á að segja til um hvort hún vill að gerðar verði svo róttækar breytingar á íslensku þjóðfélagi eins og EES-samningurinn gerir ráð fyrir. Vald hans og ríkisstjórnarinnar er ekki eins mikið og hann heldur samkvæmt stjórnskipun. Þó svo að í raun megi kannski segja að hér ríki ráðherraveldi, þá eigum við sem sitjum hér á Alþingi sem fulltrúar þjóðarinnar auðvitað að vinna gegn því að ráðherrarnir hafi fyrsta, annað og þriðja orðið í þessum málum og að þingmenn hafi í rauninni ekkert annað að segja en já og amen við því sem ríkisstjórnin segir og stjórnarandstaðan reyni svo að berjast á móti en geti litlu um þokað.
    Ráðherrann hélt reyndar áfram og taldi að ekki væri hægt að breyta stjórnarskránni nú, og það var ein af hans höfuðrökum gegn þessu frv. sem við nú ræðum, vegna þess að því mundi fylgja svo mikill órói og óvissa. Það var greinilega óþægilegt fyrir hann að hugsa sér að ró hans í viðsk.- og iðnrn. yrði raskað. ( Gripið fram í: Hann vildi ekki kosningar.) Hann vildi ekki kosningar, það er alveg rétt. Ráðherrann vill ekki kosningar vegna þess að honum líður vel þar sem hann er. Hann hefur mikil völd og telur sig hvorki þurfa að taka tillit til þess sem Alþingi gerir nema í eins litlum mæli og hægt er og alls ekki það sem þjóðin hefur að segja. Ég vil nefnilega benda ráðherranum á að lýðræðið tekur sinn tíma og það verður að kosta það erfiði og þann tíma sem þarf. Það er ekki hægt að hagræða lýðræðinu eftir því sem ráðherrum þóknast og finnst mér rök hans vera alveg með ólíkindum. Það næsta sem maður gæti vænst með svona rökum væri að það væri best að taka bara upp einræði þar sem það væri auðvitað bæði fljótvirkast og skilvirkast og þyrfti þá ekki að spyrja nokkurn mann.
    Kvennalistinn hefur ávallt lagt mikla áherslu á lýðræði og það var strax árið 1986 að þáv. þingkonur Kvennalistans á Alþingi lögðu fram till. til þál. um að unnið yrði að því að breyta stjórnarskránni á þann hátt að hægt væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu með ákveðnum hætti. Þar var gert ráð fyrir að þriðjungur þingmanna gæti farið fram á það og tíundi hluti kosningabærra manna. Þetta var sú tillaga sem þá var rædd og vakti hún heilmikla athygli úti í þjóðfélaginu en hlaut því miður ekki stuðning því þá hefðum við kannski verið komin eilítið lengra í þessu máli en við erum nú.
    Í umræðunni um EES-samninginn bæði hér á Alþingi sem og annars staðar í þjóðfélaginu hafa menn verið nokkuð sammála um að ef samningurinn yrði staðfestur væri um framsal á ríkisvaldi að ræða og breytingar yrðu á stjórnarhögum ríkisins. Menn deila hins vegar um hvort valdaframsalið sé óverulegt eða hvort um veigamikið framsal á löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi sé að ræða.
    Í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi verður að samþykkja EES-samninginn með auknum meiri hluta á þingum landanna vegna þess að þar er samningurinn talinn fela í sér skerðingu á fullveldi ríkjanna. Og það er mjög merkilegt að sama niðurstaða skuli ekki vera hér á landi.
    Íslenskir fræðimenn á sviði lögfræði deila um hvort EES-samningurinn standist ákvæði stjórnarskrárinnar, sérstaklega með tilliti til framsals á ríkisvaldi. Þess vegna er þetta frv. flutt, einmitt þess vegna. Ég vonast sérstaklega til þess að hæstv. forsrh. átti sig á því að það er ekki nein tilviljun að þetta er flutt núna. Það er vegna þessara deilna sem upp hafa komið. Þó að frv. sé almennt orðað og taki ekki sérstaklega á EES-samningnum þá er það auðvitað flutt nú af tilefni þess að í honum felst að okkar mati verulegt valdaframsal.
    Hæstv. forsrh. skildi ekki af hverju Kvennalistinn væri að leggja fram þetta frv. og auðvelda þannig samþykkt þess og gera sem sagt þar með Framsfl. kleift að samþykkja EES-samninginn. Ég skal ekkert segja um það hvaða afstöðu Framsfl. tekur efnislega til EES-samningsins. Það kom að vísu fram hjá formanni flokksins hér í umræðunum fyrir nokkru að hann teldi að Framsfl. gæti samþykkt samninginn, eða alla vega talaði hann fyrir sig, gæti samþykkt samninginn að breyttri stjórnarskrá. Ég skal ekkert segja um það hvort þetta er almenn samþykkt Framsfl. ( Gripið fram í: Hver svarar því?) Það verður hver að svara fyrir sig. Ég svara ekki fyrir Framsfl. En þingkonur Kvennalistans vilja ekki að samþykktir þingsins brjóti í bága við stjórnarskrána jafnvel þó þær séu á móti málinu sjálfu eins og á við t.d. í þetta skipti. Auðvitað ætti sú afstaða okkar að vera ljós og forsrh. ætti að vita það eins og aðrir að við höfum lagst gegn samþykkt samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Það eru ein rök auðvitað að hann stríði gegn stjórnarskránni, að okkar mati, eða það eru veigamikil rök sem benda til þess, en það eru ekki aðalrök okkar og hafa ekki verið í gegnum tíðina þó það séu auðvitað þau rök sem gera það að verkum að við teljum að Alþingi geti alls ekki samþykkt samninginn. Þess vegna stöndum við auðvitað að þessu frv. Vegna þess að það breytir ekki því hvaða afstöðu fólk hefur síðan til málsins á eftir, en við viljum ekki að Alþingi brjóti stjórnarskrána. Það hlýtur forsrh. að vera alveg ljóst og ætti hann ekki að vera undrandi á því að við séum meðflutningsmenn á þessu frv. og flytjum aðrar tillögur í tengslum við það.
    Í febrúar sl. á síðasta löggjafarþingi var lögð fram till. til þál. um að skipuð yrði nefnd óháðra aðila sem segði álit sitt á því hvort samþykkt EES-samningsins standist óbreytta stjórnarskrá. Þetta hefur verið mikið rætt hér og gerð grein fyrir henni svo ég geri það ekki. En hæstv. utanrrh. lagðist gegn samþykkt þessarar tillögu og vildi greinilega einn ráða því hverjir skipuðu nefndina og kom hann fram hér á Alþingi með mjög einkennilegum hætti sama dag og þessi tillaga var til umræðu og tilkynnti að hann væri búinn að skipa nefnd til þess að gera úttekt á þessu máli. Eins og svo oft áður þá vildi hann fá að ráða öllu, vildi fá að stjórna Alþingi. Þeir vilja svo oft fá að ráða, þessir ráðherrar, hvernig Alþingi starfar og geta ekki sætt sig við að þar fari fram sjálfstæð skoðun á málum. Menn sem styðja stjórnina verða að standa og sitja eins og þeir vilja. Þingið mátti sem sagt ekki láta fara fram skoðun á því hvort samþykkt EES-samnings stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar. Hér á landi ríkir nefnilega ekki venjulegt lýðveldi, heldur má kannski kalla það ráðherraveldi eins og ég sagði áðan.

    En utanrrh. skipaði nefnd fjögurra manna sem skyldi segja álit sitt á því hvort EES-samningurinn stæðist stjórnarskrána. Forsrh., sem samkvæmt reglum um Stjórnarráðið fer með mál sem varða stjórnskipan lýðveldisins, fékk ekki einu sinni að skipa mann í nefndina. Athugun á vegum ríkisstjórnarinnar um aðild að EES í tengslum við stjórnarskrána hefði eðlilega átt að vera á vegum forsrn. ( Forseti: Forseti hafði greint frá því að ætlunin væri að gera hlé á fundinum. Ég vil því spyrja hv. ræðumann hvort hann sé u.þ.b. að ljúka ræðu sinni. Ef ekki verð ég að óska eftir því að hann geri hlé á ræðu sinni meðan fundi er frestað.) Virðulegur forseti, ég á ekki mjög langt mál eftir en ég tel það þó það langt að ef meiningin er að gera hlé á fundinum þá væri kannski eðlilegra að ég gerði hlé á máli mínu. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég vona að það sé ekki merki um það að hv. þm. telji sig þetta mál engu skipta að svo fáir eru hér í þingsalnum því að það hlýtur að vera öllum þingmönnum mikið alvöruefni ef hætta er á því að Alþingi samþykki lög sem stríða gegn stjórnarskránni. Ég vona svo sannarlega að það sé ekki merki um það að þingmenn telji sig þetta engu skipta sem hér birtist.
    Ég hafði í fyrri hluta ræðu minnar farið yfir ástæður þess að við teljum nauðsynlegt að flytja frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingar á stjórnarskránni, þar sem yfirgnæfandi líkur eru til þess að ef samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verður samþykktur, þá muni það verða brot á stjórnarskrá lýðveldisins. Ég skýrði það einnig fyrir forsrh., þar sem hann taldi það mjög óljóst eða reyndar óskiljanlegt af hverju Kvennalistinn teldi sig þurfa, eins og hann orðaði það, að hjálpa Framsfl. við að styðja þetta mál. En það þarf kannski ekki að endurtaka það að auðvitað erum við kvennalistakonur algerlega andvígar því að nokkurt það mál sem er samþykkt á Alþingi stríði gegn stjórnarskránni óháð því hvort við erum samþykkar því eða ekki.
    Ég var þar komin sögu að ég var að lýsa því að mér þætti það mjög sérkennilegt að hæstv. forsrh. skyldi ekki einu sinni fá að skipa mann í nefnd utanrrh. þar sem auðvitað hefði verið miklu eðlilegra að athugun á vegum ríkisstjórnarinnar á EES-samningnum í tengslum við stjórnarskrána hefði átt að vera á vegum forsrn. Ég geri út af fyrir sig enga athugasemd við og það er alls ekkert athugvert við það þó að hæstv. utanrrh. vilji fá nokkra lögfróða menn til að segja álit sitt á samningnum. En að telja að niðurstaða þeirra komi í stað athugana óháðra aðila er auðvitað fjarstæða. Auðvitað hefur hæstv. utanrrh. talið sig hingað til vera þann eina sem má fjalla um þetta mál og enginn annar hafi neitt um það að segja, hafi alla vega ekki neitt vit á því.
    Eins og menn muna voru sl. vor nokkrar deilur um þetta atriði á milli hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. þar sem ekki virtist vera alger samstaða um það hver færi með málið, þ.e. EES-samninginn, eftir að búið var að undirrita hann af hálfu ríkisstjórnarinnar eða af hálfu utanrrh. Ég tel ekkert athugavert við það þó að utanrrh. vilji fá einhverja menn til að segja álit sitt. Ég tel hins vegar að þessir menn geti alls ekki komið í stað þeirra óháðu aðila sem stjórnarandstaðan taldi að ætti að fá til þess að segja álit sitt og kom m.a. fram í tillögu sem lögð var fram á Alþingi í febrúar á síðasta þingi en því miður fékkst hún ekki samþykkt. Ég er ekki að segja að þessir ágætu menn, þ.e. lögmennirnir fjórir sem voru fengnir til, séu ekki góðir og gegnir lögfræðingar. En álit þeirra var hæstv. utanrrh. og Alþfl. ljóst fyrir fram. Það kom m.a. fram í ályktun Alþfl. og var einnig fullyrt í forustugrein Alþýðublaðsins þann 23. júní. Í samþykkt flokksþings Alþfl. kom greinilega fram að þeir vissu hvað út úr þessari könnun mundi koma og sögðu að greinilegt væri að EES-samningurinn fæli ekki í sér framsal á valdi þjóðríkja. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Flokksþingið leggur áherslu á að fullyrðingin um að EES-samningarnir feli í sér framsal löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds eða að samningarnir séu brot á stjórnarskrá Íslands hafi hvergi verið fundinn staður svo að trúverðugt sé.`` Og svo kemur: ,,Þjóðréttarfræðingar á vegum EB- og EFTA-ríkjanna sem og Lagastofnun hafa hvergi staðfest slíkar fullyrðingar.``
    Síðan segir einnig í forustugrein Alþýðublaðsins frá 23. júní að niðurstaðan í öllum EFTA-ríkjunum sé sú að samningurinn feli ekki í sér framsal á löggjafarvaldi. Þetta er auðvitað einkennileg niðurstaða í ljósi þess að í öllum EFTA-ríkjum þarf að staðfesta samninginn með auknum meiri hluta í þingum landanna vegna þess, eins og ég sagði áðan, að samningurinn er talinn fela í sér skerðingu á fullveldi rikjanna.
    Niðurstaða fjórmenningahópsins var enda í samræmi við fullyrðingu flokksþings Alþfl. og þess sem skrifaði forustugrein Alþýðublaðsins þann 22. júní, þ.e. að EES-samningurinn og fylgisamningar hans brjóti ekki í bága við íslensk stjórnskipunarlög.
    Þessi niðurstaða þeirra er þó langt frá því að vera ótvíræð. Þeir segja nefnilega í sínu áliti ef ég má, með leyfi forseta, lesa það. ,,Hugsanlegt er að þau ákvæði sem hér geta skipt máli geti öll saman leitt til þess að samningarnir verði ekki taldir samrýmast stjórnarskránni, þó að hvert ákvæði metið sér í lagi geri það. Við teljum að vísu að færa megi nokkur rök gegn einstökum þáttum í því sem hér að framan er rakið en við teljum þó að niðurstöður okkar orki ekki tvímælis í þeim mæli að tilefni sé að draga þá ályktun að samningarnir í heild leiði til þess að breyta þurfi stjórnarskránni ef þeir taka gildi.`` Ég vil endurtaka þetta að ,, . . .  niðurstöður okkar orki ekki tvímælis í þeim mæli . . .  `` Hvað meina mennirnir? Það er greinilegt að þeir sjálfir eru ekki mjög öruggir í sinni niðurstöðu. Svo segir áfram:
    ,,Þá er hugsanlegt að reynslan leiði í ljós að það reynist ekki rétt sem við byggjum á um framkvæmdarvaldið og dómsvaldið, þ.e. að reglurnar um vald stofnana EFTA séu vel afmarkaðar, að þær feli

ekki í sér verulegt valdaframsal og séu ekki íþyngjandi í ríkum mæli.`` En ég vil taka fram að þeir eru búnir að segja áður að þær séu íþyngjandi. Það er bara hversu mikið sem þeir eru að leggja mat á. Síðan segir áfram: ,,Einnig er hugsanlegt að í samkeppnismálum komi til meiri afskipta en hér er reiknað með. Við teljum ólíklegt að forsendur okkar að þessu leyti reynist rangar.`` Þeir eru ekki vissir. ,,Við teljum jafnframt að engin nauðsyn sé til að ráðast nú í breytingar á stjórnarskránni vegna þessa möguleika. Ef fram kemur síðar að slíkra breytinga sé þörf er Ísland að þjóðarétti skuldbundið til þess að gera það.``
    Þetta er þeirra niðurstaða og er greinilegt að fjórmenningarnir byggja sína greinargerð og sína niðurstöðu á mjög hæpnum forsendum svo að ekki sé meira sagt.
    Dr. Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur og Björn Þ. Guðmundsson, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, hafa jafnframt lagt fram greinargerðir um málið þar sem fram kemur að þeir telja að samningurinn brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég ætla ekki að rekja í löngu máli það sem fram kemur í þeirra álitum þar sem það hefur verið gert mjög skilmerkilega hér af öðrum ræðumönnum en vil þó aðeins gera örfá atriði að umtalsefni og lesa upp úr þeirra álitum, með leyfi forseta. Álit dr. Guðmundar Alfreðssonar er birt m.a. sem fskj. með frv. og vil ég fá að vitna til þess sem er á bls. 76. Þar segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Ég hef lýst þeirri skoðun minni að það er margt í EES-samningnum og fylgiheimildum um vald EFTA- og EES-stofnana, sem ýmist brýtur í bága við eða orkar tvímælis miðað við gildandi stjórnskipunarlög. Hér hlýtur að vakna viðbótarspurning. Getur frjálst og fullvalda ríki, með tilvísun í 1. og 2. grein stjórnarskrárinnar, framselt framkvæmdar- og dómsvald til alþjóðastofnunar, sem við erum ekki aðilar að? Í kaflanum um löggjafarvald lýsti ég því einnig hve stóran þátt EB mundi fá við mótun og samningu efnisreglna á EES-svæðinu.`` Þetta er úr áliti Guðmundar Alfreðssonar sem hefur komist að því að samþykkt samningsins mundi stríða gegn stjórnarskránni. Jafnframt segir hann í sínum lokaorðum:
    ,,Það hefur komið fram í lögfræðilegri umræðu um stjórnarskrána og EES að stjórnarskránni skuli breytt frekar en að taka áhættu á broti ef vafi er á ferðinni um stjórnskipulegt lögmæti EES-samningsins. Ummæli um ,,grátt svæði`` benda til svipaðra efasemda. Ég geng lengra og held því fram að ákvæði í samningnum brjóti greinilega í bága við stjórnarskrána eins og hún stendur í dag, en ég tek undir þá skoðun að stjórnarskráin skuli njóta efasemda af þessu tagi.`` Án þess að ég viti það þá býst ég við að Guðmundur sé þarna m.a. að vísa til fundar sem Lögfræðingafélag Íslands hélt á Hótel Sögu í vor þar sem þessi sjónarmið voru yfirgnæfandi, þ.e. að það væri svo mikill vafi á ferðinni að breyta þyrfti stjórnarskránni þó að ekki væri alveg öruggt að það væri nauðsynlegt. Ég get t.d. nefnt Eirík Tómasson sem var fundarstjóri á þessum fundi og setti fram þetta sjónarmið. Hann taldi að það væri eðlilegt að stjórnarskráin nyti vafans og svo er um fleiri sem hafa tjáð sig um þetta mál þó að það hafi kannski ekki allir viljað ganga eins langt og Guðmundur Alfreðsson og segja að það sé að þeirra mati ekki neinn vafi á því að þetta brjóti í bága við stjórnarskrána. Síðan segir hann áfram, með leyfi forseta:
    ,,Í þessu samhengi er nauðsynlegt að ítreka að sérfræðinganefnd utanrrh. er í vafa um eigin niðurstöður. Nefndin segir berum orðum bæði í meginmáli og lokaorðum að það geti þurft að breyta stjórnarskránni seinna ef forsendur hennar reynast rangar hvað varðar afmörkun og umfang valdaframsalsins og íþyngjandi ákvarðana útlendra stofnana. Ummæli nefndarinnar eru þess vegna beinlínis viðurkenning á efasemdunum. Í mínum huga á að breyta stjórnarskránni fyrst en ekki seinna í slíkum tilfellum og ekki bara fresta breytingunni fram að næstu reglubundnum kosningum; þá er ekki rétt að farið skv. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi skoðun á sér stuðning í áður greindum tilvísunum í lögin um ráðherraábyrgð.`` En þau ætla ég mér ekki að lesa hér. Og þess vegna er niðurstaða Guðmundar sem ég ætla að leyfa mér að lesa:
    ,,Það er mín niðurstaða eftir nákvæma skoðun á þessum atriðum og dæmum öllum að breyta þurfi stjórnarskránni og beita til þess 79. gr. hennar, þegar frumvarpið til laga um EES kemur til afgreiðslu Alþingis og forseta.``
    Þetta voru hans lokaorð og ég trúi því ekki að menn efist um að Guðmundur sé einn af þessum virtu lögfræðingum sem m.a. hæstv. iðnrh. lagði svo mikla áherslu á að segðu álit sitt. Það væri a.m.k. erfitt fyrir hvern mann að efast um að hann hafi þekkingu og getu til þess að segja álit sitt á þessu máli þar sem hann er einn fremsti þjóðréttarfræðingur landsins og þótt víðar væri leitað. Það að efast um að þarna sé fræðilega að málum staðið er auðvitað út í hött.
    Björn Þ. Guðmundsson hefur einnig sagt álit sitt á þessu máli og ætla ég ekki að rekja í löngu máli hans greinargerð því að á sama hátt hafa menn auðvitað lesið hér heilmikið upp úr hans áliti. Ég get þó ekki stillt mig um að taka hér nokkrar tilvitnanir upp úr hans greinargerð og vil, með leyfi forseta, fá að vitna til 5. kafla eða kafla sem er á bls. 40 í greinargerð með þessu frv. Þar segir hann:
    ,,Verði teflt á tæpasta vað í þessum efnum getur sú staða komið upp að handhafar löggjafarvalds, alþingismenn, hafi sett æðstu handhafa dómsvalds í þá stöðu að síðar geti þeir ekki annað en talið EES-samninginn standast stjórnarskrána vegna þess að önnur niðurstaða leiddi til slíkrar röskunar í þjóðfélaginu að nálgaðist ómöguleika í framkvæmd.
    Við röksemdafærslu má það ekki vera leiðandi sjónarmið að eitthvað sem áður hefur verið gert, hvort heldur er með lagasetningu, stjórnsýsluákvörðunum eða dómum, og talið hefur verið vafasamt að hefði nægilega stoð í stjórnarskránni, réttlæti það í þessu máli að slaka megi á kröfum um stjórnskipulegt gildi laga.``

    Þarna leggur Björn áherslu á það sem ég hef reyndar sagt áður að þó að e.t.v. einhvern tíma hafi verið vafi á því eða komi í ljós núna að vafi hafi verið á því að Alþingi hafi haft heimild til ákveðinnar lagasetningar, þá getur það alls ekki verið eðlilegt að þar með megi brjóta stjórnarskrána eins oft og maður vill eftir það. Það kemur auðvitað ekki til álita.
    Björn Þ. Guðmundsson segir enn fremur síðar: ,,Með EES-samningnum er íslenskt refsivald framselt að hluta. Slíkt vald er svo mikilsvert að óverjandi er að það verði fengið öðrum en dómstólum og stjórnvöldum þeim, sem getur nú í stjórnarskránni, nema þá að breyta henni.
    Með því framsali ríkisvalds, sem hér er til umræðu, er ekki einasta þjóðréttarlegum stofnunum falið bindandi ákvörðunarvald á tilteknum sviðum gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum á Íslandi, heldur afsala sömu aðilar sér þeirri réttarvernd sem þeir njóta samkvæmt íslenskum lögum og m.a. er fólgin í því að mega bera athafnir stjórnvalda undir umboðsmann Alþingis, undir æðra stjórnvald og að lokum dómstóla.``
    Sá ræðumaður sem talaði hér á undan mér gerði einmitt þetta síðasta atriði að umræðuefni, að með þessum samningi er verið að svipta íslenska ríkisborgara þeim rétti sem þeir hafa nú til að skjóta máli sínu til umboðsmanns Alþingis. Það er einmitt það atriði sem Björn Þ. Guðmundsson leggur áherslu á í sínu áliti og verð ég að lýsa sérstökum áhyggjum mínum ef þessi samningur gerir það að verkum að íslenskir ríkisborgarar hafa ekki lengur möguleika á að skjóta málum sínum til umboðsmanns Alþingis. Það er auðvitað afar slæmt og ég trúi því ekki að menn séu sáttir við þau ákvæði samningsins sem fjalla um þetta eða sem gera það að verkum að umboðsmaður Alþingis getur ekki lengur fjallað um mál sem heyra undir hann, þ.e. þau svið samningsins. Ég vil einnig fá, með leyfi forseta, að lesa hér lokaniðurstöðu Björns Þ. Guðmundssonar en hún er svona:
    ,,Á grundvelli viðurkenndra lögskýringaraðferða stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar tel ég vafa leika á að framsal það á framkvæmdar- og dómsvaldi sem felst í EES-samningnum og hér um ræðir, standist gagnvart gildandi réttarreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þennan vafa tel ég svo mikinn að ekki megi taka áhættuna af því að lögfesta EES-samninginn að óbreyttri stjórnarskrá.``
    Þetta er hans niðurstaða. Ég trúi því ekki að menn ætli ekki að taka neitt mark á þeim mætu mönnum sem þarna tala. Eins og ég sagði áðan eru þetta ekki þeir einu sem hafa sagt álit sitt. Þetta eru þeir sem hafa sent inn greinargerðir. En það hefur margoft komið fram bæði hér úr þessum ræðustól og eins í fjölmiðlum að Ragnar Aðalsteinsson, formaður Lögmannafélagsins, hefur látið í ljós þá skoðun að það sé eðlilegra að breyta stjórnarskránni.
    Ég minntist áðan á Eirík Tómasson. Ég vil einnig minnast á grein Lúðvíks Ingvarssonar í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum þar sem sama skoðun kemur fram og ekki geri ég lítið úr áliti hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, fyrrv. formanns utanrmn. sem hefur einnig látið í ljós miklar efasemdir um að samþykkt samningsins standist stjórnarskrána. Auðvitað mega menn ekki hafa slíkar skoðanir og það kostaði Eyjólf Konráð Jónsson embættið því að það má ekki vera á móti ráðherrum, það getur verið hættulegt.
    Það leikur því mikill vafi á því hvort það mikla valdaframsal, sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir, er heimilt samkvæmt stjórnarskránni. Ég fyrir mitt leyti tel að rök lögfræðinga utanrrh. séu lítt sannfærandi og að greinilegt sé að samþykkt EES-samningsins væri brot á stjórnarskránni. Ég vil taka fram, vegna þess sem hv. þm. Björn Bjarnason, formaður utanrmn., sagði í ræðu sinni í fyrradag, að miklu fleiri af þeim lögmönnum sem hafa tjáð sig opinberlega telja að breyta þurfi stjórnarskránni ef staðfesta á EES-samninginn. Ef hann ætlar að fara í talningu með og á móti stjórnarskrárbreytingunni held ég að hann lendi fljótlega í vandræðum. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi hversu margir eru með eða á móti. Það sem skiptir máli er að komið hafa veigamikil rök fram sem hníga í þá átt að breyta þurfi stjórnarskránni ef ætlunin er að staðfesta EES-samninginn. Þingmenn geta alls ekki horft fram hjá þessari staðreynd, ekki einu sinni nýskipaður formaður utanrmn. Það hefði mátt ætla af orðum hans hér í umræðunni í fyrradag að hann teldi stjórnarskrána ekki það merkilegt plagg að það þyrfti að umgangast hana með varúð. Að sjálfsögðu sagði hann það ekki beinum orðum en það mátti skilja það á hans orðum. Hann talaði svo gáleysislega um ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég vil ekki umgangast stjórnarskrána eins og hvert annað pappírsplagg, það er alveg á hreinu. Hún er ekkert pappírsgagn sem við getum farið með eins og okkur sýnist.
    Ég vil taka það fram vegna orða hv. 7. þm. Reykn., formanns Framsfl., Steingríms Hermannssonar að ég tel að þjóðaratkvæðagreiðsla komi ekki í stað breytingar á stjórnarskránni. Ef ég heyrði rétt, þá taldi hann að það kæmi til greina af hans hálfu að ef þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um samninginn að þá þyrfti ekki að breyta stjórnarskránni. Þessu er ég algerlega ósammála. Auðvitað hefur það ekkert með það að gera. Ég get hins vegar tekið það fram að ég tel að það eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þennan samning eins og ég held að ég hafi verið búin að segja fyrr í máli mínu.
    Markmið frv. er að eyða þeim vafa sem upp hefur risið um stjórnskipulegt gildi EES-samningsins áður en Alþingi tekur samninginn til endanlegrar afgreiðslu og jafnframt að endurskoða ákvæði 21. gr. stjórnarskrárinnar um samninga við önnur ríki. Það er óverjandi að einfaldur meiri hluti á Alþingi geti framselt ríkisvald eða lagt verulegar kvaðir á íslenskt landsvæði, landhelgi eða lofthelgi. Til þess að slíkt geti átt sér stað þarf annaðhvort að vera tryggt að umtalsverður meiri hluti alþingismanna sé því fylgjandi eða meiri hluti þjóðarinnar gefi samþykki sitt í almennri atkvæðagreiðslu. Við eðlilegar aðstæður ætti slíkt valdaframsal aldrei að geta farið fram að þjóðinni forspurðri.

    Stjórnarandstaðan hefur sameinast um að flytja tvö frumvörp um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og eru þau auðvitað á vissan hátt samtengd. Við ræðum hér eingöngu breytingu á 21. gr. stjórnarskrárinnar en umræða um hitt frv. verður auðvitað síðar. Jafnframt er á þskj. 32 till. til þál. um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta vil ég leggja áherslu á í tengslum við þetta mál þó að það verði auðvitað rætt frekar síðar. Þessi mál eru auðvitað samtengd þó að ekki sé nauðsynlegt að samþykkja þau öll, þau geta verið samþykkt eitt eða öll eftir atvikum þó að ég voni auðvitað að menn geti samþykkt öll þessi þrjú mál. Ég tel ekki hægt annað og við sem flytjum frv. teljum ekki annað verjandi en að þjóðin fái að taka afstöðu til þess hvort Ísland eigi að gerast aðili að EES. Frv. gerir ráð fyrir að það þurfi þrjá fjórðu hluta alþingismanna til að samþykkja milliríkjasamning ef í honum felst framsal á ríkisvaldi til fjölþjóðlegra stofnana eða samtaka. Þetta ákvæði er mjög svipað ákvæði í norsku stjórnarskránni og ég tel að það sé algert lágmark að þrír fjórðu hlutar þingsins samþykki slíka samninga. Í stjórnarskrám Dana og Svía er gert ráð fyrir því að það þurfi fimm sjöttu hluta þinganna til þess að framselja ríkisvald á sama hátt og gert er með EES-samningi eða aðild að EB. Ég tel alveg koma til greina að breyta þessu hlutfalli þannig að það verði hærra eða eitthvert annað hlutfall ef menn telja það eðlilegra.
    Með frv. yrðu einnig sett skýr ákvæði um hvernig með skuli fara ef gerðir eru samningar sem fela í sér ákveðið framsal á ríkisvaldi og afsal og kvaðir á landi, eins og segir í greininni. Til að forseti Íslands geti staðfest slíkan samning þurfa sem sagt þrír fjórðu hlutar alþingismanna að samþykkja hann fyrst. Þessi fjöldi, 48 þingmenn, eins og þingið er skipað núna miðað við 63 þingmenn, er samsvarandi ákvæði í 11. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er einnig gert ráð fyrir að þrjá fjórðu huta þingmanna þurfi til ef forseti lýðveldisins er leystur frá embætti. Það er kannski ekki síst þess vegna sem þessir þrír fjórðu hlutar eru valdir en það er auðvitað ekkert heilagt mál.
    Eins og ég sagði áðan þá þarf í Danmörku, Svíþjóð og Noregi að hafa aukinn meiri hluta. Það hafa sem sagt verið gerðar breytingar á stjórnarskrám þeirra landa sem heimila ákveðið og afmarkað framsal á ríkisvaldi með samþykki aukins meiri hluta þinganna. Þar eru greinar sem heimila þetta en ég ætla ekki að tíunda þær neitt sérstaklega. Nefnd sú sem fær frv. til meðferðar útvegar sér þetta auðvitað hér á Alþingi, bókasafnið hefur afrit af öllum lögum Norðurlandanna.
    Það sem mig langar til að vekja athygli á er kannski sérstaklega fyrir hæstv. viðskrh. Hann sagði í ræðu sinni í gær að sú breyting sem í frv. felst og sú breyting sem lögð er til á þskj. 31, þ.e. að á eftir 45. gr. stjórnarskrárinnar komi ný grein sem feli í sér að þriðjungur alþingismanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, gætu alls ekki farið saman. Honum þótti óskiljanlegt að hægt væri að samþykkja bæði þessa breytingu, sem við ræðum hér, og hina breytinguna. Ég verð, virðulegi forseti, að fá að skýra það út fyrir hæstv. viðskrh. þó að hann sé ekki viðstaddur, hann mun kannski geta aflað sér upplýsinga í þingtíðindum á eftir, að nákvæmlega sams konar ákvæði er í dönsku stjórnarskránni. Að vísu þarf fimm sjöttu hluta atkvæða á þinginu til þess að samþykkja slíkt framsal valds sem t.d. fólst í Maastricht-samkomulaginu. Þó svo að þingið samþykkti það með yfirgnæfandi meiri hluta, þá var samt skv. 42. gr. dönsku stjórnarskrárinnar ákveðið að vísa málinu til þjóðarinnar sem felldi það eins og kunnugt er. (Gripið fram í.) Það var ekki endanlega búið að greiða atkvæði um það en það var nokkuð ljóst að meiri hluti þingsins var samþykkur samkomulaginu þar sem þingmenn voru búnir að lýsa því yfir. Það var alveg ljóst enda eru núna alger vandræði í Danmörku vegna þess að þingmenn vita ekki hvað þeir eiga að gera vegna þess að þeir eru að meiri hluta til ósáttir við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem þeir verða auðvitað að fara eftir samkvæmt stjórnarskránni. Það getur því mjög vel farið saman að hafa í stjórnarskránni ákvæði þess efnis að málum skuli vísað til þjóðarinnar, algerlega óháð því hvort þingið hefur samþykkt málið eða ekki. Þjóðin hefur auðvitað síðasta orðið. Í því felst lýðræði.
    Þessar breytingar á stjórnarskrám landanna voru gerðar vegna þess að það var ekki talið að nútímaleg samskipti milli þjóða væri hægt að stunda með þeim hætti sem þessar þjóðir teldu eðlilegt nema breyta stjórnarskránni. Það getur auðvitað oft þurft að framselja hluta valds þó að margir telji, og sjálfsagt margir hér á þinginu sem telja það einnig, að það eigi ekki að veita neina heimild til að framselja vald til alþjóðlegra stofnana þó svo að það geti auðvitað reynst nauðsynlegt í ýmsum málum. Ég get nefnt t.d. umhverfismál í því sambandi.
    Stjórnarskrá Íslands byggir á norrænum stjórnskipunarrétti og má því álykta sem svo að það sé ekki síður þörf á að breyta stjórnarskránni hér en í nágrannalöndunum þó að ég telji það að sjálfsögðu ekki veigamikil rök í málinu vegna þess að það hlýtur auðvitað að vera fyrst og fremst okkar eigin mat hvort breytinga sé þörf á okkar stjórnarskrá. Það er mat virtra lögfræðinga að EES-samningurinn samrýmist ekki stjórnarskránni, eins og hér hefur verið rakið, og það má alls ekki efast um stjórnskipulegt gildi þeirra milliríkjasamninga sem Ísland gerir. Því er brýn þörf á þeirri stjórnarskrárbreytingu sem frv. gerir ráð fyrir.