Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 13:32:52 (101)


     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni að stjórnarflokkarnir væru á móti því að afsala sér fullveldi þjóðarinnar. Það var það sem ég sagði að ég hefði engan heyrt tala um að verið væri að ræða um það. Ég margtók fram að enginn vill það. Ef hæstv. forsrh. vill skilja þetta frv. svo, þá skulum við bara breyta því. Það hefur margoft komið fram að ef hann telur að við getum á einu bretti með þremur fjórðu hlutum atkvæða afsalað okkur fullveldi þjóðarinnar til alþjóðastofnunar án þess að það komi neitt annað til, þá skulum við breyta þessu ef svo er. Ég tel að það felist svo mikið valdaframsal í EES-samningnum að það sé alls ekki heimilt samkvæmt stjórnarskránni eins og hún er núna. Ef forsrh. telur að það mikla valdaframsal sé heimilt nú, þá get ég ekki séð af hverju hann telur að það þurfi endilega að breyta stjórnarskránni ef ríkisstjórnin ákveður að við eigum að sækja um aðild að EB. Í EES-samningnum er um verulegt valdaframsal að ræða og, eins og fram hefur komið hér vegna upplesturs úr ræðum formanns utanrmn., þá er þetta fyrsta og annað skrefið inn í Evrópubandalagið. Hvers vegna er þá hægt að afsala því valdi ef það er ekki hægt samkvæmt túlkun forsrh. með inngöngu í EB? Ég átta mig ekki alveg á þessari röksemdafærslu. En ég ítreka að ef það væri til samkomulags um breytingar á þessari grein þannig að við gætum sammælst um það væri ég fyrsta manneskja til að samþykkja það.