Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 13:34:52 (102)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ef hv. þm. meinar það sem hann segir, sem ég efast ekkert um, þá er alveg ljóst í mínum huga að þingmaðurinn getur ekki greitt atkvæði með því frv. sem hann er flutningsmaður að því að hér stendur að með samþykki þriggja fjórðu hluta alþingismanna sé hægt að afsala hvers konar fullveldisrétti, hvorki meira né minna, hvers konar fullveldisrétti Íslendinga. Ef þingmaðurinn meinar það sem hann er að segja er algerlega ljóst að þessi þingmaður a.m.k. getur ekki greitt frv. atkvæði sem hann er þó flutningsmaður að.
    Ég ætla ekki að greiða frv. atkvæði og því þarf enga samninga við mig í þeim efnum en hv. þm. verður bersýnilega að eiga mjög árangursríkar samningaviðræður við sjálfan sig eftir að þetta er upplýst því að hv. þm. sagðist ekki geta hugsað sér að koma þessari skipun á en hann leggur það til að þrír fjórðu alþingismanna geti afsalað sér hvers konar fullveldisrétti þjóðarinnar. Þetta er afskaplega afgerandi.