Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 13:42:31 (106)

     Tómas Ingi Olrich (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það að hv. 1. flm. frv. til stjórnskipunarlaga, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, er kominn hingað í salinn. Það er mikils virði að þingmenn sjái sér fært að gera hlé á öðrum störfum sínum til þess að koma hér og fylgja eftir þeim málum sem þeir eru flutningsmenn að.
    Það er eðlileg málsmeðferð að taka þann þátt umræðunnar um hið Evrópska efnahagssvæði sem veit að stjórnarskránni fyrir í upphafi umræðnanna. Það er að sjálfsögðu undirstöðuatriði að þessi mikilvægi samningur sé gerður á grundvelli þeirra heimilda sem stjórnarskráin veitir. Stjórnarskrá lýðveldisins er sá grunnur sem löggjafinn byggir sitt starf á. Sá grunnur er þó ekki aðeins fólginn í bókstafnum sjálfum heldur og í því hvernig sá bókstafur hefur verið túlkaður. Þótt stjórnarskrá lýðveldisins sé ekki ýkjagömul á hún sér þó sína sögu. Hún hefur lifað með stofnunum þjóðarinnar og hefur verið þeim leiðbeining. Óhjákvæmilegt er því að líta á það sem hluta af þessum grundvelli hvernig venja hefur skapast um túlkun stjórnarskrárinnar. Fordæmi eru hluti af þeim leiðbeiningum sem við höfum um skilning okkar á henni.
    Þeim grunni sem stjórnarskráin er verður ekki breytt af litlu tilefni. Efasemdir duga ekki í þeim efnum. Þar verða til að koma gild rök. Það er að sjálfsögðu jafnalvarlegt að breyta ekki stjórnarskránni vegna EES-samningsins, ef til þess standa gild rök, eins og það er alvarlegt frumhlaup að krefjast breytingar á stjórnarskránni ef til þess standa einungis efasemdir en ekki skýr efni. Áhugi á stjórnarskrárþætti EES-málsins er eðlilegur og sjálfsagður. Allir þjóðkjörnir þingfulltrúar, allir þjóðkjörnir fulltrúar þessarar löggjafarsamkundu, taka alvarlega þann eið sem þeir hafa unnið í samræmi við 47. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi áhugi er hluti af lífi stjórnmálamannsins og er með öllu ótengdur stundarhagsmunum flokka og einstakra þingmanna. Þessi áhugi á stjórnarskránni vaknar því ekki við það eitt að loftvog fellur eða vindar snúast. Þessi áhugi fæðist ekki 1. maí 1991, hann verður ekki til 20. júní 1992 eða 6. júlí 1992. Með öðrum orðum verður að gera þá kröfu til alþingismanna að þeir fari ekki með stjórnarskrármál í krafti stundarhagsmuna sinna. Öll mál eiga nokkurn aðdraganda. Svo er einnig með það mikilsverða mál sem þetta sumarþing er helgað og svo er einnig með það mál sem hér er á dagskrá í dag.
    EES-samningurinn á sér alllangan aðdraganda, eins konar forleik sem er óaðskiljanlegur hluti af því flókna máli sem hér er til umfjöllunar. Þeir sem hafa í ríkisstjórn tekið þátt í samningaferlinu um EES-samninginn og eru samábyrgir fyrir þeim heildarskrefum sem þar hafa verið stigin verða að sýna fram á það að þeir hafi á öllum stigum málsins sýnt stjórnarskrárþætti þess tilhlýðilega athygli. Þeir þurfa að sýna fram á samhengi í athöfnum og orðum ef þeir ætlast til þess að verða marktækir kallaðir í umræðunni um hugsanlega meinbugi á samþykkt samningsins að því er stjórnarskrá lýðveldisins varðar. Telja verður því eðlilegt að skoða stjórnarskrármálið frá tveimur hliðum. Annars vegar frá hinni efnislegu hlið málsins, þ.e. efnisleg rök fyrir því sjónarmiði að samningurinn um Evrópska efnahagsvæðið brjóti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, en síðan gagnrýni þeirra sem segja að svo sé ekki. Hins vegar verður að skoða stjórnarskrárþátt EES-samningsins í ljósi samningaferilsins og athuga á hvern hátt var farið með þennan þátt málsins af hálfu þeirra sem frá upphafi samninga 1989 fram til vors 1991 fóru með málið og báru gagnvart þjóðinni ábyrgð, ekki aðeins á samningamálinu sem slíku heldur einnig á tengslum þess við önnur mál og það fyrst og fremst við stjórnarskrá lýðveldisins.
    Ég vil í þessu sambandi leggja sérstaka áherslu á það að skv. 8. gr. laga um stjórnarskrá Íslands

sem styðst við 15. gr. stjórnarskrárinnar heyra stjórnarmálefni undir ráðuneyti eftir ákvæðum reglugerðar. Samkvæmt reglugerð nr. 96/31. des. 1969 fer forsrn. með mál sem varða skipan lýðveldisins og stjórnarfar almennt. Forsrh. á hverjum tíma stendur það því nær en öðrum ráðherrum að huga að því hvort samningar sem Íslendingar gera við aðrar þjóðir brjóta í bága við stjórnarskrána. Því verðum við að gera ráð fyrir því að þingmaður sem hefur nú sýnt sérstakan næmleika og áhuga á stjórnarskrárþætti EES-málsins hafi ekki síður verið innblásinn áhuga á þeim þætti málsins þegar hann gegndi annarri og meiri ábyrgðarstöðu. Ganga verður út frá því að hv. 7. þm. Reykn., Steingrímur Hermannsson, hafi látið fylgjast grannt með þessum hætti er hann var forsrh. og hafði aðrar skyldur og meiri en þingmaður en naut jafnframt þeirra forréttinda umfram þingmenn að hafa meira svigrúm innan síns ráðuneytis til að láta athuga þennan þátt málsins sem verðugt var. Jafnvel þótt hann hafi ekki nýtt þau forréttindi af einhverjum ástæðum kemur einnig til álita hvort aðvaranir um stjórnarskrárþáttinn, sem líklegt verður að telja að rekið hafi á fjörur forsrn. strax á árinu 1990, hafi orðið efni til þess að á þeim bæ rumskuðu menn til vitundar um hugsanlegan árekstur EES-samningsins við stjórnarskrána. Verður hér á eftir vikið að þessum þætti málsins einungis en umfjöllun um efnisatriði ágreiningsins um EES-samninginn og stjórnarskrána vikið til hliðar að sinni.
    Þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hóf feril sinn höfðu samningaviðræður um EES-samninginn staðið frá því á árinu 1989, fyrst í mynd könnunarviðræðna en á árinu 1990 sem formlegar samningaviðræður. Samningamálin voru að sjálfsögðu undir yfirstjórn utanrrh. sem birti skýrslur um framvindu mála. Síðasta skýrsla af þessu tagi sem birt var í forsætisráðherratíð Steingríms Hermannssonar var gerð að beiðni ellefu þingmannna Sjálfstfl. Hún er frá því í mars 1991 en hefur nú orðið tilefni til umræðna í þingsölum. Í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að samkomulag varð þá um að settur yrði upp sameiginlegur EES-dómstóll í tengslum við EB-dómstólinn sem dæma mundi í deilumálum aðila og tryggja samræmda túlkun EES-reglna í öllum aðildarríkjum eins og segir í skýrslunni. Í hugmyndum beggja samningsaðila var gert ráð fyrir að leita mætti til EES-dómstólsins um forúrskurði sem væru bindandi enda var EB-dómstóllinn hluti af EES-dómstólnum en það er áréttað að EB-dómstóllinn hefur alltaf litið svo á að forúrskurðir sínir væru bindandi.
    Af hálfu EB var gert ráð fyrir því að hægt yrði að leggja fyrir EES-dómstólinn spurningar um túlkun á þeim ákvæðum samningsins sem lægju til grundvallar í deilumálum og einnig var gert ráð fyrir kerfi sem heimilaði dómstólum í aðildarríkjunum að leita eftir forúrskurði um túlkun EES-reglna gagnvart landslögum. EFTA-ríkin töldu á hinn bóginn forúrskurðarkerfi nauðsynlegt til að tryggja samræmda framkvæmd samningsins. Þótt ekki hafi verið endanlega á þessu stigi málsins gengið frá hlutverki dómstólsins var það þó í meginatriðum búið að skilgreina mikilvæg verksvið á þessu sviði.
    Í skýrslu utanrrh. er fjallað um það hvort samningurinn í þeirri mynd, sem hann hafði þá tekið á sig, bryti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins. Segir þar orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Telja verður að þær hugmyndir sem varða valdsvið sameiginlegra stofnana á Evrópska efnahagssvæðinu falli innan ramma stjórnarskrárinnar eins og hún hefur verið túlkuð fram að þessu.``
    Ólíklegt er að þessi skýrsla hafi ekki verið borin undir ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Ekki er að finna nein merki þess að niðurstaða skýrslu utanrrh. hafi orðið tilefni til mikilla efasemda samráðherra utanrrh. í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar um réttmæti þessarar niðurstöðu sem veit í þessu tilfelli að stjórnarskrármálinu sem er undirstöðuatriði og heyrir sérstaklega undir forsrh. Var þó í þessari ríkisstjórn enginn sérdeilis óframfærinn maður að náttúru ellegar ófús að ganga á vit fjölmiðla ef til þess stóðu góð efni, jafnvel minni efni en hér var um vélað. Ekki hefur mér vitanlega verið bókaður á þessum tíma hósti né stuna úr þessari átt sem túlka mætti sem efasemdir um að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, eins og hann var þá á veg kominn, félli innan ramma stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og á ég þá við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Þessi sérkennilega og háværa þögn gildir um alla ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, hygg ég, enda var ekki sætt fyrir þá ráðherra í ríkisstjórninni ef ágreiningur var um svo mikilvægt atriði.
    Ekki var þó öllum rótt í stjórnarskrármálum í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Fyrir liggur álit samið af einum þeirra fjórmenninga sem nú njóta lítillar tiltrúar stjórnarandstöðunnar. Það var samið af Stefáni Má Stefánssyni og hafði hann samið álitið fyrir fund undirnefndar lagasérfræðinga um dómstól EES. Álitið fjallaði um forúrskurði dómstólsins og er dagsett 25. febr. 1990 eða rúmu ári áður en umrædd skýrsla utanrrh. var birt. Höfundur álitsins er varfærinn í ályktunum. Hann kemst þó að þeirri niðurstöðu að sennilega verði sú ályktun dregin að forúrskurðir séu tæplega heimilaðir að óbreyttri stjórnarskrá ef vald til að kveða þá upp er falið alþjóðlegum úrskurðaraðila.
    Álit af þessu tagi, birt svo snemma, hefði átt að vekja af þyrnirósarsvefni þá annars grandvöru áhugamenn um stjórnarskrármálefni sem þá sátu í ráðuneytum og þá fyrst og fremst sjálfan forsrh., hv. þm. Steingrím Hermannsson.
    Ólíklegt verður að teljast að þessu plaggi hafi verið haldið leyndu fyrir þeim sem öðrum fremur bar ábyrgð á stjórnarskrármálinu. Væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hvort þetta skjal var þekkt í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og þá hvaða viðbrögð það vakti þar. Væri einnig ákjósanlegt að fá um það upplýsingar hvort þessi skýrsla var rædd í utanrmn. á þessum tíma, en þá gegndi framsóknarmaðurinn Jóhann Einvarðsson formennsku í þeirri nefnd. Í nefndinni áttu einnig sæti eftirtaldir hv. þm. sem nú

eiga sæti á Alþingi: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir, Karl Steinar Guðnason og Eyjólfur Konráð Jónsson.
    Það væri einnig fróðlegt að vita hvort þessi skýrsla hefur komið til umræðu í Evrópustefnunefnd. Það kom þó fram í þingræðu hjá hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni að hann hafi haft þessa skýrslu undir höndum 18. apríl 1990 og sá þingmaður hefur ekki legið á skoðunum sínum um stjórnarskrármálefni og komið þeim á framfæri með ýmsum hætti, t.d. í blaðagreinum og þá m.a. í einni blaðagrein sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sá sérstaka ástæðu til að svara í Tímanum og kem ég að því síðar.
    Ég tel það því fullvíst að sjónarmiðin sem koma fram í skýrslu Stefán Más Stefánssonar um forúrskurði EES-dómstóls hafi verið kynnt í Evrópustefnunefnd, ellegar þau sjónarmið komið þar fram þegar fræðimaðurinn mætti á fundi nefndarinnar.
    Í skýrslu Evrópustefnunefndar, sem lögð var fram á 112. löggjafarþingi, birtir Hjörleifur Guttormsson langt og ítarlegt sérálit þar sem segir m.a. að einstök EFTA-ríki, þar á meðal Ísland sjái fram á að hugmyndir um valdaafsal til sameiginlegra stofnana EB og EFTA brjóti í bága við stjórnarskrár ríkjanna. Í þingræðu hér í gær í svari við andsvari þess sem hér stendur, upplýsti hv. 4. þm. Austurl. að í því orðalagi sem þarna er notað, að einstök EFTA-ríki sjái fram á að hugmyndir um valdaafsal brjóti í bága við stjórnarskrá ríkjanna, hafi ekki verið átt við ríkisstjórn á þeim tíma heldur við þingmenn sem falla undir þessa skilgreiningu ríkishugtaksins.
    Hjörleifur víkur þó einnig sérstaklega að hugmyndum um EES-dómstól og forúrskurði hans sem dómstólum ber að leita eftir í vissum tilvikum og telur hann það vera í augljósri andstöðu við 2. og 61. gr. stjórnarskrárinnar.
    Framsfl. gegndi forustuhlutverki í ríkisstjórn fyrir síðustu kosningar. Hann gekk til kosninga í krafti þeirra áfanga sem náð hafði verið í samningamálum EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og lýst var í skýrslu utanrrh. í mars 1991. Rúmum mánuði áður hafði þáv. forsrh. skrifað grein í Tímann, það mun hafa verið 8. febr. 1991, til þess að róa einn af þáverandi stjórnarliðum, hv. þm. Hjörleif Guttormsson, eins og ég gat um hér áðan. Greinin hét ábúðarmiklu og eftirminnilegu nafni. Greinin hét ,,Evrópskt efnahagssvæði, ótti á misskilningi byggður``.
    Í greininni segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Sem þátttakendur í Evrópsku efnahagssvæði höfum við tögl og hagldir áfram í okkar málum.`` Steingrímur Hermannsson viðurkennir að með samningum takmarki Íslendingar sjálfsákvörðunarrétt sinn á sviði viðskipta og efnahagsmála en mælir með því að það verði gert. Hann teflir EES-samningnum gegn fullri aðild að EB og telur að þar skilji á milli lífs og dauða --- svo, með leyfi forseta, sé vitnað orðrétt í grein hans.
    Aðild að EB jafngildir afsali fullveldis þjóðarinnar að mati þáverandi forsrh. Það var því í krafti EES-samningsins eins og hann hafði þróast í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannsonar sem Framsfl. gekk til kosningabaráttunnar undir merkinu, ef ég man rétt, X-B ekki EB. Í krafti þess samnings sem þá var meira bindandi en sá samningur sem nú er um fjallað taldi Framsfl. undir forustu Steingríms Hermannssonar sig geta kynnt sig sem sóma, sverð og skjöld íslensks fullveldis. Í krafti samningsáfanga sem að mati ríkisstjórnar Steingríms Hermannsonar brutu ekki í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, lagði formaður Framsfl. málið undir dóm kjósenda og taldi að kosningarnar í apríl 1991 væru í raun eins konar þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að EB eða ekki. Þeir sem kusu Framsfl. voru að kjósa EES-samninginn og hafna aðild að EB, að mati þáverandi forsrh. Þessi málatilbúnaður var afdráttarlaus. Hann verður að skoða ljósi þess að í skýrslu utanrrh. í ríkisstjórn Steingríms Hermannsonar var fjallað um stjórnarskrármálið og því lýst yfir að samningurinn væri innan ramma stjórnarskrárinnar þó þar væri samkomulag um EES-dómstól þar sem sitja áttu dómarar EB-dómstólsins. Sá dómstóll átti að geta kveðið upp bindandi úrskurði, um það atriði hafði komið fram skýrsla Stefáns Más Stefánssonar þar sem hann varaði við því að forúrskurðarvald EES-dómstólsins bryti sennilega í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.
    Þrátt fyrir það gerði hv. þm. Steingrímur Hermannsson, þáv. forsrh., EES-samninginn eins og hann var þá, að sínu merki, lagði nafn sitt og Framsfl. við hann og gerði sig í krafti hans að sérstökum stríðsmanni íslenskra fullveldishagsmuna.
    Það verður því ekki undan því vikist, í raun og veru hvorki fyrir Alþb. né einkum fyrir Framsfl., að skýra það fyrir alþjóð hvers vegna þeir kusu að mæla með EES-samningnum fyrir kosningar og telja hann þá samrýmast stjórnarskránni, en telja nú að endanlegur samningur standist hana ekki. Það sem breyst hefur er þó á þann veg að endanlegur samningur er minna bindandi að því er dómstólaþáttinn varðar, en sá samningur sem fyrir lá fyrir kosningarnar í apríl 1991.
    Það verður ekki annað séð af þessum samanburði en að það sé ekki um það að ræða, hvorki fyrir Alþb. né Framsfl., að taka afstöðu til þess sem samið er um, heldur til þess eingöngu hver semur. Hvort sem það var þaulsætni ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og ást þeirra á ráðherrastólum sem varð virðingu þeirra fyrir stjórnarskránni yfirsterkari fyrir kosningar ellegar svo var að þeir í einlægni trúðu því sem þeir voru þá að gera, en láta núna ást sína á völdum ýta sér út í að afneita afkvæmi sínu og krefjast kosninga til að breyta stjórnarskránni, er afstaða þeirra að mínu mati ekki frambærileg. Það ber vott um virðingarleysi fyrir stjórnarskrá lýðveldisins ef henni er beitt fyrir sig í flokkspólitísku valdatafli og gegn slíkum gjörningum á stjórnarskráin að vera varin.

    Ég gat þess í upphafi máls míns að samningur sá, sem hér er til umfjöllunar og frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér er rætt um tengjast mjög náið, ætti sér aðdraganda, eins konar formála, sem væri óaðskiljanlegur hluti af málinu sjálfu. Að líkum mun þetta mál eiga sér eftirmála sem mun ekki hafa minni stjórnmálalega þýðingu í framtíðinni en aðdragandinn sjálfur hefur fyrir efnislega umfjöllun um EES-samninginn í dag.
    Ef svo fer að EES-samningurinn verður samþykktur á Alþingi í trássi við fullyrðingar stjórnarandstöðunnar um að samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, hljóta slíkar lyktir að leiða til þess að stjórnarandstaðan axlar mjög skýrar siðferðislegar skuldbindingar gagnvart þjóðinni. Stjórnarandstaðan skuldbindur sig til þess í raun að nota fyrsta tækifæri sem gefst til þess, þegar og ef hún hefur til þess styrk á Alþingi, að segja upp EES-samningnum og gangast fyrir stjórnarskrárbreytingu, eða að Íslendingar verði þá utan EES að öðrum kosti.
    Ég held að þetta verði að koma skýrt fram hér og undandráttarlaust. Þeir sem greiða atkvæði gegn EES-samningnum á þeirri forsendu að hann brjóti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins skuldbinda sig til þess að ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu jafnskjótt og þeir hafa til þess burði á Alþingi ef samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið verður samþykktur nú á þessu þingi.
    Í þingræðu sl. mánudag fjallaði hv. 7. þm. Reykn. um sinn þátt í þessu máli þegar hann stýrði ríkisstjórn á árunum 1989--1991, þegar EES-samningaviðræður hófust og komust í það horf sem lýst er í skýrslu utanrrh. frá í mars 1991. Í máli hv. þm. kom það skýrt fram að í síðustu ríkisstjórn urðu menn sammála um að líklega væri það skárri kostur fyrir okkur en ekki að fallast á einn sameiginlegan dómstól, en sem hefði mjög takmarkað svið, eins og ég hef tekið niður hjá mér í minnisblöðum mínum og er haft eftir hv. þm. Steingrími Hermannssyni.
    Síðan viðurkennir hann í ræðu sinni nú, eftir að hann hefur fengið álitsgerðir sérfræðinganna, að líklega hafi þetta verið röng ákvörðun hjá ríkisstjórninni sem hann gegndi forustuhlutverki í og var sérstaklega ábyrgur fyrir stjórnarskrármálinu. Ríkisstjórnin hefði átt að breyta stjórnarskránni.
    Og að lokum klykkir hv. þm. Steingrímur Hermannsson út með því að segja orðrétt, með leyfi forseta: ,,Það verður að segjast eins og er að við vorum ekki komnir það langt að gera okkur grein fyrir því.`` --- Ja, það verður að segjast eins og er að grunleysi hv. þm. Steingríms Hermannssonar, eins og þingmaðurinn lýsir því nú, er með ólíkindum.
    Eins og fram hefur komið lá fyrir álit Stefáns Más Stefánssonar í febrúar 1990 þar sem því er lýst að bindandi forúrskurðir brjóti sennilega í bága við stjórnarskrá lýðveldisins. Þessi álitsgerð lá fyrir, þótt hv. 7. þm. Reykn. hafi lýst því yfir skýrt og skilmerkilega hér á hinu háa Alþingi í gær að alls ekki nein athugun hafi farið fram á því hvort það stæðist stjórnarskrána að samþykkja sameiginlegan dómstól.
    Hv. 4. þm. Austurl. sem þá átti sæti í Evrópustefnunefnd hafði plagg Stefáns Más með höndum og það þegar í apríl 1990 og ég endurtek það að sá þingmaður lá ekki á skoðunum sínum og liggur aldrei á skoðunum sínum.
    Vorið 1990 er birt skýrsla Evrópustefnunefndar þar sem þingmaðurinn fjallar sérstaklega um árekstra við stjórnarskrána. Hvernig gat þessi umfjöllun farið fram hjá þeim manni, hv. þm. Steingrími Hermannssyni, þáv. forsrh., sem fór í Stjórnarráðinu með mál er varða stjórnskipan lýðveldisins og bar því sérstaka ábyrgð á þessu máli?
    Nú er það svo að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson naut sérstakrar virðingar af hálfu þáv. forsrh. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson sýndi hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifi Guttormssyni, þann sérstaka sóma að skrifa honum opið bréf í málgagni Framsfl., Tímanum, 8. febr. 1991 undir fyrirsögn sem ég hef þegar vitnað í, með leyfi forseta: Evrópskt efnahagssvæði, ótti á misskilningi byggður.
    Ég geri fastlega ráð fyrir því að þáv. forsrh., hv. þm. Steingrímur Hermannson, hafi lesið greinina sem hann var að svara í Tímanum. Í grein hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifs Guttormssonar, er sérstaklega fjallað um stjórnarskrármálið og þar segir þingmaðurinn, með leyfi forseta:
    ,,Væntanlega mundi þessi dómstóll [þ.e. EES-dómstóllinn] einnig gefa út svokallaða forúrskurði um túlkun á einstökum greinum samningsins, en slíkir forúrskurðir eru bindandi . . .   Í rauninni sé ég ekki hvernig slíkt afsal dómsvalds getur samrýmst ákvæðum stjórnarskrár Íslands.`` --- Þetta segir í grein Hjörleifs Guttormssonar sem þáv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, sá sérstaka ástæðu til að svara.
    Er hægt að ætlast til þess að því sé trúað að á þessum tíma hafi þáv. forsrh., sem var ábyrgur fyrir stjórnarskrármálefnum, ekki hugleitt þessi stjórnarskrármál, ekki verið kominn svo langt, eins og hann segir sjálfur hér í þingræðu?
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson bar það einnig á borð fyrir þingheim í ræðu sl. mánudag að nú væru hinar yfirþjóðlegu stofnanir orðnar miklu meiri en menn gerðu sér grein fyrir á þessum tíma. En þessu er öfugt farið. Að því er dómstólakafla samningsins varðar er þessu einmitt öfugt farið. Það er ekki í þessum samningi, EES-samningnum, gert ráð fyrir að EES-dómstóll hafi það hlutverk að skera úr deilum samningsaðila og kveða upp bindandi forúrskurði.
    Virðulegi forseti. Ég hef í máli mínu lagt áherslu á að greina frá því hvernig staðið var að því í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar að huga að hugsanlegum árekstrum EES-samningsins við stjórnarskrá lýðveldisins. Ég hef einkum fjallað um þátt þess ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem samkvæmt lögum bar skylda til að sinna þessum þætti.

    Ég tel það hafið yfir allan vafa að þáv. forsrh., hv. þm. Steingrími Hermannssyni, var fullkunnugt um hugmyndir þeirra sem töldu forúrskurði EES-dómstólsins brjóta í bága við stjórnarskrána. Ég tel hins vegar að hann hafi ekki sinnt því að láta skoða þau mál þó það hafi verið skylda hans samkvæmt lögum og þó hann hafi haft til þess alla þá aðstöðu sem forsrn. býður upp á. Áhugi hans sem 1. flm. þessa frv. til stjórnarskipunarlaga á þessu mikilvæga máli, vaknar því fyrst þegar hann sér stjórnmálalega stundarhagsmuni í því að krefjast breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins þar eð slíkar breytingar verða ekki gerðar án þess að til kosninga sé boðað.
    Ég tel að stjórnarskrá lýðveldisins og umfjöllun um hana eigi að vera hafin yfir slík viðhorf. ( SvG: En hver er skoðun þingmannsins á dagskrármálinu?) Skoðun þingmannsins á dagskrármálinu? Hann hefur skýrt það að hann ætli að taka þennan þátt málsins til umfjöllunar nú og muni geyma sér hinn þar til síðar en hann mun vissulega taka þátt í þeirri umræðu.