Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 15:41:28 (118)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. að það er örugglega vilji allra sem þetta þing skipa að huga mjög vandlega að þessum hætti og auðvitað taka menn stjórnarskrána afskaplega alvarlega. Ég vek einnig athygli á því að að þingsköpum mun fara fram sérstaklega vönduð athugun á þessum þætti vegna þess að sérstök nefnd verður til kosin til þess að fjalla um þetta mál og hefur ekki önnur verkefni.

Ég er viss um að það er vilji allra sem skipa í þá nefnd, þingflokkanna, að sú nefnd muni gaumgæfa alla þá þætti sem fram hafa komið. Ég hef áður sagt að ég telji þau lögfræðiálit sem fram hafa verið sett frá báðum aðilum, ef svo mætti segja, þó ég sé ekki að skipa þeim í fylkingar, séu góður grundvöllur fyrir málefnalegar umræður um málið.