Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:04:37 (123)


     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Enn gerist það að flm. þessa frv. forðast að ræða kjarna þess. Frv. snýst um það að með ákveðnum meiri hluta á Alþingi sé unnt að framselja íslenskt ríkisvald til fjölþjóðlegrar stofnunar. Um það snýst þetta frv. og það er hin mikilvæga breyting sem verið er að gera á stjórnarskránni samkvæmt frv. Við getum ekki gerst aðilar að Evrópubandalaginu nema að framselja hluta ríkisvaldsins eða ríkisvaldið til Evrópubandalagsins, þannig að ég sé ekki annað en það verði að túlka þetta sem vörðu á leiðinni ef menn ætla að ganga inn í Evrópubandalagið, þá sé þetta hugmynd þeirra manna, sem að þessu standa, hvernig að því skuli staðið. Þetta frv. snertir ekkert spurninguna um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu þó að ræður flm. snúist að mestu leyti um það og þeir forðist að gera þingheimi og þjóðinni grein fyrir því hvað í raun og veru felst í þeirra eigin frv.