Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:40:48 (139)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað athyglisvert að utanrrn. hefur enn ekki treyst sér til þess að verða við síðari ósk minni í dag að könnunin yrði lögð hér á borð þingmanna. Hún er til í ráðuneytinu, það er enginn vandi að koma með hana hingað, það tekur ekki nema hálftíma að ljósrita hana, en utanrrn. þorir ekki að koma með hana í dag á borð þingmanna heldur í staðinn er þetta auglýsinga- og hönnunarfyrirtæki og könnunarfyrirtæki látið útbúa matreidda fréttatilkynningu þar sem þó kemur fram að fólk hafi fyrst og fremst haft áhyggjur af fullveldisframsali. Hver er ástæðan fyrir því að utanrrn. þorir ekki að leggja könnunina á borðin hér í dag? Auðvitað er það hægt. ( GHelg: Það voru bara 14 sem höfðu kynnt sér málið.) Það er enginn vandi að gera það, en það er ekki gert. Og það er ekki einu sinni játað hér að það verði gert á borð þingmanna. Nei, það á að gera það í utanrmn. þar sem ríkir trúnaður. Ráðherrann hefur sagt hér hvað eftir annað að hann ætli bara að leggja þetta fram í utanrmn.
    Og hvað víkur að því sem utanrrh. sagði í framsöguræðu sinni, þá sagði hann ekki þar að þetta væri könnun sem hefði verið pöntuð af utanrrn. Það sagði hann ekki. Hann greindi ekkert frá því að utanrrn. hefði sérstaklega notað almannafé til þess að láta gera könnun til grundvallar áróðursstarfsemi sinni, heldur fór hann mjög óljósum orðum um tilefni og einkenni slíkrar könnunar þannig að menn gátu af orðum utanrrh. alveg eins ætlað að þetta hefði verið Félagsvísindstofnun háskólans eða einhvernir óháðir aðilar. Og það er ekki fyrr en maður fer að spyrjast fyrir um það eftir að utanrrh. flytur ræðu sína hjá hinum ýmsu aðilum í þjóðfélaginu sem það kemur í ljós að enginn kannast við þessa könnun. En það er hins vegar upplýst hér í dag eftir að gengið hefur verið á starfandi utanrrh., þá loksins kemur hann og viðurkennir að vissulega hafi utanrrn. fyrir mánuði síðan látið gera þessa könnun. En hann hefur ekki manndóm í sér til þess að leggja hana í heild sinni hérna á borðin.