Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:44:40 (141)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Þegar hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson kom að máli við mig og óskaði eftir góðfúslegu leyfi og umburðarlyndi okkar að mega fara til Svalbarða á fund utanríkisráðherra Norðurlanda þótt umræðan væri hér um stjórnarskrármál EES, þá sagði ég að það væri að vísu sjálfsagt að gera það af okkar hálfu en það væri með því skilyrði að ráðherrann kæmi til umræðunnar áður en henni lyki vegna þess að hann er maðurinn sem bað um skýrslu fjórmenninganna og nú er það orðið upplýst hér að hann er líka maðurinn sem lét gera könnun fyrir mánuði síðan þar sem m.a. er spurt um afstöðu þjóðarinnar til stjórnarskrármálsins, afstöðu þjóðarinnar til fullveldisafsals. Það kemur fram í þessari fréttatilkynningu að utanrrn. hefur látið spyrja almenning um stjórnarskrána og fullveldisafsal án þess að segja frá því hér í umræðunum. Ég á bara eftir þann rétt að tala einu sinni, í síðara skiptið í þessum umræðum og ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, sérstaklega með tilliti til þess að við höfum nú verið hér síðan kl. hálfellefu í morgun, að mér finnst nánast ófært, sérstaklega í ljósi þessara upplýsinga um huldukönnun, við skulum ekki nota annað orð á þessu stigi en huldukönnun utanrrn., og ákvarðanir utanrrh. í þeim efnum því að það er auðvitað hann, Jón Baldvin Hannibalsson, sem tók þá ákvörðun og tók ákvörðun um að birta það ekki í þinginu þegar það kom hér saman, ekki starfandi utanrrh. þannig að það er raunar ekki hægt að eiga neitt orðastað við hann um það mál. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, óska eftir því að þessari umræðu verði frestað þar til hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson kemur hingað sjálfur og getur verið hér til svara þannig að við sem eigum bara eftir eitt skipti, síðara skipti okkar, séum ekki knúnir til þess að eyða því þegar eingöngu starfandi utanrrh., sem greinilega veit mjög lítið um þetta mál, er viðstaddur. Ég vildi því beina því til virðulegs forseta, hvort það er ekki farsælt að gera þetta með þessum hætti.