Stjórnarskipunarlög

10. fundur
Mánudaginn 31. ágúst 1992, kl. 15:21:18 (149)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að eftir því sem fleiri flutningsmenn þessa frv. flytja ræður hér, þeim mun erfiðara á ég með að átta mig á því um hvað þetta mál snýst. Frv. þeirra snýst um að það verði heimilað að framselja íslenskt ríkisvald með ákveðnum hætti. Það er hins vegar staðreynd að það er mat þeirra fjögurra lögfræðinga, sem hafa komið hér við sögu og vitnað hefur verið til, að þeir telja ekki nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni vegna EES-samningsins. Það taldi hv. ræðumaður sjálfur, Steingrímur Hermannsson, fram til þess að kosningar fóru fram á sl. vori og m.a. í svari til Hjörleifs Guttormssonar í Tímanum 8. febrúar 1991, tekur hann alveg af skarið um það að hið yfirþjóðlega vald sem felist í dómstólnum, sem hann ber saman við Mannréttindadómstólinn í Strassborg og ýmsa gerðardóma sem Ísland hefur átt aðild að, sé ekki þess eðlis að það þurfi að breyta stjórnarskránni.
    Ég verð að viðurkenna það, virðulegur forseti, að ég skil ekki þennan málflutning. Annaðhvort verða menn að flytja mál sitt til stuðnings frv. sem þeir flytja en ekki til þess að tala um allt annað. Það er ekki verið að færa slíkt vald til EFTA-stofnananna að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskránni.