Stjórnarskipunarlög

10. fundur
Mánudaginn 31. ágúst 1992, kl. 15:24:12 (152)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst um Max Sørensen. Í því sem ég las áðan er ekkert minnst á Evrópubandalagið heldur bara á framsal valds og Max Sørensen segir: Stjórnarskráin heimilar ekki framsal valds úr landi jafnvel þó að það tíðkist innan lands.
    Þetta er skólabókardæmi um það sem hér hefur gerst. Hvort það er aðild að EB eða öðrum alþjóðasamtökum skiptir út af fyrir sig ekki máli þó að miklu meira framsal valds sé að sjálfsögðu þegar um EB er að ræða.
    Ég sagði í minni framsöguræðu að ég hefði talið dómstól betri leið fyrir okkur og því var það mál skoðað. En ég sagði líka í minni framsöguræðu að að fengnum slíkum álitum lögfræðinga um dómstólinn hefði ég talið sjálfsagt að breyta stjórnarskránni og efna til kosninga. Og það vil ég endurtaka hér. Ég fullyrði að ég hefði beitt mér fyrir því eins og málin eru og stóðu.