Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 15:26:30 (164)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Landið virðist nú vera ríkisstjórnarlaust, a.m.k. hér í þingsalnum. Ég vil óska eftir því að hæstv. utanrrh. og gjarnan líka hæstv. forsrh. verði nærstaddir. Eins hef ég undir lok máls míns ætlað mér að eiga orðastað við hæstv. sjútvrh. ef hann getur verið viðstaddur umræðuna, annaðhvort núna eða síðar ef henni skyldi verða frestað sem mér býður í grun að verði um fjögurleytið. Ég geri hæstv. forseta sem sagt aðvart um þessar óskir svo þær geti þá greitt fyrir framgangi málsins. Fyrst nægir mér nærvera hæstv. utanrrh. sem er hér á tali við einn af sérfræðingum sínum í hliðarsölum og ég sný máli mínu fyrst til hæstv. utanrrh.
    Það er enginn vafi á því, enda tyggur það hver eftir öðrum úr þessum ræðustóli, að þessir samningar eru eitt allra stærsta mál, ef ekki stærsta mál, sem Íslendingar hafa tekið fyrir á lýðveldistímanum. Ég hygg að það sé a.m.k. eitt af því sem menn geta orðið sammála um, í stjórn og stjórnarandstöðu, bæði meðmælendur og gagnrýnendur þessa samnings. Þetta er allnokkur staðreynd til að ganga út frá og skiptir m.a. máli í því sambandi, sem mikið er rætt um og hefur verið rætt um, hvort þetta mál verðskuldi að vera borið sérstaklega undir dóm þjóðarinnar. Það hlýtur að hafa þar nokkur áhrif hversu stórt málið er.
    Ég ætla í þessari ræðu ekki að fara ítarlega út í þá þætti sem mikið hefur verið talað um síðustu sólarhringana, þ.e. stjórnarskrárbreytingar, þjóðaratkvæðagreiðslu og annað því um líkt. Það hafa aðrir gert í löngu máli og ég sé ekki mikla ástæðu til að bæta þar við efnisrökum en mun lítillega koma inn á það

pólitískt séð í lokin. Ég ætla að ræða nokkra afmarkaða efnisþætti málins, fyrst og fremst öryggisákvæði og beitingu þeirra, sem lítið hefur verið talað um fram að þessu það ég best veit. Ég ætla að ræða landakaup og rétt útlendinga hér til fjárfestingar og ég ætla að ræða sjávarútvegsmál.
    Ég vil segja það fyrst til að skýra málin í byrjun, og kemur mönnum sjálfsagt ekki á óvart miðað við þá afstöðu sem minn flokkur hefur tekið, að það er mín niðurstaða í heildina séð að þessi samningur sé tilraun sem mistókst. Gallarnir á þessum samningi, þessari niðurstöðu fyrir Ísland, vegi þyngra en kostirnir, því miður. Það hefði vissulega verið ánægjulegt ef hér hefði legið fyrir niðurstaða sem til frambúðar hefði getað varðað samskipti Íslands við önnur Evrópuríki með fullnægjandi hætti og verið á þann veg að stjórnmálaöfl í landinu hefðu getað sameinast um hana. Það hefði vissulega verið mjög mikilsverð niðurstaða en svo er ekki eins og allir vita. Í fyrsta lagi er hin efnislega niðurstaða samninganna mjög umdeild og af því leiðir að það hefur síður en svo tekist samstaða um þá niðurstöðu sem nauðsynleg hefði verið.
    Ég var í hópi þeirra sem höfðu vissar efasemdir um það frá upphafi að Ísland og íslenskir hagsmunir ættu samleið í þessum viðræðum með hinu iðnvæddu löndum meginlands Evrópu. Ég var þar sérstaklega með í huga þá miklu sérstöðu sem íslenskt efnahagslíf og atvinnulíf býr við og þá ríku sérhagsmuni sem við þurfum fyrst og fremst að leggja áherslu á í þessu sambandi og öðrum slíkum þegar um viðskiptatengsl og viðskiptasamskipti okkar við önnur lönd er að ræða. Jafnvel Noregur, sem helst er talinn eiga samleið með Íslandi hvað sjávarútvegshagsmuni snertir, er þar í gjörólíkri stöðu. Útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Noregi er, ef ég man rétt, orðið innan við 10% á sama tíma og það nær 80% hér. Þó vissulega sé það svo varðandi t.d. Vestur- og Norður-Noreg að niðurstaða þessara samninga skipti miklu máli hvað sjávarútveg þar snertir er Noregur í heild sinni í allt annarri stöðu en við. Ísland er þarna með algerlega sérstaka stöðu og hagsmunir þess eru ólíkir öllum öðrum.
    Ég verð að segja í öðru lagi, herra forseti, að ég hafði efasemdir um samningaaðferðir hæstv. utanrrh. Það á ekki að koma honum á óvart þó að það sé sagt hér úr þessum ræðustóli. Margoft var það til umræðu í síðustu ríkisstjórn og ég lýsti margsinnis efasemdum mínum um að sú aðferð sem hæstv. utanrrh. beitti og gumaði nokkuð af væri skynsamleg. Í grófum dráttum var hún þannig --- mér þætti vænt um að hæstv. utanrrh. gæti í fyrsta lagi hlustað á þetta og í öðru lagi staðfest að ég fari rétt með --- að úrslitahagsmunir Íslands áttu að ráðast á lokaspretti samningaviðræðnanna. Kenning hæstv. utanrrh. var sú að með því að geyma úrslitahagsmunaatriði Íslands þangað til í lokin mundi ekki verða látið stranda á því og það mundu þá verða aðrir, sem til þess að ná samningalotunni í heild sinni saman, mundu greiða kostnaðinn. Þetta var formúlan hjá hæstv. utanrrh. sem reyndist síðan röng, sem gekk ekki upp. Það sáu menn ljósast af því að enn eru úrslitaatriðin hvað Ísland snertir, þ.e. samstarfssamningur Íslands og Evrópubandalagsins um sjávarútvegsmál, ekki frágengin. Það sem gerðist ósköp einfaldlega á lokasprettinum var hið gagnstæða. Ef Ísland ætlaði að vera með eitthvert múður varðandi slík sérhagsmunamál og tittlingaskít, að mati þessara stóru herra úti í Evrópu, þá gerðist auðvitað það sem menn máttu sjá fyrir, að því var ýtt út af borðinu og sagt: Semjið um þetta seinna ykkar á milli. Við förum ekki að láta þessa stóru hagsmuni iðnaðarríkjanna, milljónaþjóðanna, stranda á svona pexi um úldna síld eða hvað það nú er sem þið eruð að tala um þarna, Íslandsmenn og Evrópubandalagið. Því fór þetta svona. Það er að vísu rétt að tollaumgjörðin náðist fram í samningaferlinu sjálfu en niðurstaðan þar varð auðvitað ekki sú sem æskilegust hefði verið.
    Ég vil láta þessar almennu athugasemdir koma hér fram um leið og ég rökstyð þá niðurstöðu mína að þetta sé tilraun sem ekki tókst, gallarnir séu fleiri en kostirnir og því er auðvitað víðs fjarri að samningakröfur Íslands hafi náð fram að ganga. Við fengum ekki fríverslun með fisk. Mjög margir voru talaðir inn á stuðning við það að fara í þetta viðræðuferli út á þá kröfu að það væri slíkt úrslitahagsmunamál fyrir Ísland ef fríverslun með fiskafurðir næðist fram að það væri réttlætanlegt að stinga sér í þessar viðræður. Menn vísuðu til þeirrar niðurstöðu sem orðið hafði í samningum eða samstarfi EFTA-ríkjanna um fríverslun með fiskafurðir og lögðu glaðbeittir upp í viðræðuferlið með þessa kröfu á oddinum. Hvar er hún nú? Hún er úti í ysta hafsauga, náðist ekki fram. Tollfrelsi með fiskafurðir náðist ekki einu sinni fram. Það situr að mestu leyti við hið sama hvað sjávarútvegsmálin snertir. Allt er óbreytt Evrópubandalagsmegin.
    Önnur meginkrafa Íslands og fyrirvari forsrh. í Ósló var: Engar yfirþjóðlegar stofnanir, ekkert yfirþjóðlegt vald, fullt vald þjóðanna þó þær geri með sér svona samning sem aðallega verði um viðskipti. Hvar er sú krafa? Hvar er sá fyrirvari?
    Þriðja krafan var sú, og ekki aldeilis ný af nálinni, að verja landhelgi Íslands. Að sjálfsögðu kæmi ekki til greina að slaka á þeirri kröfu sem allar ríkisstjórnir hafa fylgt frá því að við færðum landhelgina út fyrst, að við værum að sækja okkur þar aukin réttindi, ýta útlendingum út og það kæmi ekki til greina að stíga það skref til baka. Enga samninga um tollafríðindi eða viðskiptafríðindi fyrir veiðiheimildir, verja íslensku landhelgina. Hvar er sú krafa? Hún tapaðist líka. Þess vegna held ég að frægasta setning allrar þessarar umræðu verði öfugmælið sem lengi mun lifa, að við Íslendingar höfum fengið ,,allt fyrir ekkert``. Það er að vísu rétt, held ég, sem hæstv. utanrrh. hefur reynt að minna á að hann sé ekki höfundur þeirrar setningar í sjálfu sér heldur hafi hann tekið hana upp frá öðrum. Ekki ætla ég að þrátta um það hver á höfundarréttinn að þessari snilld, þessu mikla öfugmæli, mér liggur við að segja öfugmæli aldarinnar, að

Íslendingar hafi fengið allt fyrir ekkert í þessum samningum. Svo var ekki. Því getur að sjálfsögðu enginn skynsamur maður haldið fram og mætti margt um það segja.
    Þá ætla ég, herra forseti, að víkja aðeins að öryggisákvæðinu. Hæstv. utanrrh. vísar yfirleitt í þær heimildir sem einstök ríki hafi til að beita öryggisákvæði ef á bjátar varðandi t.d. atvinnumál eða önnur slík viðkvæm atriði svo veruleg röskun blasi við hjá þjóðum. Það er yfirleitt svar hæstv. utanrrh. sem er skiljanlegt þegar spurt er eftir því hvað varð um þennan eða hinn fyrirvarann, þá er vísað öryggisákvæði. Þeir eru allir þarna, segir hæstv. utanrrh., í öryggisákvæðinu. Gott og vel og við skulum þá fara aðeins ofan í þetta öryggisákvæði. Hvernig er það? Til hvers dugar það? Þau er að finna í 111. og 112.--114. gr. í samningnum sjálfum, þau ákvæði sem þarna eiga við. Þar skiptir máli í fyrsta lagi hvernig þau eru upp sett, í öðru lagi hvernig þau eru skilyrt og hvernig beiting þeirra yrði túlkuð og hvernig henni yrði tekið af gagnaðilum okkar. Í þriðja lagi skiptir réttur gagnaðilanna til gagnráðstafana máli og í fjórða lagi skiptir svo máli, sem lítið hefur verið talað um en er að mínu mati úrslitaatriði í þessu sambandi, sá gerðardómur sem samningsaðilar geta skotið deilumálum til sem leiða af beitingu öryggisákvæða.
    Því er haldið fram að beiting öryggisákvæðanna sé einhliða réttur og það er rétt svo langt sem það nær. En það er hins vegar mjög villandi að halda því fram og segja ekkert meira af ástæðum sem ég ætla að koma betur að.
    Það skýrist af því að þegar fjallað er um öryggisráðstafanirnar í 112.--114. gr. og það orðalag þekkja menn hygg ég og óþarft að lesa það því menn eiga að vera orðnir kunnugir þessum textum. En í grófum dráttum gengur það þannig að í 112. gr. segir: ,,Ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, getur samningsaðili gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 113. gr.
    Slíkar öryggisráðstafanir skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst framkvæmd samnings þessa.``
    Ákvæðið sjálft er skilið og takmarkað og það er þrengt að því mjög með þessu orðalagi. Það hljóta allir að viðurkenna. Síðan er fjallað nánar um tilhögun þessa í 113. gr. og um rétt gagnaðilanna til mótráðstafana í 114. gr.
    Það er ljóst af lestri þessara plagga að réttur til að grípa til öryggisráðstafana er einhliða, þ.e. mönnum ber að vísu að tilkynna það til samstarfsaðilanna og það á að halda fundi og ræða það hvort ekki sé hægt að leysa þetta erfiða mál, t.d. vaxandi atvinnuleysi fiskverkafólks á Íslandi, án þess að grípa til öryggisráðstafana. En náist ekki niðurstaða hefur Ísland þennan rétt, það er ljóst og ég dreg ekki nokkra dul á það, ég er sammála því. En hversu langt nær hann? Hann nær eingöngu til þess að grípa til öryggisráðstafana. Rétturinn dugar ekki til þess að ráða í hverju þær ráðstafanir eru fólgnar, hve lengi þær endast eða hversu víðtækar þær eru vegna þess að ef samningsaðilarnir gera ágreining við okkur um þessar ráðstafanir og sá ágreiningur leysist ekki innan þriggja mánaða í sameiginlegu nefndinni, þá geta þeir skotið því til gerðardóms sem úrskurðar um umfang og gildistíma ráðstafananna. Um þann gerðardóm er fjallað í 111. gr. Það segir svo, með leyfi forseta, í samningstextanum:
    ,,Varði deilumál umfang eða gildistíma öryggisráðstafana, sem gripið er til í samræmi við 3. mgr. 111. gr. eða 112. gr., eða umfang jöfnunarráðstafana, sem gerðar eru í samræmi við 114. gr., [þ.e. gagnráðstafanir] og hafi sameiginlegu EES-nefndinni ekki tekist að leysa deiluna þremur mánuðum eftir þann dag er málið var lagt fyrir hana getur hver samningsaðila sem er vísað deilumálinu til gerðardóms samkvæmt málsmeðferð sem mælt er fyrir um í bókun 33. . . .   Gerðin er bindandi fyrir deiluaðila.``
    Þá hlýtur maður að spyrja sig: Hver er þá orðinn þessi einhliða réttur? Hvers virði er þetta öryggisákvæði í raun orðið? Ég leyfi mér að halda því hér fram, þótt hæstv. utanrrh. sé víðs fjarri eins og venjulega, að þetta öryggisákvæði, sé svona um hnútana búið, sé nánast gagnslaust af því að það liggur auðvitað í hlutarins eðli að ef við færum að beita því þannig að það kæmi illa við einhvern hinna samningsaðilanna, þá gera þeir að sjálfsögðu við okkur ágreining. Ef við gefum ekki eftir á þriggja mánaða tímabili þá vísa þeir væntanlega deilunni í gerðardóm og hvað gerir gerðardómurinn? Hann dæmir og úrskurðar á grundvelli samningsins. Auðvitað. Það verða þau fyrirmæli sem gerðardómurinn fer fyrst og fremst eftir. Hann mun segja: Menn eiga að virða samninginn. Öryggisákvæðin eru skilyrt, þau eiga að valda sem minnstri röskun á samningnum og þau eiga að brjóta sem minnstan rétt á gagnaðilum þess sem deilunni veldur. Það er því alveg augljóst mál að þegar þetta er komið inn í það samhengi er það orðið næsta gagnslaust. Við skulum t.d. hugsa okkur hvaða samúðar Ísland mundi njóta ef við teldum okkur knúða til þess að beita öryggisákvæðum vegna þess að það hefði verið innstreymi af erlendu verkafólki í okkar fiskvinnslu sem vel gæti hugsast, jafnvel þó að atvinnuástand hér væri ekki sérstaklega gott. Því miður þekkjum við tilhneigingu í þá átt að ráða hingað fólk sem sættir sig við lakari kjör og lakari aðbúnað en íslenskt verkafólk sem betur fer gerir nú orðið. Við skulum segja að hér væri kominn slatti af Portúgölum sem ynni í saltfiskverkun og það væri farið að þrengjast um atvinnu af þessu tagi fyrir Íslendinga sjálfa. Þá er ákveðið að grípa til öryggisákvæðisins. Það er ákveðið að taka upp á nýjan leik atvinnuleyfi fyrir þessa útlendinga. Reglurnar eru þannig að það verði þá að gilda um alla jafnt, það verður að gilda um allar hinar þjóðirnar í EES. Það er ekki bara hægt að setja það á Portúgali því að ráðstafanirnar skulu gilda

gagnvart öllum samningsaðilum, segir í 3. tölul. 111. gr.
    Hvað gera Portúgalir? Við skulum segja að einhver umboðsmaður fyrir verkafólk í Portúgal ætli ekki að una þessu. Hann heimtar að þessi fjandi sé ekki þolaður, þetta fólk eigi sama rétt til atvinnu á öllu efnahagssvæðinu og þetta sé mismunun. Halda menn að Portúgalir færu að heimta þá að Íslendingar þyrftu að sækja um atvinnuleyfi í Portúgal á móti? Ég held ekki. Það skiptir þá engu máli. Þeir mundu ósköp einfaldlega reisa ágreining við Ísland og krefjast þess að öryggisákvæðinu væri ekki beitt og/eða umfang þessara ráðstafana væri ekki svona mikið, þær fælust í einhverju öðru. Þeir mundu e.t.v. segja: Í staðinn fyrir að taka upp atvinnuleyfi fyrir Portúgali í íslenskum saltfiski, þá skuluð þið bara grípa til atvinnuskapandi aðgerða. Þið skuluð bara koma á fót nýrri atvinnustarfsemi fyrir þetta fólk þannig að allir hafi atvinnu en ekki brjóta samninginn með þessu. Þeir gera ágreining. Sá ágreiningur fer fyrir sameiginlegu nefndina, hann leysist ekki á þremur mánuðum eða þá hann leysist með því að Ísland gefi eftir, ella kemur til gerðardómur. Hver halda menn að verði staða Íslands að beita þessu öryggisákvæði gagnvart t.d. 5% atvinnuleysi, sem kynni að vera til staðar á ákveðnu svæði, gagnvart þjóðum sem sjálfar búa við 15--20% atvinnuleysi? Það mundi enginn hafa samúð með Íslendingum. Málstaður okkar væri afar veikur við slíkar aðstæður og það er næsta víst að gerðardómurinn mundi falla Íslandi í óhag. Aðstaða okkar til að verja hinn fámenna og viðkvæma íslenska vinnumarkað, t.d. með þessu öryggisákvæði, yrði að mínu mati mjög slök.
    Það mætti fara um þetta mörgum fleiri orðum, herra forseti, en ég ætla ekki að gera það. Auðvitað getur þetta átt við um fjölmörg atriði önnur en vinnumarkaðinn. Það gæti átt við um landakaup, þetta gæti átt við um ýmiss konar ójafnvægi eða röskun sem væri að verða á okkar högum vegna ákvæða þessa samnings. Í öllum tilvikum er rammi þessa öryggisákvæðis eins. Það er mjög veikt að mínu mati og fráleitt að halda því fram að það sem slíkt komi í staðinn fyrir beina fyrirvara á ýmsum samningssviðum. Það er rugl. Og ég skil ekki í raun og veru hvernig menn sem hafa lesið textann frá og með 111.--114. gr. sem og bókun 33 geta haldið slíku fram. Það er fjarstæða. Hér er um svo aumlegt ákvæði að ræða og sá sem ætlaði að fara að beita því væri í svo vondu ljósi gagnvart hinum samningsaðilunum að mér er til efs að menn mundu nokkurn tíma leggja út í að reyna að nota það. Þeir verða auðvitað ekki mjög vinsælir í klúbbnum fína sem færu út á þá braut yfirleitt.
    Því hefur verið haldið fram að þetta ákvæði sé sambærilegt því sem við Íslendingar höfum haft í norræna sáttmálanum um sameiginlegan vinnumarkað Norðurlanda. Því fer sömuleiðis órafjarri að svo sé og er þó ólíku saman að jafna, stöðu okkar Íslendinga gagnvart hinum Norðurlöndunum þar sem kaupmáttur er svipaður og hér og lífskjör sambærileg og félagsleg réttindi svipuð eða okkar aðstæðum t.d. ef við færum að mæta innstreymi vinnuafls frá láglauna- og atvinnuleysissvæðunum í Suður-Evrópu. Það yrði líklegast að slíkt innstreymi kæmi frá láglauna- og atvinnuleysissvæðunum í Suður-Evrópu, Portúgal, Suður-Ítalíu, Grikklandi jafnvel þar sem er 15--20% atvinnuleysi. Halda menn að þeir hefðu mikla samúð með Íslendingum ef þeir ætluðu að beita öryggisákvæðum gagnvart slíku? Ég held ekki. ( Gripið fram í: Eða hinu fátæka Bretlandi.) Eða hinu fátæka Bretlandi sem er ekki fallega á sig komið eftir thatcherismann eins og hv. þm. Alþfl. er ólatur við að minna á.
    Herra forseti. Ég hef farið aðeins yfir þetta atriði varðandi öryggisákvæðið sem lítið hefur verið rætt til þessa það ég best veit. Mér þykir auðvitað leiðinlegt að þurfa að gera það að utanrrh. fjarstöddum. Ég held að ég hafi ekki verðskuldað það að hann tolli ekki augnablik í þingsalnum þegar reynt er að ræða við hann hér efnislega um afmarkaða þætti samningsins. Ég skal fúslega játa að ég hef á köflum verið farinn að sakna þess að menn tækju þátt í þessari umræðu á þann hátt að taka fyrir einstaka efnisþætti, einstakar greinar og ræða þær ítarlega. Ég hef verið að reyna að gera það hér. Ég hef haldið mig algerlega við fjórar greinar í samningnum og reynt að ræða þær og mótmæli því að hæstv. utanrrh. og ábyrgðaraðili málsins sé hér víðs fjarri lon og don.
    Ég ætla þá í öðru lagi, herra forseti, að svo miklu leyti sem tíminn leyfir, að ræða um landakaup og rétt útlendinga til fjárfestinga hér á grundvelli þessa samnings. Menn hafa dvalið þar mest við kaup á jarðnæði eða landi. Það er svo sem skiljanlegt en auðvitað er rétt að minnast þess að réttur útlendinga til fjárfestinga hér er að sjálfsögðu ekki bundinn við landið eitt. Hann er altækur, fullt frelsi til fjármagnsflutninga og fjárfestinga er ein af grundvallarreglum svæðisins og það kemur mjög víða við. Ég held að menn hafi í ýmsum tilvikum alls ekki áttað sig á því hversu víða það kemur við, jafnvel okkar gildandi og nýlega löggjöf um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sem og auðvitað allar fjárfestingar erlendra aðila í einkaþágu sem falla utan laganna um fjárfestingar í atvinnurekstri. Menn mega ekki gleyma því að á báðum þessum sviðum opnast fullt frelsi. Þeir sem þekkja samninginn vita að þetta kemur inn í hann á mörgum stöðum, bæði í markmiðsgreinar samningsins, í inngang hans og síðan í 40. gr. og kaflann um fjárfestingarfrelsið. Ég bendi mönnum á að fá sér lög um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, fletta þar upp á bls. 2 og lesa í gegnum þann texta og skoða hversu mörgu þetta breytir. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því. Þar eru níu tölusettir liðir sem fjalla um takmarkanir sem fjárfestingum erlendra aðila eru settar. Í fyrsta lagi gagnvart sjávarútveginum, síðan rétti íslenska ríkisins, sveitarfélaga og ríkisborgara varðandi virkjunarréttindi. Síðan er ákvæði sem takmarkar mögulegan eignarhlut útlendinga í flugrekstri við 49%. Í fimmta lagi mega erlendir aðilar ekki eiga meira en 25% hlutafjár í íslenskum banka samkvæmt gildandi lögum. Í sjötta lagi er fjárfesting erlends ríkis eða fyrirtækis í eigu erlends ríkis í atvinnurekstri hér á landi óheimil nema með sérstöku leyfi ráðherra. Í sjöunda lagi eru takmarkanir á heildarfjárfestingum erlendra aðila og mega þær ekki fara yfir 250 millj. kr. á hverju almanaksári og ekki verða meiri en 25% í hverri atvinnugrein fyrir sig o.s.frv. Öll þessi ákvæði munu sæta breytingum af ákvæðum samningsins um fjármagnsflutninga og frelsi til fjárfestinga sem og ákvæðum um staðfesturétt og atvinnufrelsi á samningssvæðinu.
    Mest hefur verið rætt um áhrifin varðandi kaup á landi og ég ætla að fara svolítið yfir það mál. Fyrir því eru m.a. ákveðnar ástæður að sá þáttur hvað varðar stöðu mála í tíð síðustu ríkisstjórnar hefur nokkuð verið til umræðu og ekki allt rétt og gáfulegt sem um það hefur verið sagt. Staðan var ósköp einfaldlega sú í fyrri ríkisstjórn að það var afdráttarlaus afstaða mín allan þann tíma sem ég fór með málefni jarða á Íslandi að Ísland ætti að hafa varanlegan fyrirvara hvað varðaði rétt útlendinga til fjárfestinga í landi og jarðnæði. Ég fór rækilega yfir það mál og kunni reyndar fyrir ágætlega þau lög sem koma helst við sögu, þ.e. jarðalög og ábúðarlög, og mér voru þegar ljósir vankantarnir á því að ganga frá þessu máli með nokkrum öðrum hætti en þeim að Íslendingar hefðu þarna varanlegan fyrirvara. Ég var m.a. með það fordæmi í huga sem er að finna í Danmörku í þessum efnum. Þrátt fyrir aðild að Evrópubandalaginu hafa Danir varið fyrirvara sinn varðandi landakaup í gegnum þykkt og þunnt, meira að segja í gegnum Maastricht og ástæðan er ósköp einföld. Þeir hafa áttað sig á því sem gefur auga leið að það var eina varanlega tryggingin fyrir því að unnt væri að sporna gegn því að land og landréttindi í stórum stíl færðist í hendur útlendinga ef svo bæri undir. Ég tel og taldi allan tímann og sú afstaða mín kom margoft fram að við Íslendingar yrðum að ná inn í þennan samning ef af honum yrði varanlegum fyrirvara hvað varðaði rétt útlendinga til uppkaupa á landi í einkaþágu. Þá á ég við öllu öðru landi en því sem væri nauðsynlegt athafnarými fyrir atvinnurekstur. Ég setti þessa skoðun fram strax á fyrsta ári könnunarviðræðna, m.a. á fundi á Þingvöllum sem haldinn var sérstaklega um þetta mál sumarið 1989. Afstaða mín kom margoft fram á þeim mánuðum sem í hönd fóru og hún er enn óbreytt. (Gripið fram í.) Það var alltaf verið að halda fundi, hæstv. forsrh. Ég þarf að fletta því betur upp ef ég á að fullyrða það, en mig minnti að í fyrsta sinn sem við fórum yfir í þetta á sérstökum fundi á Þingvöllum hafi það verið sumarið 1989 en það var líka fundur á árinu 1990, það er rétt.
    Síðan þróuðust málin þannig eins og menn muna að utanrrh. fór fram á það í nóvember 1990 eða um mánaðamótin nóvember/desember 1990 að hann mætti halda áfram í samningaviðræðunum og falla frá öllum kröfum um varanlega fyrirvara af Íslands hálfu fyrir utan þann eina sem væri á sjávarútvegssviðinu og að mati utanrrh. þyrfti ekki að flokkast sem varanlegur fyrirvari þar sem ekki væri um fríverslun með sjávarvörur að ræða. Ég lýsti þá sem áður afdráttarlausri andstöðu við þetta og krafðist þess að áfram yrði það ófrávíkjanleg krafa Íslands að við gætum varið okkur í þessum efnum. Eins og menn síðan muna fór það þannig að utanrrh. fékk aldrei umboð frá fyrri ríkisstjórn til að falla frá fyrirvörunum og það sem kann að hafa gerst á tímabilinu desember 1990 til og með 5. maí 1991 er á ábyrgð hans eða samningamanna hans hvað þetta snertir.
    Ég var þeirrar skoðunar, og hef enn frekar styrkst í þeirri afstöðu eftir að hafa skoðað málin nú þegar samningurinn liggur fyrir, að það væri miklum vandkvæðum bundið að binda þannig um hnúta ef ekki væri um varanlegan fyrirvara á samningnum að ræða að það gæti haldið. Sú ástæða er þar að mínu mati langstærst að málin eru í þannig fari hjá okkur Íslendingum hvað eignarhald á jarðnæði snertir í landinu að um leið og við ætlum að fara að setja í lög einhver takmarkandi ákvæði þá munu þau bitna á miklum fjölda fólks innan lands. Jarðalögum hefur ekki verið framfylgt í ströngum skilningi þeirra um áratuga skeið, ekki ábúðarlögum heldur. Eigendur jarða hafa ekki verið skyldaðir til að búa á jörðunum. Eigendur jarða hafa ekki verið látnir sinna fjallskilum eða annast girðingar eins og heimilt væri samkvæmt lögum. Hvers vegna ekki? Vegna þess að hundruð jarða á Íslandi, heilmikið jarðnæði, heilmikil landréttindi eru í eigu þéttbýlisbúa sem ekki hafa búsetu á jörðunum. Hvernig ætla menn að setja girðingar í lög, hvernig ætla menn að setja takmarkandi ákvæði án þess að það bitni á þessum fjölda fólks? Það er ákaflega vandséð. Þegar maður skoðar það sem nýjast hefur veri dregið fram í dagsljósið í þessum efnum, m.a. skýrslu nefndar á vegum tveggja ráðuneyta eða þriggja, þ.e. á vegum dóms- og kirkjumrh. og landbrh., kemur þetta auðvitað ljós sem mátti vera þeim ljóst sem til þekktu.
    Herra forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. forseta hvort þetta hafi gengið svona til alla umræðuna að ráðherrarnir, sem eru hér ábyrgðarmenn málsins, hverfi úr salnum þegar þeim sýnist þannig að þegar maður er að beina til þeirra máli sínu þurfi maður stanslaust að hafa augun á þeim til þess að vera viss um að þeir séu við. Er það hugsun hæstv. forseta að það sé eðlilegt að umræðan gangi með þessum hætti að hér sé yfirleitt enginn af hæstv. ríkisstjórn viðstaddur? Þá sjaldan þeir koma hingað er það í mýflugumynd og eru þeir þó ekki allir smáir að vöxtum heldur er það með þessum myndræna hætti séð að þeir eru hér í mýflugumynd. Ég kann ekki við þetta, hæstv. forseti, og mun ekki halda áfram máli mínu öllu lengur við þessar aðstæður. ( Forseti: Forseta langar að benda hv. þm. á að hér hafði verið tilkynnt að fram færi utandagskrárumræða um eða upp úr kl. 4. Ef vel stendur á og hv. þm. er ekki um það bil að ljúka ræðunni þá væri hann kannski tilbúinn að fresta henni. En ef hv. þm. er um það bil að ljúka ræðunni þá gefur forseti honum að sjálfsögðu tækifæri til þess ef það eru ekki margar mínútur. En varðandi spurningu um viðveru hæstv. ráðherra í salnum verður fátt um svör hjá forseta annað en að samkvæmt töflu eru hæstv. ráðherrar staddir í húsinu og það er eins og gengur og gerist að menn eru svolítið á hreyfingu

en forseti væntir þess að þeir fylgist vel með þessari umræðu eins og væntanlega hv. þm. þótt þeir séu ekki alltaf til staðar inni í salnum.)
    Hæstv. forseti. Ég þakka þessi orð. Í sjálfu sér stendur hvorki vel né illa á í ræðunni að hætta. Að því leyti stendur vel á að ég hef engan áhuga á að tala yfir tómum stólum. Það eina góða við það er að þeir slitna ekki á meðan ráðherrarnir sitja ekki í þeim, en ég hef ekki áhuga á að flytja mál mitt við þær aðstæður. Ég gerði grein fyrir því í upphafi máls míns hvernig ég ætlaði að haga því og við hvaða ráðherra ég óskaði að eiga orðastað og í hvaða röð og hafði nú vonast til þess að það mundi greiða fyrir umræðunum og ég ætla þá að endurtaka það. Ég er að ræða um landakaup og hafði óskað eftir því að utanrrh. og forsrh. yrðu viðstaddir. Síðan hugðist ég koma inn á sjávarútvegsmál og það er þá rétt að koma þeirri ábendingu á framfæri við hæstv. forseta að gera sjútvrh. aðvart um það þegar umræðan heldur áfram að ég vildi gjarnan að hann væri viðstaddur. ( Forseti: Hæstv. sjútvrh. er í salnum.) Oft kemur góður þá getið er og ég mun þá að sjálfsögðu verða við tilmælum hæstv. forseta og gera hlé á máli mínu meðan önnur mál komast hér á dagskrá.