Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:02:55 (166)


     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár mótmæltum við stjórnarandstæðingar harðlega þeirri aðferð ríkisstjórnarinnar að beita flötum niðurskurði á ríkisstofnanir í sparnaðar- og samdráttarskyni án tillits til stöðu þeirra eða hlutverks. Við vöruðum við alvarlegum afleiðingum þessarar stefnu og bentum á nauðsyn þess að forgangsraða verkefnum og leggja mat á mikilvægi þeirra áður en ákvarðanir væru teknar. En ríkisstjórnin kaus að láta varnaðarorð okkar sem vind um eyru þjóta og afleiðingarnar eru að koma í ljós.
    Nýjasta og eitt versta dæmið er staða Kópavogshælis eins og fram hefur komið í fréttum undnfarna daga. Stjórnendur hælisins, sem er heimili 135 þroskaheftra einstaklinga, hafa fengið ráðningarsamninga endursenda með þeim skilaboðum að ekki mætti auglýsa störf laus til umsóknar eða ráða í störf sem losna vegna þess að heimilið hafði eytt umfram heimildir. Á yfirliti yfir launakostnað Kópavogshælis frá 1. ágúst sl. kemur fram að búið er að eyða rúmum 6 millj. kr. umfram heimildir en það segir þó ekki alla söguna. Á sama yfirliti kemur fram að launagreiðslur heimilisins á tímabilinu janúar til júlí 1992 eru um 9,5 millj. kr. lægri en launagreiðslur voru á sama tímabili árið 1991 miðað við verðlag þessa árs. Launagreiðslur hafa lækkað á milli ára um 6% að raungildi.
    Einnig kemur fram að settum stöðum hefur fækkað um 11 á sama tíma og að yfirvinna hefur dregist verulega saman. Yfirvinnustundum hefur fækkað um 7.937 stundir á fyrstu sjö mánuðum þessa árs miðað við sama tíma í fyrra. Þetta er umtalsverður sparnaður sem náðst hefur með góðri samvinnu stjórnenda og starfsmanna.
    Launagreiðslur hafa ekki verið lægri að raungildi þegar litið er til síðustu þriggja ára. Í bréfi sem framkvæmdastjórinn skrifar stjórnarnefnd Ríkisspítalanna 25. ágúst sl. kemur fram að önnur rekstrargjöld eru 2 millj. kr. lægri en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir þennan mikla sparnað og samdrátt er staða Kópavogshælis þannig að kostnaðurinn er 6,1 millj. kr. umfram heimildir sem sýnir svo að ekki verður um villst að vistheimilinu hefur verið gert að spara langt umfram það sem eðlilegt getur talist og raunhæft.
    Þegar umrædd beiðni Kópavogshælis um ráðningu starfsmanna var send vantaði starfsfólk í 29 stöður. Nú hefur heimild fengist til að ráða í 19 þeirra þannig að 10 þeirra eru ómannaðar enn þá. Þetta er tímabundin lausn sem hefur það m.a. í för með sér að dregið verður úr þjónustu á stoðdeildum og þjálfun vistmanna og starfsemi leikfangasafns verður hætt. Hvergi á landinu er á einum stað jafnstór hópur einstaklinga með jafnmikla þörf fyrir hjálpartæki til að auka þroska sinn fyrir hvers konar sjúkraþjálfun, fyrir andlega og líkamlega aðhlynningu og umhyggju. Hér er um að ræða þroskaheftar og líkamlega fatlaðar manneskjur og heimili þeirra. Hér er ekki um það að ræða að hægt sé að loka deildum og senda vistmenn á einhvern annan stað. Starfsemi þessa heimilis fyrir fatlað fólk fellur ekki undir lög um málefni fatlaðra, svo einkennilegt sem það nú er. Það er hluti af rekstri Ríkisspítalanna og vistmennirnir hafa því ekki sama rétt og aðrir fatlaðir. Á meðan þeir búa á Kópavogshæli --- og sumir vistmanna dvelja þar ævilangt --- er ekki hægt að líta öðruvísi á en þeir séu sviptir þeim rétti sem aðrir fatlaðir njóta samkvæmt nýjum lögum um málefni fatlaðra sem taka gildi í dag. Ég leyfi mér að draga í efa að þetta fyrirkomulag standist reglur um mannréttindi, að hér sé ekki um mannréttindabrot að ræða.
    Lög um málefni fatlaðra heyra til hæstv. félmrh. Það hefur ítrekað komið fram hjá þeim ráðherra, m.a. við umræðu og afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár að framlög til þessa málaflokks væru síst minni nú en áður og flatur niðurskurður ríkisstjórnarinnar komi lítið eða ekkert niður á málefnum fatlaðra. Það má vera að niðurstöðutölur úr ríkisrekstri styðji þessi orð hæstv. félmrh. Það veit ég ekkert um. En hitt er víst að Kópavogshælið er þar undanskilið. Þetta er heimili fyrir fatlaða sem heyrir undir Ríkisspítalana og þar af leiðandi til heilbr.- og trmn.
    Vissulega eru það stjórnendur Ríkisspítalanna sem ákveða framlög til Kópavogshælis af þeim fjárveitingum sem Ríkisspítarnir fá á fjárlögum. Ábyrgð þeirra á rekstri heimilisins er því töluverð. Það firrir hins vegar ekki heilbr.- og trmrh. eða Alþingi ábyrgð á rekstri heimilisins. Tillögur og ákvarðanir um fjárveitingar koma þaðan. Það er á ábyrgð þessara að sjá til þess að Kópvogsheimilið hafi það rekstrarfé sem þörf er fyrir til þess að þeir einstaklingar sem þar búa fái nauðsynlega þjónustu.
    Í bréfi frá stjórnendum Kópavogsheimilisins kemur fram að verið er að færa starfsemi stofnunarinnar mörg ár aftur í tímann með því að krefjast sparnaðar umfram það sem þegar hefur náðst. Það er í raun verið, hv. þm., að breyta heimilinu í geymslustað.
    Það er sérkennilegt að þurfa að beina orðum sínum til hæstv. heilbrrh. varðandi úrbætur í málefnum þessara fötluðu einstaklinga sama dag og lög um málefni fatlaðra taka gildi, lög sem hæstv. félmrh. og öll hagsmunasamtök þessa fólks börðust fyrir og töldu mikla réttarbót. Vistmenn á Kópavogshæli eru utan ramma þessara laga. Flestir þeir einstaklingar sem dvelja á Kópavogshæli eru úr hópi þeirra sem greinast alvarlega eða mjög alvarlega þroskaheftir. Heildarfjöldi þessara einstaklinga á landinu öllu er samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef milli 300 og 400. Þar af eru 135 á Kópavogshæli. Það er hátt hlutfall og sýnir mikilvægi þess starfs sem fer fram á þessu heimili betur en nokkuð annað. Í ljósi þessara upplýsinga sem við nú höfum, og þökk sé fjölmiðlum fyrir að vekja athygli okkar á þessu, þá eru nokkur atriði sem ég bið hæstv. heilbrrh. að svara.
    Er honum kunnugt um það hvort Kópavogshælið var látið taka á sig hlutfallslega meiri niðurskurð en aðrar rekstrareiningar Ríkisspítalanna og þá að teknu tilliti til þess sparnaðar sem áður hafði náðst? Mun ráðherra beita sér fyrir frekari framlögum til Kópavogshælis? Verður það tryggt að vistmenn þar njóti sama réttar og þeir sem búa á stofnunum sem falla undir lög um málefni fatlaðra?