Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:09:18 (167)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til þess að leiðrétta það sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns um að það hafi verið framkvæmdur flatur niðurskurður á stofnunum heilbr.- og trmrn. Það er ekki rétt. Í fjárlögum var framkvæmdur flatur niðurskurður um 5% eins og menn vita. 3% voru síðan skilin eftir í sérstökum sjóði sem hægt var að úthluta úr til umræddra stofnana. Sú úthlutun átti sér stað í fullu samráði við forsvarsmenn umræddra stofnana og það voru fjögur atriði sem gengið var út frá þegar því fé var deilt niður:
    1. Að ekki þyrfti að koma til lokunar á skurðstofum og skerðingar bráðaþjónustu.
    2. Að fæðingaraðstöðu yrði hvergi lokað á landinu.
    3. Að ekki yrði dregið úr heimahjúkrun eða aðhlynningu aldraðra.
    4. Að litlu heilsugæslustöðvarnar þyrftu engan niðurskurð að taka á sig.
    Þannig var ráðstafað úr umræddum sjóði svo að í reynd var ekki um flatan niðurskurð að ræða heldur misháar fjárveitingar til hinna einstöku stofnana til baka og það er e.t.v. skýringin á því að þessi aðgerð virðist ætla að takast.
    Um þetta sérstaka viðfangsefni sem hér er rætt um, Kópavogshælið, er það að segja að engar upplýsingar hafa borist til heilbr.- og trmrn. um sérstök vandamál á Kópavogshælinu, hvorki frá stjórnendum þess né heldur frá stjórnendum Ríkisspítala. Við höfum fengið mörg erindi frá stjórnendum Ríkisspítala þar sem lýst hefur verið ýmsum vandkvæðum sem stjórnendur þar eiga við að fást. Ekkert af þessum erindum hefur varðað Kópavogshælið. Við höfum ekki heldur enn fengið neinar upplýsingar að frumkvæði stjórnenda Kópavogshælis um sérstök vandamál þar. Ég mun hins vegar eiga fund með þeim í fyrramálið að þeirra ósk. Að minni ósk hefur ráðuneytisstjórinn í heilbr.- og trmrn. rætt við forstöðumann heimilisins í dag og ég hef sjálfur rætt við forsvarsmenn Ríkisspítala, stjórnarformann að vísu, en ekki framkvæmdastjóra því til hans hefur ekki náðst. Sú umfjöllun sem við í heilbrrn. höfum séð um málið hefur því til þessa öll farið fram í fjölmiðlum.
    Í skýrslu sem ég fékk frá framkvæmdastjóra og stjórnarformanni Ríkisspítala kemur fram að þeir telja að umræddur vandi hafi verið leystur á fundi með stjórnendum Kópavogshælis sl. miðvikudag. Í skýrslunni sem er frá formanni stjórnarnefnda, Árna Gunnarssyni, og forstjóra Ríkisspítalanna, Davíð Á. Gunnarssyni, segir, með leyfi forseta:

    ,,Á fundi sem forstjóri Ríkisspítalanna átti með yfirmönnum hælisins um miðja síðustu viku voru lagðar fram mjög markvissar tillögur um það með hvaða hætti ná mætti sparnaði sem eftir lifði af árinu. Í grundvallaratriðum var ákveðið að fara eftir þessum tillögum. M.a. þess vegna kom það forráðamönnum Ríkisspítala mjög á óvart hvernig umræður um þessi mál hafa þróast. Ekki hafði verið talið að á ferðinni væri sá stóri vandi sem forráðamenn Kópavogshælis réðu ekki fram úr.``
    Þetta segir í skriflegri skýrslu þeirra. Ég er með tillöguna sem samþykkt var um þessi mál á fundinum með ráðamönnum Kópavogshælis 28. ágúst 1992. Þingmönnum er frjálst að kynna sér hana ef þeir vilja, en tímans vegna ætla ég að láta hjá líða að lesa þá tillögu upp. Fyrir u.þ.b. viku virtist því fullt samkomulag hafa tekist um það að ráða fram úr þeim vandamálum sem upp hafa komið í þessu efni.
    Ég vil aðeins taka það fram að ekki eru nema fimm dagar síðan að formanni stjórnar Ríkisspítala var ljóst að þarna var eitthvert vandamál á ferðinni.
    Að beiðni minni hefur landlæknir farið í dag og rætt við starfsmenn Kópavogshælisins. Hann gaf mér skýrslu rétt áðan og gaf mér heimild til þess að hafa eftir sér hér að hann teldi enga sérstaka ástæðu til neinna frekari aðgerða. Hann taldi að góður starfsandi væri á þessu heimili og hann tók það sérstaklega fram og heimilaði mér að hafa það eftir sér að eftir viðræður við starfsfólkið teldi hann að fjölmiðlaumfjöllunin eins og hún hefði verið að undanförnu væri algjörlega ástæðulaus og ekki að tilhlutan starfsmanna hælisins.
    Um fjárhagsmál Kópavogshælisins er það að segja að eins og önnur starfssvið innan Ríkisspítalanna þá þurftu þeir að taka á sig að leysa rekstrarvanda vegna lækkaðra fjárveitinga. Gerð var áætlun strax í upphafi ársins 1992 um hvernig að þessu skyldi staðið og hún lög fyrir starfsmennina og fyrstu fimm mánuði ársins var ekki annað að sjá en allt gengi eftir, þ.e. að um 8% sparnaður í rekstri hefði náðst og að verulegur sparnaður í launakostnaði hefði náðst. Hins vegar virðist eitthvað hafa farið úrskeiðis í rekstrinum í mánuðunum júní og júlí þannig að Kópavogshælið var komið fram úr fjárheimildum í lok júlímánaðar um 5 millj. kr. en var á sama tíma í fyrra komið fram úr fjárlagaheimildum um 11,5 millj. kr. Vandamálið í rekstri Kópavogshælisins var því minna sem þessu nemur, um mitt þetta ár en á miðju sl. ári.
    Ég vil taka fram og endurtek það, virðulegi forseti, og skal svo láta máli mínu lokið að sinni, að þessi mál voru leyst á fundi með forstjóra Ríkisspítala fyrir viku. Sú fjölmiðlaumfjöllun sem verið hefur að undanförnu kom honum á óvart. Landlæknir telur hana ástæðulausa. Ég sjálfur hef ekki um annað frekar um þetta mál að segja en að ég mun eiga viðtöl við þá forráðamenn sem óskað hafa eftir að ná fundi mínum á morgun. En ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að samkvæmt þeim efnisatriðum sem ég hef fengið upplýst um þetta mál þá hlýt ég að vera sammála landlækni um það að fjölmiðlaumfjöllunin eins og hún hefur verið um þetta mál virðist vera með öllu tilefnislaus.