Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:18:47 (169)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í meðferð frv. til laga um málefni fatlaðra sem afgreitt var sem lög frá Alþingi í vor og tekur gildi í dag, eins og þið hafið heyrt, var m.a. komist að samkomulagi um að þáttur Kópavogshælis yrði tekinn sérstaklega fyrir nú í sumar. Ég tjáði þann skilning minn á hlutverki hælisins að þar væri sannanlega stór hópur sjúkra þroskaheftra sem þyrfti á stöðugri hjúkrun og eftirliti læknis að halda. Því mætti telja hluta Kópavogshælis til sjúkrastofnunar. Hins vegar er mikill hluti stofnunarinnar heimili

og það mjög vel búið heimili eða sambýli, ef menn vilja kalla það svo, og vinnustaður fyrir alvarlega þroskahefta.
    Framkvæmdir á Kópavogshæli undanfarin ár hafa aðallega byggst á fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra en einnig söfnun aðstandenda. Ég vil benda á að ef túlka á málefni Kópavogshælis núna eftir nýjum lögum um málefni fatlaðra sem sjúkrahúss, þá er þar með lokað fyrir aðgang að Framkvæmdasjóði fatlaðra og litlar líkur, miðað við fjárveitingar til heilbrigðismála, að sú æskilega uppbygging sem þar á að verða muni nokkru sinni sjá dagsins ljós. Fatlaðir á Kópavogshæli eiga sama rétt og aðrir fatlaðir. Það er því réttmæt krafa að þeir sitji við sama borð og aðrir fatlaðir um úthlutun úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.
    Þar sem starfsemi Kópavogshælis hefur á undanförnum árum verið tengd starfsemi félmrn. í þessum málaflokki hefði ég óskað að hæstv. félmrh. gæti verið hér viðstödd og spyrja, eins og hv. 2. þm. Vesturl., hvort nefnd sú sem skipa átti um framtíðarhlutverk Kópavogshælis hafi lokið störfum.
    Enn fremur vil ég óska eftir upplýsingum frá hæstv. heilbrrh. hvernig ákvörðun um þann mikla niðurskurð sem Kópavogshæli hefur mátt þola var tekin og hvort ráðuneytið telji þann niðurskurð samræmast þeirri umfangsmiklu starfsemi sem þar fer fram og ekki er með góðu móti hægt að minnka eða flytja á milli stofnana.