Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:23:55 (171)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Sú uppákoma að þetta mál skuli vera rætt einmitt í dag, 1. sept., á gildistökudegi nýrra laga um málefni fatlaðra, segir okkur dálitla sögu um það hvernig að því var staðið á síðasta þingi. Menn skildu eftir óleyst mál, sáu ekki fram úr þeim og gáfu sér ekki tíma til að setjast yfir þau og finna lausnina. Þess í stað brugðu menn á það ráð að setja í nál. bænarskjal til heilbr.- og trmrh. um að skipa nefnd sem hann hefur augljóslega ekki gert.
    Þessi framgangur málsins hefur síður en svo einfaldað þau vandamál sem menn eru að glíma við á Kópavogshæli. Vandamálið er einfalt, of margir vistmenn eru á hælinu miðað við pláss og fjárveitingar. Það kom skýrt fram sl. vor hvaða úrræðum menn vildu beita. Það var að útskrifa svo marga vistmenn sem unnt væri yfir á sambýli. Til þess þarf fé en ekki er að sjá að það hafi fengist til þeirra verka.
    Annað vandamál sem hrjáir vistmenn á Kópavogshæli er að þeir eru algjörlega réttlausir gagnvart lögum um málefni fatlaðra, þrátt fyrir að á það hafi verið bent í umfjöllun um frv. um málefni fatlaðra bæði af framkvæmdastjóra Kópavogshælis og foreldra- og vinafélagi hælisins. Báðir aðilar tóku sérstaklega fram í umsögn sinni að þeir óskuðu eftir ákvæði til bráðabirgða um að vistmenn nytu sömu réttinda og aðrir fatlaðir samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Þær breytingar sem menn gerðu á lögum um málefni fatlaðra, þar með talið breytingin um Framkvæmdasjóð fatlaðra, hefur síður en svo auðveldað úrlausn þessa máls.