Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:29:04 (173)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að þakka fyrir að málefni Kópavogshælis séu tekin hér til umræðu þó auðvitað beri að harma að það skuli vera gert við þær aðstæður að ekki sé tími til þess að ræða málin eins ítarlega og óhjákvæmilegt er vegna þess að vandi Kópavogshælis er flókinn og á sér langa sögu.
    Stjórnarnefnd Ríkisspítalanna fékk upplýsingar um þann vanda sem hér er verið að ræða nú þann 25. ágúst sl. og þá var ákveðið í stjórnarnefndinni að fela forstjóra að taka á því máli og það virðist hafa verið gert með því að heimila ráðningu 19 manna í stað þeirra sem höfðu látið af störfum.
    Ég held að vandi Kópavogshælis sé hins vegar ekki þarna. Ég tel að vandinn sé fyrst og fremst framtíðarstefnumörkun sem þar þarf að eiga sér stað og að Kópavogshæli hafi í raun og veru liðið fyrir að menn hafa ekki treyst sér til að taka á málefnum þess af myndugleik og höggva á skipulagshnúta, m.a. á milli félmrn. og heilbrrn.
    Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að fylgja fast fram þeirri stefnu sem mótuð var fyrir 10 árum eða svo. Þá voru vistmenn á Kópavogshæli 200. Þeir eru núna 135. Það hefur með öðrum orðum tekist að standa þannig að málum að einn þriðji þess fólks sem þarna var er núna á sambýlum af ýmsu tagi. En það verður að ganga lengra á þessu sviði. Mín skoðun er sú að heilbrrn. og félmrn. eigi nú að móta þá stefnu að a.m.k. 70--80 þeirra einstaklinga sem þarna eru komist mjög fljótlega á sambýli. Ég tel að staðan sé þannig að verulegur hluti þess fólks sem þarna er geti vistast á sambýlum og ég segi: Það eru tiltölulega fáir, innan við tugur þeirra manna sem þarna er, sem þurfa á stöðugri, daglegri læknisþjónustu að halda. Þarna eru síðan allmargir einstaklingar, 30 eða 40 einstaklingar, sem þurfa auk þess á reglulegri hjúkrunar- og sjúkraþjálfun að halda. Þessa framtíðarstefnu fyrir Kópavogshælið þarf að móta vegna þess að ef við gerum það ekki, þá munu vandamál þess vaxa á komandi árum og það er okkur öllum, sem hér sitjum, til skammar að taka ekki með myndugum hætti á málum þessa fólks sem þarna er.
    Að lokum þetta virðulegi forseti: Staðreyndin er auðvitað sú að stjórnskipulag Ríkisspítalanna er gersamlega úrelt. Stjórnskipulag Ríkisspítalanna í heild verður að taka til endurmats og færa fjármálalegar ákvarðanir og heimildir til þeirra út til fagsviðanna og tengja það hinum faglegu ákvörðunum á hverjum tíma. Það er útilokað að mínu mati eftir þá reynslu sem ég hef að stýra Ríkisspítölunum með þeim hætti sem reynt er að gera þó að það hafi tekist furðuvel og Ríkisspítalarnir hafi sparað meira og betur en nokkur önnur sjúkrastofnun á þessu ári.