Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:41:49 (179)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það mætti eins setja inn í lög um þingsköp að hv. þm. Svavar Gestsson hefði leyfi til þess að kveðja sér hljóðs til efnislegra umræðna undir dagskrárliðnum um þingsköp. ( SvG: Það er góð hugmynd.) Það er góð hugmynd. En þá þyrfti líka að setja inn í lög um þingsköp að tilmæli þingnefnda um nefndarskipan jafngiltu ákvörðun ráðherra um að það skyldi gert. Málið er mjög einfalt. Þetta verður lagt fyrir Alþingi, lagabreytingar í kjölfar þeirrar afgreiðslu sem varð á Alþingi í fyrra um málefni fatlaðra. Það þarf að breyta þar mörgum lögum, m.a. um þær stofnanir sem ég taldi upp. Ég mun að sjálfsögðu hafa um það samvinnu við félmrn. og fjmrn., eins og beðið var um, en ég er ekki tilbúinn að gera það þannig að tína fram eina og eina stofnun í einu heldur vil ég gera það fyrir allar þær stofnanir samtímis sem þessi nýju lög um málefni fatlaðra gera að verkum að sennilega þarf að flytja frá heilbrrn. til félmrn.