Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:44:50 (182)

     Steingrímur J. Sigfússon (frh.) :
    Hæstv. forseti. Ég var að beina máli mínu til þeirra hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. og óska eftir því að þeim verði gert aðvart um að umræðan sé að hefjast á nýjan leik. ( Forseti: Forseti hefur nú þegar gert ráðstafanir til þess að gera hæstv. ráðherrum viðvart.) Þá er bara spurningin, hæstv. forseti, hvort það hafi verið nógu róttækar ráðstafanir. Það bólar ekkert á þeim enn þá. ( Forseti: Forseti er bjartsýnn á að ráðstafanirnar beri árangur.)
    Ég hafði, hæstv. forseti, verið að fara hér aðeins yfir landakaup og fjárfestingarréttindi útlendinga sem leiða af ákvæðum þessa samnings og valda miklum breytingum, bæði almennt í atvinnulífi en líka á sviði fjárfestingarfrelsis hvað einkahagi snertir og rétt manna til eignakaupa og landakaupa í eiginhagsmunaskyni eða einkaþágu. Ég hafði áður reyndar rætt lítillega um öryggisákvæði, 111.--114. gr. samningsins, og ætla að vísa í þá umræðu aftur að lokum. Ég tel nauðsynlegt að rifja upp í fáeinum setningum það sem ég hafði sagt um aðdraganda þessa máls í tíð fyrri ríkisstjórnar, þ.e. þessi umdeildu ákvæði sem varða rétt útlendinga til að kaupa hér jarðnæði og land og/eða hins vegar séð möguleika okkar Íslendinga til þess að tryggja nokkurt forræði okkar sjálfra hér í landinu á landaréttindum.
    Það var mín skoðun og hún kom oft fram, bæði innan ríkisstjórnar og utan í tíð síðustu ríkisstjórnar, að eini umbúnaðurinn að þessu leyti sem dygði okkur væri varanlegur og ótímasettur fyrirvari í samningnum. Það var því mín krafa til utanrrh. og samningamanna hans allan tímann að eftir slíkum fyrirvara yrði leitað. Ég féllst aldrei á það í tíð fyrri ríkisstjórnar að frá því yrði horfið enda veitti fyrri ríkisstjórn hæstv. utanrrh. aldrei umboð til að hverfa frá fyrirvörum af ýmsu tagi sem Íslendingar höfðu sett fram í samningaviðræðunum. Það var ekki fyrr en 5. maí 1991 sem slíkt var afgreitt á fundi ríkisstjórnarinnar sem þá hafði tekið við völdum. Sannfæring mín byggði m.a. á þeirri þekkingu á jarðalögum og framkvæmd þeirra sem ég hafði sem landbrh. og ég hef styrkst í þeirri niðurstöðu nú við yfirferð á málinu á nýjan leik eftir að samningurinn liggur fyrir og eftir að nefnd sú, sem dóms- og kirkjumrh. og landbrh. skipuðu til að athuga þetta mál, hefur skilað sinni niðurstöðu.
    Ég þóttist sjá það og það liggur reyndar í augum uppi að það yrði ákaflega miklum vandkvæðum bundið að setja hér í lög takmarkandi ákvæði hvað varðaði réttindi manna til að kaupa sér jarðnæði sem ekki hefðu umsvifalaust í för með sér verulega mismunun gagnvart þeim sem í hlut ættu og vildu kaupa sér slíkt jarðnæði eftir að samningurinn gengi í gildi og hinum sem eiga fyrir land eða jarðnæði í landinu. Sú staðreynd blasir við okkur, eins og ég sagði áðan, að hundruð þéttbýlisbúa eiga jarðir eða landnæði af ýmsu tagi án þess þó að þeim fyrirmælum sem í lögum eru hafi verið framfylgt hvað snertir skilyrði um búsetu á jörðunum eða skilyrði um að þeir sinni fjallskilum eða annist viðhald girðinga eða annað því um líkt sem þar getur hugasnlega komið til. Það er allmikil einkaeign á landi og eins og ég sagði, þótt mér vitanlega hafi ekki farið nein sérstök könnun fram á því hversu mörg hundruð tilvika það eru, þá er ljóst að þau tilvik eru fjölmörg þar sem þéttbýlisbúar eiga hluta úr jörðum eða heilar jarðir án þess að sitja þær eða nýta nema að mjög takmörkuðu leyti.
    Þegar þessi mál voru til umræðu í nóv. og des. 1990 og á fyrstu mánuðum ársins 1991 er rétt að menn muni eftir því að samningamálin voru sem slík í verulegri óvissu og með öllu óljóst hvaða niðurstaða yrði þar enda rak þá hver uppákoman aðra sem stofnaði málinu í heild sinni í mikla óvissu. Það er einnig rétt að minnast þess að þá var kominn sá tími þegar hæstv. utanrrh. eða samninganefndarmaður Íslands númer eitt kom með þá ósk að nauðsynlegt væri til þess að halda áfram viðræðum að EFTA-ríkin og þar með talið Ísland féllu frá öllum kröfum um varanlega fyrirvara.
    Það var kosið til Alþingis næsta vor, eins og menn muna, og þingið lauk störfum í marsmánuði ef mig misminnir ekki. Sá tími sem var til stefnu til að skoða þau mál í framhaldi af þessum breyttum aðstæðum hefði því hvort sem er verið mjög skammur.
    Ég minni á þetta hér vegna þess að það hefur stundum komið fram í umræðum að það hafi verið mikil vanræksla af hálfu hæstv. fyrrv. landbrh., þess sem hér talar, að hafa ekki umsvifalaust sett lög með girðingum sem hefðu tryggt um aldur og ævi að útlendingar gætu ekki keypt sér jarðnæði hér. Það er ákaflega sérkennilegur málflutningur ef málin eru betur skoðuð.
    Í fyrsta lagi liggur það fyrir að þegar samningsniðurstaðan er fengin þarf að breyta fjölmörgum lögum á Íslandi og öllum þeim lögum sem stangast á við ákvæði samningsins. Það skiptir þá ekki máli hvort þau hefðu verið sett t.d. í febrúar 1991 eða löngu fyrr. Hefðu menn því í fullkominni óvissu um það hver niðurstaða málsins yrði við þessar aðstæður, veturinn 1990--1991, í þessu eina tilviki rokið til og sett fyrir fram einhver lagaákvæði til þess að verja sig fyrir hugsanlegri samningsniðurstöðu síðar, þá hefði það hvort sem er ekki haldið ef þau ákvæði brytu í bága við samningana nú. Það liggur í augum uppi. Þeim hefði þá orðið að breyta rétt eins og um hundrað öðrum ákvæðum í jafnmörgum frumvörpum sem rignir inn í þingið núna. Ég held að þeir menn sem halda því fram að okkur hefði verið einhver vörn í lagabreytingum þennan vetur séu að gera sig seka eða afhjúpa mikinn misskilning á eðli þessa máls --- eða hvað?
    Er það ekki þannig ef við hefðum t.d. sett í landslög í febrúar 1991 að eingöngu ljóshærðir Íslendingar mættu kaupa jarðir á Íslandi --- hvers virði væru þau lagaákvæði verið nú ef við ætlum að gerast aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði? Einskis. Það fyrsta sem menn hefðu orðið að gera væri að breyta þeim, fella allt úr gildi, vegna þess að það er bannað að mismuna mönnum eftir þjóðerni.
    Spurningin er eingöngu þessi: Getum við sett einhver takmarkandi ákvæði sem gera það að verkum að við þurfum ekki að óttast að mikið innstreymi verði hér á erlendu fjármagni og að útlendingar kaupi hér upp land í stórum stíl til einkanota, þannig að það þrengist mjög um fyrir okkur sjálfum í okkar eigin landi, sem ekki mismunar mönnum á grundvelli þjóðernis og brjóta þar af leiðandi ekki grundvallarreglur samninganna? Það er hægt, það eru ýmsir möguleikar í því, en þær reglur bitna þá jafnt á Íslendingum sem öðrum, að sjálfsögðu. Þar liggur nefnilega hundurinn grafinn og það er það sem ég held að menn hafi ekki áttað sig á þegar þeir í einfeldni sinni trúðu því að það væri auðvelt að leysa þennan vanda með lagasetningu hér innan lands. Það er ekki auðvelt, þvert á móti er það mjög snúið. Ég held að þegar menn skoða þetta betur komist þeir að raun um að það hafi orðið mikið slys í þessum samningum, ef menn á annað borð vilja vera aðilar að þeim og ef menn á annað borð vilja ekki taka áhættu gagnvart því að jarðnæði færist í stórum stíl á hendur útlendingum, að ekki var haldið inni varanlegum fyrirvara hvað þetta snertir. Það var eina trausta leiðin í þessum efnum. Ég skal rökstyðja dálítið nánar þessa fullyrðingu, hæstv. forseti.
    Það er líka ástæða til að minna á það hér, vegna þessarar sérkennilegu umræðu um að menn hafi misst af einhverju gullnu tækifæri þessa tvo, þrjá mánuði veturinn 1990--1991 sem menn hefðu haft til stefnu, að núv. ríkisstjórn er búin að sitja við völd í næstum eitt og hálft ár og af þeim tíma hefur Alþingi lengstan hluta verið starfandi. Henni hefði svo sem ekki verið mikið að vanbúnaði að setja þessi lög

ef menn eru þeirrar skoðunar á þeim bæ að þetta sé einfalt mál.
    Við getum byrjað á því að spyrja okkur hvers virði sé í þessu sambandi forkaupsréttur ríkis og sveitarfélaga. Það hefur verið nefnt að hægt sé að leysa þetta einfaldlega með forkaupsrétti ríkis og sveitarfélaga, bæta inn í lögin, t.d. til viðbótar forkaupsrétti sveitarfélaganna, forkaupsrétti ríkisins. Hafa menn trú á því að sá forkaupsréttur verði mikils virði ef hér verður á annað borð mikil ásókn í land? Hafa menn trú á því að menn muni vera tilbúnir að reiða fram þá fjármuni sem þarna yrði um að tefla? Alla vega ekki sveitarfélögin. Það er alveg á hreinu. Þau sveitarfélög, sem hér ættu væntanlega helst hlut að máli, eru einmitt ekki fær um að keppa við stóreignamenn sem reitt gætu fram verulegar fjárhæðir til að kaupa sér laxveiðiár, vatnsréttindi eða önnur slík hlunnindi, hrossaræktarjarðir eða því um líkt.
    Það er út af fyrir sig hugsanlegt að forkaupsréttur ríkisins héldi, sem samhliða umtalsverðum peningum yrði beitt til þess að yfirbjóða jafnan útlendinga sem hér væru að leita eftir jarðnæði. Það er ljóst. En eru menn trúaðir á að menn séu tilbúnir til þess að leggja hundruð milljóna á ári í slík jarðakaup og safna þar með á nýjan leik á hendur ríkisins jarðnæði í stórum stíl? Er það vilji núverandi ríkisstjórnar að auka þannig ríkisumsvif í stórum stíl hvað forvöltun á landi snertir? Það eru þá fréttir fyrir mig. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess en það væru fréttir fyrir mig ef þessi ríkisstjórn einkavæðingarinnar væri tilbúin til að taka á þessu máli þannig. Hæstv. forsrh. er e.t.v. tilbúinn að svara því. Sér hann það sem aðferð í þessu sambandi og er þá pólitískur vilji fyrir því að beita henni í hans ríkisstjórn?
    Ég tel að forkaupsrétturinn sé ákaflega lítils virði í þessu sambandi og einskis virði gagnvart sveitarfélögunum. Hann hefur á umliðnum árum verið ákaflega lítils virði í raun og veru í þeim tilfellum þar sem helst hefði þurft á honum að halda því þau sveitarfélög hafa yfirleitt ekki haft bolmagn til að keppa við þá aðila sem hafa haft fjármagn og vilja komast yfir jarðnæði.
    Menn hafa hins vegar ekki haft miklar áhyggjur af því vegna þess að málin hafa þróast þannig á Íslandi, því miður leyfi ég mér að segja, að það hefur ekki verið skortur á jarðnæði. Satt best að segja er Ísland sennilega það land Evrópu, ef frá eru talin allra vanþróuðustu svæðin og kannski austurhlutinn, þar sem jarðnæði er auðvitað langsamlega ódýrast. Verðið á landi hér, t.d. í hekturum, er auðvitað bara brot af því sem það er þegar kemur út á þéttbýlissvæðin í Evrópu.
    Frændur vorir Danir hafa lengi haft af því miklar áhyggjur að þýskir auðmenn mundu leggja undir sig Danmörku og kaupa þar lönd og réttindi í stórum stíl undir sumarbústaði eða sjálfa sig til veiða eða skemmtana. Þeir hafa þrátt fyrir allt varið í gegnum þykkt og þunnt sérstakar undanþágur sínar sem heimila þeim að takmarka eða banna kaup útlendinga á jarðnæði í Danmörku, sumarbústaðalandi og lóðum. Meira að segja í gegnum Maastricht-samningana hafa Danir varið þetta ákvæði og eru þeir þó að því leyti miklu betur settir en við að landbúnaðarlöggjöf þeirra er með sjálfkrafa innbyggðum takmörkunum gagnvart þeim mönnum sem geta keypt jarðir. Þeir þurfa að uppfylla vissa menntunarkröfur og þeir þurfa að búa á jörðunum. ,,Landbrugspligtin`` danska er einmitt þannig úr garði gerð. Engu slíku er til að dreifa hér. Hér er jarðnæði margfalt ódýrara þannig að ef maður legði það sem mælikvarða ættu hætturnar að verða meiri hér.
    Ég held, hæstv. forseti, að þetta tal um að í raun og veru sé auðvelt að leysa þetta mál með innlendri lagasetningu, girðingum eins og menn kalla það, sé í fyrsta lagi óútskýrt, í öðru lagi óraunhæft og í þriðja lagi á misskilningi byggt. --- Og það er nokkur skaði að hér skuli vera svona lítið um framsóknarmenn í salnum því það er auðvitað óhjákvæmilegt, herra forseti, að ræða þetta mál lítillega við framsóknarmenn. ( VE: Við erum tveir framsóknarmenn í Sjálfstfl.) Það eru e.t.v. einhverjir menn sem liggja undir framsóknarmennskugrun þótt þeir tilheyri öðrum flokkum en það dugar ekki. Ég hefði mjög gjarnan viljað að einhverjir framsóknarmenn gætu hlustað á þessa umræðu (Gripið fram í.) og ýmsir fleiri auðvitað hafa jafngott af þessari skynsamlegu umræðu eins og endranær.
    Staðreyndin er sú að þegar menn fara að skoða hvernig þeir ætla að breyta jarðalögum og ábúðarlögum án þess að brjóta jafnræðisregluna og án þess að valda uppnámi gagnvart þeim hundruðum Íslendinga sem eiga jarðnæði fyrir, þá er það ekki einfalt mál. Því miður og öðru nær.
    Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að vísa í álit þessarar nefndar sem er að mörgu leyti ágætt og ég þakka fyrir að það var unnið að beiðni dóms- og kirkjumrh. og landbrh. Á bls. 72--73 er að finna umfjöllun um núverandi framkvæmd jarðarlaga og ábúðarlaga sem ég hef gert að umtalsefni og er alveg nauðsynlegt að menn átti sig á ef menn ætla að vera umræðuhæfir í þessum efnum, þ.e. þekki aðstæðurnar í landinu eins og þær eru og framkvæmd þessara laga eins og hún hefur mótast vegna aðstæðna á Íslandi undanfarin ár og undanfarna áratugi.
    Það segir neðarlega á bls. 72, með leyfi forseta, í þessu ágæta áliti:
    ,,Þá ber einnig að hafa í huga að fjölmargar jarðir sem unnt væri að nýta til landbúnaðarframleiðslu eru nú nýttar til annars og oft í eigu aðila sem ekki býr á jörðinni. Þannig eru margar jarðir nýttar til sumardvalar eigenda og í þágu tómstunda þeirra, svo sem til veiði og reiðhestahalds.
    Á þetta er bent hér til að minna á þá grundvallarreglu EES-samningsins og EB-réttar að óheimilt er að mismuna einstaklingum og lögaðilum á grundvelli ríkisfangs á þeim sviðum sem samningurinn tekur til. Þannig gætu stjórnvöld samkvæmt jarðarlögum og ábúðarlögum ekki tekið upp strangari framkvæmd þeirra laga þegar útlendingar sem nytu réttar samkvæmt EES-samningum ættu í hlut heldur en þegar um væri að ræða Íslendinga.``

    Þetta er svona. Og menn verða auðvitað að muna eftir þessari stöðu í landinu. Það er á misskilningi byggt að málið sé svo einfalt að það sé hægt að segja: Allir þeir sem ætla að eiga jarðir á Íslandi verða að búa á þeim allt árið. Það er á misskilningi byggt að það sé svo einfalt að hægt sé að segja: Allir þeir sem ætla að eiga jarðnæði verða að vera bændur með bændaskólapróf og þeir verða að stunda búskap. Það er ekki hægt nema kasta í burtu þeim hundruðum Íslendinga sem eiga með lögformlegum og réttum hætti jarðnæði í dag. Og hvað ætla menn að gera við þá? Ef menn ætla ekki að brjóta réttinn á þeim og reka þá í burtu eru menn augljóslega orðnir í vanda gagnvart jafnræðisreglunni. Það er auðvitað það sem skýrsluhöfundar viðurkenna með raunsæjum hætti. Þeir fara síðan yfir það hvernig þetta sé í öðrum löndum, Noregi, Svíþjóð og Danmörku og nefna stöðuna þar sérstaklega, eins og ég gerði áðan, ,,landbrugspligtina`` og þær kröfur aðrar, m.a. menntunarkröfur, sem Danir nota til þess að tryggja starfandi bændum forgang að landi í sínu ríki og dugar alveg þar vegna þess hvernig aðstæðurnar eru. Skýrsluhöfundar klykkja út með því að segja:
    ,,Þannig setja Danir ýmis skilyrði um búsetu og þekkingu þeirra sem eignast bújarðir þar í landi en hér á landi er raunveruleikinn sá að fjöldi bújarða er í eigu einstaklinga sem hafa fasta búsetu annars staðar og ekki hafa verið teknar í lög kvaðir um tiltekna lágmarksþekkingu þeirra sem keypt geta bújarðir og rekið þar búskap. Aðstæður hér á landi eru því með nokkuð öðrum hætti en í þessum löndum,`` segir þar og það er rétt.
    Ég held að menn verði að átta sig á því og því fyrr því betra og væri mikið til bóta held ég og mundi komast eitthvað meiri skynsemi í þetta girðingatal og jarðnæðistal ef menn tækju sig t.d. til og læsu þessa skýrslu vandlega. Þar segir á bls. 98 í niðurstöðukafla:
    ,,Þessi ákvæði . . .  `` og síðan er vitnað í tiltekinn dóm hjá Evrópubandalaginu, ,,sýna nægjanlega að ákvæði jarðalaga og ábúðarlaga standast EB-rétt vegna þess að þau gilda jafnt um íslenska aðila og erlenda. Með sama hætti standast þessi lög EES-samninginn. Hins vegar má ekki beita ákvæðum jarðalaga, t.d. 2. mgr. 6. gr. um hvað telja skuli andstætt hagsmunum sveitarfélags, á þann hátt að erlendum mönnum eða félögum sé mismunað miðað við íslenska aðila. Mismunun gæti og falist í því ef forkaupsrétti sveitarfélags væri beitt til þess að koma í veg fyrir eignaraðild þeirra sem kynnu að geta byggt á EES-reglum . . .  ``
    Með öðrum orðum, ef t.d. hæstv. forsrh. ákvæði að setja inn í lög forkaupsrétt íslenska ríkisins og síðan tækju Íslendingar til við að beita honum þannig að þeir keyptu jafnan jarðir sem útlendingar byðu í en ekki þær sem Íslendingar byðu í, þá er það óheimilt. Það er mismunun. Málin eru því ekki svona einföld. Menn verða auðvitað að átta sig á því að þessi grundvallarregla gengur í gegnum allt, í gegnum þykkt og þunnt, ekki bara lagabókstafinn, heldur líka framkvæmdina. Ef sveitarfélög eða ríki verða ber að því að ætla að mismuna mönnum á grundvelli þjóðernis, þó að lagaákvæðin standist samninginn, þá er það brot engu að síður. Forkaupsréttur ríkis brýtur ekki ákvæði EES-samningsins og forkaupsréttur sveitarfélags með vissum skilmálum brýtur ekki ákvæði samningsins. Skýrsluhöfundarnir eru sammála um það og það er ég einnig. Ef beiting þeirra er á þann veg að hún mismunaði mönnum er það að sjálfsögðu brot.
    Ég held því, herra forseti, að sú umræða sem farið hefur fram um þetta sé í raun og veru í allt of miklum fyrirsagnarstíl og menn hafi ekki lagt það á sig, ekki nennt því eða hvað það á nú að kallast, að fara svo rækilega ofan í málin að þeir vissu hvað þeir væru að tala um. Menn hrópa: Girðingar, girðingar. Framsóknarmenn halda miðstjórnarfundi og segja bara girðingar, girðingar og þetta á allt að vera í lagi. En hvernig girðingar? Hvernig eiga þær að standast? Hvernig eiga þær að virka? Úr hverju eiga þær að vera? Gaddavír eða lögum eða framkvæmd? Þessu verður að svara. Eiga þær bara að vera fjárheldar eða eiga þær að stoppa norðanvindinn? Þegar ég fer ofan í þessi mál kemst ég æ betur að því að þetta er meira og minna byggt á sandi, því miður, vegna þess að samningsákvæðin, grundvallarreglurnar, eru það sterkar. Þær þyrma engu, mönnum líðst engin mismunun. Það er verið að búa til eitt ríki í þessum skilningi þar sem allir þegnarnir eru jafnir og ég held það muni vefjast mjög fyrir mönnum, og þó löglærðari séu en ég, að finna leið fram hjá þessum stóra þröskuldi til þess að tryggja einhver forréttindi Íslendinga sjálfra í eigin landi gagnvart þessum hlutum. Það er bannað. Það er verið að afnema hér með samningnum heimild okkar, möguleika okkar, þó sjálfstæðir eigum að teljast, til þess að búa við forréttindi í okkar eigin landi hvað svona hluti snertir. Það er verið að leggja það niður og það er ágætt að menn átti sig á því, m.a. sá þingmaður sem hér á eftir að tala næst á eftir mér, hv. 3. þm. Austurl., Egill Jónsson. Honum er þetta kannski vel ljóst og hefur lengi verið. ( EgJ: Ég er ekki á mælendaskrá.) Þá væri mál til komið að þú gerðir ráðstafanir til þess að komast þangað sem snarast.
    Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að fara mikið rækilegar ofan í þetta. Ég gæti gert það, ég hef kembt þetta svo sem þokkalega að ég tel, síðustu dagana fyrir utan þá þekkingu sem ég hafði á þessu fyrir. Mín niðurstaða er ósköp einföld: Ég hef enga færa leið séð enn þá sem dugar til að vera okkur Íslendingum einhver öryggisventill sem mark er á takandi í þessum efnum sem ekki rekst á tvær óyfirstíganlegar hindarnir, þ.e. annars vegar 4. gr. samningsins, grundvallargreinina, sem og ýmsar aðrar markmiðsgreinar svo sem 40. gr. samningsins o.s.frv. um bann við mismunun. Hin hindrunin er aðstæður sem fyrir eru í landinu í þessum efnum. Gildandi löggjöf og framkvæmd hennar, eins og hún er á Íslandi í dag, er hinn þröskuldurinn.
    Ég bið þá menn sem hafa lausnina og hafa fundið það sem ég hef verið að leita að en hef ekki

fundið að koma með það fram í dagsljósið og útskýra það fyrir mér og væntanlega fleirum lið fyrir lið, efnislega og nákvæmlega hvernig þeir ætla að gera þetta svo það strandi ekki á öðrum hvorum eða báðum þessara tveggja þröskulda.
    Eitt hlýtur að lokum að koma upp í hugann í þessum efnum. Það er hversu augljósar slíkar girðingar mættu vera til þess að þær yrðu ekki umsvifalaust dæmdar ólöglegar. Ég spyr t.d. hæstv. utanrrh.: Telur hann það ekki ærið vandasamt verk að semja slíka löggjöf undir opinni umræðu um að tilgangurinn sé sá að takmarka réttindi útlendinga hér, með öðrum orðum mismunun, því að við erum ekki að tala hér á lokuðum fundi, að breyta íslenskum lögum þannig að það yrði alveg gagnsætt að tilgangurinn væri að reisa girðingu? Er hæstv. utanrrh. ekki hræddur um að þeir íbúar Evrópska efnahagssvæðisins erlendis, sem vildu láta reyna á rétt sinn hér, mundu fara ofan í samninginn og segja: Samkvæmt inngangi hans, 1. gr. hans, 3. gr. hans, 4. gr. hans, 40. gr. hans er hér verið að brjóta á mér rétt og ég ætla að sækja hann. Þeir mundu segja: Ég uni því ekki að ég geti ekki fjárfest eins ég ætla mér uppi á Íslandi. Og málið gengur ósköp einfaldlega áfram. Er hæstv. utanrrh. ekkert hræddur um að slíkar girðingar yrðu dæmdar ólöglegar á grundvelli hinna almennu ákvæða og markmiðssetningar samningsins? Ég er ansi hræddur um að menn hljóti að vera þar á mjög þunnum ís. Það hefur vakið athygli mína, t.d. í einu tilviki, að samninganefndarmenn hafa greinilega verið hræddir um að tiltekið fyrirkomulag gæti gengið til dómstóla og þar dæmt ólöglegt, dæmt að það stríddi gegn markmiðum og almennum ákvæðum og grundvallarreglum samningsins. Ég á hér við fyrirkomulag á Norðurlöndunum með áfengiseinkasölu. Menn hafa sagt sem svo að einkasala ríkisins á áfengi hér brjóti engin sérstök ákvæði samningsins. En eitthvað hefur nú komið við menn í þeim efnum, (Gripið fram í.) það er nú gott ef Verslunarráðið er hér með aðrar upplýsingar og formaður efh.- og viðskn. þar á ofan. Það vakti alla vega athygli mína að í rökstuðningi fyrir þeirri sérstöku bókun sem ríkisstjórnir fjögurra Norðurlanda kusu að gera um áfengiseinkasölur, og af einhverjum ástæðum töldu þeir sig knúna til að gera bókun . . .   (Gripið fram í.) Hæstv. utanrrh. verður e.t.v. svo vænn að koma hér upp og skýra það fyrir okkur á eftir hvers vegna ríkisstjórnir Norðurlandanna fjögurra sem ekki eru í EB sáu ástæðu til að gera þessa bókun. Það er skýrt á bls. 96 í greinargerð með frv. Þar segir:
    ,,Til þess að tryggja stöðu sína enn frekar ef til þess kæmi að þetta atriði kæmi fyrir dómstóla hafa Norðurlöndin fjögur, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, gefið yfirlýsingu við samninginn þar sem áréttað er að áfengiseinkasala sé mikilvægur þáttur í stefnu þessara ríkja í heilbrigðis- og félagsmálum.`` ( VE: Svo bættu Austurríkismenn við landbúnaðarmálum.) Það var skynsamlegt hjá þeim enda voru þeir að hugsa um það. Þarna er bersýnilega verið að gefa í skyn, og sá ótti hlýtur að hafa blundað í samningamönnum, að það kynni að reyna á þetta ákvæði fyrir dómstólum og það kynni að fara svo að það yrði dæmt ólöglegt. Til þess að styrkja fyrir fram málflutningsaðstæður sínar setja Íslendingar og hinar Norðurlandaþjóðirnar þrjár í EFTA fram sérstaka bókun þar sem þær ætla að reyna að verja ákvæðið á þeim grundvelli að það sé hluti af heilbrigðis- og félagsmálastefnu í viðkomandi löndum. Spurning mín er þessu skyld. Með hverju ætlum við að verja girðingarnar sem beinlínis mismuna útlendingum varðandi jarðakaup á Íslandi þegar þær ganga fyrir dómstóla? Liggur það ekki í hlutarins eðli, ef tilgangur slíkrar lagasetningar er greinilega að hindra aðgang útlendinga, að hún verður dæmd ólögleg? Hún verður dæmd brot á samningnum af okkar hálfu. Það er það sem ég held vegna þess að því miður undirbyggðu menn ekki stöðu okkar til að halda slíkum sérréttindum okkur sjálfum til handa í landinu. Ég held að hæstv. utanrrh. hafi þar kannski gert mestu mistökin eða fengið þyngsta kjaftshöggið af öllum í þessum samningaviðræðum vegna þess að þetta kann vel að verða banabiti samningsins. Það nægir að vitna í þau viðhorf framsóknarmanna að þetta girðingartal sé úrslitaatriði um þeirra afstöðu. Ef þeim færi nú eins og mér, framsóknarmönnunum sem nenntu að fara ofan í samninginn, og kæmust að þessari sömu niðurstöðu, yrðu þeir þá ekki að greiða atkvæði gegn honum. Ég vænti þess og svo kynni að fara um fleiri. Er það t.d. alveg öruggt mál að þingmenn Sjálfstfl. séu tilbúnir til að kyngja þessum óljósu hugmyndum um girðingar sem enginn hefur útfært hvernig eigi að vera og hvernig eigi að standast ákvæði samningsins. Þetta er, herra forseti, meira og minna skrifað í skýin. Það er í raun og veru furðulegt að standa hér núna í byrjun septembermánaðar 1992 og ræða þetta á jafnóljósum forsendum hvað varðar frammistöðu stjórnvalda og vinnu að þessum málum eins og raun ber vitni. Hvar er frv. hæstv. landbrh. um breytingar á jarðalögum og ábúðarlögum sem á að vera þessi girðing? Það hefur lítið farið fyrir því. Mér er ekki kunnugt um að svo mikið sem uppkast hafi borist landbn. til skoðunar og það er staðfest hér. Samt er viðurkennt að það sé úrslitaatriði a.m.k. eins stjórnmálaflokks um afstöðu hans til samningsins. Það eina sem fyrir liggur sem kallast getur vinna af hálfu stjórnvalda er þessi ágæta skýrsla sem dóms- og kirkjumrh. og landbrh. létu vinna. Hún staðfestir og er rökstuðningur að meira og minna leyti fyrir því sem ég hef verið að segja, að þetta girðingatal er byggt á sandi.
    Herra forseti. Ég ætla þá að ljúka umfjöllun minni um þetta mál og þykir sjálfsagt ýmsum nóg komið. Ég ætla ekki að gera málefni landbúnaðarins að umtalsefni að öðru leyti, m.a. vegna þess að hér bólar lítið á hæstv. landbrh. Það hefur reyndar verið komið inn á nokkur atriði í því sambandi áður af hv. 2. þm. Suðurl. ef ég man rétt, þar á meðal það vafasama orðalag sem lenti inn í texta samningsins hvað varðar réttindi Íslendinga til að leggja á jöfnunargjöld og fleira í því sambandi. Það var að mínu mati til mikillar bölvunar að landbúnaðarmálin skyldu blandast inn í þessar samningaviðræður yfir höfuð. Það gerðist því miður á lokakafla samninganna vegna kröfu Evrópubandalagsins sem eins og kunnugt er var tilkomin af þörf þeirra fyrir að rétta hlut hinna fátækari svæða á suðursvæði Evrópubandalagsins til að auðvelda þeim leið inn á markaði hinna velmegandi EFTA-ríkja með sínar suðrænu landbúnaðarvörur.
    Að lokum, herra forseti, ætla ég að taka hér lítillega fyrir málefni sjávarútvegsins. Ég er þakklátur fyrir að hæstv. sjútvrh. skuli heiðra okkur með nærveru sinni. Ég tek það fram að það sakar auðvitað ekki að hæstv. forsrh. og utanrrh. fylgist með þessu líka. Því hefur verið haldið fram og það má út af fyrir sig til sanns vegar færa að helstu hagsbætur Íslendinga samkvæmt þessum samningi felist í sjávarútvegshlið hans og sumir segja að jafnvel einu hagsbætur Íslendinga, sem mælanlegar eru í einhverjum tölum eða einhverju skipta, liggi þar aðrar en ýmis önnur almenn áhrif sem við gætum sótt okkur sjálfir meira og minna með eigin lagasetningu eða eigin aðlögun að breytingunum í Evrópu. Það má til sanns vegar færa.
    Það er sjálfsagt að byrja á því sem rétt er að í samningsniðurstöðunni felast ákveðnar hagsbætur fyrir okkur Íslendinga í formi tollalækkana og tollaniðurfellingar af sjávarvörum. Það er alveg morgunljóst og því ber enginn maður á móti, hvorki þeir sem eru heittrúaðastir á þennan samning né hinir, a.m.k. ekki ég þó að ég sé gagnrýninn á mjög marga þætti hans að öðru leyti. Þetta atriði er að sjálfsögðu okkur til góðs en við þurfum held ég að varast mjög að ofmeta ávinningana af samningnum á sviði sjávarútvegs og þar með á þjóðarbúskap okkar. Stundum er svo gáleysislega með hlutina farið að það er talað um alla tollaniðurfellinguna brúttó eins og hreina hagsbót okkur til handa rétt eins og við höfum borgað þessa tolla alla saman eins og þeir leggja sig.
    Nú rekur mig ekki minni til að t.d. íslenskir saltfiskframleiðendur hafi þurft að borga með ávísunum tollana niður á Spáni. Ég man ekki heldur eftir því þegar við erum að flytja inn bíla, t.d. ef maður er að kaupa sér japanskan bíl eins og undirritaður ekur á, að Japanir hafi sent mér ávísun fyrir tollinum. Ég hef ekki rekist á það. Þvert á móti hefur það yfirleitt gripið mig þannig að ég þyrfti að borga þennan fjandans toll ofan á kaupverð bílsins. Það sé því ekkert hagsmunamál þeirra hjá Subaru eða Toyotu eða hvað það nú er að þessir tollar séu svona eða hinsegin uppi á Íslandi. Þeir framleiða bílinn og senda hann af stað á ákveðnu verði og svo hleður þetta bara utan á sig á leiðinni. En við skulum samt vera það sanngjörn í umfjöllun um þetta að viðurkenna að auðvitað eru tollaniðurfellingarnar til góða, okkur til hagsbóta, af tveimur ástæðum. Við getum reynt að ná í einhvern hluta af verðinu til okkar, keppa við neytandann um það að ná einhverju af þessu. Hitt er þó kannski ekki síður mikilvægt og það er að lægri tollar og lægra verð á vörunni til neytandans gæti þýtt meiri sölu og það er vissulega jákvætt líka, þýðir sterkari stöðu vörunnar á markaði.
    Það er ekkert fráleitt að mínu mati að fjalla um þetta undir þeim formerkjum og með þeirri þumalputtareglu að skipta ávinningunum til helminga milli framleiðandans og neytandans og segja sem svo: Það er ekki ólíklegt að það fari um það bil þannig að saltfiskkaupendurnir, neytendurnir á Spáni og Ítalíu, fái helminginn og við helminginn, skiptum þessu bara til helminga, og það er ekki verri nálgun en hver önnur. Og hvað erum við þá að tala um mikla fjármuni í þessu sambandi? Eru það slíkar fjárhæðir fyrir íslenskan þjóðarbúskap sem stundum er látið af? Ég held ekki. Það sem við erum að tala um eru kannski um 2 milljarðar kr. í heildartollum, greiddum af útfluttum sjávarafurðum, langmestan hluta þess á Evrópubandalagið. Helmingurinn af því er þá kannski svona 1.000 millj. ef við sættumst nú á það til einföldunar í umræðunni að skipta þessu til helminga milli framleiðenda og neytenda. Það eru ekki stærðir þegar maður ber þær t.d. saman við sveiflur í íslenskum sjávarútvegi, sveiflur í afurðaverði upp á tugi prósenta, jafnvel innan ára, sem skipta í raun og veru sköpum þegar maður ber það saman við allar aðrar breytur í dæminu við stöðugt ástand og að því tilskildu að við fengjum þetta reglulega til okkar. Þá munar vissulega um þetta en eru ekki að mínu mati þær stærðir sem stundum er látið í veðri vaka. Ég geri þó ekki lítið úr því t.d. að þetta mun styrkja stöðu saltfiskframleiðslunnar sérstaklega og það er vissulega af hinu góða, ekki síst í því samhengi að saltfiskverkunin er víða rekin í minni þéttbýlisstöðunum og af ýmsum minni fyrirtækjum vítt og breitt um landið, sem eru mikilvæg í atvinnustarfseminni hver á sínu svæði, og auðvitað margir kostir því samfara að styrkja þá mynd.
    Varðandi ávinninginn af þessum samningi í sjávarútveginum að öðru leyti en því sem nemur hinum beinu tollaniðurfelllingum verð ég að segja eins og er að hversu vandlega sem ég reyni að fara yfir það, þá finn ég ekki mikið satt best að segja. Því er stundum haldið fram að með þessari samningsniðurstöðu séu að opnast einhverjir geysilegir möguleikar, sem áður hafi verið lokaðir, til stóraukinnar fullvinnslu á íslenskum sjávarafurðum. Ég held að það sé misskilningur. Ég held að það sé verulegur misskilningur og að mörgu leyti hættulegur vegna þess að menn taka þetta kannski sem einhver trúarbrögð um að þarna sé bara lausnin fundin, hið stóra ljós í myrkrinu, EES og bara margföldun verðmæta í sjávarvörum. Það er engin margföldun þó að við fáum felldan niður kannski 500 millj. kr. toll af saltfiski. Það er gott í sjálfu sér en það verður engin margföldun í sjávarútvegi.
    Staðreyndin er auðvitað sú að meginkrafa okkar um fríverslun með fisk náðist ekki fram. Í öðru lagi náðist ekki fram tollfrelsi með sjávarafurðir. Það þarf því að semja sérstaklega um hverja nýja tegund og hverja vöru sem ekki er tekið á í samningnum sérstaklega. Í þriðja lagi, og það er kannski neikvæðast af öllu, urðum við að láta eftir 3 þús. tonna veiðiheimildir í íslenskri landhelgi til þess að liðka með einum eða öðrum hætti fyrir þessari samningsniðurstöðu. Það er óþarfi að hafa um það þau orð að með þessu hafi hæstv. utanrrh. brotið það blað í sögunni að hann hafi látið veiðiheimildir fyrir viðskiptafríðindi. Auðvitað blasir við að þetta var af hálfu Evrópubandalagsins úrslitaatriði og það ætti að segja okkur ýmislegt og verða okkur nokkurt umhugsunarefni.
    Ég held að hæstv. utanrrh. ætti líka að kynna sér hvernig fjallað var um þessa samningsniðurstöðu á Spáni og í Portúgal af hálfu viðsemjenda okkar. Hvað töldu þeir sig vera að vinna með þessum 3.000 tonna veiðiheimildum í íslenskri landhelgi? Þeir töldu sig vera að brjóta niður varnarmúr Íslendinga sem enginn hafði komist í gegnum um árabil. Íslendingar höfðu staðið fastir fyrir og harðneitað öllum óskum um veiðiheimildir í íslenskri landhelgi og harðneitað að semja um tollfríðindi fyrir veiðiheimildir. Það er enginn vafi á því að sá ávinningur sem Evrópubandalagið sér í þessu sín megin frá, þ.e. fiskveiðiþjóðirnr sem gera út úthafsflota, er ekki bara þessi 3.000 karfaígildi. Hann er líka sá að brjóta Íslendinga á bak aftur, opna íslensku landhelgina, koma löppinni milli stafs og hurðar. Það er það hættulega í þessu máli. Enda er það svo, sem betur fer, að þegar maður fer út um landið og ræðir við sjómenn, þá hittir maður fjölmarga sem segja ósköp einfaldlega: Þetta er nóg til þess að ég er á móti þessum samningi. Ég vil ekki sjá hann. Ég vil ekki hleypa erlendum flota inn í landhelgina á nýjan leik. Mér er alveg sama hvað er á þessum 10 þúsund blaðsíðum að öðru leyti. Ég vænti þess að einhverjir fleiri en ég hafi rekist á slíka heiðursmenn á bryggju eða um borð einhvers staðar við sjávarsíðuna.
    Svo bætist það auðvitað við, sem verða má mönnum ærið umhugsunarefni í þessu sambandi og er það atriði sem strandar á í samningaviðræðum Íslendinga og Evrópubandalagsins um samskiptasamning á sviði sjávarútvegs, að Evrópubandalagið kýs auðvitað að líta á þetta sem veiðiheimildir, sem þeim er í sjálfsvald sett að nýta eða nýta ekki, ef þeir ekki ná þeim eins og þeim sýnist og rúmast innan samkomulagsins. Það er auðvitað ákaflega sérkennilegt að síðan hafi orðið árangurslausir samningafundir vegna þeirrar kröfu Íslendinga að hér sé um að ræða skipti á veiði en ekki veiðiheimildum.
    Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh., það er nú tilraunarinnar virði, herra forseti, að spyrja ráðherrann einnar beinnar spurningar og hún er þessi: Kemur það til greina að slá af þessari grundvallarkröfu okkar Íslendinga að hér sé um að ræða skipti á veiði sem verði að ganga þannig fyrir sig að fyrst þurfi Íslendingar að veiða þessi 30 þús. tonn af loðnu og þá geti hinir fengið karfa, þ.e. langhalann sem breyttist í karfa á einni nóttu? Það væri fínn titill á ævintýri, snoturri ævintýrasögu ef menn vildu semja ævintýrabók fyrir börnin sín, Langhalinn sem breyttist í karfa. Þetta hjómar eins og ævintýri. Mér finnst það mikilvægt að hæstv. utanrrh. svari því skýrt og skorinort og ætti ekki að gera annað en að styrkja samningsstöðu hans að mæta þarna næst og segja: Ég er með þá yfirlýsingu á bakinu sem ég gaf á Alþingi að það komi ekki til greina að slaka á þessu atriði. Ef hins vegar verður slakað á því, sem er ósk Evrópubandalagsins, þá segir það sína sögu um það hvaða augum þeir líta á þessar veiðiheimildir. Það mundi nefnilega segja meira en mörg orð um það hvernig þeir vilja líta á þessar veiðiheimildir sem fyrsta skrefið inn í íslensku landhelgina. Svo er það annað mál, þessi dæmalausu skipti á loðnu, sem við höfum hvort sem er veitt fyrir ekki neitt, og langhalanum sem breyttist í karfa. Það var í ágætri blaðagrein kallað að greiða sigurlaunin úr eigin vasa þegar þeir komu heim kumpánarnir, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. með þessa niðustöðu.
    Mig langar, herra forseti, að ræða aðeins betur þær óljósu væntingar sem ýmsir binda við stórkostlega þróunarmöguleika í íslenskum sjávarútvegi sem opnist með þessum samningi. Staðreyndin er sú að þegar ég fer að skoða það, þá hef ég ekki komið auga á mjög mikið. Það ætti að ganga betur að selja saltfiskinn okkar og það er gott en einhvern veginn hef ég haft það á tilfinnungunni að hefðbundin saltfiskverkun sé ekki það sem menn hafa aðallega verið að tala um sem stóraukna þróunarmöguleika í íslenskum sjávarútvegi. Vissulega geta verið þróunarmöguleikar þar og eru í gangi svo sem neytendapakkningavinnsla á saltfiski og fleira því um líkt. En lítum aðeins á þetta innan frystingarinnar. Hvernig er staðan þar í dag? Hverju breytir þessi EES-samningur um frystinguna og alla fullvinnslu á frystri vöru á markaði Evrópubandalagsins? Svarið er: Engu. Sú fullvinnsla sem er í gangi í dag og helst er í þróun í landinu er vinnsla á frosnum afurðum í neytendapakkningar og það eru engar tollahindranir í vegi fyrir henni eins og málin standa í dag. Samningsniðurstaðan breytir engu. Frystihúsin á Dalvík, í Hrísey og á Húsavík eru þegar að vinna fisk í neytendapakkningar á frystu formi. Fiskurinn er skorinn niður í smábita, pakkað í plast, fjóra litla bita, rétt upp í nös á ketti í hverja öskju, í fínar umbúðir, verðmerkt, meira að segja þannig að sú vara sem er framleidd á Húsavík er verðmerkt í belgískum frönkum, tilbúin í stórmarkaðina þar. Það þarf ekki einu sinni að verðmerkja hana þegar hún kemur í markaðinn. Henni er hent beint upp í hillu og síðan er henni strokið yfir tölvukassann á leiðinni út og verðmerkingin frá Húsavík gildir. Um þessa vinnslu breytir samningurinn engu. Hvar halda menn að líklegast sé að einhverjir umtalsverðir þróunarmöguleikar í átt til aukinnar fullvinnslu og vinnslu í neytendapakkningar á íslenskum sjávarvörum liggi annars staðar en í frystingunni? Hvaða önnur form vörunnar halda menn að séu líkleg til þess að verða þarna í stórum stíl á ferðinni sem hin endanlega fullvinnsla beint í örbylgjuofninn eða beint í stórmarkaðinn? Ég spyr. Ég held að það verði ekki fersk flök sem þar verða fyrirferðarmest en ég kem þó betur að því.
    Í öðru lagi held ég að menn ættu að spyrja sig þeirrar spurningar hvernig þróunin er í íslenskum sjávarútvegi í dag og hvort hún bendi í þá átt að einhverjar opnanir samkvæmt þessum samningi muni skipta sköpum fyrir okkur á næstu árum. Hvað með þróunina sem helst blasir við mönnum núna, flutning vinnslunnar út á sjó, flutning á veiðivinnslu eða útgerðarháttum frá ísfiskveiðum yfir í frystiskip? Hverju breytir samningurinn fyrir þann flutning? Engu auðvitað því að um tollamál frystu vörunnar er búið eins

og allir vita. Þær fréttir sem við fáum núna einu sinni, tvisvar eða þrisvar í viku um að áform séu uppi um að breyta enn nýjum togara í frystiskip benda ekki beinlínis til þess að þróunin í íslenskum sjávarútvegi sé í þá átt að með niðurstöðu þessa samnings séu að opnast einhverjir stórkostlegir nýir möguleikar. Þvert á móti. Meira og meira af aflanum er að færast yfir í fryst form og um það breytir samningurinn engu. Hver ísfisktogari sem hverfur úr rekstri í stað nýs frystiskips þrengir auðvitað að þeim hluta veiðanna og vinnslunnar sem eftir er á því formi að geta nýtt sér eitthvað samkvæmt þessum samningi.
    Það sem menn helst horfa á í þessum efnum eru fersk flök eða söltuð. Við skulum aðeins fara yfir það og velta því fyrir okkur hvort líklegt sé að í íslenska sjávarútveginum séu þá að opnast með þessum samningi einhverjir stórkostlegir möguleikar sem geti aukið hér verðmætasköpun og vinnu og skili sér í útflutningi á ferskum flökum. Mín niðurstaða er sú að það geti vel orðið um einhvern afmarkaðan og tiltekinn þróunarþátt í íslenskum sjávarútvegi að ræða en hann verði aldrei nema lítið brot af þeirri vinnslu og þeim útflutningi sem við komum til með að stunda. Það verða ekki forsendur til þess að hann verði meiri og hann á að mínu mati ekki að verða meiri vegna þess að menn verða auðvitað að taka fisk úr einhverri annarri verkunaraðferð yfir í hinn ferska útflutning. Hvaðan ætla menn að taka hann? Ætla menn t.d. að draga úr frystingunni og auka í staðinn útflutning á ferskum flökum? Er það það sem þeir ætla að gera? Og er það þá þróun í átt til aukinnar fullvinnslu? Svarið er nei. Það er þróun til baka vegna þess að það er langlíklegast að það sem hér er á ferðinni verði tiltölulega lítt hantéruð flök þar sem fiskinum væri rennt í gegnum eina flökunarvél, í mesta lagi roðflettur og síðan hent á ís og sendur út í kössum. Það er ekki merkileg fullvinnsla. Það er að vísu betra en að senda fiskinn út ísaðan heilan. Ef við værum á sama tíma að draga úr frystingu og fullvinnslu á því sviði, þá er það ekki endilega skref fram á við. Sama á við um það ef við værum að draga úr verðmætustu pakkningum fyrir saltfisk. Ég held því að menn verði að setja hlutina í samhengi og ekki trúa á svona kennisetningar. Í hverju liggja þessir þróunarmöguleikar? Ég held að þeir sem halda ræður um slíkt skuldi okkur útlistun á því. Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Hvar eru tillögurnar? Hvar er stefnumörkunin um það hvernig íslenskur sjávarútvegur á að nýta sér möguleika EES-samningsins? Hvar er áætlunin? Hvar er fjárstuðningurinn til þess að íslenskur sjávarútvegur geti gert það? Hann er hvergi. Ekkert af þessu liggur fyrir. Það eru engar tillögur, það hafa engar tillögur verið mótaðar um það af hálfu ríkisstjórnarinnar, svo að ég viti til, hvernig sjávarútvegurinn á þá að nýta sér þessa möguleika. Það liggur engin skýrsla fyrir, það liggur engin stefnumörkun fyrir. Engir fjármunir hafa verið teknir frá í þessu skyni. Þetta eru ekkert nema innantómar fullyrðingar. Getur það ekki verið að ástæðan fyrir því að forsvarsmenn sjávarútvegsins hafa verið jafnvarkárir í yfirlýsingum sínum og raun ber vitni sé sú að þeir viti hve holt er undir þessari umræðu, að þeir átti sig á því að það gerist ekkert sjálfkrafa í þessum efnum? Það verður engin vinnslubylting í íslenskum sjávarútvegi þó að þessi samningur sé gerður þó að Alþfl. haldi það. Alþfl. ræður sem betur fer blessunarlega litlu um íslensk sjávarútvegsmál og hefur lítið vit á þeim. Þannig er nú það.
    Þegar maður ber þetta t.d. saman við stöðuna þegar Íslendingar gengu í EFTA, þá er það mjög umhugsunarvert. Hverju var ekki haldið fram þá? Að hér yrði stórkostleg bylting í íslenskum iðnaði og við mundum framleiða húsgögn og flytja þau út og þá opnaðist milljónamarkaður. Menn sáu iðnvæðinguna blása út á Íslandi ef við gengjum í EFTA. Þá opnast svo óskaplegir þróunarmöguleikar í íslenskum iðnaði, sögu menn. Það opnast svo geysilegir markaðir. Hvar er þetta í dag? Hvar er húsgagnaiðnaðurinn? Hvar er skógerðin? Hvar er skipasmíðaiðnaðurinn? Hvar er markaðshlutdeild í málningarvöruframleiðslu, sápuframleiðslu, sælgætisframleiðslu o.s.frv. Hvað varð um möguleikana, tækifærin miklu sem áttu að opnast íslenskum iðnaði við inngönguna í EFTA? Þó var sá munurinn að fyrir lá stefna stjórnvalda. Menn lögðu hér mikla peninga í sjóði til að byggja iðnaðinn upp fyrir þessa samkeppni og menn gáfu honum aðlögunartíma til þess að hann gæti staðið sig í þeirri samkeppni sem var í vændum. Samt er niðurstaðan ekki betri en raun ber vitni í fjölmörgum greinum íslensks útflutningsiðnaðar og samkeppnisiðnaðar. Þegar maður svo sér hvað varðar þessa möguleika sjávarútvegsins sem núna eiga að opnast að þá liggur ekkert fyrir af hálfu stjórnvalda í formi stefnumörkunar eða tillagna, í formi fjárstuðnings, í formi einhvers konar áætlunar um það hvernig sjávarútvegurinn geti breytt vinnslu sinni og nýtt sér þessa möguleika, skapað meiri verðmæti og fleiri störf. Þetta eru allt saman góðlátlegar væntingar og vonir skrifaðar í skýin. Ég verð að játa fyrir ykkur, góðir áheyrendur, að ég er því miður ekki meiri bjartsýnismaður en það, og tel ég mig þó vera þokkalega staddan í þeim efnum, að ég fyllist kvíða um að þetta sé ekki sjálfgefið, þetta séu fuglar í skógi en ekki í hendi. Ég tel mig hafa verulega ástæðu til að óttast þetta. Þar nægir auðvitað að nefna eitt til viðbótar þessu öllu og það eru aðstæður íslensks sjávarútvegs til að höndla þessa möguleika. Hvernig stendur greinin til þess að leggja út í nýjar fjárfestingar, gjörbreyta vinnsluháttum sínum, mennta nýtt starfsfólk og sækja fram á nýjum mörkuðum? Hvernig eru aðstæður fyrirtækjanna til að gera þetta í dag? Ég mundi segja að það væru kannski tvö eða þrjú fyrirtæki sem ættu einhverja smámöguleika til að geta þetta, hefðu enn þá lánstraust eða fjármagn til að ráðast í breytingar, gætu eitthvað lagt í markaðssetningu eða þjálfun og þróun nýrra vinnsluaðferða. Staðan er auðvitað sú að greinin er rekin með 14% tapi eða verður það á næsta ári miðað við þann fjárfestingarkostnað sem samtök fiskvinnslustöðva ganga núna út frá, hún skuldar 100 millj. kr. en veltir 75 millj. Þá geta menn aðeins gert sér í hugarlund hvernig aðstæður manna eru til þess að nýta þessa möguleika.
    Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. komi hér inn í þessa umræðu og fari yfir

það hvernig þeir hugsa sér að íslenskur sjávarútvegur standi undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar í þessu sambandi, að nýta sér einhver stórkostleg sóknarfæri til aukinnar verðmætasköpunar og framleiðni á grundvelli þessa samnings. Hvar er áætlunin, hæstv. sjútvrh.? Liggur hún í því að breyta Guðbjörginni í frystiskip, Sléttanesinu í frystiskip, Otto Wathne í frystiskip o.s.frv.? Liggur hún kannski í því að setja sjávarútveginn á Íslandi á hausinn eins og er verið að gera? Telja menn að upp úr rústunum rísi þessi öflugi atvinnuvegur sem nýtir sér alla þessa þróunarmöguleika?
    Það bjuggust ýmsir við tíðindum frá Bolungarvík í dag en þau komu ekki sem betur fer, a.m.k. ekki í dag og vonandi ekki allra næstu daga. Er það þannig sem þetta á að gerast? Ég spyr. Mér er sagt að í Alþfl. séu það alger og óumdeild trúarbrögð að það muni renna upp slík gullöld og gleðitíð í sjávarútveginum um leið og samningurinn gengur í gildi að annað eins sé fáheyrt. Verðmætasköpunin muni margfaldast, svo og vinnslan og atvinnan. Gengur nú hér í salinn hv. alþm. sem mun hafa flutt um þetta hjartnæma ræðu. ( Gripið fram í: Og leiðari Alþýðublaðsins í dag.) Mikil ósköp, ekki þarf nú að nefna það. Alþýðublaðið er náttúrlega heltekið af þessari trú. ( Gripið fram í: Þú ert ekki búinn að lesa leiðarann enn þá.) Það er auðvitað mjög ánægjulegt að menn eru bjartsýnir og ég er ekki að lasta góða trú manna. En það þurfa að vera innstæður fyrir henni. Mér duga ekki almennar væntingar hvort sem þær eru í leiðurum í Alþýðublaðinu eða annars staðar. Ég vil fá að sjá rökin. Ég vil fá að sjá eitthvað handfast i þeim efnum. Ég hef ekki séð það enn þá hvað íslenskan sjávarútveg snertir, því miður. Þvert á móti óttast ég margt í sambandi við örlög hans í þessari nýju og hörðu samkeppni á komandi árum. Ég tel að mörgum spurningum sé ósvarað um það að honum vegni yfir höfuð betur í hinu nýja umhverfi EES-samnings en honum hefur áður gert. Eina greinin sem ég er nokkuð sannfærður um að hann muni njóta góðs af og styrki er saltfiskverkunin. Það situr síst á mér sem hóf mína launavinnu í saltfiski, að haka salt hér í gamla daga, að lasta það. (Gripið fram í.) Er aldrei að vita nema ég bregði mér aftur í það. Það verður a.m.k. frjórra en að sitja hér á Alþingi þegar búið er að svipta þessa stofnun öllu sjálfræði og senda til Brussel. Ég er ekki viss um, hv. þingflokksformaður Alþfl., að ég hafi þá áhuga á því að sitja hér mikið lengur. En þetta er nú svona.
    Ég leyfi mér að halda því fram að ástæðan fyrir því að forsvarsmenn íslensks sjávarútvegs hafa verið mjög varkárir í yfirlýsingum um þetta mál og drógu það ákaflega lengi við sig að gera svo mikið sem að lýsa yfir stuðningi við sjávarútvegsþátt málsins sé sú að þar á bæ átti menn sig á því að þetta er ekki eins einfalt og Alþfl. heldur, að það sé bara hægt að smella fingrum og segja EES og íslenskur sjávarútvegur sé þar með kominn á sóknarbraut. Málið liggur reyndar þannig enn þann dag í dag að ekki er fyrir hendi fyrirvaralaus stuðningur samtaka í sjávarútvegi við þennan samning og eru þeir þó bara að horfa á sjávarútvegshliðina. Ég hef ekki trú á því að þeir hafi stórfelldar áhyggjur af því hvort útlendingar kaupi hér laxveiðijarðir eða hrossakot. Ég held að það valdi þeim ekki andvökum. Þeir eru fyrst og fremst að skoða sjávarútveginn, útkomu hans úr þessu máli. Og ég spyr: Ef hún er ekki glæsilegri en svo að þeir treysta sér ekki til að lýsa yfir fyrirvaralausum stuðningi við málið hvernig lítur þá pakkinn út í heild sinni? Mér finnst von að spurt sé.
    Mig langar til að nefna nokkur atriði í viðbót, herra forseti, sem eru óskylds eðlis eftir að ég hef lokið umfjöllun um öryggisákvæðin, jarðakaupin og sjávarútveginn. Það fyrsta eru ummæli hæstv. utanrrh. um að það sé hlutverk dómstóla eða Hæstaréttar að skera úr stjórnarskráróvissu varðandi EES-málið. Ég verð að segja alveg eins og er að þó ég hafi nokkurt dálæti á hæstv. utanrrh. og telji hann vaskan mann og honum ýmislegt vel gefið, þá hef ég mína fyrirvara gagnvart honum. ( Gripið fram í: Frambærilegur.) Hann hefur reynst nokkuð frambærilegur. En hann er líka brokkgengur. Nú er það þannig að þeir sem þekkja eitthvað til hesta vita að brokkgengir hestar geta verið ágætir en það þarf að siða þá dálítið til og hafa taumhald á þeim. Af ýmsu heldur göróttu sem hæstv. utanrrh. bar á borð fyrir okkur í framsöguræðu sinni hér tel ég þó að málsvörn hans hafi verið langverst í tveimur tilvikum. Það er þegar hann ræddi stjórnarskrármálið og þjóðaratkvæðagreiðslumálið. Það sem vakti sérstaka athygli mína var þegar hæstv. utanrrh. virtist snúa sig frá því að ekki væri ástæða til að breyta stjórnarskránni. Hann sagði: Það er sjálfsagt að reyna að eyða óvissunni eins og hægt er en síðan er það hlutverk dómstólanna að skera úr um það. Hvað er maðurinn að segja með þessu? Hvað er hæstv. utanrrh. að segja um samninginn með þessu? Hann er í grófum dráttum að segja að hann sé tilbúinn til þessa að skella okkur Íslendingum inn í þá hrikalegu óvissu sem því væri samfara að efasemdunum varðandi stjórnarskrárþáttinn, það hvort samningurinn stæðist stjórnskipunina, yrði bara vísað til dómstóls og svo sætu menn eða stæðu með öndina í hálsinum í eitt eða tvö ár og biðu eftir niðurstöðu af því hvort þetta væri löglegt eða ekki. Er það virkilega svo að hæstv. utanrrh. sé tilbúinn til þess að kalla þessa réttaróvissu yfir menn? Við skulum aðeins fara yfir það hvernig þetta gæti gerst.
    Það gæti í grófum dráttum gerst þannig að íslenskt fyrirtæki fengi orðsendingu frá eftirlitsstofnun eða það yrði dæmt í sektir eða með öðrum hætti yrði fyrir valdi hinnar erlendu stofnunar sem öðlast hefur lögsögu á Íslandi. En íslenska fyrirtækið segði nei. Ég uni þessu ekki, ég ætla ekki að borga þetta, ég ætla ekki að beygja mig undir þetta vegna þess að ég tel að lögsaga hins erlenda aðila sé ólögleg, að hún standist ekki stjórnarskrána á Íslandi og þess vegna uni ég ekki niðurstöðunni. Fyrirtækið fer svo með málið fyrir dóm. Hvað gerist ef Hæstiréttur Íslands, mínus Þór Vilhjálmsson væntanlega sem vonandi mundi átta sig á því að hann væri nú ekki fullkomlega hæfur í málinu, dæmir svo að lögsaga hins erlenda aðila standist ekki stjórnarskrána? Þar með þurfi hinn íslenski aðili ekki að beygja sig undir úrskurð eða dóm þess. Hvað gerist? Málið er allt í uppnámi og eins og lögfræðingar hafa orðað það mundi það skapa slíka réttaróvissu hér að önnur eins hefði aldrei þekkst. Maður hlýtur að spyrja sig: Er það virkilega svona sem hæstv. utanrrh. sættir sig við að eyða vafanum? Er hann tilbúinn í þetta eða hvernig átti að skilja orð hans hér um að það væri hlutverk dómstóla að eyða þessari óvissu að svo miklu leyti sem það væri ekki gert fyrir fram með einhverjum æfingum af því tagi sem hann hefur viðhaft, að kalla til fjóra menn og láta þá skrifa skýrslu?
    Auðvitað getur það ekki orðið niðurstaða Alþingis að svona eigi að eyða óvissunni. Alþingi getur ekki sjálfu sér samkvæmt gengið þannig frá málinu. Alþingi hlýtur að eyða óvissunni. Alþingi hlýtur að sjá til þess að þetta stóra mál fari ekki héðan fyrr en það er þá öruggt og alveg pottþétt að slík óvissa og upplausn skapist ekki á síðari stigum málsins. Hvernig gerir Alþingi það? Með því að breyta stjórnarskránni, ef það telur það vissara, til að taka af allan vafa um að það fái ekki málið í hausinn aftur. Er ég þó eingöngu að fjalla um hina tæknilegu hlið málsins og þá sem snýr að þolendum úti í þjóðfélaginu og sleppi því að halda einhverja hjartnæma ræðu um eiðinn sem við höfum allir samþykkt o.s.frv. Það hafa aðrir gert og farist miklu betur en mér.
    Þessi furðulegu orð hæstv. utanrrh. urðu mér verulegt umhugsunarefni og af því að hæstv. dómsmrh. er hér væri fróðlegt að heyra hans viðhorf í þessum efnum. Er hæstv. dómsmrh. sammála því viðhorfi utanrrh. að þetta sé sniðug leið til að láta útkljá vafaatriði varðandi stjórnarskrána?
    Aðrir hafa, eins og ég hef áður sagt, rætt ítarlega um stjórnarskrárþáttinn og líka það hvort þetta stóra mál skuli borið undir dóm þjóðarinnar. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um það. Ég verð bara að segja, eins og ég hef sagt áður, að mér finnst það vera talsverð mótsögn í málflutningi eins og hæstv. utanrrh. a.m.k. og fleiri menn hafa hér að mínum dómi gert sig seka um, að koma í öðru orðinu og segja að þetta sé stærsti samningur sem lýðveldið Ísland hafi nokkurn tímann gert, að þetta sé mikilvægasta mál sem við höfum staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum og jafnist helst við gamla sáttmála hvað örlög þjóðarinnar snertir, og segja svo í hinu orðinu að það sé engin ástæða til að bera þetta undir dóm þjóðarinnar. Samrýmist þetta mjög vel ef þetta er stærsta mál sem Íslendingar hafa tekið til umfjöllunar á lýðveldistímanum? Er þá ekki meiri ástæða til að bera það undir dóm þjóðarinnar en nokkur önnur úr því það er svona stórt? Ég er ekkert að draga úr því að það er stórt og mikilvægt.
    Þeir hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa látið ýmis málblóm falla þegar þeir hafa fjallað um þessi þjóðaratkvæða- og stjórnarskrármál. Hæstv. forsrh. sagði t.d. að þetta væri ekki heppilegt mál til að leggja fyrir þjóðina. Ég vil gjarnan heyra hæstv. forsrh. útskýra með dæmum hvað séu heppileg mál til að bera undir þjóðina. Eru það svona lítil og snotur og heppileg mál, hæstv. forsrh.? Sem sagt ekki þetta. Hvernig eru þessi heppilegu mál sem er hægt að bera undir þjóðina?
    Hæstv. forsrh. mun líka hafa sagt að lítt hugsuðu máli í útvarpsviðtali að það væri svona og hinsegin ef þjóðin kæmist með puttana í málið. (Gripið fram í.) Er þetta ekki rétt, eða hvað sagði hæstv. forsrh. nákvæmlega? Það er rétt að hann komi þá og útskýri það. ( Gripið fram í: Fingurna.) Fingurna, það er mikill munur á puttum og fingrum í mínum huga. En alla vega hafa þessi ummæli hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. vakið nokkra athygli í landinu. Þjóðin er nefnilega dálítið upptekin af þessu máli núorðið að mínu mati og fylgist nokkuð með fjölmiðlaumfjöllun um það eftir atvikum eins og hún á kost á. Það fer ekki hjá því að viðhorf hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. til þjóðarinnar, eins og það birtist í þeirra afstöðu, varðandi stjórnarskrárþáttinn og þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað er hæstv. utanrrh. að segja þegar hann talar um að þjóðin sé ekki nógu vel upplýst um þetta mál til þess að réttlætanlegt sé að leggja það í dóm hennar? Þetta eru alvarleg orð. Annað tveggja er að hæstv. utanrrh. telji þjóðina ekki hafa haft aðgang að upplýsingum, ekki hafa haft forsendur til að kynna sér málið eða hitt að hann treystir ekki dómgreind hennar, telur hana ekki færa um það. Hvort tveggja er jafnalvarlegt. Ef þjóðina vantar upplýsingar þá þarf að koma þeim á framfæri, gera þær aðgengilegar. Hinu mótmæli ég og neita að trúa að jafnmætur maður og hæstv. utanrrh. á margan hátt er hafi ekki meira álit á dómgreind Íslendinga en þetta.
    Getur verið að þrátt fyrir vísbendingar úr skoðanakönnunum um að meiri hluti þjóðarinnar sé andvígur þessu máli og þrátt fyrir þau fjölmörgu lögfræðiálit sem komið hafa fram, þar sem verulegar efasemdir eru settar fram, ef ekki beinlínis fullyrt að málið standist ekki stjórnarskrána, þá ætli stjórnarmeirihlutinn að keyra þetta mál í gegn og daufheyrast við hvoru tveggja, óskum manna um lögformlega afgreiðslu á þessu máli með stjórnarskrárbreytingum og því að þjóðin fái að segja sitt álit. Er það virkilega þannig að þessir þingmenn, sem sitja á þingi og styðja ríkisstjórnina, treysti sér til að axla ábyrgð í þessu stærsta máli lýðveldistímans og gera það með þessum hætti undir bullandi ágreiningi um það hvort málið sé í raun og veru þingtækt þar sem það stangist á við stjórnarskrána og þrátt fyrir eindregnar óskir sameinaðrar stjórnarandstöðunnar, studdar þúsundum og tugþúsundum landsmanna, studdar vísbendingum og skoðanakönnunum, eigi að troða þessu máli hér í gegn, mér liggur við að segja á nokkrum mánuðum og skella skollaeyrunum við öllum óskum, réttmætum og rökstuddum?
    Ég verð að segja eins og er að það er ekki mikil reisn yfir því. Það er væntanlega ekki sú glæsta afgreiðsla á málinu sem hæstv. utanrrh. hefur í villtustu draumum sínum látið sér detta í hug að hann fengi hér á þingi. Að berja menn til þess, að troða þessu hér í gegn undir bullandi ágreiningi um það hvort það sé tækt gagnvart stjórnarskránni og daufheyrast við óskum tugþúsunda Íslendinga um að málið verði borið undir þjóðaratkvæði.
    Þegar svo er komið, eins og gerðist hér fyrir nokkrum dögum, að þeir menn úr stjórnarliðinu sem hafa leyft sér að setja fram efasemdir í þessum efnum úr og vilja að varlega sé farið, eru afhöfðaðir, eru settir frá, þá fer nú að harðna á dalnum. Hvaða ástæður aðrar höfðu menn til að setja af fyrrum formann utanrmn., sem hefur með langan og mikinn orðstír að baki hvað varðar utanríkismál og þjóðréttarmál okkar Íslendinga, aðrar en þær að hann hafði leyft sér að tala af þó nokkurri virðingu um íslensku stjórnarskrána og taka af tvímæli um að hann vildi fara varlega gagnvart henni.
    Ég trúi því auðvitað ekki enn að svo mikil sé fylgispekt allra þingmanna stjórnarliðsins við sína húsbændur, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., að menn taki frekar áhættuna af því að gerast stjórnarskrárníðingar en að fylgja sannfæringu sinni. Ég trúi því ekki enn og ætla að bíða með það alveg þangað til það verður orðið hér að dapurlegri niðurstöðu að gefa mér slíkt.
    En mér finnst það satt að segja harla léttúðugt hvernig á köflum hefur verið fjallað um þá þætti málsins og lítil reisn yfir því svo ekki sé meira sagt. Væri ekki meiri manndómur í því fólginn af hálfu hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. að leggja sjálfa sig undir í þessu máli, að setja það í þjóðaratkvæði, að standa fyrir þeirri kynningu meðal þjóðarinnar á málinu sem menn treystu að væri fullnægjandi til að hún gæti myndað sér heilbrigða skoðun í þessu sambandi? Ef menn eru jafnsannfærðir um ágæti samningsins og þeir láta ættu þeir ekki að óttast að málið verði kynnt fyrir þjóðinni, eða hvað? Eða hvað er það sem menn eru hræddir við? Er það hugsanlega það að menn hafi svo mikla ást á ráðherrastólunum tíu við útvegginn, stólunum sem menn sitja sjaldan í og þeim tveimur til þremur árum sem þeir gætu húkt í þeim lengur, að þeir daufheyrast við öllum óskum um lýðræðislega afgreiðslu á þessu máli, stjórnarskrárbreytingu og þjóðaratkvæði?
    Að sjálfsögðu væri hægt að ná um það samkomulagi að þannig yrði staðið að báðum málum eða öðru hvað tímasetningu snertir að það gæti allt saman gerst á tilskildum tíma. Yrði það vilji meiri hluta þjóðarinnar að samþykkja samninginn eða yrði það niðurstaða manna að stjórnarskrárbreyting þyrfti að fara fram, yrði hvort tveggja gert með þeim hætti að eftir sem áður gæti Ísland orðið aðili að samningnum. Það er enn nægur tími til stefnu í þeim efnum. Ég er sannfærður um að stjórnarandstaðan er fyrir sitt leyti tilbúin til samninga við hæstv. ríkisstjórn um slíkan framgangsmáta ef vilji er fyrir hendi.
    Herra forseti, og ég er alveg að ljúka máli mínu svo forseti þarf ekki að lemja meira í bjölluna. Ég veit að það á að fara að taka fyrir nýtt mál eins og venjulega þegar ég er að tala. Þá er umsvifalaust rokið til og sett nýtt mál á dagskrá og allt í lagi með það. --- En ég er alveg sannfærður um það og ætla að hafa það mín síðustu orð að stjórnarandstaðan er tilbúin til að stuðla að samkomulagi um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og/eða stjórnarskrárbreytingar. Ég a.m.k. fyrir mitt leyti býð slíkt fram. Að allra síðustu er það svo þannig, hæstv. forsrh., að þjóðin þín, þjóðin okkar, mun auðvitað una niðurstöðunni með allt öðrum hætti ef hún hefur verið ákvörðuð í lýðræðislegri kosningu. Auðvitað er það besta, heiðarlegasta og traustasta aðferðin til að afgreiða þetta örlagaríka mál, að gera það á þann hátt sem lýðræðið gerir ráð fyrir þegar mikinn vanda ber að höndum, að meiri hlutinn ráði.