Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 18:02:00 (184)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það væri mjög margt sem svara þyrfti í þessari löngu ræðu hv. þm. Ég vil aðeins víkja að einu atriði vegna þess að þingmaðurinn hélt því fram að bæði ég og hæstv. utanrrh. hefðum látið ógætileg orð falla í garð þjóðarinnar. Það var auðvitað ekki svo og hefur ekki gerst og er rangt hjá honum. Hann nefndi það sérstaklega að ég hefði fundið að því ef svo kynni að fara að þjóðin fengi að fara með puttana í málið. Þegar ég sagði þá setningu var ég að fjalla um tillögu eða frumvarp, sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa flutt hér, frumvarp sem gengur út á það að auðvelda þinginu afsalið á fullveldisrétti landsins, hvers konar fullveldisrétti landsins. Ég sagði einmitt þá að með þeim hætti, ef menn þyrftu að skerða fullveldisrétt landsins og vildu það, þá þyrfti ekki lengur, ef þetta væri orðið að lögum í stjórnarskrá, að grípa til þess úrræðis að breyta stjórnarskránni, efna til kosninga og samþykkja stjórnarskrárbreytingu á nýjan leik. Með þeim hætti kæmist þjóðin ekki með puttana í málið, með þeirri tillögu sem þið, hv. stjórnarandstæðingar, hafið lagt fram. Það er nefnilega hárrétt hjá hv. 9. þm. Reykv. að stjórnarskrárgjafinn er annar og hinn almenni löggjafi er annar. Þrátt fyrir að þingið greiði atkvæði í bæði skiptin þá eru kosningar á milli, það er kostur á nýjum þingmönnum til að fjalla um málið ef þjóðin kýs. Með frumvarpi ykkar er verið að koma í veg fyrir það að hinn almenni stjórnarskrárgjafi, sem hv. 9. þm. Reykv. vitnaði til og vitnaði í bók Ólafs Jóhannessonar, komist að málinu. Það var það sem átt var við þegar puttarnir voru nefndir sérstaklega. Ég bið þingmanninn að fara rétt með það, það er mikilvægt.