Fíkniefnavandinn

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 18:19:46 (194)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál til umræðu hér á hinu háa Alþingi. Það er vissulega rétt sem fram kom í hans máli að hér er um að ræða eitt af mikilvægustu viðfangsefnum sem stjórnvöld, heimili og skólar í landinu þurfa að takast á við. Það er rétt að hér er við alvarlegan vágest að etja sem þjóðin öll þarf að takast á við með sameiginlegu átaki. Það er eðlilegt að menn beini augunum einkanlega að þætti lögreglunnar í þessu máli. Hann er mjög mikilvægur og getur skipt sköpum í þessari baráttu en við náum aldrei tökum á þessari baráttu nema með mjög víðtæku samstarfi lögregluyfirvalda, forvarnastarfi, fræðslustarfi í skólum og umhyggju á heimilum og leiðbeiningum foreldra. Allt þetta mun ráða úrslitum í þessari baráttu.
    Að því er varðar spurningu hv. þm. um það hvort fjárveitingar verði auknar til lögreglunnar vegna fíkniefnarannsókna þá geri ég fyllilega ráð fyrir því að hv. þm. sé kunnugt að það er ekki unnt að greina frá því hverjar verða tillögur einstakra ráðuneyta í tilteknum verkefnum fyrr en fjárlagafrv. verður lagt fram. Það er regla sem ég veit að hv. þm. er kunnugt um.
    Hann spurði sérstaklega um það hvort ekki væri ástæða til þess að tollgæslan fengi hund til notkunar. Það er rétt að minna á að hún hefur fengið hund og tollgæslumenn hafa verið sérþjálfaðir við notkun hans.
    Að því er varðar spurningu um þyngri refsingar þá hygg ég að refsilöggjöfin sjálf hafi að geyma býsna víðtækan refsiramma. Hitt er svo alltaf matsatriði hversu þungir dómar eru kveðnir upp innan þessa ramma sem refsilöggjöfin kveður á um og dómarar verða að meta í hverju tilviki.
    Í Reykjavík starfar sérstök deild lögreglumanna. Þar eru 14 lögreglumenn sem vinna að rannsókn og forvarna- og fræðslustarfi í þessu efni. Þeir hafa landsumboð og geta komið lögregluliði annars staðar á landinu til aðstoðar ef þörf krefur. Sums staðar úti á landi starfa lögreglumenn sem hafa fengist við þessi viðfangsefni. Því miður koma þau víðast hvar upp og er þess vegna nauðsynlegt að skipuleggja þessi mál með það í huga að þau eru ekki bundin við höfuðborgina eða þéttbýlið eitt. Segja má að þessi deild lögreglunnar sé eina deild lögreglunnar í Reykjavík sem hefur vaxið á undanförnum árum. Það er rétt að fjárveitingar til lögreglumála hafa verið hlutfallslega skornar niður með því að þær hafa staðið í stað um nokkurra ára bil. Lögreglan hefur leyst sívaxandi verkefni með aukinni hagræðingu en á sama tíma og dregið hefur verið saman á öðrum sviðum löggæslustarfseminnar hefur tekist að auka umsvif fíkniefnalögreglunnar og nú starfa við hana hlutfallslega jafnmargir og við sambærilegar deildir í höfuðborgum annarra Norðurlanda. Eigi að síður má hyggja að ýmsum umbótum á þessu sviði og atriðum sem lúta að því að styrkja þessa deild.
    Ég ákvað á sl. vetri að hefja skoðun á skipulagi löggæslunnar í landinu og skipaði sérstaka nefnd í því skyni sem jafnframt hefur það sérstaka verkefni að endurskoða lög um lögreglumenn. Þessi nefnd hefur m.a. fjallað um það hvernig fíkniefnarannsóknum verður best fyrir komið. Það hefur komið til álita hvort skynsamlegt gæti verið að hin stærri afbrotamál á þessu sviði heyrðu undir Rannsóknarlögreglu ríkisins en lögreglan í Reykjavík og annað lögreglulið hefði með höndum minni afbrotamál af þessu tagi. Hér er um nokkuð flókið úrlausnarefni að ræða en er eitt af þeim atriðum sem eru til athugunar. Ég vænti þess að endurskoðun á skipulagi löggæslunnar í landinu verði lokið nk. áramót og að hún muni leiða til enn meiri styrkingar á löggæslustarfinu.
    Ýmis önnur atriði, frú forseti, koma hér til álita. Fyrir milligöngu ræðismanns Íslendinga í Flórída er að komast á samband við lögregluyfirvöld í Flórída og ætlunin er að njóta leiðsagnar sérfræðinga í fíkniefnarannsóknum og fíkniefnaafbrotum til þess að styrkja löggæslustarfið hér enn frekar. Fyrir nokkrum mánuðum var samstarfsnefnd ráðuneyta í þessum efnum endurskipulögð og komið á fastara form með því að formennska hennar heyrir nú undir menntmrn. en fór áður á milli þeirra ráðuneyta sem hér eiga hlut að máli. Ég vænti þess að það muni koma meiri festu á starf þeirrar nefndar.