Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 20:54:24 (210)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Enn á ný verð ég að byrja ræðu mína á fyrirspurn. Ég þakka fyrir það að brugðist var skjótt við og gengið frá því af forseta hálfu að hæstv. utanrrh. væri hér. Jafnframt þá er ég alveg sátt við það að hafa hæstv. sjútvrh. í stað hæstv. forsrh. þar sem ég á í minni ræðu frekar erindi við hann og tel það jafnvel afskaplega góð skipti. Mig langar einungis til að fá að vita hvort eða hvenær er að vænta komu hæstv. sjútvrh. Fyrst á annað borð er verið að kalla hann af fundi á Selfossi vegna óskar minnar þá vil ég að sjálfsögðu að það nýtist á þann hátt að hann verði hér við ræðu mína. Það er einungis ein og hálf blaðsíða fram að þeim kafla í ræðu minni er ég fer að fjalla um sjávarútvegsmálin. Ég get að sjálfsögðu byrjað á þeim ef það er betra. ( Forseti: Forseti leggur til að hv. þm. hefji nú sína ræðu og sjáum svo til hvernig gengur þegar hv. þm. hefur flutt þessa eina og hálfu blaðsíðu. Með bjartsýni má búast við því að hæstv. sjútvrh. verði jafnvel kominn þegar svo langt er komið í ræðu hv. þm.) Gott og vel, ég er kannski ekki fyllilega sátt við þetta en ég skal ekki flækja málið að svo stöddu meira og hef nú mál mitt.
    Virðulegi forseti. Frelsi og fiskur skipta íslensku þjóðina miklu máli. Fiskurinn er og verður undirstaða frelsis okkar og sjálfsforræðis á meðan allt að 80% útflutningstekna Íslendinga eru vegna sjávarfangs. Til þess að geta selt fisk þarf ekki einungis, eins og málsvarar EES-samninga segja, að fá lækkaða á honum tolla til nokkurra mikilvægra viðskiptalanda. Það þarf líka að hafa fullt forræði yfir fiskimiðum okkar og að sjálfsögðu að nýta það forræði skynsamlega.
    Þetta veit íslenska þjóðin þótt hún viti ekki deili á stafasúpunni EES, EB, EFTA eða VES þá veit hún að stjórnarskrána ber að virða og fiskimiðin þarf að vernda. Það kom glöggt í ljós í þeirri könnun sem gerð var nýverið fyrir utanrrn. og við höfum mörg hver haft undir höndum. Við megum raunar gjarnan hafa það hugfast að það er ekki svo ýkja mikill munur á aðild Íslands að EES og EB t.d., en það er mjög mikill munur á því hvort við höfum fullt forræði yfir landhelgi okkar eða ekki. --- Ég verð að fá að skjóta því

inn að mér þykir snögglega hafa verið brugðist við og fagna að sjálfsögðu komu hæstv. sjútvrh. (Gripið fram í.) Við skulum ekki flækja málið enn þá meira með því að blanda dómsmálum inn í þetta.
    Ég vil, hæstv. ráðherra, til upplýsingar geta þess að ég byrjaði mál mitt á því að benda á að frelsi og fiskur skipta íslensku þjóðina miklu máli og ég geri ráð fyrir að hann sé mér sammála um það.
    Það er áreiðanlega ekki tilviljun að í þessari könnun eru býsna margir Íslendingar sem óttast það að ef Íslendingar verða þátttakendur í EES missum við stjórn á fiskveiðum. Í könnuninni kemur raunar fram að 31,4% þeirra sem spurðir voru óttast það mikið. 30,6% óttast það nokkuð. Þarna erum við komin yfir 60%. Einungis 9,4% óttast það lítið og 28,6% óttast það ekki neitt. Þetta er auðvitað feikilega mikið og ekki síst fyrir það að af þeim sem spurðir voru tóku 94,7% afstöðu. Það út af fyrir sig er töluvert mikið meira en í flestum öðrum spurningum hér. Þetta er greinilega mál sem brennur mjög á fólki og svo sannarlega ekki að ástæðulausu. Ég verð raunar að viðurkenna að þessi umræða, sem er áreiðanlega mjög nauðsynleg, er ekki komin upp af fullum krafti enn þá. Er okkur e.t.v. um að kenna sem höfum verið að sinna mjög mikilvægu máli, þ.e. stjórnarskrármálinu.
    Ég ætla ekki að skorast undan því að segja nokkur orð um stjórnarskrármálið þótt ég hafi sem betur fer fleiri með mér í því. Innan þingflokks Kvennalista er verkaskipting og hún er á þann veg að ég hef sérstaklega velt fyrir mér sjávarútvegsmálunum og sett stjórnarskrárumræðuna meira og minna í annarra hendur. Það þýðir hins vegar ekki að ég hafi ekki skoðun á málinu. Ég ætla að leyfa mér að geta hennar hér í þessari umræðu.
    Ég tel, eins og ýmsir ræðumenn, og að maður tali nú ekki um virta fræðimenn að EES-samningurinn stangist á við stjórnarskrána. Rökin hafa öll komið fram í þessari umræðu og vil ég aðeins bæta því við að framsal valds í hendur yfirþjóðlegra stofnana er í mínum huga hvorttveggja í senn brot á stjórnarskrá og jafnframt alvarlegur gerningur sem gerir það erfiðara fyrir hvern einstakling að nálgast og skilgreina yfirvaldið sem ræður mörgum mikilsverðum þáttum í lífi hans. Ég vil ekki síður leggja áherslu á síðara atriðið. Mér finnst í rauninni ekki þurfa að ræða það fyrr, það ætti að vera svo augljóst að við brjótum ekki stjórnarskrána.
    Varðandi fyrra atriðið verð ég að viðurkenna að mér finnst það hreint óskiljanlegt að láta sér detta í hug að stjórnarskráin sé slíkt plagg að það sé allt í lagi að athuga hvort hún haldi, svona eins og öryggisnet. Það á að stökkva niður og athuga hvort netið haldi eða ekki. Og bíða svo eftir úrskurði dómstóla og breyta stjórnarskránni á eftir ef þessir dómstólar sýna fram á að stjórnarskrárbrot hafi verið framið. Ég fagna sjálfsögðu nærveru hæstv. dómsmrh. núna í þessari umræðu, sem kom með sjútvrh.
    Það hefur komið fram að jafnvel fjórmenningar utanrrh. loka augunum ekki fyrir því að sú gæti orðið niðurstaða dómstóla að samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrána. Við getum ekki leyft okkur að vanvirða stjórnarskrána og gera hana að tilraunaplaggi. Ég er þeirrar skoðunar að enga ákvörðun megi taka, rétta eða ranga, nema hún standist stjórnarskrá. Því finnst mér einboðið að fyrst verði að breyta stjórnarskránni og síðan að láta reyna á það hvort framselja eigi vald til EES. Það er að mínu mati ekki fýsilegur kostur og það er fleira en eitt sem veldur því enda hef ég enga trú á að þrír fjórðu hlutar þingheims séu reiðubúnir til slíks eins og nauðsynlegt væri ef frumvarp stjórnarandstöðunnar um stjórnarskrárbreytingu verður að lögum. Það vita stjórnarsinnar og því leita þeir býsna langt eftir rökum gegn hinni sjálfsögðu kröfu okkar.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta en vil þó að láta það koma hér fram að ég tel alls ekki forsvaranlegt að ljúka þessu máli um inngöngu Íslands í EES eða því að hafna inngöngu í EES án þess að spyrja íslensku þjóðina álits. Ég mun væntanlega fá tækifæri til að fjalla nánar um það er tillaga þess efnis frá stjórnarandstöðunni verður tekin til umfjöllunar.
    Eins og þegar hefur komið fram hef ég hugsað mér í þessari ræðu að einbeita mér að því sem ég tel alvarlegast nú, þ.e. að með EES-samningunum afsölum við okkur bæði frelsi og forræði yfir stjórn landsins og ekki síður yfir fiskimiðunum. Ég hef efasemdir um að við höfum rétt til þess. Ég held að það alvarlegasta sem við erum nú að fjalla um séu hinar fyrstu veiðiheimildir Evrópubandalagsþjóðanna. Táknrænar veiðiheimildir geta að mínu mati í framtíðinni reynst okkur mjög hættulegar.
    Ég átti þess kost í gærmorgun að spjalla við nokkra þingmenn á Evrópuþinginu og í huga þeirra, sem ég ræddi við, var ekki nokkur vafi á því að fast yrði þrýst á Íslendinga að afsala sér frekari veiðiheimildum til Evrópubandalagsins þegar við værum orðin aðilar að EES. Þessu getum við sneitt hjá með því að hafna aðild að EES. Þegar við erum komin inn í EES er ég hrædd um að samningsstaða okkar verði önnur og verri. Þessir þingmenn Evrópuþingsins eru svo sannarlega ekki þeir einu sem ég hef heyrt lýsa þessari skoðun og því miður er ég hrædd um að sú skoðun sé öldungis rétt. Ég held að þetta sé kjarni málsins og að þessi aðgöngumiði okkar að tollaívilnunum sé allt of dýr til að nokkurn tímann verði hægt að sætta sig við hann. Þótt ekki kæmi fleira til, sem auðvitað er, þá fyndist mér mjög alvarlegt að gera svona tvíhliða fiskveiðisamning og opna landhelgi okkar fyrir framtíð sem við munum ekki hafa mikla stjórn á ef að líkum lætur.
    Það er auðvitað afskaplega erfitt að ræða mál sem byggjast á grunsemdum, skoðunum manna og því sem að maður óttast að verði. Það er ekki þar með sagt að það sé ekki nauðsynlegt að gera það en það er afskaplega fátt sem hendur festir á. Þess vegna er hollt að líta á hvernig staðreyndirnar blasa við okkur núna og jafnframt hver saga þessa máls hefur verið, ekki síst í sjávarútvegsmálunum.

    Ef við víkjum að tvíhliða samningnum, eins og hann horfir við okkur núna, orð einhvers staðar úti í loftinu, því ekki eru þau komin á blað, þá er auðvitað fyrst og fremst ámælisvert að okkur skuli vera gert að ræða samninginn nú áður en ljóst er hvernig hann lítur út fullbúinn með öllum þeim texta sem við munum beint og óbeint sæta og verða sett undir. Enn alvarlegra er þó að þetta er ekki einasta dæmið heldur er feikilega margt óklárt enn þá í sambandi við þennan samning. Það segir okkur að við erum ekki að ræða neitt sem við vitum hvernig lítur út. Við erum að ræða það hvernig málin verða ef allt fer eins og búist er við.
    Ég er í rauninni enn ekki komin yfir undrunina yfir því að fiskveiðisamningurinn skuli ekki vera hér og nú á borðum okkar þannig að við getum rætt á ábyrgan og málefnalegan hátt raunverulegan texta hans. Þess í stað verðum við að styðjast við skoðun samningamanna okkar á því hvernig gengur. Því miður höfum við ekki fengið mjög nákvæmar heimildir um hvernig þau mál ganga. Þaðan af síður gefur það manni tilefni til bjartsýni að líta yfir farinn veg í þessum málum og allar þær fullyrðingar sem fokið hafa. Ég minnist þess eftir að ég tók sæti á þingi haustið 1989 að hafa æ ofan í æ heyrt ráðamenn fullyrða að við Íslendingar yrðum ekki til viðræðu um annað en fulla fríverslun með fisk og að við fengjum niðurfellingu á tollum. Ég minnist þess líka að ekki var til umræðu að veita aðgang að landhelgi okkar. Það þarf ekki gott minni til að muna það. Síðan breyttist þetta, ég vil segja í orðhengilshátt um það hvort það væri kannski verjanlegt að veita gagnkvæmar veiðiheimildir en ekki einhliða veiðiheimildir EB til handa í okkar lögsögu. Ég veit að það eru ýmsir sem gera þarna mikinn greinarmun á. Ég er ekki ein þeirra. Ég tel að þarna sé í rauninni verið að karpa um formsatriði en stóra málið náðist í gegn hjá EB, þ.e. aðgangur að fiskimiðunum okkar.
    Loks núna stendur karpið um það hvort við séum að tala um fisk á móti fiski eða veiðiheimild á móti veiðiheimild. Það er hægt að veita veiðiheimildir út og suður án þess að þær út af fyrir sig segi nokkuð um fenginn afla og um það hefur umræðan að sjálfsögðu snúist. Í rauninni er þessi langhalavitleysa sem við höfum þurft að horfa upp á svo mikil raun að best væri að þurfa að ræða hana ekki neitt frekar. Ég vona að einhver muni eftir langhalanum sem átti að verða skiptimynt okkar í þessum pappírsviðskiptum. Langhalinn var sem sagt aðgöngumiði okkar að því að það væri hægt að gera samninga við Evrópubandalagið um veiðiheimildir sem væru ekki veiðiheimildir eða hugsanlegar veiðiheimildir. Hv. 6. þm. Vestf. hefur fyrir hönd okkar kvennalistakvenna þegar rakið þetta mál nokkuð og m.a. vísað í ummæli Jakobs Jakobssonar um þessi meintu pappírsviðskipti á veiðiheimildum.
    Mig langar til að bæta við nokkrum ummælum manna á þeim tímapunkti þegar ljóst varð að langhalinn var allt í einu orðinn að vel veiðanlegum karfa og þar með traustum aðgöngumiða Evrópubandalagsins að fiskimiðum okkar. Í frétt í Ríkissjónvarpinu frá 27. nóv. 1991, þegar þetta allt skall á segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Evrópubandalagið krefst þess að veiða eingöngu karfa í íslenskri fiskveiðilögsögu annars falli það frá samkomulaginu um EES. Utanrrh. var harðlega gagnrýndur á Alþingi í dag fyrir að hafa blekkt þingmenn og þjóðina með því að kynna samkomulagið á þann veg að tveir þriðju hlutar kvóta EB hér við land yrðu langhali. Þá telur samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi sig hafa fengið villandi upplýsingar um samkomulagið.``
    Síðar í þessari frétt er haft eftir Magnúsi Gunnarssyni, formanni SAS, sem er samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi, með leyfi forseta:
    ,,Núna kemur það upp á fundi sem við erum boðaðir á í gær í einhverju feiknarlegu offorsi með klukktíma fyrirvara að við verðum að gefa eftir og láta þá hafa full 3.000 tonn af karfa og menn eru kannski búnir að gleyma því að í forsögunni að þessu máli öllu saman hefur það verið meginröksemd manna, sem hafa viljað samþykkja það yfir höfuð að við færum í að skipta á veiðiheimildum og útlendingar kæmu hér inn í landhelgina, að við værum þarna að skipta fyrst og fremst á vannýttum fiskstofnum. Á því byggja menn þessar skoðanir og um það hefur verið talað allan tímann. Það er líka alveg ljóst að Evrópubandalagið er búið að tala um það allan tímann að það vilji frekar karfa heldur en langhala og það eru engar fréttir fyrir okkur. En eins og málið hefur verið kynnt þá höfum við gengið úr frá því og við höfum kynnt það þannig fyrir okkar félögum.``
    Mér er alla vega mjög minnisstætt þetta upphlaup sem varð vegna karfans sem allt í einu var kominn þarna upp á matarborðið. Ég held að þetta sé ákveðin lexía í því hvernig málið hefur verið kynnt og eins hvers við eigum að vænta. Lærdómurinn sem við getum dregið af þessu þrasi, sem ég er hér að rekja, er að Evrópubandalagsþjóðirnar ætla sér að ganga langt í þessum samningum við okkur. Þær ætla að neyta aflsmunar og vona að við höldum áfram að gefast upp eins og við höfum gert og eins og við höfum gert að því er virðist mjög léttilega, a.m.k. sumir þeirra sem hafa verið í samningaviðræðunum. Þetta finnst mér mjög afleitt hlutskipti.
    Hvernig standa samningamálin nú? Er það bara spurningin um fisk á móti fiski sem stendur í þeim EB-mönnum, það að Íslendingar krefjist þess að fá veiðanlega loðnu fyrir karfann? Ég óttast að fleira fylgi á eftir, ekki vegna þess að ég vantreysti þeim íslensku samningamönnum sem með þetta mál fara heldur vegna reynslu okkar af Evrópubandalaginu sem sífellt hefur verið að ganga lengra og lengra í að beygja okkur undir sinn vilja. Okkur er svo sem sagt að eftirlit verði fullnægjandi um borð í veiðiskipunum á kostnað útgerðanna meira að segja, Spánverjanna og Portúgalanna og að um það verði hægt að semja og

um þetta sé eiginlega búið að semja. Vonandi að það reynist rétt. Við munum svo sannarlega þurfa á því að halda ef við göngum til EES-samstarfs að eftirlit sé í góðu lagi. Við höfum hreinlega ekki burði til þess að kosta slíkt eftirlit sjálf eða að gæta okkar miklu fiskimiða ef það mættu ekki koma eftirlitsmenn um borð.
    Okkur er jafnframt sagt að ekki verði leyfðar svokallaðar blandaðar veiðiferðir, þ.e. að skip geti veitt hluta af afla sínum annars staðar og komið svo á Íslandsmið og lokið sér af. Það mundi gera eftirlit mjög erfitt. Ég vona sannarlega að það verði engar blandaðar veiðiferðir leyfðar því þá verður eftirlitið í molum. Ef við verðum komin inn í EES verður kannski erfitt að ganga frá málum og bæta. Ég held að ef um eitthvað verður samið sem bitastætt er verði það hér og nú, ekki síðar.
    Okkur er líka sagt að öll vandamál í sambandi við tvíhliða fiskveiðisamningin séu leyst svo og önnur vandamál, svo sem ákvæði um fjölda veiðiskipa og túlkanir á því hvernig fjöldinn er reiknaður. Mér finnst hart að ræða þetta undir þeim formerkjum sem ég þó er að gera núna og tel nauðsynlegt fyrst ekki er annað að hafa. Við erum ekki að ræða hér samning sem við höfum í hendi. Við erum að ræða skoðanir samningamanna, hugsalega bjartsýnna samningamanna.
    Hvað eigum við og hvað megum við ganga langt áður en við vitum um hvað við erum að semja í sambandi við auðlindina okkar viðkæmu, fiskimiðin, sem okkur gengur nógu illa að ganga sómasamlega um sjálf? Það er ekki að undra þótt forsvarsmenn samtakanna í sjávarútvegi, sem ég gat áðan um, hafi ekki enn treyst sér til að taka endanlega afstöðu með EES-samningnum og geri þá sjálfsögðu kröfu að sjá sjávarútvegssamninginn svartan á hvítu. Ég vil því sambandi vekja athygli á því að nýjustu ummæli Magnúsar Gunnarssonar eru einmitt á þann veg að það sé ekki hægt að taka af skarið og segja að samtökin muni styðja EES-samningana á meðan þessir samningar liggja ekki fyrir. Lái þeim hver sem vill, mér finnst það svo sjálfsagt. En þetta er þeim mun athyglisverðara þar sem okkur hefur verið talin trú um að tollaívilnanirnar, sem við höfum vissulega fengið, eigi að bjarga sjávarútveginum og fiskvinnslunni og gott ef ekki allri atvinnusköpun á Íslandi.
    Það er auðvitað alltaf fróðlegt að skoða þessar tollalækkanir og bera þær saman við núgildandi tolla á íslenskum fiskafurðum eftir að við fengum tiltölulega góða samninga við Evrópubandalagið með bókun 6. Samkvæmt málflutningi sumra stjórnarsinna mætti ætla að verið væri að færa tolla úr 100% í ekki neina. Það er auðvitað ekki rétt. Við erum að tala um dæmi sem hefur stundum verið metið upp á tæpa tvo milljarða fyrir þjóðarbúið og þá er ekki talinn með neinn kostnaður af gildistöku við samninginn. Auðvitað er hann verulegur og það hefur verið rakið hér mjög ítarlega. Sá kostnaður hefði auðvitað ekki komið til nema að óverulegu leyti ef menn hefðu borið gæfu til að einbeita sér að tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið eins og við kvennalistakonur höfum alla tíð talið mun heillavænlegra. Ég man ekki betur en hæstv. sjútvrh. í sinni stjórnarandstöðutíð hafi verið í hópi þeirra sem töldu að það væri rétt. Hann leiðréttir mig þá ef ég fer ekki rétt með.
    Svo ég geri grein fyrir þeim tölum sem ég legg hér til grundvallar er, samkvæmt því sem ég er með, verið að tala um að með EES-samningunum fari tollar á íslenskar fiskafurðir innan EB úr tveimur milljörðum í 230 millj. kr. þegar öll ákvæði samningsins eru komin til framkvæmda eftir nokkur ár. Þar væri því um 1,7 milljarða kr. að ræða. Eftir á að koma í ljós hvort þessi tollalækkun skilar sér til neytenda og gerir vöruna samkeppnishæfari því um það snýst málið. Hv. síðasti ræðumaður sem talaði hér fyrr í dag leyfði sér að giska á að ávinningurinn af þessum tollalækunum hann mundi skiptast u.þ.b. til helminga milli söluaðila og neytenda. Ég hef því miður engin tök á að meta þetta en vil alla vega vekja athygli á því því að ég man ekki hvort hæstv. sjútvrh. var viðstaddur ræðu hans. Þetta er þá bara til upplýsingar.
    Ég hefði gjarnan viljað ræða sjávarútvegsmál og einkum þennan ókomna samning undir betri kringumstæðum. Ég geri ráð fyrir að bæði tækifæri og tilefni muni gefast til þess. Þó eru vonir okkar sem vildum gjarnan sjá um hvað verið er að ræða ekki mjög miklar eftir síðustu yfirlýsingar. Við höfum hreinlega ekki hugmynd um hvenær þessi samningur liggur fyrir. Við höfum ekki hugmynd um hvernig hann lítur út eða mun líta út og við höfum í rauninni ekki hugmynd um hvort við höfum einhverja samningsaðstöðu eða ekki. Það út af fyrir sig er óskaplega vont vegna þess að þarna vantar svo veigamikinn þátt inn í umræðuna að allt það sem ég hér segi byggist á getgátum. Það getur vel verið að við verðum að byrja þessa umræðu frá grunni ef mikil frávik verða eða kollsteypur verða í þessum samningum. Við höfum svo sannarlega dæmi um slíkt áður. Kannski verður næst rætt um einhvern allt annan tonnafjölda.
    Ég ætla að geta um fleiri atriði er varða hugsanlega aðild Ísland að EES. Ég vil fyrst nefna þá röskun sem verður á vinnumarkaði og spurninguna um það hvort fyrirvarar okkar um þau efni dugi. Við þurfum að gera lagabreytingar, eins og gengur, til að uppfylla þau skilyrði sem eru í EES-samningnum um frelsi launþega til flutninga og frjálsa þjónustustarfsemi. Í EES-samningnum er m.a. um að ræða eftirfarandi grein, 28. gr., sem er í nokkrum liðum:
  ,,1. Frelsi launþega til flutninga skal vera tryggt í aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjum.
    2. Umrætt frelsi felur í sér afnám allrar mismununar milli launþega í aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum.
    3. Með þeim takmörkunum sem réttlætast af allsherjarreglu, almannaöryggi og almannaheilbrigði

felur það í sér rétt til þess að:
    a. þiggja atvinnutilboð sem raunverulega eru lögð fram;
    b. að fara að vild í þeim tilgangi um yfirráðasvæði aðildarríkja EB og EFTA-ríkja;
    c. dveljast á yfirráðasvæði aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis í atvinnuskyni í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um starfskjör ríkisborgara þess ríkis;
    d. dveljast áfram á yfirráðasvæði aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis eftir að hafa starfað þar.
    4. Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um störf í opinberri þjónustu.``
    Þetta er ekkert smáræði sem við eigum að undirgangast. Ég ætla fyrst að taka fyrir þennan fjórða lið því mér finnst rétt að geta þess að skilgreining um hvað sé opinber þjónusta hefur ekki verið alls kostar ljós. Í riti ASÍ og BSRB, EES og íslenskur vinnumarkaður, segir um þá skilgreiningu:
    ,,Tilhneiging hefur verið vaxandi í þá átt að skilgreina þessi störf mjög þröngt þannig að væntanlega verður um mjög takmarkað svið að ræða. Hér er alls ekki verið að tala um opinbera starfsmenn í heild, eins og við skilgreinum þá, heldur þá fyrst og fremst starfsmenn við her, lögreglu, öryggisgæslu, dómstóla o.s.frv. þar sem þjóðaröryggi getur verið í húfi.``
    Mér finnst full ástæða til að taka þá ákvörðun núna með opin augu hvort við höfum tilefni til þess nú að opna íslenskan vinnumarkað einmitt í þann mund sem við virðumst vera að sigla inn í kreppu sem á sér ekki mörg fordæmi á Íslandi. Ég ætla mér ekki að fara út í umræðu um hvers eðlis sú kreppa er eða hverjum hún er að kenna. Ég tel að hún sé að huta til af manna völdum, það sé ekki bara hægt að kenna týndum þorskum þar um.
    Við vitum hvert atvinnuástand er í EES-löndunum og höfum fram til þessa verið fullfær um að sjá okkur sjálf fyrir vandamálum þótt við förum ekki að flytja þau inn. Það er mikill munur á þungum þrýstingi á atvinnumarkaði og því varnaglaorðalagi að gera ráð fyrir stórfelldri röskun á íslenskum vinnumarkaði. Ég á eftir að sjá hver sest í dómarasætið og dæmir um það hvenær hafi orðið stórfelld röskun. Mótrök EES-sinna eru auðvitað þau að við séum að opna dyr fyrir Íslendinga erlendis. Í Evrópubandalagslöndunum er ekki bara tímabundið atvinnuleysi heldur langvarandi alvarlegt atvinnuleysi mjög víða. Ég get því ekki séð annað en að þessar dyr leiði okkur beint inn í kústaskápinn. Það er auðvitað líka umhugsunarefni hvort við höfum áhuga á að byggja upp vinnukarkaðinn eins og víða tíðkast á Evrópubandalagssvæðinu, t.d. á Ítalíu, þar sem ungir karlmenn flytjast búferlum til iðnaðarsvæða, búa þar í vinnubúðum en eftir sitja í þorpunum konur, börn og gamalmenni. Þá er kústaskápurinn kannski skárri.
    Það er kannski að hætta sér út á hálan ís að nefna óbein áhrif á vinnumarkaðinn en eigi að síður er það óhjákvæmilegt. --- Ég get gert hlé á ræðu minni á meðan þeir eru að ljúka háværum samræðum hér í hliðarherbergi nokkrir ágætir menn. ( Forseti: Forseti vill biðja menn að hafa hljótt í hliðarsölum.) Ég held að þeir hefðu líka gott af að hlusta. ( Gripið fram í: Þeir heyra.) Í nokkur ár hafa verkalýðsfélög og fleiri hagsmunaaðilar reynt með öllum tiltækum ráðum að tryggja að félagsleg réttindi innan Evrópubandalagsins og Evrópsks efnahagssvæðis yrðu tryggð. Þetta hefur að nokkru leyti tekist fyrir harðfylgi þessara aðila. En lengi vel var félagslegi þátturinn óskrifað blað í ítarlegu reglugerðarfargani Evrópubandalagsins sem annars var. Fjórfrelsið hefur nefnilega aldrei byggst á frjálsu flæði fæðingarorlofs eða neinu slíku. Það er tvennt sem mér finnst kvíðvænlegt varðandi tilflutning félagslegra réttinda milli landa. Það er auðvitað jákvætt að það skuli vera hægt að flytja félagsleg réttindi milli landa en á hinn bóginn finnst mér að kerfið muni verða of þungt í vöfum til að menn þekki sinn rétt og nýti hann. Flest þekkjum við líklegast dæmi af því að fólk viti ekki af lífeyrissjóðsrétti sínum, slysabótarétti, veikindadagarétti eða ýmsu fleiru sem eru almenn félagsleg réttindi. Tilfærsla félagslegra réttinda innan EES mun ekki gerast sjálfkrafa, um hana þarf að sækja. Ég veit að verið er að útbua reiðinnar ósköp af eyðublöðum í Tryggingastofnun og vissulega verða margir sem láta sér umhugað um að kynna þennan rétt fyrir fólki. En ég held samt sem áður að þetta verði vandamál.
    Hitt er ekki síður áhyggjuefni en það er það sem kallað hefur verið ,,social-dumping`` á ensku og ég hef leyft mér að hráþýða sem félagslega gengisfellingu. Ég sé fyrir mér framleiðendur á vörum eða þá sem bjóða fram einhverja þjónustu segja við forsvarsmenn stéttarfélaga þeirra manna sem vinna hjá þeim: Ef þið eruð með einhvern derring þá flytjum við vinnsluna til Portúgals því flæðið er jú svo frjálst að það er ekki nokkurt mál. Hvernig ætli það verði að sækja launahækkanir og aukin félagsleg réttindi við slíkar aðstæður? Ég varpa þeirri spurningu til þeirra sem hér hlusta og ég mun jafnframt varpa þessari spurningu til þeirra aðila sem kannski helst þurfa að fjalla um hana því mér þykir sem sum stéttarfélög hafi verið afskaplega andvaralaus í þessum efnum og það er slæmt.
    Það er ýmislegt smálegt sem ég hef verið að hnjóta um þegar ég hef verið að lesa mig í gegnum allar þessar blaðsíður í sumar sem þegar liggja fyrir og er ég þó hvergi nærri komin í gegnum það. Hins vegar með góðri samvinnu hefur okkur kvennalistakonum tekist að fara í gegnum býsna stóran hluta þessa efnis. M.a. höfum við verið að gera athugasemdir við það og kyngjum því ekki eins og ekkert sé að það verði leyfðar hér auglýsingar á lyfjum sem ekki eru lyfseðilsskyld ef við göngum í EES. Viljum við þetta? Ég er ekki viss um að það samrýmist okkar draumum um frelsi, að frelsið felist í að fá að auglýsa magnyl eða panodil. Ég held hreinlega að við séum að sækjast eftir öðru og raunverulegra frelsi. Einhver hættumerki eru varðandi merkingar á skaðlegum aukaefnum. Réttur markaðarins er nefnilega þegar til á að taka alltaf sterkastur. Það eru oft taldar samkeppnishömlur sem við mundum telja eðlilega vernd. Það

má t.d. ekki merkja öll aukefni vöru nema með leyfi Evrópubandalagsins eða ,,stóra bróður``. Þessi ofstýring er ekki af hinu góða.
    Loks langar mig til að fjalla um einn þátt þessa stóra máls sem ég held að sé ekki síst alvarlegur og við ættum nú að vera farin að þekkja nokkuð vel. Það er hið ólýðræðislega kerfi sem EB og EES er. Það hefur margt verið sagt í þessum sölum að undanförnu um framsal valdsins. Ég vil gera að umræðuefni hér framsal valds frá Alþingi til Evrópubandalagsins. Það sem við blasir er að nú mun okkur á Alþingi verða gert að fá fjölmörg frumvörp lögð fyrir Alþingi einungis til samþykktar en ekki til synjunar. Í raun og veru er það einmitt þetta sem gerist ef við ákveðum að gerast aðilar að EES. Ég ætla ekki að fara út í smáatriði á framkvæmd þessari en þetta er einfaldlega það sem við munum standa frammi fyrir ef við göngumst undir það að samræma löggjöf okkar lögum Evrópubandalagsins á því málasviði. Sum þessara mála eru áreiðanlega hin mætustu og raunar mál sem við gætum léttilega lögtekið án þess að ganga um leið í EES og undir þær skuldbindingar sem því fylgir. Önnur mál eru áreiðanlega þannig að þau þarfnast nánari skoðunar eða eru jafnvel beinlínis neikvæð fyrir Íslendinga. Nægir þar að nefna þau vafasömu ákvæði er varða landakaup eða skort á fyrirvörum o.fl., hættuna sem við leggjum orkulindir okkar í og ýmislegt fleira. Þarna er bæði um að ræða lög sem við lögtökum og eins það að við gerum ekki þá fyrirvara sem nauðsynlegir eru eða teljum okkur vera að setja upp einhverjar girðingar sem síðan halda ekki. Ef ég væri útlendingur og ágirntist hér jörð og það væri búið að setja upp einhverjar girðingar sem ég teldi brjóta minn rétt mundi ég að sjálfsögðu sækja minn rétt fyrir dómstólum og sennilega vinna það miðað við þá fyrirvara sem helst hefur verið vísað til. Að vísu eru forkaupsréttarákvæðin, sem vísað er til, möguleiki en ekki ef um stóra fjármuni er að tefla. Hugmyndir um að hafa ákvæði sem ganga jafnt yfir Íslendinga og útlendinga um að krefjast skuli búsetu á Íslandi í nokkur ár áður en jörð eða fasteign er keypt eru auðvitað út í hött. Ef ég væri þessi útlendingur sem færi að láta á þetta reyna mundi ég að sjálfsögðu benda á það og hafa rétt fyrir mér að það eru miklu meiri líkur á því að Íslendingur hafi verið búsettur í fimm ár á Íslandi áður en hann vill kaupa fasteign eða jörð en útlendingur. Þar af leiðandi er þetta náttúrlega ekkert nema mismunun. En það gæti vel verið að það þyrfti að láta reyna á það fyrir dómstólum. Það er ekki að ástæðulausu að Danir hafa kosið að festa girðingar í Maastricht.
    Einn angi þessa framsals, sem ég tel að við séum að gangast undir með því að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði, er fjarlægð valdsins og skrifræðið. Það er því miður svo að þjóðin veit harla lítil deili á stafasúpunni eins og ég gat um hér í upphafi máls míns. Það er að mínu mati ekki vegna fáfræði almennings heldur vegna þess að okkur vantar upplýsingar, almenning vantar upplýsingar um staðreyndirnar á bak við stafina. Það er í rauninni þannig að þetta mál hefur verið gert flókið og það hefur hreinlega orðið til þess að setja það í hæfilega fjarlægð og almenningi er ekki ætlað að fjalla um það. Það er svona hér um bil verið að segja að almenningi komi það ekkert við. Jú, alveg guðvelkomið ef þið nennið að lesa 10.000 bls., það er ekki víst að þið skiljið þessi hugtök. Það er nú æ ofan í æ að koma í ljós að flestir, jafnvel hinir sleipustu og slyngustu menn ruglast í þessu og ég er þar sjálf áreiðanlega ekki undanskilin. En jafnvel við, sem höfum varið nokkrum tíma í þetta og viljum hafa það sem sannara reynist, við lendum í vanda vegna þess að skrifræði skapar fjarlægð. Þjóðin hefur hins vegar skoðun og þekkingu á landhelginni og fullveldinu en ekki endilega á framandlegum stofnunum. Þessar stofnanir eru svo sem ekki kunnuglegar eða aðgengilegar okkar fulltrúum á Alþingi. Skrifræðið í Brussel hefur t.d. birst okkur núna á þessu ári þannig að í vetur munum við alþingismenn þurfa að taka málefnalega og áreiðanlega heilsteypta og ábyrga afstöðu til frumvarps sem lagt hefur verið á borð okkar hérna. Það heitir frumvarp til laga um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum. Um þetta mál eigum við, vesælir þingmenn, að fjalla í römmustu alvöru geri ég ráð fyrir, og taka ákvörðun um það hvort frv. sé góð og nauðsynleg viðbót við lagaflóru okkar.
    Mig langar til skýringar þeim sem ekki vita um hvað frv. fjallar að lesa 1. og 2. gr. laganna fyrir þingheim hér, með leyfi forseta:
    ,,1. gr. Sá sem hannar svæðislýsingu smárása í hálfleiðara hefur einkarétt til hagnýtingar hennar samkvæmt lögum þessum.
    Nú hafa tveir menn eða fleiri sameiginlega hannað svæðislýsingu smárása í hálfleiðara og framlög þeirra verða ekki aðgreind hvert frá öðru sem sjálfstæð verk og eiga þeir þá saman einkarétt til hagnýtingar svæðislýsingarinnar samkvæmt lögum þessum. Hvor aðili um sig getur krafist bóta vegna skerðingar á réttinum.
    Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum er háð því að um nýsköpn sé að ræða, annaðhvort í heild eða að hluta.
    Ef einstakir þættir svæðislýsingarinnar eru almennt þekktir er verndin háð því að samsetning einstakra þátta svæðislýsingarinnar uppfylli skilyrði um nýsköpun. Skilyrði er að um eigið verk uppfinningamannsins sé að ræða og að það sé almennt ekki þekkt á sviði hálfleiðarratækni.
    Vernd samkvæmt lögum þessum tekur ekki til hugmynda, ferla, kerfa, tækni eða upplýsinga sem svæðislýsingin hefur að geyma en teljast ekki til hennar sjálfrar.``
    Þegar hér er komið sögu er að sjálfsögðu rétt að fá skýringu á því hvað þessi hugtök sem hér er verið að fjalla um þýða. Í fljótu bragði mætti halda að þau væri að finna í 2. gr. Ég ætla alla vega, ef það er einhver skarpari hér en ég, sem ég treysti alveg, að lesa upp skýringarnar, með leyfi forseta, en það er

2. gr.:
    ,,Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    1. Hálfleiðari er fullbúin vara eða vara á framleiðslustigi, sem
    a. er samsett úr ýmsum efnum, þar á meðal einu lagi af hálfleiðaraefni,
    b. hefur eitt lag eða fleiri lög af leiðandi efnum, einangrandi efnum eða hálfleiðaraefnum þar sem lögum er raðað eftir fyrirframgefnu þrívíddarmynstri og
    c. til stendur að nota hana annaðhvort eingöngu eða m.a. í rafeindatæki.`` ( Gripið fram í: Er þetta úr stefnuskrá Kvennlistans?) --- Nei. Þetta er hluti af EES.---
  ,,2. Svæðislýsing smárása á hálfleiðara er teikning af uppröðun samverkandi hluta sem hver rás er samsett úr, hvernig sem þetta mynstur er áfest eða áritað,
    a. sem sýnir þrívíddarmynstur allra laganna sem mynda smárásir hálfleiðara og
    b. þar sem hver hluti teikningarinnar hefur að geyma mynstur eða hluta af mynstri á yfirborði hálfleiðara á ákveðnu stigi í framleiðslu þess.``
    Hér hefur þegar einn þm., hv. 17. þm. Reykv., gert sig beran að því að hafa ekki hugmynd um um hvað var verið að ræða þar sem hann hélt að þetta væri úr stefnuskrá Kvennalistans sem sýnir náttúrlega í hverjar ógöngur við erum komin. ( Gripið fram í: Fyrir Kvennalistann.) Fyrir hv. þingmann, það leynir sér ekki.
    Þetta segir okkur auðvitað nákvæmlega hvað það er mikil firra þegar farið er að bera á borð fyrir fólk efni sem það skilur ekki og gerir sig kannski ekki að fíflum þótt það skilji ekki. Ég held ekki.
    Ég spyr auðvitað á þessu stigi málsins: Eru menn einhvers vísari? Ég býst ekki við því og ég vona svo sannarlega að þingmenn fari ekki að láta eins og fólkið sem þóttist sjá nýju fötin keisarans, sem engin voru, og þora ekki að afhjúpa vankunnáttu sína í þessum málum. Vera má að það leynist einhver sérfræðingur í þessum málum meðal okkar, aldrei skal ég þvertaka fyrir það.
    Ég gæti svo sem gert aðra tilraun til að uppfræða þingheim og vísa til athugasemda við þetta frv. en ég held að hver verði bara að lesa fyrir sig, t.d. upphaf athugasemda við þetta lagafrv. sem er að finna á bls. 3. Þar eru aftur miklar útlistingar sem ég ætla ekki að kvelja ykkur með hér. Það verður bara hver að lesa fyrir sig.
    Ætla mætti að hér væri um bráðbrýnt mál að ræða, mál sem ekki þyldi bið. Mál sem yrði að kynna a.m.k. iðnn. svo ekki kæmi til ófremdarástands á Íslandi (Gripið fram í.) ef frv. yrði nú ekki tilbúið áður en gildistaka þessa samnings væri hugsanlega komin hér endanlega á dagskrá. Fyrirgefðu, ég heyrði ekki innskotið, það getur vel verið að það hafi verið mikilvægt eða upplýsandi. (Gripið fram í.) Mér leyfast víst ekki samræður þó öðrum geri það. ( Forseti: Má ég biðja hv. þm. að hefja ekki samræður sín á milli í þingsal.) Ég var þegar búin að taka fram að mér leyfist það ekki þótt öðrum leyfist það kannski.
    Ég vil enn í þessu sambandi vísa til athugasemda við frv. til að upplýsa hvort þetta er það brýnasta sem við þurfum um að fjalla, eða brýnt, ég bið ekki um meira. Með leyfi forseta, gríp ég hér niður þar sem að segir:
    ,,Á þessari stundu er engin framleiðsla smárása á Íslandi. Erfitt er að gera sér grein fyrir hvort svo muni verða í næstu framtíð. Þó er ólíklegt að allt ferlið frá hönnun til framleiðslu verði til staðar hér á landi á næstunni. Til þess þarf sérfræðinga á þessu sviði, en þá er ekki að finna hér á landi nú. Flest fyrirtæki sem framleiða smárásir og standa í hönnun eru stór fjölþjóðafyrirtæki eða smærri fyrirtæki sem hafa stórfyrirtæki sem bakhjarl.``
    Um þetta frv. er okkur þingmönnum eigi að síður ætlað að fjalla af fullri ábyrgð. Mér finnst þetta öfgafulla dæmi því miður ekkert gamanmál heldur eitt af mörgum dæmum um að okkur er ætlað vera stimpil- eða afgreiðslustofnun fyrir einhverja sérfræðinga eða kannski bara fyrir þýðendur. Ég veit ekki einu sinni hvort það er fyrir sérfræðinga, kannski bara fyrir lunkna þýðendur. Þetta er sem sagt skrifræði og kerfisþjónkun og ég sætti mig ekki við að taka þátt í slíku. Okkur er ætlað að segja já við því sem við ekki viljum og jafnvel því sem við ekki skiljum. Enn lengri er þó leiðin frá hinum almenna borgara til handhafa valdsins. Við getum þó alla vega rifið hér kjaft í beinni útsendingu þó það hafi kannski engin bein áhrif.
    Fram til þessa hefur þjóðin haft áfrýjunarrétt á fjögurra ára fresti og getað sagt hug sinn til sjórnmálamanna. Stjórnmálamenn hafa að vísu þurft að glíma við forræðishyggju ráðuneyta og annarra þjóna framkvæmdarvaldsins, ég nefni engin nöfn. Enn lengri er þó leiðin til valdsins í Brussel og þar er ekki skipt um á fjögurra ára fresti. Við getum ekki haft neinar kosningar þar. Mér finnst það háskalegt að framselja vald til andlitslauss skrifræðis og mér finnst það einkum háskalegt lýðræðinu. Það er alveg sama hvar þetta skrifræði er.
    Ég læt þá lokið máli mínu en ég treysti því að hæstv. sjútvrh. sé hér enn því að ég átti eftir að spyrja hann og raunar utanrrh. líka, sem áreiðanlega er búinn að forða sér fyrir löngu, eins og venjulega. Ég á sem sagt erindi við hæstv. sjútvrh. sérstaklega og það eru tvær spurningar. Ég sé að hann hlustar og mér þykir vænt um það.
    Hvenær er að vænta frétta af áframhaldandi viðræðum út af sjávarútvegssamningnum sem við líklegast bíðum öll eftir? Mun hæstv. ráðherra sjá til þess að hvergi verði hvikað frá kröfum um að það komi veiði á móti veiði en ekki bara veiðiheimild á móti veiðiheimild? Að við fáum sem sagt veiðanlega loðnu

og að gengið sé tryggilega frá því að þetta sé veiði á móti veiði en ekki heimild á móti heimild. Þessari spurningu beini ég raunar líka til hæstv. utanrrh. og ég treysti því að boðskipti innan ríkisstjórnarinnar séu þau að þetta muni komast á leiðarenda. Ég held að hver einasti þingmaður hefði gott af að svara þessari spurningu, vel á minnst. Það er ein spurning í viðbót, hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra það líklegt að við höfum einhverja viðspyrnu gegn því ef Evrópubandalagsþjóðirnar munu sækja á um frekari veiðiheimildir? Ef svo er, hver er sú viðspyrna?