Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 21:54:01 (212)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skil vel að hæstv. ráðherra hætti sér ekki út í málefnalega umræðu heldur fari út í að upplýsa smámisskilning.
    Mínar áhyggjur eru, og ég rökstuddi þær mjög vel, ( Gripið fram í: Hvaða misskilning?) --- þetta var misskilningur hans --- mínar áhyggjur eru þær að þjóðin hafi rétt fyrir sér. Ég gat þess mjög skýrt að ég hef áhyggjur af því að þjóðin hafi rétt fyrir sér, að við munum missa forræði yfir fiskveiðilögsögu okkar og ég rökstuddi það mjög ítarlega. Það er tvennt sem veldur þessum áhyggjum mínum. Annars vegar það að með þessum veiðiheimildum sem upphaflega áttu nú að verða sýndarveiðiheimildir, en eru að verða alvöruveiðiheimildir núna, að þá séum við að opna okkar fiskveiðilögsögu og við munum ekki getað staðið á móti þessum þrýstingi. Hins vegar það að á meðan við höfum ekki nokkurn samning á borðinu þá höfum við auðvitað ekki hugmynd um hvort samningamenn hafa getað náð viðunandi samningum miðað við þær forsendur sem þeir gefa sér. Ég tók það raunar skýrt fram að ég teldi þá samninga ekki einu sinni viðunandi. Þetta tel ég mjög ábyrga afstöðu og mér þykir fyrir því að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa tekið eftir því að það var nákvæmlega þetta sem ég hafði áhyggjur af. Ég vil gjarnan biðja um svör.