Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 23:16:42 (221)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Það sem hann þarf að muna eftir í þessu sambandi er það að þegar lagt var af stað, þá var gert ráð fyrir svokallaðri tveggja stoða lausn, þar sem gert var ráð fyrir því að EFTA-ríkin annars vegar og Evrópubandalagið hins vegar mynduðu stoðir sem hefðu a.m.k. formlega tiltölulega jafna stöðu. Breytingar urðu svo á þessu við meðferð málsins síðar þannig að það kom mér út af fyrir sig ekkert á óvart að við værum að semja við Evrópubandalagið. Það sem gerðist var hins vegar það að að lokum ákváðu menn að taka upp annað stjórnkerfi en um hafði verið talað. Og það er líka ljóst að í framtíðinni þegar öll þessi ríki sem voru með okkur í samningunum eru búin að sækja um aðild að EB, þá verður þetta engin tveggja stoða lausn lengur. Þá er ekki hægt að tala um stoð EFTA-megin eins og hv. þm. veit og skilur og m.a. kom mjög glöggt fram í tilvitnun í hæstv. utanrrh. sem ég las upp hér áðan.