Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 23:20:06 (224)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég varpaði fram því sjónarmiði hér fyrr í kvöld að það væri fullkomlega óeðlilegt að umræða um svo mikilvægt mál eins og þetta færi fram á þann hátt að ýmsir mikilvægustu ráðherrar málsins væru fjarverandi. Nú hefur það komið í ljós að hv. þm. Svavar Gestsson varð að víkja frá fjölmörgum efnisatriðum sem hann ætlaði að taka hér til meðferðar vegna þess m.a. að hæstv. forsrh. var ekki við umræðuna og hefur þó hæstv. forsrh. borið hv. þm. Svavar Gestsson og okkur þingmenn Alþb. sem vorum ráðherrar í síðustu ríkisstjórn mjög þungum sökum, en kýs hins vegar að haga vinnubrögðum sínum með þeim hætti að taka veislur fram yfir þá umræðu sem hér er í kvöld til þess að komast hjá því að þurfa að eiga orðastað við þingmenn. Þetta gengur auðvitað ekki að ráðherrar og það forsrh. geti með þessum hætti skotið sér hjá því að taka þátt í umræðunni og þingmenn verði að sleppa veigamiklum þáttum úr sínu máli vegna þessa. Þetta er eitt stærsta málið ef ekki það stærsta sem fjallað hefur verið um í áratugi á þessu þingi og það er ekki hægt, virðulegi forseti, að bjóða þingmönnum upp á það að ráðherrar geti borið þá sökum og síðan ekki mætt til umræðunnar þegar þess er óskað.
    Ég óskaði eftir því við forseta þingsins hér fyrr í kvöld að það yrði skýrt nánar með hvaða hætti ætti að fara með umræðuna því að forseti þingsins getur ekki sett okkur þingmenn í þá stöðu að við getum ekki nýtt málfrelsi okkar í þessum umræðum vegna fjarveru ráðherra, og það forsrh. landsins, sérstaklega í máli sem er talið svo mikilvægt að þjóðþingið er kallað saman í ágústmánuði til þess að fjalla um það. Þetta er fyrsti kvöldfundurinn um málið og þá hafa ráðherrarnir nær allir nema utanrrh. og sjútvrh. einhverju öðru að sinna. Ég vil þess vegna mælast til þess að annaðhvort verði gert hlé nú svo að menn geti ráðskast um framhaldið eða þá að þessum fundi verði lokið hér og nú, kl. hálftólf, en það gengur ekki að setja þingmenn, m.a. þá sem eru hér næstir á mælendaskránni í sömu stöðu og hv. þm. Svavar Gestsson. Það gengur ekki, virðulegi forseti. Þess vegna óska ég eftir því að gert verði hlé á fundinum í einhverjar mínútur þannig að hægt sé að ræða við forseta þingsins um málið því að það er upplýst að forsætisnefnd hefur ekkert komið saman síðan hún var kosin til þess að ræða störf í þinginu og á ekki að koma saman fyrr en 9. sept., sem er svo sérkennilegt að maður á varla orð yfir það að ný forsætisnefnd á að koma saman á sinn fyrsta vinnufund 9. sept., svo þá verður að beina þessum orðum til forseta þingsins. Ég óska eftir að gert verði hlé á fundinum svo að hægt sé að ræða framhaldið.