Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 14:57:37 (244)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er misskilningur sem kemur fram í máli hv. þm. Svo segir í greinargerð með greininni, 5. gr. sem síðar varð 6. gr. stjórnarskipunarlaganna:
    ,,Í fyrsta lagi eru lagðar til smávægilegar breytingar á orðalagi 1. mgr. vegna breytingar á starfstíma Alþingis. Orðin ,,milli þinga`` falla brott en í staðinn koma orðin ,,þegar Alþingi er ekki að störfum.`` Hér er því ekki um að ræða breytingu á þeim skilyrðum sem verið hafa fyrir útgáfu bráðabirgðalaga.``
    Í öðru lagi er síðan fjallað um mánaðarfrestinn sem lengdist í sex vikur og þar segir m.a.:
    ,,Mánaðarfresturinn er settur í því skyni að Alþingi taki svo fljótt sem auðið er afstöðu til bráðabirgðalaga sem gefin hafa verið út meðan það sat ekki að störfum svo að það réttarástand sem bráðabirgðalög hafa skapað standi sem styst eftir að löggjafarvaldið hefur tekið til starfa á ný. Þess má geta að í drögum að þingskapalögum eru ákvæði sem koma eiga í veg fyrir að staðfestingarfrv. falli vegna óeðlilega langra umræðna.`` Það er augljóst hjá öllum þeim sem skoða þetta mál, og ég hef látið skoða það mjög rækilega, að það var ekki tilgangur löggjafans að breyta þessum skilyrðum eins og ranglega hefur hér verið haldið fram.