Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 14:58:50 (245)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þess eru auðvitað engar forsendur eða aðstæður að fara ítarlega yfir aðdraganda þessa máls. Ég fullyrði hins vegar á ný að það var vilji löggjafans að þrengja að möguleikum bráðabirgðalöggjafans með síðustu stjórnarskrárbreytingu og ég segi: Fyrir því eru mýmörg dæmi að Alþingi og fulltrúar allra flokka hafi fallist á að taka mál í gegnum þingið með mjög miklum hraða þegar mikið hefur legið við.
    Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt út af ummælum hæstv. fjmrh. að um þetta mál verði sérstaklega fjallað ef ekki í þessari umræðu þá síðar við meðferð þessa máls vegna þess að ég tel að hann sem ráðherra málsins fari ranglega með forsendur þess og það er hættulegt upp á framhaldið.