Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 15:00:45 (247)



     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég vil þakka þá nýbreytni forseta að þeir vísa gjarnan í þær greinar í þingskapalögum sem við eiga þegar þeir gera grein fyrir sínum úrskurði eða afstöðu. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi með vinnubrögð hjá hv. 5. þm. Austurl.
    Nú hefur það aftur á móti gerst að tveir hæstv. ráðherrar hafa í skrifuðum ræðum sem þeir hafa komið með hér í ræðustól tekið sér það bessaleyfi að tala fyrir málum sem ekki eru á dagskrá samhliða því máli sem verið er að ræða. Þetta gerði hæstv. iðnrh. þegar hann eyddi í ræðu um EES stórum hluta af sínum ræðutíma einnig í að ræða stjórnarskrárfrv. sem hér hafði verið lagt fram. Þetta gerði hæstv. fjmrh. þegar hann í ræðu um bráðabirgðalög gerir að umræðuefni annað frv. sem hann hyggst flytja. Ég hefði talið eðlilegt undir slíkum kringumstæðum að hæstv. ráðherra hefði leitað eftir því hjá forseta að fá að tala fyrir báðum málunum samtímis. Þá hefði fyrri hluti ræðunnar getað farið í það að útskýra hve brýn nauðsyn var að setja bráðabirgðalögin og seinni hlutinn í að útskýra að þau væru svo vitlaus að það yrði að setja önnur lög strax á eftir. Þetta hefði getað orðið mjög fróðleg ræða og skemmtileg.
    En því stend ég hér upp að ég óska eftir að fá að vita það hvort almennum þingmönnum leyfist það sama, þ.e. að fara vítt yfir völlinn gagnvart frumvörpum sem hér er búið að leggja fram en ekki taka á dagskrá því að það er óhjákvæmilegt að það sé upplýst af forseta hvort réttur ræðumanna sé jafn í þessum efnum eða hvort ráðherrar hafa fengið á bak við einhver sérstök mannréttindi hér í þinginu hvað þetta

snertir.