Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 18:02:01 (258)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hvar mundi nú hæstv. fjmrh. vera staddur? ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að láta kanna það.) Ég kýs að bíða þar til upplýst hefur verið hvar hann er niður kominn og hvort hans er von. --- Þar birtist ráðherrann.
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Kjaradóm. En hér eru einnig á dagskrá önnur mál sem snerta Kjaradóm og kjaranefnd, þ.e. nýjar tillögur um það hvernig þessum málum skuli skipað. Þar eru í uppsiglingu að mínum dómi afar spennandi umræður sem m.a. snerta stöðu og skipan kirkjunnar í stjórnkerfinu. En ég ætla að sjálfsögðu að láta þá umræðu bíða og snúa mér að því máli sem hér er á dagskrá, sem eru bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar sem sett voru í sumar.
    Að mínum dómi snýst þetta mál einkum um þrennt. Í fyrsta lagi stjórnarhætti og réttmæti þess að beita bráðabirgðalögum. Í öðru lagi launastefnu ríkisstjórnarinnar og samningsfrelsi í landinu. Og í þriðja lagi það sem ég vil kalla samtryggingu og lögregluaðgerðir aðila vinnumarkaðarins sem felast í því að þvinga alla sem einn inn í óumbreytanlegan farveg launasamninga. Þetta er að mínum dómi inntak þessa máls. Ég ætla að byrja hér á því að ræða um fyrirbærið bráðabirgðalög og hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á því máli.
    Eins og menn eflaust muna setti fyrrv. ríkisstjórn bráðabirgðalög á kjarasamninga BHMR í júlí 1990 sem voru mjög umdeild lög. Rökstuðningur ríkisstjórnarinnar fyrir þeim lögum var sá að sú 4% launahækkun, sem félagsmenn BHMR höfðu samið um og var niðurstaða margendurtekinna samninga ríkisins og Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, átti að mati ríkisstjórnarinnar að leiða til svo afdrifaríkra afleiðinga í kjaramálum, á launamarkaðnum að nauðsynlegt væri að setja bráðabirgðalög á þessa samninga þó að fallinn væri dómur Félagsdóms sem leiddi rök að þveröfugri niðurstöðu. Þegar þessi lög komu til meðferðar hér á þingi voru þau harðlega gagnrýnd af hálfu Sjáflstfl. og reyndar Kvennalistans. Ég nefni Sjálfstfl. hér á undan sérstaklega vegna þess að nú situr hann í ríkisstjórn og hefur staðið að því að beita bráðabirgðalögum í nokkuð hliðstæðu máli, máli sem snýst um kaup og kjör.
    Í kjölfar hinna miklu umræðna um bráðabirgðalögin á BHMR var gerð lagabreyting sem þrengdi nokkuð heimildir ríkisvaldsins til þess að setja bráðabirgðalög og ég held að það efist ekki nokkur um það þrátt fyrir orð hæstv. fjmrh. hér í dag að tilgangur þeirra lagabreytinga var sá að koma í veg fyrir að bráðabirgðalögum yrði beitt með þessum hætti sem raun hefur orðið á. Þar að auki var þingskapalögum breytt og kveða m.a. á um að Alþingi starfi nú allt árið og felur það í sér að hægt er að kalla Alþingi saman nánast hvenær sem er. Ég get ekki fallist á þau rök sem fram komu í máli hæstv. fjmrh. í dag þess efnis að það hefði reynst nánast illframkvæmanlegt að kalla Alþingi saman. Ég held að slíkt hefði mátt gerast með örstuttum fyrirvara og það hefði verið hin rétta leið í málinu ef ríkisstjórin taldi svo brýna nauðsyn bera til að breyta lögum.
    Hér hefur verið vitnað í bók Ólafs Jóhannessonar um stjórnskipun Íslands. Samkvæmt hans túlkun á fyrst og fremst að beita bráðabirgðalögum þegar brýna nauðsyn ber til. Hann nefnir sem dæmi erfiðleika í atvinnulífi, svo sem vorharðindi, óþurrkatíð og aflabrest, styrjöld sem vofir yfir eða er byrjuð, drepsótt í mönnum eða fénaði o.s.frv. Þessar röksemdir minna nú nokkuð á gamla tíma en engu að síður held ég að það sé augljóst mál að enga slíka brýna nauðsyn bar til að þessu sinni að það lægi svo mikið á að setja bráðabirgðalög að það væri ekki hægt að kalla þing saman. Þetta leiðir auðvitað hugann að þeim stjórnarháttum sem hér ríkja og það hvernig ríkisstjórn eftir ríkisstjórn kýs að beita valdi sínu til hins ýtrasta, því það er auðvitað það sem verið er að gera í þessu máli. Lög eins og þessi verða auðvitað ekki aftur tekin. Þessum ákvörðunum verður ekki breytt.
    Ég get tekið undir það með fjmrh. að það er vissulega þarft að ræða það hvernig að þessum málum skuli staðið því að eins og þetta fyrirkomulag er þá er það algjörlega óásættanlegt. Það þarf auðvitað að vera til slík heimild þegar virkilega kreppir að eða hættuástand ríkir. En að ríkisvaldið noti þessa lagaheimild aftur og aftur til þess að grípa inn í kjarasamninga, til þess að rifta gerðum samningum eða hreinlega sem efnahagsráðstafanir eins og við þekkjum dæmi um, er ekki lýðræðislegt og þetta eru ekki stjórnarhættir sem við eigum að iðka hér. Þetta er ekki til fyrirmyndar. Ég tek undir það að við hér á Alþingi tökum góða umræðu um það hvernig þessum málum megi verða betur stýrt.
    Hæst. fjmrh. minntist á það --- og var greinilegt á hans máli og jafnvel fleiri að pirringurinn er byrjaður. Það eru varla liðnar tvær vikur af þingi áður en farið er að ræða það hvað menn séu málglaðir í þessum ræðustól, jafnvel þó verið sé að ræða eitthvert stærsta og afdrifaríkasta mál sem komið hefur til umræðu á Alþingi frá því að lýðveldið var stofnað, mál sem í raun og veru krefst þess að hver einasti þingmaður tjái afstöðu sína. Hitt er annað mál að menn mættu kannski vera agaðri í máli og ég tala nú ekki um málefnalegri og fjalla meira um inntak þess samnings og afleiðingar hans fyrir land og þjóð. En það þarf auðvitað að ríkja samkomulag um það hvernig umræðum skuli háttað á Alþingi. Og ég get tekið undir það að ég væri reiðubúin til að fara í umræður um bæði bráðabirgðalög og það hvernig gera megi umræðuna markvissari hér á Alþingi því ég ætla að segja það enn einu sinni að þau vinnubrögð sem hér tíðkast og sá vinnutími sem fólki er boðið upp á í þessari stofnun eru ekki siðaðra manna háttur að mínum dómi. Nóg um það í bili. En ég ítreka að mér finnst að þessi ríkisstjórn eins og sú fyrri hafi misnotað rétt sinn til setningar bráðabirgðalaga. Ég er þeirrar skoðunar að ekki hafi ríkt sú nauðsyn sem ríkisstjórnin taldi vera fyrir þessum bráðabirgðalögum. Það kemur auðvitað til af því hvað þarna var á ferðinni, út á hvað dómur Kjaradóms gekk. Við kvennalistakonur höfum lýst því yfir að við töldum að Kjaradómur væri að mörgu leyti að leggja út á mjög merkilega braut í sínum dómi. Hann fór út í það að stokka upp launakerfi ríkisins, hann dró fram heildarlaunagreiðslur ákveðinna hópa og hækkaði suma en lækkaði aðra. Meginniðurstaðan varð sú að þessi breyting átti ekki að valda miklum útgjöldum fyrir ríkissjóð. Við töldum að ríkisvaldið hefði átt að nota þetta tækifæri til þess að fara út í bráðnauðsynlega uppstokkun á launakerfi ríkisins. Þetta launakerfi er tvöfalt, í því er mikill feluleikur, það felur í sér ákveðna sjálftöku og það er engan veginn réttlátt. Og ef við horfum á launakerfi ríkisins í heild þá stöndum við frammi fyrir því að þar þarf veruleg uppstokkun að eiga sér stað og að meðal starfsmanna ríkisins ríkir mikil óánægja með kaup og kjör.
    Nú geta menn auðvitað sagt: Hvað á að gera í efnahagsþrengingum? Hvernig á að bregðast við? Ég svara því þannig að það þarf að jafna kjörin. Það þarf að taka upp launaskiptinguna og jafna kjörin. Og þarna gafst tækifæri til þess. Menn mega ekki og eiga ekki að gefa sér það að við séum komin með eitthvert óumbreytanlegt launakerfi þar sem engu megi breyta. Og þegar VSÍ og ASÍ rísa upp á afturlappirnar og kvarta og kveina og halda uppi þeirri stefnu sem þeir hafa fylgt árum saman um að engu megi breyta, engu raska þá séu sendar eftirlitssveitir á hvern þann sem vogar sér að gera samninga sem eitthvað ganga á skjön við þá sem ASÍ og VSÍ hafa samið um. Þetta er launakerfi, launastefna sem gengur ekki. Mér þætti gaman að vita hvernig þeir menn sem telja sig vera fylgjandi frjálsu markaðskerfi og frjálsum samningsrétti, geta rökstutt það að veita frelsi á sem flestum sviðum viðskiptalífsins en þegar kemur að kaupi og kjörum fólks þá er allt þar niðurneglt og engu má breyta. Ég get ekki séð að slíkt gangi upp í frjálsu þjóðfélagi. Við erum einfaldlega á móti því að binda kjörin með þessum hætti sem gert hefur verið, vegna þess að það launakerfi sem við búum við er óréttlátt. Og það er ekki síst óréttlátt gagnvart konum þessa lands. Einn megintilgangur Kvennalistans, ein meginástæðan fyrir því að við erum hér er sú að við viljum bæta kjör kvenna og gera þeim kleift að sjá sjálfum sér og sínum farborða. En sú launastefna, sem hér ríkir og ríkisvaldið er hluti af, viðheldur þessu launamisrétti. Menn tyggja það hér hver eftir öðrum að engu megi breyta.
    Þegar þessi umræða var í hámarki í sumar þá sendum við m.a. frá okkur svar til Morgunblaðsins sem spurði Kvennalistann hver væri hans stefna í þessu máli. Og ég ætla að leyfa mér að lesa þetta svar hér því að það felur í sér flest það sem við teljum okkur hafa að segja í þessu máli, með leyfi forseta:
    ,,Kvennalistakonur hafa lengi verið þeirrar skoðunar að það launakerfi sem við búum við þarfnist verulegra endurbóta og uppstokkunar. Við teljum að á undanförnum árum hafi verið farnar mjög svo vafasamar leiðir í kjarasamningum. Við okkur blasir að launamunur fer vaxandi og feluleikurinn dafnar meðal þeirra sem betur mega sín meðan hópar launafólks vinna samkvæmt umsömdum smánartöxtum.
    Launakerfið mismunar körlum og konum. Stórum hópum er haldið niðri ár eftir ár á meðan skapast hefur eins konar neðanjarðarkerfi aukagreiðslna og yfirvinnu, unninnar og óunninnar, sem einkum nær til karla. Atvinnurekendum er harðlega bannað að hækka laun starfsmanna sinna og fá yfir sig VSÍ-forustuna ef þeir voga sér að bæta launin, enda æ fleiri sem semja um duldar greiðslur og gera einkasamninga. Í stað þess að fagna því þegar glufur myndast í þessu heilfrysta launakerfi tekur verkalýðsforustan nú að sér að verja óbreytt ástand. Vei þeim sem einhverju vilja breyta.
    Með ríkjandi launastefnu er verið að festa í sessi láglaunastefnuna og koma í veg fyrir allar leiðréttingar, þar með talið að draga úr launamisrétti kynjanna. Það mætti halda að það sé náttúrulögmál að enginn megi gera betri kjarasamninga en annar og þau launahlutföll sem nú ríkja milli hópa verði að haldast óbreytt.
    Árum saman hefur verið samið í skugga vaxandi erfiðleika í atvinnulífinu og þess samdráttar sem þegar er orðinn og boðaður er. Það er augljóst að við verðum öll að taka á okkur áföllin og þeir því meira sem betur standa. Því hlýtur leiðin á tímum sem þessum að vera sú að breyta tekjuskiptingunni og jafna kjörin.
    Kjaradómur sinnti lagaskyldu sinni og felldi úrskurð sem fól í sér verulega tilfærslu greiðslna innan þess hóps sem úrskurðurinn nær til. Stór hópur lækkaði í launum, aðrir hækkuðu. Kjaradómur gerði tilraun til að brjótast út úr herkví feluleiksins og afhjúpaði um leið þann mikla launamun sem ríkir í þjóðfélaginu en mörgum virðist hafa verið ókunnugt um. Kjaradómur reyndi að taka á neðanjarðarlaunakerfi ríkisins og hafði til viðmiðunar ýmsa hópa úti í þjóðfélaginu, þar á meðal forustumenn VSÍ og ASÍ við ákvörðun launa. Niðurstaðan skall eins og blaut tuska á andlit láglaunafólks en þar er ekki við Kjaradóm að sakast heldur þann veruleika sem við búum við í launamálum, veruleika sem þarf að breyta. Með því að grípa til aðgerða gegn úrskurði Kjaradóms lætur ríkisstjórnin líta svo út sem hún hafi gert eitthvað sem máli skiptir í launamálum. Sannleikurinn er þó sá að úrskurður Kjaradóms breytir engu um launamisréttið í landinu og með því að hafna honum er verið að framlengja líf neðanjarðarkerfisins, ýta undir feluleikinn og fá fólk til að sætta sig betur við bág kjör sín. Bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar leysa heldur engan vanda heldur er honum sópað undir teppið. Mun eðlilegra hefði verið að Alþingi tæki á málinu með rækilegri skoðun.
    Það vekur furðu að Morgunblaðið, sem blaða harðast hefur gagnrýnt rétt ríkisstjórna til setnigna bráðabirgðalaga á undanförnum árum, slær nú úr og í þrátt fyrir breytt lög sem heimila að Alþingi verði kallað saman með skömmum fyrirvara. Hvað veldur?
    Eftir örfáar vikur verða upplýsingar um tekjur landsmanna lagðar fram á skattstofum landsins. Þá gefst gullið tækifæri til að skoða tekjuskiptingu þjóðarinnar. Þá geta menn t.d. skoðað hvað leiðtogar verkalýðsins, vinnuveitendur, ritstjórar og aðrir þeir sem harðast gagnrýna Kjaradóm, bera úr bítum. Væri ekki nær að horfast í augu við veruleikann og hefjast handa við uppstokkun á launakerfinu og breytingu á tekjuskiptingunni í átt til aukins réttlætis?
    Ekki stendur á okkur kvennalistakonum að leggja okkar af mörkum til þeirrar vinnu. Umræðan um

Kjaradóm snýst einmitt um tekjumun í þjóðfélaginu, réttlæti í launamálum og skipbrot þeirrar launastefnu sem hér hefur verið rekin um árabil af samflotinu mikla. Skúta þeirra hefur nú steytt á því skeri sem e.t.v. mun sökkva henni.``
    Þetta var svar sem við sendum Morgunblaðinu að gefnu tilefni og þarna kemur flest það fram sem mér finnst skipta máli í þessu sambandi sem er ekki síst það gullna tækifæri sem ríkisstjórnin missti af. En í framhaldi af þessu vaknar auðvitað sú spurning: Hver er launastefna ríkisstjórnarinnar? Hvernig ætlar hún að halda áfram? Ætlar hún að láta þessa óánægju sem ríkir, sérstaklega meðal háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem ekki hefur enn þá verið samið við þó samið hafi verið við flest önnur samtök launafólks, gerjast áfram? Hver á stefnan að vera? Eins og ég nefndi fyrr, þá erum við að ræða þennan viðamikla og víðtæka samning um Evrópskt efnahagssvæði og eins og menn vita felur hann í sér frjálsa fólksflutninga á milli landa á hinu Evrópska efnahagssvæði og það þýðir væntanlega að ýmsir muni hugsa sér til hreyfings og þá ekki síst þeir sem eiga möguleika á því að fá störf í öðrum löndum. Ég tel víst að þar verði ýmsir sérfræðingar efstir á blaði, þeim muni reynast einna auðveldast að fá vinnu á hinu Evrópska efnahagssvæði og ég spyr hæstv. fjmrh.: Heldur hann að launakjör á Evrópska efnahagssvæðinu muni ekki hafa áhrif hér á landi? Heldur ríkisstjórnin að hægt verði að halda áfram þessari launastefnu, að halda launum fólks svo niðri með þeim hætti sem hér hefur verið gert? Hvernig á að leysa þetta? Að mínum dómi getur þetta auðvitað virkað í báðar áttir, bæði til þess að menn standi loksins frammi fyrir því og komist ekki hjá því að greiða sérfræðingum og vel menntuðu fólki laun í samræmi við það sem gerist í öðrum löndum, en við erum þar langt á eftir öðrum, hins vegar gæti þróunin líka orðið sú --- einmitt vegna launastefnunnar, hvernig samið er um mjög lága taxta, en það eru reyndar konur sem einkum eru á töxtunum einum saman --- að menn freistuðust til þess að ráða hingað láglaunavinnuafl, t.d. frá atvinnuleysissvæðunum, þ.e. að því tilskildu að sjálfsögðu að hér verði vinnu að fá. Þetta getur því virkað í báðar áttir og hugsanlega orðið til þess að auka launabilið hér á landi sem er nú ærið fyrir.
    En þó að launabilið sé breitt þá þýðir það ekki að það megi engu breyta og að þessi stigi sem búinn hefur verið til sé óumbreytanlegur. Við verðum að hugsa til framtíðar í þessum efnum og einmitt að hugleiða það hvernig við ætlum að halda í okkar sérmenntaða fólk. Ég get nefnt það sem dæmi að ýmsir þeir sem hafa verið að spá í það hvað muni gerast í kjölfar hins Evrópska efnahagssvæðis hafa einmitt bent á það að hér kunni að verða atgervisflótti, einmitt að sérfræðingarnir leiti úr landi vegna þess hvað fólk er orðið langþreytt á þeim kjörum sem hér er boðið upp á.
    Það er einn hópur sérstaklega sem ekki er hægt að komast hjá því að ræða í þessu samhengi og það er auðvitað prestastéttin sem hefur fengið yfir sig tvenn bráðabirgðalög á þremur árum. Við vitum að þeir eru afar óánægðir með sín kjör. Þegar Dagblaðið gerði úttekt á sköttum ýmissa hópa nú í sumar voru m.a. prestar dregnir fram í dagsljósið og þá kom auðvitað í ljós að nokkrir þeirra eru mjög þokkalega launaðir, ekki síst þeir sem eru í öðrum störfum með prestsþjónustunni, en í þessum hópi voru þessir örfáu sem njóta einhverra hlunninda. En ef litið er á prestastéttina í heild þá sést launin eru bara rétt í meðallagi. Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi. Menn viðurkenna fyrst að prestastéttin hafi dregist langt aftur úr og að launakjör þeirra séu með þeim hætti að ekki verði við unað, samþykkja hér á Alþingi að þeir fari undir Kjaradóm. Síðan leggja þeir sín mál fyrir Kjaradóm, vinna þar mikið og gott starf og kynna sína stöðu, Kjaradómur samþykkir að mjög brýnt og nauðsynlegt sé að leiðrétta launakjörin, en þá kemur ríkisvaldið og setur á þá bráðabirgðalög og tekur af þeim þessar úrbætur sem menn voru þó sammála um að þeir ættu skilið að fá. Þessi niðurrifsstarfsemi ríkisvaldsins er auðvitað gjörsamlega óþolandi. Við eigum eftir að ræða hér betur um kjör presta og þeirra stöðu, en hér getur ríkisvaldið verið að hleypa af stað mikilli skriðu sem bæði getur orðið til góðs og ills ef hún leiðir af sér uppreisn í kirkjunni eins og prestar hóta nú.
    Ég ætla ekki að fara mikið út í stöðu annarra hópa sem Kjaradómurinn fjallar um en menn eru afar feimnir t.d. við að ræða kjör alþingismanna og vilja helst ekki anda út úr sér orði um það mál, en að mínum dómi eru þau kjör alls ekki viðunandi, alls ekki nógu góð. Mér finnst það vera orðið alvarlegt mál þegar fólk neitar að taka sæti á framboðslistum vegna þess hvað það lækkar í launum. Við höfum dæmi hér inni á þingi um fólk sem hefur lækkað verulega í launum við það að setjast hér inn og það hefur komið upp sú staða að það er jafnvel erfitt að fá varamenn til þess að taka hér sæti vegna þess að þeir lækka verulega við það í launum. Og eins og vinnuálagi er háttað í þessari ágætu stofnun, hinu háa Alþingi, þá tel ég mjög brýnt að það fáist úrbætur í launamálum alþingismanna og þá ekki síst alþingismanna hér á þéttbýlissvæðinu, þ.e. á suðvesturhorninu. Ég er þeirrar skoðunar að launamunur sé óeðlilega milli Reykjavíkurþingmanna og landsbyggðarþingmanna þó að ég sé ekki þar með að segja að ég vilji neitt af þeim taka eða þeir séu of sælir af sínu.
    Ég held að ég hafi nefnt flest það sem mér finnst skipta máli í þessu samhengi. Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel ekki hafa verið rök fyrir þessum bráðabirgðalögum. Ég tel að þessi kjaradómur hefði, eins og ég hef áður nefnt, gefið ríkisstjórninni tækifæri til þess að fara út í nauðsynlega uppstokkun á launakerfinu. Ég tel að eðlilegra hefði verið að kalla Alþingi saman í kjölfar þeirra lagabreytinga sem gerðar voru á síðasta ári og ég tel mjög brýnt að ríkisvaldið, ríkisstjórnin leggi nú vinnu í það verk að móta launastefnu sem stenst til lengdar þannig að þessari styrjöld sem ríkið hefur staðið í við sína starfsmenn nú um allnokkurt árabil ljúki með friðarsamningum.
    Hæstv. fjmrh. nefndi ýmislegt í sinni ræðu sem vert væri að minnast hér á og ég ræddi nokkuð

áðan um það hvernig fara skuli með bráðabirgðalagavaldið. Hann sagði einmitt það sem mér finnst vera kristallinn í þessari umræðu sem var það að dómurinn var ekki í samræmi við þá kjarasamninga sem gerðir höfðu verið. Kjaradómi bar að fara að settum lögum. Honum bar að meta og ákveða kjör þeirra sem undir hann heyra með tilliti til þess sem gerist á almennum vinnumarkaði. Staðreyndin er einfaldlega sú að laun á almennum vinnumarkaði eru í takt við það sem Kjaradómur ákvað. Þessi dómur fól ekki í sér mikla útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð þó að hún væri nokkur og þar komum við inn á lífeyrisgreiðslur til embættismanna sem er auðvitað mál sem þarf að skoða og spurning hvort það kerfi sem þar er á sé réttlætanlegt. Ég lít þannig á að seinni niðurstöðu Kjaradóms, eftir að hann hafði fengið á sig lögin, beri að túlka þannig að í rauninni hafi Kjaradómur fleygt málinu í ríkisvaldið og sagt: Hafið þið þetta, fyrst hann var gjörsamlega hunsaður og hans niðurstaða því að hann skildi málið eftir algjörlega óleyst. Það er enn þá algjörlega óleyst hvernig farið skuli með launakjör þessa hóps sem undir Kjaradóm heyrir en reyndar eru komin hér fram frumvörp sem ég fæ reyndar ekki séð að breyti þeirri stöðu þó að þau nálgist málið á annan hátt.
    Fjmrh. sagði líka, og endurtók það sem hann sagði í sumar, að dómurinn hafði meira svigrúm en ég held að niðurstaða dómsins túlki þá skoðun þeirra að úr því sem komið var, þá skyldi ríkisstjórnin bara leysa þetta mál og þeir ætluðu ekki að fara í eitthvert millispil, enda þýddi þessi niðurstaða að þeirra tilraun til uppstokkunar var hafnað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Og það eins og ég hef margnefnt hérna finnst mér kannski vera það versta í þessu máli öllu saman.
    Þar sem við kvennalistakonur teljum að það hafi ekki borið þá brýnu nauðsyn til að setja þessi lög sem þarf til slíkrar lagasetningar og erum ósammála inntaki, eða eigum við að segja bakgrunni þessara laga, þá treystum við okkur að sjálfsögðu ekki til þess að styðja þetta lagafrv.