Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 18:33:31 (259)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ekki veit ég hvort sjálfstæðismenn gera sér grein fyrir því að þeirra málflutningur í gegnum tíðina hér á Alþingi Íslendinga, þegar þeir hafa sagt að alþingi götunnar ætti ekki að stjórna þessu landi, er orðinn hlægilegur, aumkunarverður því að dómstóll götunnar tók yfir. Og huglausir ráðherrar skriðu undir pilsfaldinn hjá hæstv. félmrh. Það er ömurlegt að horfa á þetta lið. Ömurlegt. Og ég skil það vel að hæstv. fjmrh. sem talaði hér áðan, hafi ekki treyst sér til þess að tala fyrir þessu frv. til laga nema jafnframt að tala fyrir máli sem ekki var á dagskrá, þ.e. nýjum lögum um Kjaradóm og þannig undirstrika að lögin væru svo vitlaus að það væri ekki hægt að láta þau standa, ekki einu sinni út þetta þing. Það hefði nú verið gaman að láta lögin eins og hæstv. ríkisstjórn hefur sett þau fram, bráðabirgðalögin, standa næstu fimm árin og sjá hvernig þeim liði, þessum sérfræðingum sem við Drekkingarhyl sömdu þennan texta og ákváðu að koma honum á framfæri. En það unga þinglið sem lét kjöldraga sig með þessum hætti, til hvers er það hæft? Hvenær hafa huglausir menn staðið sig og staðið fyrir sínu? Það hefur aldrei gerst. Ég hefði satt best að segja ekki trúað því að það unga lið sem komið var hér inn væri svo huglaust sem raun ber vitni.
    Hvernig halda menn að það gangi upp í siðmenntuðu þjóðfélagi að allt vald sé á einni hendi hjá framkvæmdarvaldinu? Ef framkvæmdarvaldinu líka ekki dómarnir, þá er bara farið í að breyta þeim. Það var heilt stórveldi að líða undir lok sem starfaði á þennan hátt, Sovétríkin. Hver man ekki eftir því þegar þeir gerðu hlé á Jalta-ráðstefnunni forðum og Churchill sagði við Stalín að hann öfundaði hann af því að þurfa ekki að burðast með neðri deildina. (Gripið fram í.) Og Stalín hafði fullan skilning á því að það væri ljóta bölið.
    Hérna höfum við verið minnt á það í dag að við eigum það undir náð framkvæmdarvaldsins hvort þingið eigi að kalla saman á þessum tíma. Við erum minnt á það. Menn hafa verið með hortugheit yfir því að mönnum skyldi detta í hug að líta svo á að þingið ætti að hafa á því sjálfstæðar skoðanir hvað hér yrði tekið fyrir. Nei, það er merkilegur hlutur að menn láti sér detta það í hug að leggja til í lagatexta eins og hér stendur í 1. gr. frv. um breyting á lögum nr. 92/1986, um Kjaradóm, með síðari breytingum. Þar stendur svo, með leyfi forseta:
    ,,Enn fremur skal Kjaradómur við úrlausn mála taka tillit til stöðu og þróunar kjaramála á vinnumarkaði, svo og efnahagslegrar stöðu þjóðarbúsins og afkomuhorfa þess.
    Telji Kjaradómur ástæðu til að gera sérstakar breytingar á kjörum einstakra embættismanna eða hópa skal þess gætt að það valdi sem minnstri röskun á vinnumarkaði.``
    Gott og vel. Hvaða spámaður á að vera í Kjaradómi og sjá það fyrir hverjar afleiðingarnar eru? Hvaða spámaður er það? Er það stjörnuspámaður? Einhver kerling með svartan kassa eins og hún var notuð hér um árið? Hvað er það sem menn eru að tala um í þessu sambandi? Hver setur svona lagað í lög, annað eins rugl? Hver hefði niðurstaðan orðið ef hæstv. fjmrh. hefði verið búinn að upplýsa að það væri 12 milljarða halli á ríkissjóði á árinu? Hver hefði þá niðurstaðan orðið? Fiskifræðingarnir búnir að koma með allar sínar kenningar um hrun stofnanna? Hvað var það sem ekki var hægt að sjá dagsins ljós? Hvað var það? Hvað var það, hv. 5. þm. Norðurl. v.? Veit hann hvað það var? Það var sú staðreynd að forstjórar þessa lands hafa á þjóðarsáttartímabilinu stórhækkað sín laun. Það var sú staðreynd að félmrh. hefur ekkert fylgst með því að laun sveitarstjóra og borgarstjóra og bæjarstjóra hringinn í kringum landið hafa verið að stóhækka á sama tímabili. Það var sú staðreynd sem ekki mátti segja frá að forustumenn launþegahreyfingarinnar höfðu stórhækkað sín laun fram yfir það sem þeir höfðu samið um fyrir sitt fólk. Það eru nefnilega málaliðar sem stýra þeirri hreyfingu í dag. Það eru ekki menn sem uxu upp innan hreyfingarinnar og komust þar til valda, heldur ráðnir menn, málaliðar eins og forseti ASÍ er í dag, sá rauðskeggjaði, málaliði. Og hvaða fjölskyldutekjur skyldi þessi málaliði hafa á mánuði? Ætli það sé ekki hátt í 900 þúsund? Hvaða tekjur ætli framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands hafi? Eða framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna? Það er sagt að hann sé með um 700 þús. Nú geispar hæstv. fjmrh. Það er ekki skemmtilegt að þurfa að þylja þetta yfir blessuðum manninum. ( Gripið fram í: Þetta heldur vöku fyrir okkur.) Þetta heldur vöku fyrir mönnum sem vildu gjarnan sofa og ekki þurfa að standa í því stappi að standa upp heiðarlega og ræða þessi mál. Auðvitað bar ríkisstjórninni þegar ljóst var hve stórkostlegar hækkanir höfðu orðið hjá samanburðarhópunum að þrýsta á um það að þeirra laun yrðu lækkuð. En í staðinn láta menn það gerast að forseti ASÍ kemur sperrtur og segir: Við krefjumst sömu launa. Gott og vel. Ætli ráðherrarnir séu ekki sáttir ef þeir hefðu sömu laun, að maður tali nú ekki um aðra í hópnum? En hvað var það sem Kjaradómur undirstrikaði og var kannski erfiðast fyrir ráðherrann af öllu saman að kyngja? Það var að það ætti að fara eftir dómnum og þar eru það ekki núverandi ráðherrar einir sem eru sekir heldur ráðherrar í gegnum tíðina sem hafa verið að greiða ómælda yfirvinnu til ákveðinna gæðinga í stjórnkerfinu og hafa ekki virt dóminn. Hæstaréttardómurum Íslands hefur verið haldið á strípuðum töxtunum við dóminn. En öðrum hefur verið greidd ómæld yfirvinna. Og nú voru allt í einu fyrirmæli um það að farið skyldi eftir dómnum. Rosalegt ástand. Hæstv. fjmrh. mátti ekki gauka seðlum yfir borðið eða undir borðið eins og honum datt í hug. Hann skyldi allt í einu láta fara eftir dómnum. Þetta er ekki efnilegt að tarna.
    Nei. Það er ömurlegt í einu orði sagt að svo huglausir menn skuli stjórna þessu landi sem raun ber vitni. Það kemur nefnilega fram, og kom alveg snilldarlega fram í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann rakti það lið fyrir lið hvernig hæstv. forsrh. undir kjörorðinu ,,orð skulu standa`` hraktist frá einu víginu til annars þar til hann varð um síðir á handahlaupum undan hæstv. félmrh. sem ræddi það ekki á hvaða launum hennar undirmenn væru, ræddi það ekki hvaða kjör væru hjá þeim eða hvað þeir hefðu hækkað á þjóðarsáttartímabilinu. Svo kom niðurstaðan: Ef ríkið fær óhagstæðan dóm að dómi framkvæmdarvaldsins, þá á að setja lög.
    Ég verð að segja eins og er að ég virði íslenska prestastétt fyrir það að hafa ákveðið að fara í mál. Ef það er stefna núv. stjórnvalda að standa þannig að launakjörum hjá prestum að í prestastétt verði samsafn undirmálsmanna sem ekki styrki kristna trú með sínum ræðum á sunnudögum heldur fæli flesta sæmilega viti borna menn frá því að styðja þjóðkirkjuna, þá eru menn að skapa hér það ástand að alls konar glundroðasöfnuðir með fáránlegum forustuaðilum taki yfir og íslenska þjóðkirkjan heyri sögunni til. Það er nauðsyn, það er þjóðarnauðsyn að íslenska þjóðkirkjan búi það vel að sínum klerkum --- enginn að tala um sérstakt auðs- eða bílífisstand --- en búi það vel að sínum klerkum að við fáum hæfa menn til að sinna þessu starfi.
    Það er nú einu sinni svo að íslenska þjóðkirkjan hefur haft mótandi áhrif á lagasetningu Alþingis á marga vegu í réttlætisátt. Og enn biðja þeir fyrir ríkisstjórn Íslands á sunnudögum. ( Gripið fram í: Og veitir ekki af.) En mér er sagt að nú biðji þeir fyrir henni á þeirri forsendu að í Biblíunni stendur að menn eigi að biðja fyrir óvinum sínum og það verður ekki sagt annað en þeir séu sannkristnir því enn biðja þeir fyrir ríkisstjórninni.
    En það er merkilegur hlutur, sögulega séð stórmerkilegur hlutur, að undir forustu Sjálfstfl. er það dómstóll götunnar sem tók yfir. Dómstóll götunnar tók yfir. Það er nefnilega svo að stundum fara menn í kröfugöngur og stundum fara menn í skrúðgöngur og ef menn rugla þessu tvennu saman og halda að virðuleg skrúðganga sé orðin að kröfugöngu, þá má náttúrlega búast við ýmsu. Ég býð nú ekki í það ef menn sæju fjölmenna jarðarför og héldu að þeir væru að mótmæla störfum stjórnarinnar.
    Ég verð að segja eins og er að hæstv. fjmrh. er snillingur að einu leyti. Hann er snillingur í að verja rangt mál. Þetta er eitt af því sem lögfræðin gefur mikið fyrir því að það hefur alltaf verið þörf á því að hafa hæfa menn til að verja rangt mál, hæfa menn til að verja rangan málstað vegna þess að það liggur ljóst fyrir að í venjulegum málaferlum þarf tvo. Það er yfirleitt auðveldara að finna þann sem er fær um að verja réttan málstað en þann sem er fær um að verja rangan málstað. Og að því leyti er hæstv. fjmrh. snillingur. Hann hefur haft þetta sem ævistarf að verja rangan málstað.
    En þá komum við að einu sem eftir stendur og er mikill prófsteinn á Hæstarétt Íslands sem hefur nú verið hýrudreginn. Það þarf að vera brýn nauðsyn svo hægt sé að setja bráðabirgðalög. Og þá vaknar þessi spurning: Hvernig fær það staðist að það sé brýn nauðsyn ef lögin í reynd koma ekki til framkvæmda, þ.e. áhrifin af þeim, fyrr en eftir mánuð? Hvernig fær það staðist að það sé brýn nauðsyn? Það gengur einfaldlega ekki upp. Skilningur manna á íslensku máli hvað sé brýn nauðsyn er það sem þarf að framkvæma hér um bil strax. Þess vegna reynir á það ef Hæstiréttur samþykkir að það hafi verið réttlætanlegt undir þessum kringumstæðum að setja bráðabirgðalög þegar vitað var að allir voru reiðubúnir að mæta til þings, hlusta á hæstv. fjmrh. flytja langloku, kannski klukkutíma ræðu fyrir einhverju frv. sem hann hefði getað gert grein fyrir að mestu leyti í greinargerð, og að samgöngukerfi landsins er í því besta ástandi sem það getur verið um mitt sumar, hvers vegna var þá þingið ekki kallað saman? Það var ekki vegna stjórnarandstöðunnar. Það var ótti ríkisstjórnarinnar við eigin stuðningsmenn, að þrátt fyrir allt léti það lið

ekki kúska sig á þennan hátt. Mér er sagt að hvorki hjá Sjálfstfl. né Alþfl. hafi verið kallaður saman þingflokksfundur til þess að samþykkja bráðabirgðalögin á sínum tíma, hjá hvorugum aðilanum hafi verið kallaður saman þingflokksfundur. Ef það er ekki rétt, þá vil ég að það sé upplýst hér af stuðningsmönnum stjórnarinnar að það hafi verið kallaður saman þingflokksfundur þar sem atkvæði hafi verið látin ganga vegna þess að það er siðlaust, gjörsamlega siðlaust að koma með svona frv. og setja svona lög nema slíkt sé gert. Það þarf að vera vissa fyrir því að þingmeirihluti sé fyrir lagasetningu þegar hún er sett fram. (Gripið fram í.) Það er eitthvað óljóst sem heyrist í hæstv. fjmrh. E.t.v. er það bænakvak, en það er ekki vitað, það er í það minnsta ekki snjöll yfirlýsing um það að kallaður hafi verið saman þingflokksfundur hjá Sjálfstfl. Það er ekki snjöll yfirlýsing um það. Og frá fulltrúa Alþfl., þeim eina sem hefur þrek til að sitja hér í salnum, heyrist ekki púst um málið. Það er ekki einu sinni svo að það sé kinkað kolli eða hristur þá hausinn til þess að staðfesta hvort þetta sé rétt eða rangt. ( Gripið fram í: Það heyrist ekki neitt.) Það heyrist ekki neitt.
    Mér er ljóst að það verður aldrei friður um það hvaða laun menn eiga að hafa. Það verður aldrei friður um það. Það verður aldrei sátt um það hvaða laun þingmenn eða ráðherrar eiga að hafa. Það verður ávallt talið af mörgum að þessar stéttir séu allt of vel launaðar. Gott og vel. Það er hægt að una því að það sé einhver dómur sem ákveður það hvaða laun þessar stéttir eigi að hafa. En að dómstóll götunnar taki yfir, það er ekki hægt að líða það. Og þegar dómstóll götunnar hafði tekið yfir, þá fóru fréttamenn af stað og fóru að birta lista yfir það hvað samanburðarhóparnir höfðu í laun og hæstv. fjmrh. hefði ekki náð þeim launum sem fjármálastjóri í sumum þessum fyrirtækjum hafði, hvað þá forstjórinn. Af og frá. Enda eru kannski gæði verkanna í samræmi við þetta, að vera kominn með 12 milljarða halla þrátt fyrir yfirlýsingarnar í fyrra. Væri nú ekki ráð að hækka kaupið hjá fjmrh. og krefjast þess að hann stæði sig, að það væri ekki allt vitleysa sem hann segði þinginu um það hvert stefndi með fjármál þjóðarinnar?
    Ég verð að segja eins og er að allan þann tíma sem ég hef setið á þingi hafa þessi mál verið deiluefni og ráðherrar landsins yfirleitt verið sammála um það að borga embættismannakerfinu hærri laun en Kjaradómur hefur dæmt en jafnframt að sjá til þess að laun þingmanna yrðu lækkuð. Og þessu til viðbótar ætla ég að minnast þess að á sínum tíma gerði forsrh. það að sérstöku umræðuefni hver væru launakjör þingmanna, gerði það að umræðuefni í ræðu sinni á 17. júní. Þá hafði þingfararkaupsnefnd Alþingis Íslendinga komist að þeirri niðurstöðu að ráðuneytisstjórarnir, sem áttu að hafa sömu laun og þingmenn, höfðu þá sömu laun og þingmenn --- þetta var í forsætisráðherratíð Gunnars Thoroddsens --- þá höfðu þeir náð sér í 20 tíma í yfirvinnu ómælda til viðbótar og þingfararkaupsnefndin hækkaði laun þingmanna til samræmis. Og við vorum skammaðir eins og hundar hvar sem við sáumst vítt og breitt um landið fyrir það að vera að hækka okkar kaup. Ég man eftir því að ég var vestur á fjörðum og þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það var boðaður þingflokksfundur hjá Framsókn og núverandi formaður hamaðist á því að fá menn nú til að samþykkja það að Kjaradómur ætti að sjá um þeirra launakjör hér eftir.
    Hjá Alþb. var það þannig að hv. 8. þm. Reykn. kallaði upp í talstöðina til Garðars Sigurðssonar, sem var þá á sjó út af Suðurlandi, og krafðist þess að hann sem fulltrúi Alþb. drægi strax þessa kauphækkun til baka. Garðar reif kjaft eins og hans var von og vísa og svaraði illu einu. En í fjarvist hans á þingflokksfundi Alþb. hneigðu menn höfuðið og samþykktu að sjálfsögðu að gefa þetta eftir. Það er fróðlegt að sjá í dag hver launamunurinn er orðinn á milli ráðuneytisstjóra og þingmanna. En það var dálítið merkilegt og umhugsunarefni að það var aðeins einn þingmaður sem neitaði algerlega að hlýða foringjanum í þingliði Framsóknar í þessum efnum. Hann var ekki trúaður á það að menn yrðu nokkurn tíma ánægðir með þau laun sem þingmenn hefðu og fór fram á það að ráðuneytisstjórarnir yrðu þá bara sviptir þessari hækkun sem þeir hefðu. Þeir þyrftu ekkert ómælda yfirvinnu, þeir gætu þá bara hætt ef þeir stæðu sig ekki í sínu starfi og skiluðu því. Sá þingmaður var að norðan, gráhærður, en honum var gefinn verulegur kjarkur og hann hét Stefán Valgeirsson.
    Ég verð nú að segja eins og er að ég hafði gaman af þessum átökum þeirra frændanna. Hins vegar lofaði Steingrímur mjög Kjaradóm og við --- ég held að ég hafi setið hjá í þessari atkvæðagreiðslu --- við vorum búnir að fá meðferðina. Það var búið að hella sig yfir þingmenn á Austurvelli í ræðunni 17. júní og það var búið að skamma okkur um land allt fyrir það tiltæki að launin hefðu verið hækkuð.
    Núna er eiginlega farið svipað að. Núna gerist það að Kjaradómur dæmir laun og það er verulega hækkun. Þingmönnum er ekki gefið færi á því, stjórnarþingmönnunum var aldrei gefið færi á því að koma hér saman og lýsa því yfir að þeir væru reiðubúnir að afsala sér þessari hækkun, ekki gefið færi á því vegna þess að það voru aðrir sem vildu birtast á hvítum fákum og geta sagt: Við tókum þetta af þeim með bráðabirgðalögum. Þannig eru vinnubrögðin. Ég ætla ekki að segja að núverandi dómur hjá Kjaradómi hafi verið eitthvað betri en aðrir. Hins vegar var það dómur. Það var dómur sem var kveðinn upp. Ég hef verið stuðningsmaður þess að við búum við þrískiptingu valdsins og meiri hluti Kjaradóms er skipaður af Hæstarétti. Er það rökrétt að þeir starfsmenn í þjónustu ríkisins sem ekki hafa verkfallsrétt eigi að selja fjmrh. sjálfdæmi um það hvaða laun séu greidd? Er það rökrétt? Það eru þær hugmyndir, hinar nýju, sem fram eru komnar, sjálfdæmi handa fjmrh. um það hvaða laun þeim séu greidd. Hann ætlar sjálfur að skipa meiri hlutann í nefndinni.
    Það vill nú svo til að þrátt fyrir mikið lof sem hæstv. ráðherra bar á sjálfan sig varðandi hina geistlegu stétt þessa lands, þá virðist sem prestarnir treysti honum ekki jafn vel og efni standa til. Og ég verð

nú að segja eins og er: Ég held ég skilji hvers vegna. Það má vel vera að sjálfdæmi sé það sem menn telji að henti í þessum efnum. Það sé það sem eigi að takast upp. Fjmrh. eigi að hafa sjálfdæmi hvaða laun hann greiðir æðstu embættismönnum. Ég held að Kjaradómur sem þannig er skipaður sé hálfgerður skrípaleikur, ég verð nú að segja eins og er. En það verður aftur á móti skráð á spjöld sögunnar að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., setti bráðabirgðalög sem hún treysti sér ekki til þess að búa við nema í tvo mánuði. Lögin voru það vitlaus að samtímis var lagt fram frv. til að breyta þeim þegar staðfestingarfrumvarpið var lagt fyrir Alþingi Íslendinga. Haldið þið að það verði nú ekki gaman hjá stjórnarþingmönnunum að samþykkja fyrst vitlausa frumvarpið við nafnakall, lýsa því þar með yfir að þetta sé það sem þeir vilja, hafi áhuga á að setja í lög og þurfa svo kannski nokkrum klukkutímum seinna að rétta aftur upp höndina til að staðfesta að það sem þeir voru búnir að samþykkja við nafnakall sé svo vitlaust að það verði að afnema það úr lögum strax? Ég verð að segja eins og er að þetta lið kann að ganga í takt. Það hefur lært það sem góði dátinn Svejk lagði svo mikið upp úr, að agi þyrfti að vera í hernum.