Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 14:16:49 (270)


     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Frá því að sumarþing var sett fyrir rúmum tveimur vikum hafa stjórnarliðar sem tekið hafa til máls í ræðustóli rætt um þann beina ávinning sem við teljum íslenskt atvinnulíf og íslenska þjóðin almennt muni hafa af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég mun því ekki ræða einstök atriði samningsins heldur annars vegar leggja stuttlega orð í belg varðandi umfjöllun okkar þingmanna um þetta mikilvæga mál og hins vegar fjalla um þann óbeina eða almenna ávinning sem ég tel einnig að EES muni hafa í för með sér.
    Alþingisumræður eiga að vera upplýsandi og það eigum við alþingismenn að hafa í huga í umfjöllun okkar um þennan mikilvæga samning um Evrópskt efnahagssvæði nú á næstu vikum. Við höfum ef til vill ekki gert okkur grein fyrir því hvernig allur almenningur óskar að hlýða á umræður á hinu háa Alþingi, enda kemur slíkt ekki fram í niðurstöðum skoðanakönnunar þeirrar sem var rædd hér fyrir síðustu helgi. Umrædd skoðanakönnun sýndi hins vegar vilja almennings til að hlusta fremur á röksemdafærslu þá sem hér færi fram en þá sem gefst af hálfu framkvæmdarvaldsins. Ljóst er að umfjöllunin sl. vetur og sumar um einstaka þætti samningsins sem upplýsingagildi hefðu fyrir almenning, ekki síst þar sem um vafaatriði er að ræða, hefur engan veginn verið tæmandi. Enda kemur slíkt einnig fram í framangreindri skoðanakönnun. Jafnvel þótt þingheimur hafi verið upptekinn af vinnu tengdri samningnum hefur okkur ekki tekist að setja umræðuna í þann búning að stór hluti þegna landsins telji sig vita það mikið um málið að þeir vilji tjá sig. Einnig er sá hópur allt of stór sem telur sig vita það lítið að hann hafnar einnig skoðanaskiptum eða hugsanlega hafnar samningi um Evrópskt efnahagssvæði að svo komnu máli. Það er því afar brýnt að við alþingismenn í umræðum okkar reynum eftir megni að axla þá ábyrgð að upplýsa almenning eins vel og málefnalega og kostur er um efni samningsins og einstök atriði í útfærslu sem tengd eru honum.
    En enginn er eyland og þetta máltæki hefur sjaldnar átt betur við en á síðustu áratugum þegar ör þróun í samgöngum, samhliða annarri tækniþróun hefur svo að segja brúað bilið milli heimsálfa í slíkum mæli að segja má að álfurnar séu að verða samrunnar. Staðreyndin að engin er eyland á ekki síður við Ísland. Þetta höfum við sannreynt með sívaxandi samskiptum okkar við heimsálfurnar enda er nú svo komið að

stór hluti þjóðarinnar fer árlega utan til viðskipta, lærdóms eða hvíldar.
    Íslendingar fara ekki fremur en aðrar þjóðir varhluta af því að þjóðir heims eru háðar hver annarri og viðbrögð hverrar og einnar hafa áhrif á keðju atburðarása, hvort heldur er í viðskiptalegu-, umhverfislegu- eða félagslegu tilliti. Alþjóðasamstarf er nauðsyn. Og það held ég að við getum öll verið sammála um.
    Við höfum svo sannarlega notið góðs af hraðfara breytingum undanfarna áratugi. Það sanna nánast stökkbreytingar á íslensku samfélagi bæði hvað snertir atvinnulíf og almennt þjóðlíf. En þó svo þessara breytinga gæti mjög þá höfum við orðið eftir á ýmsum sviðum, m.a. hvað snertir þróun atvinnulífs og hagnýtra greina. Þessi þjóð, sem um aldaraðir hefur lifað við atvinnugreinar þar sem áhætta er sífellt tekin, landbúnað og sjávarútveg, hefur átt erfitt með að taka áhættu þegar tekin skyldu ókunn og stærri skref sem dreift gætu áhættunni með fjölskrúðugra atvinnulífi. Með þessu á ég við þróun gegnum auðveldari samskipti eða viðskipti og samstarf milli þjóða.
    Í umræðu á undanförnum áratugum, sérstaklega á undanförnum mánuðum, hefur iðulega verið bent á dæmi þessu til staðfestingar og er þá auðveldast að benda á tilvísanir í umræður vegna inngöngu í EFTA á sínum tíma. Þrátt fyrir góða burði þjóðarinnar til munns og handa virðist sem við óttumst að samskipti sem eðlileg eru milli þjóða á sama meginlandi leiði til neikvæðra áhrifa á okkar eyland og þjóð. Líklegt má telja að þessi afstaða okkar hafi haft sín áhrif til stöðnunar í atvinnulífi síðastliðinna ára. Leiða má rök að þessari tilgátu en ég tel að það sé að bera í bakkafullan lækinn að fara nánar út í þá sálma með því að endurtaka ræðurnar um einhæfar tískuúrlausnir atvinnulífsins á sl. áratug hvað þá heldur um sjóða- og styrkjafarganið sem við viðhéldum sem slíkum tilgangslausum úrlausnum.
    Þessi framangreindi ótti okkar hefur endurspeglast í umræðum um aðild að samningi um Evrópskt efnahagssvæði núna að undanförnu. Að sjálfsögðu skal aðgát höfð í öllum samskiptum, ekki síst við svo viðamikil og viðkvæm mál sem samningurinn er. Hins vegar megum við ekki hika svo mjög að við glötum tækifærum sem okkur standa til boða til eðlilegrar þróunar vegna þess að þessi tækifæri eru ný og óreynd. En hvernig ber okkur þá að haga seglum okkar í slíkri þróun? Fyrst og fremst með því að halda víðsýni og skoða þá kosti sem bjóðast. Við eigum ekki að binda okkur við eina lausn á tengslum okkar við viðskiptaþjóðir heldur eigum við eins og kostur er að leita fjölþættra lausna. Ein af þeim lausnum sem fýsilegar eru er að mínu mati að tengjast betur Evrópuþjóðum á þann hátt sem um ræðir í EES-samningnum, enda skuldbindur samningurinn um aðild að Evrópsku efnahagssvæði okkur ekki til langframa né heldur bindur hann hendur okkar sem eina úrræðið í þeirri stöðu sem við erum í nú.
    Það er nefnilega fyrst og fremst mikilvægt að nema ekki staðar í alþjóðasamstarfi heldur halda áfram við að brjóta einangrun verulega bæði í framkvæmd og einnig hvað snertir hugarfarslega afstöðu. Þar sem samningurinn bindur ekki hendur okkar í gerð samninga við aðrar þjóðir getum við því haldið áfram við að þróa samskipti okkar t.d. við ríki Norður- og Suður-Ameríku eða Asíu og fleiri mætti nefna. Samningurinn er einungis skref í þá átt að efla tengsl við markaði heimsins, skref í rétta átt. Það er því engin furða að það að ganga til samninga um Evrópskt efnahagssvæði er leið sem tvær ríkisstjórnir hafa kosið.
    Hér á Alþingi hafa heyrst raddir um að falla frá þeim samningi sem við stöndum nú frammi fyrir og óska eftir tvíhliða viðræðum við EB. Ég sé enn ekki rök fyrir því að hafna því sem við nú þegar höfum náð í samfloti við EFTA-löndin og hella okkur út í tvíhliða viðræður upp á von og óvon um árangur. Ég hlýt því að taka undir orð utanrrh. um að betri árangur hafi náðst í því samfloti en ella næðist ef Íslendingar stæðu einir í samningaviðræðum við EB. Við höfum notið þess skjóls sem aðildarþjóðir EFTA hafa veitt okkur og hlotið ávinning af þeirra fórnum í samningunum.
    Því hefur einnig verið haldið fram að EES-samningurinn verði það skammlífur að í raun valdi hann okkur innan skamms aftur gífurlegum kostnaði og mikilli vinnu við inngöngu annarra EFTA-ríkja í Evrópubandalagið. Ég er ekki sömu skoðunar. Ég hef ástæðu til að ætla að EES verði langlífara en sumir telja. Evrópubandalagið í núverandi mynd er þunglamalegt og ekki nógu sveigjanlegt gagnvart minnihlutahópum. Ég tel þó einhverja möguleika á því að á næstu 10--15 árum eigi bandalagið eftir að þróast í átt að mun meiri sveigjanleika og muni koma til með að þurfa að taka tillit til smáríkja og minnihlutahópa innan annarra ríkja. Vil ég í því sambandi benda á Vallóna og Flæmingja í Belgíu og Baska og Katalóníumenn á Spáni, Skota og Walesbúa í Bretlandi svo eitthvað sé nefnt.
    Þær umræður um Maastricht-samninginn sem farið hafa fram meðal almennings hafa ugglaust komið ýmsum embættismönnum Evrópubandalagsins í opna skjöldu. Það virðist sem þróun innan pólitíska sviðsins og regluveldis EB standi á tímamótum. Almenningur lætur nú í ljós skoðun sína á þeim pólitísku ákvörðunum og stefnumörkun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og lauk í Maastricht sl. vetur. Svo virðist sem þessar ákvarðanir séu ekki að öllu leyti í takt við vilja almennings. Rætt hefur verið um að bil hafi myndast milli stjórnmálamanna og almennings í aðildarríkjum EB og þykir mér líklegt að taka muni töluverðan tíma að brúa það bil.
    Að þessu framansögðu þykir mér ljóst að afgreiðsla aðildarumsókna þeirra EFTA-ríkja, sem þegar hafa sótt um aðild að EB eða stefna að því alveg á næstunni, muni taka töluvert lengri tíma en ætlað er og mun lengri tíma en þessi lönd hefðu kosið ella. Þetta segi ég þrátt fyrir yfirlýstan vilja embættismanna EB um að dráttur á fullgildingu á Maastricht-samningnum muni ekki hafa áhrif á þetta mál.
    Reynslan kennir okkur að hagsmunir þjóða breytast í tímans rás. Ein meginástæðan fyrir því að Íslendingar gengu til EES-viðræðnanna var að sá fríverslunarsamningur sem við gerðum við EB árið 1972 þjónaði okkur ekki lengur sem skyldi vegna breyttra aðstæðna hér heima og erlendis. Það sama mun eflaust gilda um EES-samninginn. Eftir ákveðinn tíma mun sá samningur ekki lengur þjóna hagsmunum okkar sem skyldi og úreldast að sama skapi. Spurningin er þá sú hvort ávinningur af samningnum verði umfram það umstang og kostnað sem við höfum lagt í. Slíkt fer eflaust eftir gildistíma samningsins og síðan möguleikum okkar til áframhaldandi samninga. Ef EES-samningurinn heldur gildi sínu a.m.k. næstu 6--8 árin eða jafnvel lengur, eins og ég tel líkur benda til, þá mun hann væntanlega hafa þjónað tilgangi sínum og þá munu aðstæður og hagsmunir íslensku þjóðarinnar ugglaust einnig hafa breyst heilmikið, jafnvel að því marki að annars konar samnings sé þörf. Ég vil í þessu sambandi enn fremur ítreka áherslur hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur í ræðu hennar sl. viku um að samningur um Evrópskt efnahagssvæði er og mun verða uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara skyldum við óska endurskoðunar eða úrsagnar fyrr.
    Það er einnig mín skoðun að eftir reynslu af framkvæmd EES-samningsins verði meiri líkur á því að Ísland nái hagstæðum tvíhliða samningi við Evrópubandalagið skyldu aðstæður þrýsta á gerð slíks samnings.