Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 17:31:04 (281)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. sagði um sjávarútvegssamninginn að menn hefðu leitað eftir gagnkvæmum skiptum á veiðiheimildum sem væri báðum í hag. En hann hefur ekki látið svo lítið að útskýra fyrir okkur á hv. Alþingi hvernig þessi samningsatriði sem nú hefur verið talað um, þ.e. skipti á þeim veiðiheimildum sem hefur verið talað um, karfa og loðnu, eiga að vera Íslendingum í hag. Hvaða hagur er í því fólginn fyrir Íslendinga að búa til þennan samning?
    Ég veit ekki til þess að neinir aðilar í þjóðfélaginu hafi sérstaklega sóst eftir því eða beðið um það að þessi samningur yrði gerður. Þess vegna finnst mér ástæða til þess að fá svör við því.

    Hann gerði lítið úr þeim málflutningi sem hefur komið fram á þinginu, þ.e. að menn hafa verið að reyna að sýna fram á það að of mikið hafi verið gert úr þeim hag sem er fyrir sjávarútveginn í þessum samningi. Ég tel fulla ástæðu til þess að reyna að átta sig á því hér í umræðum á þinginu hve mikill þessi hagur er og ég var að reyna það í ræðu minni áðan. Ég tel að það hafi verið gert verulega meira úr þessu en efni standa til og tel mig hafa sýnt fram á það. Ég held t.d. að stjórnin á útflutningnum sem mun alveg ótvírætt tapast við þennan nýja samning muni kosta okkur mikla fjármuni og ég bendi á skýrslu Þjóðhagsstofnunar, sem ég er með mér, þar sem hefur verið bent á það að bara vegna fiskútflutningsins höfum við haft yfirverð á ferskum fiski upp á 650 millj. og að stjórn á útflutninginum, þ.e. stjórnunin á öllum útflutningnum geti gefið okkur allt að 1.400 millj. á ári. Menn verða því auðvitað að horfa á þessi mál í samhengi og skoða þau til þess að geta metið þau.