Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 17:36:53 (284)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð vegna svara hæstv. utanrrh. Allir hljóta að vera sammála hæstv. ráðherra að tollarnir af saltfiski og ferskum flökum skipta miklu máli. Það er bara spurningin hve dýru verði við viljum kaupa þessar tollaívilnanir. Um það var rætt hér. Það hafa heldur ekki komið nein rök fyrir því sem hér hefur verið fullyrt hvað eftir annað að þetta mundi skapa mörg ný störf vegna þess að fullunnin fryst vara, sem er mjög mannfrek ef svo má segja, skapar einmitt mörg störf og erum við bara ekki komin í samkeppni við það með þessum fersku flökum sem gefa færri störf?
    Mér fannst mér hæstv. ráðherra snúa svolítið út úr fyrir okkur í sambandi við gagnkvæmar veiðiheimildir. Við erum hrædd um að fá EB-flotann inn í efnahagslögsögu okkar og þá er spurningin: Megum við bara ekki veiða þessi 3.000 tonn fyrir þá, segja bara: Hér er engin sjálfsafgreiðsla. Við skulum bara veiða þessi 3.000 tonn og afhenda þeim. Getur það ekki komið til greina?
    Varðandi það sem hæstv. utanrrh. sagði í sambandi við Þjóðverja og það af hverju Þjóðverjar séu ekki fyrir löngu búnir að kaupa upp Ísland, þá spyr maður sig: Er það íslensk löggjöf sem er þannig að erlendir aðilar geta verið hér í atvinnurekstri fyrir utan sjávarútveg? Hvað breytist þá með EES? Af hverju skyldum við ætla að erlendir fjárfestar komi eitthvað frekar núna en áður?
    Þetta voru spurningar mínar og svo er kannski spurningin líka sú að 1997 erum við loksins komin með allar þessar tollaafléttanir. Verður EES til þá?