Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 17:38:59 (285)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það gleður mig að hv. þm. segir: Auðvitað skilja allir ávinning samningsins að því er varðar sjávarútvegsmál, niðurfellingu tolla og tækifærin sem það veitir atvinnugreininni. Það er gott ef menn skilja það og viðurkenna. En þetta er of dýru verði keypt. ( IP: Spurningin er sú.) Spurningin er sú. Er þetta of dýru verði keypt? Og þá spyr ég á móti: Hvaða verði höfum við keypt þennan markaðsaðgang? Evrópubandalagið setti fram þá kröfu að fá ígildi markaðsniðurfellingarinnar upp á krónur og aura afhent í veiðiheimildum. Því var hafnað. Evrópubandalagið fékk það ekki. Evrópubandalagið krafist þess að hafa réttindi til að fjárfesta í fyrirtækjum sem nýta íslenska fiskveiðilögsögu. Evrópubandalagið fékk það ekki. Hvað fékk Evrópubandalagið? Það fékk efndir á loforði frá 1977 um að gerður yrði við það tvíhliða samningur um skipti á veiðiheimildum. Hvað felst í því? Í því felst að við föllumst á að vissum skilyrðum uppfylltum að þeir megi veiða allt að 3 þús. tonn í karfaígildum í íslenskri lögsögu gegn því að við fáum heldur meiri verðmæti í loðnu, 30 þús. tonn. Þetta er metið á annars vegar 1.500 og hins vegar 1.800 tonn í þorskígildum. Með öðrum orðum er reikningurinn okkur heldur hagstæðari. Þetta er ekki að hleypa flota EB inn í íslenska lögsögu. Búið er að ganga frá samningunum um veiðisvæðin, um skipafjölda sem getur orðið um 3--5 skip í hæsta lagi, enda segir það sig sjálft að menn sækja ekki slíka nánös norður í ballarhaf sem þetta er á miklum skipaflota. Þeir eru undir íslenskri lögsögu, þeir eru undir íslensku eftirliti og þetta er á þeirra eigin kostnað. Fiskveiðilandhelgin hefur ekki verið opnuð fyrir erlendum aðilum.
    Eitt af því sem er uggvænlegt við hræðsluáróðurinn sem hefur verið haldið uppi í þessu máli og kemur fram í skoðanakönnuninni og margir hafa orðið til þess að leggja trúnað á er þetta: Að Íslendingar séu að kaupa þennan góða samning að því er varðar markaðsaðstöðuna svo dýru verði, því verði að missa stjórn á fiskveiðilögsögunni. Það er ekki svo. Því dýra verði að erlendir fjármagnseigendur munu leggja undir sig íslenskan sjávarútveg. Það er ekki svo. Því miður vinnst mér ekki tími til að svara því hvaða tækifæri þessi samningur gæti veitt, t.d. að því er varðar sköpun nýrra starfa.