Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 17:41:46 (286)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er einkenni umræðunnar og kannski þess samnings sem er til umfjöllunar að ótalmörgum spurningum er ósvarað. Mér þótti ræða hæstv. utanrrh. vera býsna rýr. Fjöldamörgum spurningum hefur verið beint til hans og ég get ekki annað en endurtekið nokkrar þær spurningar sem ég lagði fyrir hann í ræðu minni og þar er fyrst og kannski stærst sú spurning að hann heldur því stöðugt fram að samningurinn opni íslenskum fyrirtækjum mikla möguleika á erlendum mörkuðum og í íslensku atvinnulífi. Ég spyr enn: Hvernig rökstyður hæstv. utanrrh. þessa skoðun sína í ljósi þess efnahagsástands sem hér ríkir? Hvernig sér hann fyrir sér að þetta muni gerast?
    Spurt hefur verið um kostnað. Hann nefndi nokkrar tölur varðandi beinharðan kostnað en ég spyr enn vegna þess að það er mikilvægt. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvaða kostnað samningurinn hefur í för með sér, ekki aðeins fyrir íslenska stjórnkerfið heldur einnig fyrir íslenskt samfélag. Ég spyr: Hafa menn gert úttekt á því hvaða kostnaður fylgir samningnum? Við megum ekki gleyma því að við erum afar lítið samfélag á leið inn í þetta stóra samhengi. Ég get nefnt það enn einu sinni að ég hef verið spurð af því af erlendum sendimönnum sem hafa verið að vinna að þessu máli hvernig í ósköpunum Íslendingar ætli að standa undir þessu. Enn ein spurning sem ég beindi til hæstv. utanrrh., vegna þess að hann er í miklum samskiptum við þessa herra hjá EB, var varðandi landbúnaðinn. Hvernig menn sjá þá þróun fyrir sér? Hvert ætla menn sér í þeim málum?