Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:25:10 (301)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ræða hæstv. forsrh. hlýtur að vekja margar spurningar og út af fyrir sig nokkuð hörð viðbrögð. Ég vil byrja að spyrja hæstv. forsrh. hvað hann átti við. Það nægir ekki bara að slá um sig með fullyrðingum þegar hann segir að aukin verkaskipting þegar við værum komin í EES mundi leiða til hagnaðar og mikilla hagsbóta fyrir Ísland. Ég spyr vegna þess að hæstv. utanrrh. upplýsti okkur um það fyrr í þessari umræðu að þar sem við erum sérfræðingar í samfélagi þjóðanna, sjávarútveginum, væru frekari möguleikar til vaxtar uppurnir.
    Nú ætla ég ekki að neita því að svona geti þetta verið en vil bara spyrja hæstv. forsrh. hvaða möguleika hann átti þarna við að við mundum nýta okkur í aukinni verkaskiptingu evrópskra þjóða. Þetta geri ég í

allri vinsemd.
    Síðan spyr ég líka hvað hann átti við er hann nefndi hann Alþb. og Framsfl. Nú ætla ég ekki að spyrja nema fyrir Framsfl. Hvað átti hann við þegar hann sagði að hér ætti Framsfl. tækifæri til þess í fyrsta sinn að taka jákvæðan þátt í milliríkjasamningum við erlend ríki? Þetta er miklu stærri fullyrðing en maður á von á frá forsrh. og ekki samboðið virðingu hans. Að lokum, svo að ég noti stíl hæstv. forsrh., þá sannfærði þessi ræða hans mig um það hvað lögfræði er afleit menntun fyrir stjórnmálamenn.