Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:27:36 (302)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla neitt um það þegar vikið var að persónu minni eða menntun. Ég hef ekkert með það að gera og ég er viss um að menntun þingmannsins dugi honum vel, ég er viss um það, hann er greindur og góður þingmaður. En það sem ég vek athygli á og talaði um í fyrsta lagi varðandi efnahagsviðskiptasamning af stærstu gráðu, þá hefur Framsfl. ekki borið gæfu til þess að taka þátt í þeim. Hann gerði það í tvö og hálft ár, var í forustu í ríkisstjórn til að gera slíkt en hleypur svo frá því fyrir hreina tækifærismennsku eins og blasir við öllum mönnum.
    Í mínum huga er meginmálið varðandi EES-samninginn ekki síst að samningurinn tryggir jafnræði í leikreglum. Fyrir lítið land þar sem fyrirtækin eru smá er afskaplega mikilvægt að tryggja jafnræði í leikreglum á jafnstóru markaðssvæði og menn eru þarna að eignast aðgang að. Ég lít þannig á að þessi samningur tryggi okkur gagnvart fjölmörgum viðskiptahindrunum sem sé afskaplega mikilvægt fyrir okkur að þurfa ekki að búa við.
    Þingmaðurinn spurði hvað ég ætti við með aukinni verkaskiptingu. Út af fyrir sig mætti fjalla um það í löngu máli en það gefur auga leið að ég á við það að þegar menn gerast aðilar að markaðssvæðum í þessum efnum, þá gerist það að hvert ríki sveigir sína framleiðslu að því sem það getur framleitt með hagkvæmustum hætti og kaupir annars staðar að það sem hagkvæmast er fyrir ríkið að kaupa. Það er algerlega ljóst. Ef þingmaðurinn óttast að með því sé ég að vega að þeirri frumatvinnugrein sem hann starfar við, að hluta til a.m.k., þá er það ekki rétt.