Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:32:19 (307)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að í því meginmáli sem hæstv. forsrh. beindi að mér, þá var hann að fjalla um annað mál en það sem hér er til umræðu. Sú ræða sem hann vitnaði hvað eftir annað í og ég flutti hér var ekki flutt við umræður um þetta mál heldur við umræður um frv. til breytingar á stjórnarskránni sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson er 1. flm. að og sem hæstv. forsrh. hefur sagt hvað eftir annað að komi EES-samningnum nánast ekkert við.
    Ég vildi bara vekja athygli á þessu vegna þess að mér fannst þetta sérkennilegt og gerir mér satt að segja dálítið erfitt fyrir í umræðunni varðandi framhaldið, sérstaklega í ljósi þess sem menn hafa verið að lýsa

hér að væri ætlunin að reyna að gera í næstu viku. Mér fannst ekki eðlilegt af hæstv. forsrh. að vera að nota þessa umræðu til að svara því sem fram hefur komið í umræðunum um stjórnarskrármálið sérstaklega þegar hann svaraði alls ekki neinu af því sem hefur verið helsta krafa mín á hann í þeirri umræðu, þ.e. að hann gerði nánari grein fyrir fundargerðamálinu svokallaða sem ég hef hvað eftir annað knúð á um að hann gerði í umræðu um það mál en hann hefur ekki gert enn. Og vil ég benda hæstv. forsrh. á það að hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl. hefur lýst því yfir að ef forsrh. getur ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að ég hafi þar lýst hlutum á rangan veg, þá eigi forsrh. að segja af sér. Það kom nú fram hér formlega í þeirri umræðu frá formanni þingflokks Framsfl. að þá ætti forsrh. að segja af sér.
    Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, vekja athygli á þessu og mun fram að miðvikudegi ræða við forsetann um það hvernig ég haga þessum svörum. Mér fannst ræða forsrh. að öðru leyti, og ég ætla ekki að ræða það hér efnislega, vera nánast stórfurðuleg. Þetta er eina ræðan sem forsrh. hefur flutt í umræðum um EES-samninginn. Hann hefur ekki fyrr talað um það mál og annað eins samansafn af útúrsnúningum, skætingi og lítilfjörlegum athugasemdum hefur maður sjaldan heyrt frá manni í jafnvirðulegri stöðu um jafnmikilvægt mál sem hans eina framlag til 1. umr. um þennan stærsta alþjóðasamning Íslendinga. En ég mun, virðulegi forseti, reyna að ræða það mál við forseta fram að næsta fundi en taldi óhjákvæmilegt að vekja athygli á þessu hér strax.