Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:36:26 (309)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að eiga orðastað við forsrh. á þessu plani sem hann er með hér. Honum er velkomið að lesa þá ræðu sem ég flutti hér, ég held hún hafi verið um það bil tveir tímar, um Evrópska efnahagssvæðið. Ég ræddi þar mjög lítið um stjórnarskrármálið og sagði það sérstaklega vegna þess að hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefði gert það, heldur ræddi ég um sjávarútvegsmál, ég ræddi um atvinnuleysi, ég ræddi um efnahagsmál, ég ræddi um aðdraganda EES-samninganna, ég ræddi um tvíhliða samning og fjölmargt annað. Þetta getur hæstv. forsrh. og hver og einn Íslendingur lesið og er sjálfsagt fyrir hvern Íslending að lesa svo hann geti myndað sér skoðun á sannleiksgildi og dómgreind hæstv. forsrh.
    Að öðru leyti er engin ástæða til að svara þessum skætingi. Þetta er með þeim hætti að maður veit satt að segja ekki hvort maður á að aumkva hæstv. forsrh. eða svara honum hér. Hann fór inn á þá braut að rjúfa áralanga hefð um að lesa upp úr fundargerðum. Ég ætla í sjálfu sér ekki að gagnrýna það að hann læsi það sem sagt er um þetta mál. Þá óskaði ég eftir að hann læsi þá allt um málið, bæði í þeirri ríkisstjórn og í hans. Hann fer þá rétt með. Það hefur hann ekki gert. Hann hefur ekki þorað í umræðu um það mál síðan, það eru liðnir tíu dagar, þótt hann hafi haft mörg tækifæri til þess að ræða það hér. Og það er alveg ljóst að hér í næstu viku verður eitt helsta efnið að fá botn í þetta fundargerðamál ríkisstjórnarinnar sem forsrh. og hv. þm. Björn Bjarnason riðu á vaðið hér með með sinni sérstöku sviðssetningu.
    Að öðru leyti mun ég svo ræða það við forseta þingsins með hvaða hætti ég bregst við því að forsrh. kaus að taka fyrir ræðu mína flutta undir öðrum dagskrárlið undir þessari umræðu og ég mun gera það bara í rólegheitum hér næstu daga og svo skoðum við þetta eftir helgina.