Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:38:52 (310)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Varðandi fundargerðamálið sem þingmaðurinn nefndi, þá var það í stuttu máli það að þingmaðurinn og reyndar flokksfélagar hans höfðu haldið því fram að tiltekin skýrsla hefði ekki verið lögð fram eða rædd í ríkisstjórn. Það var leiðrétt. Það var ekki lesið upp úr fundargerðinni eins og kemur fram í texta. Eftir að hann hafði óskað eftir því og félagi hans, hv. 9. þm. Reykv., krafist þess að það yrði upplýst hvort það hefði verið rætt, þá upplýsti ég að það hefði verið rætt í ríkisstjórninni. Mér varð á að segja þá og það hefur þingmaðurinn breitt út, mér varð á að segja að það hefði verið gert með mánaðar fyrirvara. Það var með skemmri fyrirvara en mánaðar fyrirvara. En það var ekki mergur máls og það veit þingmaðurinn. Mergur máls var sá að þingmaðurinn hafði haldið því fram, farið rangt með eins og honum er títt og hann gerir lítið með, að málið hefði ekki verið rætt. Hann hafði borið það upp á fyrrv. félaga sína í ríkisstjórn að málið hefði ekki verið rætt. Það hafði verið rætt og ég upplýsti það að kröfu hans sjálfs.
    Varðandi hins vegar fundargerðirnar almennt, þá hef ég sagt að ég vildi ræða við fyrrv. forsrh. það sem snertir hans ríkisstjórn. Hann fór af landi brott. Það veit þingmaðurinn.