Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:40:15 (312)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það var ekki ætlun mín að hefja hér einhverja langa umræðu um þingsköp. Ég ætlaði einfaldlega að koma því á framfæri að ég áskildi mér rétt til að ræða við forsetann yfir helgina um þann vanda sem ég væri settur í með því að forsrh. kaus að svara ræðu sem ég flutti undir öðrum dagskrárlið undir öðru þingmáli í þessari umræðu.
    Hæstv. forsrh. hefur hins vegar kosið að nota þingsköpin til þess að fara mjög út um víðan völl og nú síðast víkja loksins að þessu fundargerðamáli með þannig hætti að málið er orðið enn verra fyrir forsrh. eftir þessa síðustu ræðu hans. Hann játar að vísu núna að það hafi verið rangt hjá sér að þetta hafi verið mánuður. Þegar hann reyndi að leiðrétta það síðast sagði hann að það hefðu verið 10 dagar. Hann er kannski reiðubúinn að taka það til baka líka núna en hann hefur auðvitað aldrei vikið að því sem er kjarni málsins, að í fundargerð ríkisstjórnarinnar stendur að skýrslan hafi verið lögð fram til upplýsingar. Það stendur í fundargerðinni. En því sleppti hæstv. forsrh. af því að hann var með fölskum hætti að gefa til kynna að hún hefði verið lögð fram til þess að til hennar yrði tekin efnisleg afstaða. Það blasir því auðvitað hér við að þegar hv. þm. Björn Bjarnason var í tvígang búinn að biðja um það að þetta yrði upplýst með fundargerðirnar, þá tók forsrh. fundargerðina upp úr tösku sinni. Hann var undirbúinn undir óskina frá hv. þm. Birni Bjarnasyni því að hann var með fundargerðina í töskunni og varla er hann með allar gömlu fundargerðir ríkisstjórnarinnar í töskunni hjá sér. Þannig var þetta sviðsett uppákoma af þessum tveimur félögum úr forustu Sjálfstfl. og hafði þann tilgang einan að falsa hér í þingsalnum og fyrir þjóðina það sem hann sagði í fundargerðinni því að auðvitað er lykilorðið þar, eins og allir þeir sem setið hafa í ríkisstjórn á Íslandi vita, orðin ,,til upplýsingar`` því að það er grundvallareðlismunur á.
    En fyrst hæstv. forsrh. heldur nú áfram með þessum hætti og gerir málið auðvitað enn verra, þá er ljóst að eftir helgina verður þetta fundargerðamál mjög veigamikill þáttur í framhaldi málsins. Og það er auðvitað út í hött að segja að hv. þm. Steingrímur Hermannsson hafi farið af landi brott vegna þess að ég held að hann hafi farið af landi brott í gær. En ég held að það séu kannski tíu dagar síðan hæstv. forsrh. sagði að hann mundi ræða við Steingrím Hermannsson en hann hefur ekki gert það í níu daga þannig að allt er þetta með þeim hætti að það eru rangfærslur, útúrsnúningar og hálfsannleikur hjá hæstv. forsrh. vegna þess að hann er auðvitað kominn í þá stöðu, eins og hv. þm. Páll Pétursson lýsti, að í alvöruþjóðfélagi mundi alvöruforsætisráðherra, ef hann tæki sjálfan sig alvarlega, segja af sér út af svona afglöpum.