Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 20:06:11 (315)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér leikur forvitni á að vita og fá svar við því hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. hvenær hann skipti um skoðun í málinu varðandi þennan mikilvæga samning því hann nefndi nokkur atriði sem hefðu varðað miklu í þeim efnum, ef ég skildi hann rétt, til að mynda varðandi fríverslun og yfirþjóðlegt vald

og maður gat litið þannig til að þetta hvort tveggja hefði komið til eftir að núv. ríkisstjórn komst til valda. En það var í október 1990 sem Evrópubandalagið kvað upp úr með það að ekki yrði um að ræða afnám styrkja í sjávarútvegi, fríverslun kæmi ekki til greina. Ég hef áður lesið upp hér í þessum umræðum það sem hæstv. fyrrv. forsrh. sagði hér, með leyfi forseta:
    ,,Ég fyrir mitt leyti og við í síðustu ríkisstjórn féllumst á það að samþykkja EES-dómstól þótt sannarlega megi færa fyrir því rök að þar sé um að ræða yfirþjóðlega stofnun.`` Þetta var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar.
    Í annan stað vil ég gjarnan heyra skýringar hv. þm. á því, vegna þess sem hann sagði um atvinnuleysið, hvernig það gæti gerst að atvinnuleysi á Írlandi sé allt að því sjöfalt meira en í Lúxemborg sem hafa þó lengi verið saman í Evrópubandalaginu ef kenning hans í þessum efnum er rétt.