Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 14:39:49 (323)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Málshefjandi, hv. 6. þm. Norðurl. e., nefndi það réttilega að vaxandi atvinnuleysi væri áhyggjuefni. Ég tek undir með honum þar sem hann vitnaði til Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns Dagsbrúnar, að það er ekkert sem er jafnfljótvirkt í að brjóta manneskjuna niður og viðvarandi atvinnuleysi. Og það er einmitt af því að við erum sammála um þetta sem við þurfum að finna réttu leiðina til þess að tryggja hér varanlega atvinnu og framfarir fyrir fólkið í landinu. Til þess að við getum það þurfum við í sameiningu að átta okkur á þeim aðstæðum sem nú ríkja í íslenskum þjóðarbúskap. Þær eru á margan hátt óvenjulegar.
    Það er sagt mjög oft þessa daga, kannski of oft, að íslenskur þjóðarbúskapur og atvinnulíf standi á tímamótum. Reyndar hefur þá oftast verið um leið að því vikið að það væri víða við vanda að glíma og vissulega er það rétt að víða er vandi á höndum, en því fer þó fjarri að myndin sem við okkur blasir sé öll máluð dökkum litum. Þar má einnig sjá bjarta fleti. Við skulum líta nánar á það mál.
    Í fyrsta lagi langar mig að nefna að eftir hálfrar aldar stríð við verðbólgu á Íslandi höfum við náð þeim árangri að hún er nú innan við 3% miðað við ár og með því lægsta sem gerist á Vesturlöndum.
    Í öðru lagi er nýlokið gerð samnings um Evrópskt efnahagssvæði sem bíður staðfestingar Alþingis. Samfara honum fengjust miklir nýir vaxtarmöguleikar fyrir íslenskt atvinnulíf ef við höldum rétt á málum.

    Mér finnst ástæða til að við staðnæmumst við þessar mikilvægu staðreyndir þegar við hugum að hinum sem áhyggjum valda sem eru:
    Í fyrsta lagi verulegur og þrálátur halli á okkar ríkisbúskap.
    Í öðru lagi umtalsverður halli á okkar utanríkisviðskiptum.
    Í þriðja lagi, og ekki síst, að mikilvægir fiskstofnar standa veikt og sókn í þá af eðlilegum ástæðum hlýtur að sæta ströngum takmörkunum ef við eigum að tryggja viðkomu þeirra í framtíðinni.
    Ég nefni í fjórða lagi að fjárfesting í okkar atvinnulífi er með minnsta móti.
    Og í fimmta lagi að það ríkir venju fremur mikil óvissa um efnahagshorfur í heiminum. Þótt alþjóðastofnanir spái nú almennt bata á Vesturlöndum það sem eftir lifir þessa árs og á því næsta, þá hafa batamerkin látið nokkuð á sér standa og eru býsna hikandi.
    Það er við þennan bakgrunn sem okkar atvinnuvanda ber. Því miður hefur atvinnuleysi færst nokkuð í vöxt og til þess að hafa tölurnar með í þessari mynd, er rétt að nefna að um mitt sumar var það um 2,7% á landinu öllu og því er spáð að það muni nokkuð vaxa á næstu missirum að óbreyttum horfum. Spárnar fyrir næsta ár sýna flestar atvinnuleysistölur á bilinu 3--4%. Ég vil taka það skýrt fram að ég tel það allt of háar tölur. Þetta eru horfur sem við þurfum að breyta. Atvinnuleysið er nokkuð mismunandi eftir landshlutum og eins og kunnugt er er næstum tvöfalt landsmeðaltal á Suðurnesjum og ekki síst er um alvarlegt atvinnuástand að ræða fyrir konur á því svæði.
    En af því að hér hefur verið haldið á loft þeirri skoðun að Íslendingar væru nú komnir með svipað ástand eða stefndu óðfluga í það sem gerist í löndunum hér í kringum okkur, þá er ástæða til þess að nefna þær tölur sem þar eru uppi um atvinnuleysi. Ég nefni fyrst að í Danmörku er það yfir 10% og fer nú vaxandi á ný, því miður. Í Finnlandi 13--14%, er reyndar sem betur fer spáð að úr því dragi. Í Noregi eru tölurnar á bilinu 5--6%, í Svíþjóð 5--6% og reyndar í tveimur síðastnefndu löndunum spár um það að nokkuð dragi úr þessum vanda. En við þetta þarf þó að bæta þeim orðum að í öllum þessum fjórum löndum sem okkur er svo gjarnt að bera okkur saman við eru umfangsmikil starfsmenntunar- og endurhæfingarnámskeið þar sem er verulegur hópur fólks sem hjá okkur yrði því miður skráður atvinnulaus. Þannig tel ég að atvinnuástandið sé í raun og veru enn veikara í þessum löndum, ef mælt væri á sama kvarða og hér er mælt, heldur en þessar tölur benda til.
    Þegar við bregðumst við þessum aðstæðum verðum við að sjálfsögðu að gæta þess að spilla ekki þeim árangri sem við höfum náð í bættu jafnvægi og stöðugleika í okkar efnahagslífi. En hvað er þá til ráða? Hv. málshefjandi, 6. þm. Norðurl. v., vék að því nokkrum orðum.
    Hvernig geta stjórnvöld best dregið úr áhrifum þeirra áfalla sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir og snúið vörn í sókn? Um þetta eins og fleira eru skiptar skoðanir í okkar landi. Sumir telja stórauknar opinberar framkvæmdir eina rétta svarið. Aðrir vilja engin opinber afskipti og telja markaðinn einfæran um að endurvekja hagvöxtinn. Hlutverk stjórnvalda sé eingöngu fólgið í almennri hagstjórn. Hvorugt þetta svar er rétt. Stórauknar opinberar framkvæmdir eru varasamar í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs og mikilla skulda þjóðarinnar við útlönd.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi hér þensluráðstafanir Japana. Þar er ólíku saman að jafna. Það sem Japanir geta leyft sér, og eiga reyndar að gera, er að auka útgjöld á grundvelli sterkrar efnahagsstöðu, sterkrar stöðu gagnvart útlöndum, stórra inneigna þeirra í umheiminum. Því miður er ekki svo háttað okkar búskap og verður auðvitað ekki rakið til stjórnarhátta hér á síðasta ári heldur á undanförnum áratugum.
    Ég vil líka benda á það að þótt auknar opinberar framkvæmdir auki umsvifin í þjóðarbúskapnum um hríð eru þær skammgóður vermir því augljóslega eru því takmörk sett hversu lengi við höldum áfram á þeirri braut ef ekki eru í sjónmáli tekjur til að standa undir þeim framkvæmdum. Á hinn bóginn er það líka rétt skoðun að reynsla okkar og annarra sýnir glöggt að þegar til samdráttar kemur af því tagi sem við nú glímum við eru stjórnvöld ekki einfær um að snúa vörn í sókn. Markaðsöflin eru heldur ekki einfær um að tryggja varanlegan hagvöxt og nægir í því sambandi að vitna til reynslu margra af okkar grannþjóðum.
    Að mínu áliti er það mikilvægast við þær aðstæður sem nú blasa við í þjóðarbúskapnum, eins og hæstv. forsrh. lagði hér ríka áherslu á áðan, að ríkisstjórnin haldi sínu striki varðandi almenna hagstjórn og þær skipulagsbreytingar sem unnið er að á hennar vegum. Í þessu felst framhald umbóta á sviði peningamála, m.a. með setningu nýrra laga um Seðlabanka Íslands, stofnun gjaldeyrismarkaðar og með auknum áhrifum markaðsafla á gengi íslensku krónunnar eins og hv. málshefjandi, 6. þm. Norðurl. e., vék að í sínu máli, afnámi eftirstandandi hamla á fjármagnsviðskipti við önnur lönd, að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum í áföngum og auka hagkvæmni í ríkisrekstri.
    Við skyldum hafa það hugfast að við höfum í raun og veru tækifæri til nýs framfaraskeiðs og því fyrr sem við tengjumst hinu Evrópska efnahagssvæði, því fyrr nýtast okkur þeir möguleikar. Að mínu áliti er mikilvægasta atvinnumálaverkefnið um þessar mundir að ljúka EES-samningunum og halda því striki. En okkur er líka nauðsynlegt að gera grundvallarbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði. Að mínu áliti gjöldum við í þeim greinum fyrir hjásetu þeirra við þá markaðsaðlögun og frjálsræðisþróun sem átt hefur sér stað í öðrum atvinnugreinum landsmanna á undanförnum árum og áratugum. Þetta skyldu menn hafa í huga þegar þeir velta fyrir sér grundvallarástæðum þess að hagvaxtarmátt hefur dregið úr þjóðarbúskapnum.
    Að mínu áliti er ekki rétt að vitna til hárra vaxta eða hás gengis vegna erfiðleika sjávarútvegsins og annarra útflutningsgreina um þessar mundir. Sannleikurinn er sá að vaxtaþróun á síðustu árum hefur verið sjávarútveginum hagstæð. Þannig hefur vegið meðaltal LIBOR-vaxta sem eru ráðandi fyrir vexti af erlendum skuldum sjávarútvegsins, farið verulega lækkandi frá síðar hluta árs 1990. Þessir vextir voru 8,4% í janúar 1990, en voru komnir niður í um það bil 6% á sl. vori. Þeir hafa nokkuð lækkað enn. Til samanburðar má nefna að þessir vextir voru um 8,5% að meðaltali árið 1990 og um 7,8% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þannig má með einföldum tölum sýna fram á, af því að sjávarútvegurinn greiðir í aðalatriðum erlenda vexti 65--70% að af sínum skuldum, að hann greiðir nú lægri vexti en hann greiddi á árunum 1990--1991. Nafnvextir á innlendum skuldbindingum hafa líka farið lækkandi eftir nokkra hækkun í júlí 1991.
    Gengisþróunin hefur líka verið á þá leið að það er ekki til hennar að vísa um þann vanda sem við glímum við heldur, eins og fram hefur komið, þeirrar þarfar og nauðsynjar sem á því er að halda aftur af aflanum. Meðalgengi á árinu 1992 er mjög líkt því sem það var að meðaltali árin 1970--1992 ef litið er á mælikvarða verðlags. Sé litið á mælikvarða launa er raungengið tiltölulega hagstætt.
    Virðulegur forseti. Það verður því ekki vitnað til tímabundinna aðstæðna í vaxta- og gengismálum þegar litið er á erfiðleikana sem við höfum við að glíma. Við þurfum að huga að þeim langtímaumbótum sem ég nefndi áðan. Þær umbætur munu allar tvímælalaust treysta stöðu efnahags- og atvinnulífs hér á landi og skapa mörg færi til sóknar og uppbyggingar í íslenskum þjóðarbúskap. En atvinnustefna, eða sem mér finnst réttara að segja, hagvaxtarstefna, felur í sér fleira en umbætur á skipulagsgerð hagkerfisins. Hún felur líka í sér ráðstafanir til að örva fjárfestingu og nýsköpun, sérstaklega þegar deyfð ríkir á þeim sviðum eins og nú er raunin. Það hefur komið fram hér að heildarfjárfesting hér á landi er með lægsta móti í hlutfalli við landsframleiðslu og reyndar lægri en í flestum aðildarríkjum OECD sem eru mjög óvenjulegar aðstæður fyrir Íslendinga. Það er augljóst að mínu áliti að svo lítil fjárfesting getur ekki borið upp hagvöxt til lengdar. Reyndar er það svo að okkar háu fjárfestingarhlutföll, okkar miklu fjárfestingar á undanförnum árum, hafa kannski ekki allar nýst sem skyldi, en þegar fjárfestingarhlutfallið er að komast niður undir 15--16% þá þurfum við að fara að hugleiða hvað sé til ráða.
    Hér kemur margt til álita, en ég tel að það verði að leggja megináherslu á ráðstafanir sem geti stuðlað að aukinni fjárfestingu í atvinnuvegunum. Ég ætla að nefna þrennt sem ég tel skipta einna mestu máli.
    Í fyrsta lagi samræmingu skatta atvinnuveganna á Íslandi við það sem gengur og gerist innan Evrópska efnahagssvæðisins. Skattar hér á landi virðast bæði tiltölulega háir á jaðrinum og um margt með öðru sniði en annars staðar innan EES. Þetta leiðir til lakari samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja og ekki síður gerir það þeim sem fitja vilja upp á nýjungum þungt undir fæti og dregur úr áhuga erlendra fyrirtækja á að setja sig niður á Íslandi.
    Ég nefni í öðru lagi eflingu rannsóknar- og þróunarstarfs sem er mjög mikilvægt í þessu samhengi. Það er unnið að ýmsum verkefnum á því sviði um þessar mundir. Ég vil nefna hér tvær ráðstefnur sem nýlega hafa verið haldnar á vegum iðnrn. Sú fyrri fjallaði um hitakærar örverur og hin síðari um nýtingu jarðvarma til iðnaðar. Til beggja þessara funda fjölmenntu vísinda- og athafnamenn víðs vegar að úr heiminum. Á vegum iðnrn. og stofnana þess og háskólans hefur nýlega verið hleypt af stokkunum hugmyndasamkeppni um nýjungar í atvinnulífi. Ég vil líka benda á að við umræður á síðasta vetri um sölu á hlut ríkisins í ríkisfyrirtækjum voru þær tillögur gerðar af minni hálfu að verja hluta af söluandvirðinu til þess að styrkja þróunar- og nýsköpunarstarf í atvinnulífinu. Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að verja fimmtungi til fjórðungi af andvirði seldra ríkisfyrirtækja í þessu skyni. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tvöfalda á næstu árum framlög til Rannsóknasjóðs.
    Ég nefni í þriðja lagi stuðning af opinberri hálfu við ýmiss konar hagkvæmniathuganir sem byggja á raunhæfum viðskiptalegum forsendum. Slíkar stuðningsaðgerðir þarf að auka. Í þessu sambandi vil ég nefna tilraunaveiðar og vinnslu á vannýttum sjávartegundum, athuganir sem tengjast hugsanlegri sölu raforku um streng til annarra landa, hagkvæmnisathuganir á fjárfestingu í sjávarútvegi Íslendinga í öðrum löndum, útflutning á heilbrigðisþjónustu og fleira.
    Hér er ég að tala um fjárstuðning varðandi undirbúning en ekki þátttöku ríkisins í þeim fyrirtækjarekstri sem hagkvæmniathuganir kunna að leiða til. Öll þessi atriði lúta að uppbyggingu atvinnulífsins undir sjónarhorni til lengri tíma. Í tímabundnum vanda mega menn ekki missa sjónar á markmiðinu um varanlegan hagvöxt því hann er nauðsynleg forsenda bættra lífskjara og nægrar atvinnu í framtíðinni. (Forseti hringir.) Að undanförnu hafa ýmsir orðið til þess að leggja áherslu á að hér þurfi að efla atvinnustefnu sem byggi á öflugu samráði samtaka í atvinnulífi, ráðuneyta og fjármálastofnana.
    Ég vil taka undir þetta af heilum hug, virðulegur forseti, og ég er alveg að koma að lokum minnar ræðu. Um leið bendi ég á að samráðið eitt leysir engan vanda. Það verður að vera á grundvelli heilbrigðra leikreglna, bæði í stjórnkerfi og viðskiptalífi. Það hefur alls ekki vantað samráð í íslenskt atvinnulíf á undanförnum áratugum en það hefur meira verið af þeirri gerðinni sem réttara væri að nefna samkrull og sérhagsmunavörslu. Samráð verður að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi.
    Hæstv. forseti. Ég vil draga mál mitt saman á þennan hátt:

    Íslensk stjórnvöld þurfa að móta nýja atvinnustefnu sem grundvallast m.a. á:
    1. aðild Íslendinga að EES-samningnum, sem færir þjóðinni ný atvinnutækifæri,
    2. nýrri fiskveiðistefnu, sem m.a. byggist á sanngjörnu afgjaldi í almannasjóði fyrir aðgang að fiskstofnunum,
    3. markaðsaðlögun íslensks landbúnaðar, hraðari skrefum en hingað til,
    4. útflutningsiðnaði á grundvelli sérþekkingar í sjávarútvegi,
    5. stofnun smáfyrirtækja og nýjungum í iðnaði með hvatningu af ríkisins hálfu og lagfæringu á skattakjörum atvinnurekstrarins,
    6. framhald nýtingar orkulinda landsins, m.a. til stóriðju,
    7. aukinni áherslu á rannsókna- og þróunarstarf og nýja möguleika í þeim efnum, sem m.a. munu gefast með samstarfi við Evrópuþjóðir.