Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 14:56:27 (324)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Undanfarnar vikur hefur ríkisstjórnin leikið sína illa æfðu Evrópusinfóníu hér í þingsölum, óðinn til EES, sem að hennar sögn á að verða hið nýja hjálpræði fyrir íslenska þjóð. Önnur verk eru ekki á hennar dagskrá. Hæstv. utanrrh. leikur á fyrstu fiðlu í tónsmíðinni og forsrh. á lágfiðlu meðan hv. þingmenn Björn Bjarnason og Vilhjálmur Egilsson fara fyrir blásarasveitinni. Misfagrir tónar berast yfir land og lýð meðan Róm brennur.
    Enn einu sinni er því haldið að landsmönnum að töfralausn sé fundin á öllum vanda. Samningur hinna miklu tækifæra á að koma í stað laxeldis, loðdýraræktar og álvers. En við vitum betur. Við vitum að þróun mála ræðst af gerðum okkar sjálfra. Við getum sett allt um koll hér hvort sem við erum innan EES eða utan og við getum rétt úr kútnum ef við beitum skynsemi, jafnt utan EES sem innan. Allt er þetta spurning um stefnu, hugmyndir og vilja. Rétt einu sinni erum við að láta síldarfarmana skemmast á bryggjusporðinum eins og gerðist um 1920 og segir frá í Guðsgjafarþulu Halldórs Laxness sem ætti að vera skyldulesning allra atvinnurekenda og stjórnmálamanna í landinu.
    Svipað hefur oft gerst síðan í íslensku þjóðlífi, í eiginlegri og óeiginlegri merkinu, alltaf í von um hærra verð, meiri gróða, meiri möguleika sem koma eiga einhvers staðar annars staðar frá en úr höndum okkar sjálfra.
    Margra ára samdráttur heldur áfram en hann á rætur í ytri og innri aðstæðum. Ríkisstjórnin kann það ráð eitt að skera niður og ræðir áframhaldandi niðurskurðarhugmyndir sínar milli þátta í EES-sinfóníunni. Það er rætt um tveggja milljarða króna niðurskurð í heilbrigðiskerfinu þrátt fyrir að illa gangi að ná sparnaði þessa árs. Menntamálaráðherra hefur samkvæmt blaðafregnum boðist til að skera niður um 800 millj. kr. í menntakerfinu en það jafngildir því u.þ.b. að leggja niður Menntaskólann í Reykjavík, Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann við Hamrahlíð, Menntaskólann við Sund og Fjölbrautaskólann í Breiðholti.
    Niðurskurðarstefnunni skal haldið áfram þrátt fyrir að nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar bendi til að þessi stefna hafi hvergi nærri skilað þeim árangri sem að var stefnt með þeim aðferðum sem beitt hefur verið enda stefnir halli ríkissjóðs í allt að 12 milljarða króna, eftir því reyndar hvernig reiknað er. Það hvarflar ekki að ríkisstjórninni að leita nýrra leiða tekjuöflunar, enda má hvergi hrófla við þeim sem betur mega sín.
    Fyrir ári síðan bentum við kvennalistakonur á að það væri ógjörlegt og óskynsamlegt að ætla sér að ná ríkishallanum niður á tveimur árum, eins og ríkisstjórnin hefur stefnt að, enda er það nú komið á daginn. Menn vinna einfaldlega meiri skaða með illa hugsuðum og illa undirbúnum áformum en sparnaðurinn réttlætir. Til að ná tökum á vanda ríkissjóðs þarf langtímamarkmið og strúktúrbreytingar þar sem m.a. er lögð áhersla á að skilgreina hlutverk ríkisins upp á nýtt, unnið að fyrirbyggjandi heilsugæslu, endurskipulagningu landbúnaðar og sjávarútvegs og aukin áhersla lögð á rannsóknir, tilraunir og nýjungar, þannig að atvinnusköpun sem skilar ríkinu tekjum komist á legg.
    Þess í stað er ríkisstjórnin enn á fortíðarfylliríi eftir rúmlega eins árs setu í ríkisstjórn, sérstaklega þó Sjálfstfl. eins og best sést á því að hann hefur ekkert fram að færa, hvort sem horft er á atvinnu- og efnahagsmál eða þá mikilvægu umræðu sem nú á sér stað um aðildina að hinu Evrópska efnahagssvæði, ekkert annað en upprifjun á gerðum fyrrv. ríkisstjórnar. Slíkur málflutningur er auðvitað ekki boðlegur, hvað þá sæmandi stærsta stjórnmálaflokki landsins. En það er staðreynd að hann hefur ekkert að segja, engar nýjar hugmyndir, enga framtíðarsýn, enda hangir hann í gömlum úreltum 19. aldar klisjum. Meira að segja Morgunblaðið er farið að auglýsa eftir stefnu og hugmyndum Sjálfstfl.
    Eins og menn vita hefur fyllirí hverrar gerðar sem er sínar afleiðingar. Bakkus konungur á sína fylgifiska vanlíðunar, barlóms og svartnættis en þeir árar hafa greinilega tekið sér bólstað í Stjórnarráði Íslands og lifa þar góðu lífi, sennilega við að brýna niðurskurðarhnífana. Ríkisstjórnarflokkarnir þurfa á aðstoð að halda til að öðlast trú á framtíð þjóðarinnar og möguleika landsins. Þeir þurfa að komast á sjálfsstyrkingar- og bjartsýnisnámskeið en eina leiðin til þess er að gefa þeim frí áður en þeir draga alla þjóðina með sér niður í öldudal þunglyndis og vonleysis. Reyndar kenndi þó bjartari tóns í ræðu hæstv. forsrh. og guð láti gott á vita. Það var helst að heyra að allt væri á réttri leið en sú túlkun kemur mér mjög á óvart því staðreyndirnar tala öðru máli og miðað við þann niðurskurð sem boðaður er kemur þetta ekki

heim og saman.
    Virðulegi forseti. Það er gömul saga og ný að neyðin kennir naktri konu að spinna. Á samdráttartímum sem þessum ætti þjóðin að skoða allt sitt skipulag og atvinnuhætti, endurmeta möguleikana og nýta þrengingarnar til uppgjörs og endurskoðunar til þess að koma reistari og bjartsýnni út úr erfiðleikunum. Hingað til höfum við getað sótt meiri afla í sjó þegar að hefur þrengt á einhverjum sviðum þjóðlífsins. En nú er endimörkunum náð að flestra mati. Nú er komið að skuldadögum. Við verðum að nýta betur það sem við eigum, opna augun fyrir nýjum möguleikum í landi okkar og vinna úr þeim af skynsemi. Síðan verðum við að jafna á milli okkar fengnum á réttlátan hátt. Slíkt gerist ekki með þessa ríkisstjórn aðgerðaleysisins við stýrið.
    Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar er samdráttur í öllum útflutningsgreinum. Eini vaxtarbroddurinn sem sjáanlegur er finnst í ferðaþjónustu en þó eru þar blikur á lofti vegna þess hve dýr hún er. Við stöndum frammi fyrir því að fyrirtæki í öllum greinum atvinnulífsins hafa lýst yfir gjaldþroti. Fyrirtæki í sjávarútvegi eru að berjast um of lítinn afla þannig að fjöldi þeirra á sér ekki lífsvon við ríkjandi aðstæður og greinin í heild er rekin með tapi. Það er augljóst hverjum manni að sjávarútvegurinn þarfnast endurskipulagningar og að móta þarf nýja sjávarútvegsstefnu í ljósi þeirra aðstæðna sem ríkja á hafsvæðunum kringum Ísland. En það verður að nást samstaða um þá stefnu. Það er ekki á valdi eins ríkisstjórnarmeirihluta að móta stefnuna eftir sínum óskum, þar þurfa öll sjónarmið að komast að. Það getur ekki gengið til lengdar að reka fjölda fyrirtækja með endalausu tapi og menn verða að horfast í augu við þann veruleika. Það eina sem réttlætir slíkt er nauðsyn þess að halda ákveðinni byggð við en þá á líka að segja það hreint út og jafnvel að kanna hvort aðrar leiðir í atvinnumálum séu ekki færar á þeim stað. Hallarekstur af hvaða tagi sem er gengur ekki til lengdar því það eru aðrir sem borga brúsann.
    Þá blæs ekki byrlegar, virðulegi forseti, ef við horfum á landbúnaðinn, þar heldur niðurskurðurinn áfram og verður ekki séð að nauðsynleg endurskipulagning sé þar hafin.
    Virðulegi forseti. Skuldir heimilanna fara vaxandi og það þrengir að fjölskyldunum í samdrættinum. Niðurskurði á félagslegri þjónustu fylgja auknar byrðar á fjölskyldurnar í landinu, ekki síst konur. Þar við bætist atvinnuleysið sem fer stöðugt vaxandi. Samkvæmt nýjustu tölum er atvinnuleysi um 2,7--2,8% og því er spáð að það fari upp í allt að 6%. Slíkt eigum við ekki og megum ekki sætta okkur við.
    Byggingariðnaðurinn hrópar á verklegar framkvæmdir enda von á fjöldaatvinnuleysi þar ef ekki verður gripið til aðgerða. Nú verður ekki hægt að fara til Svíþjóðar þar sem atvinnuleysi nálgast 7% eða Danmerkur þar sem atvinnuleysi er að nálgast 11%. Afleiðingar atvinnuleysisins verða hér sem annars staðar mannlegur harmleikur, félagsleg vandamál, vaxandi fátækt, biturleiki og enn meiri samdráttur sem hefur í för með sér enn meiri tekjumissi og kostnað fyrir ríkissjóð. Það er ekkert brýnna en að halda uppi atvinnu í landinu.
    Að mínum dómi er það mun betri leið að gefa ungu fólki kost á að vera í skóla en láta það mæla göturnar á atvinnuleysisbótum eða á framfæri félagsmálastofnana. Þegar til lengri tíma er litið verður það mun ódýrara fyrir samfélagið að koma í veg fyrir afleiðingar atvinnuleysisins en að láta það yfir okkur ganga. Það er mun betri leið að fara nú út í framkvæmdir á vegum ríkisins en að draga saman seglin.
    Ég get ekki annað en spurt hvort það sé virkilega ætlun ríkisstjórnarinnar að skerða möguleika ungs fólks til menntunar enn frekar en orðið er og þar vísa ég til hugmynda hæstv. menntmrh. en það virðist vera um það rætt að takmarka aðgang að framhaldsskólum landsins. Er það virkilega skoðun ríkisstjórnarinnar að atvinnuleysi sé betra en að ná halla ríkissjóðs niður á lengri tíma?
    Ríkisstjórnin reynir ekki að stappa stáli í fólk, ekki að benda á leiðir eða koma með nýjar hugmyndir. Það er ekki lagt fram fé til nýrra framkvæmda, ekkert gert til að bæta stöðu fyrirtækjanna í landinu. Eina undantekningin er reyndar sú samkeppni sem iðnrn. stendur fyrir til nýsköpunar um þessar mundir. Leiðin sem fara á er að skera enn meira niður. Það getur ekki þýtt annað en meiri samdrátt, meira atvinnuleysi.
    Við getum verið sammála um það að við eðlilegar aðstæður á ríkið ekki að standa í atvinnurekstri. Það á að vera hlutverk ríkisins að skapa atvinnulífinu góð skilyrði með stefnumótun og stöðugleika í efnahagslífinu. En þegar samdráttur er viðlíka og nú blasir við gilda önnur lögmál. Þá verður ríkisvaldið að beita afli sínu til að jafna sveifluna en það er ekki heldur stefna þessarar ríkisstjórnar frekar en annað það sem til heilla horfir.
    Heldur hæstv. forsrh. og fyrrv. borgarstjóri Reykjavíkur að það hefði verið munur núna fyrir atvinnulíf borgarinnar að eiga fram undan framkvæmdir við Ráðhús Reykjavíkur upp á 3 milljarða króna í stað þess að farið var út í þá framkvæmd á þenslutímum, þvert ofan í ráðleggingar minni hlutans?
    Ég vildi óska þess að við ættum verkið fram undan enda mætti þá velja því húsi annan og betri stað og ódýrari umgjörð.
    Fyrir tæpu ári blasti það ástand við sem nú er að verða staðreynd. Þá sögðum við kvennalistakonur að réttlætanlegt væri þrátt fyrir skuldir ríkissjóðs að taka erlent lán til að hefja arðbærar framkvæmdir þannig að vinnu yrði haldið uppi í landinu. Aðilar vinnumarkaðarins hafa einnig margbent á þessa sömu leið enda eru þeir greinilega mun betur að sér í hagfræði en núv. ríkisstjórn. En það er eins og að tala við steininn. Leið erlendra lána og verklegra framkvæmda var og er hafnað af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Fyrir nokkrum vikum lét hæstv. fjmrh. þau orð falla í sjónvarpsfréttum að á tímum sem þessum

ætti ríkissjóður að halda að sér höndum og lækka skatta til að gefa fyrirtækjunum svigrúm til athafna. Jafnframt hefur hann lýst því yfir að lánsfjárþörf ríkissjóðs sé svo mikil að vart verði komist hjá því að hækka vexti frá því sem nú er þó að öllum megi ljóst vera að fátt kemur heimilunum í landinu og fyrirtækjunum verr en vaxtahækkanir.
    Hvers konar hagfræði er þetta? Því er reyndar fljótsvarað. Þetta er hagfræði 19. aldar líberíalista sem var rækilega afsönnuð í kreppunni miklu með kenningum Keynes og New deal-stefnu Roosevelts Bandaríkjaforseta á fjórða áratugnum. Sú kennig, að ríkisvaldið eigi að halda að sér höndum í góðæri og koma þar með í veg fyrir of mikla þenslu en beita sér á samdráttartímum til að draga úr sveiflunni hefur verið nýtt síðan þá við ýmsar aðstæður enda er hún enn í fullu gildi.
    Friðrik Sophusson, hæstv. fjmrh., stendur hins vegar í sömu sporum og Herbert Hoover, Bandaríkjaforseti, sem sagði á fyrstu mánuðum kreppunnar miklu 1929: Nú dugar ekkert annað en að lækka skatta og draga úr umsvifum ríkisins.
    Á hans dögum vildu menn ekki horfast í augu við þá keðjuverkun sem hófst í efnahagslífinu þar sem samdráttur á einu sviði leiddi til samdráttar á öðru, hvað þá að viðurkenna að hægt væri að beita ríkisvaldinu til að draga úr kreppuáhrifum. En að við skulum heyra fjmrh. íslenska lýðveldisins halda fram svona vitleysu árið 1992 eftir þungbæra reynslu af aflabresti og samdrætti er aldeilis með ólíkindum.
    En hæstv. fjmrh. er því miður ekki einn um þessar hugmyndir. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að halda að sér höndum, gera ekki neitt. Bíða þess að hin ósýnilega hönd markaðarins rétti kúrsinn af. Ráðherrarnir spila bara hver á sína fiðlu eða lágfiðlu meðan logarnir leika um fyrirtækin og vinna fólks er í hættu.
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að beina neinum spurningum til forsrh. landsins. Það er ekki til neins. Stefna ríkisstjórnar hans er ljós. Það á ekkert að gera, bara láta markaðinn vinna sitt verk. En ég lýsi ábyrgð á hendur ríkisstjórnarinnar vegna þess ástands sem hún er að magna með aðgerðarleysi sínu og við eigum ekki að láta þetta yfir okkur ganga. Þjóðin á aðeins eitt svar, lausnin er aðeins ein. Hún er sú að koma þessari ríkisstjórn frá völdum og það sem fyrst, með góðu eða illu.