Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 15:11:11 (325)

    Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir að beita sér fyrir því að þessi umræða færi fram. Það eru sannarlega brýnar ástæður og þung rök fyrir því að efnahags- og atvinnumálaumræða sé tekin fyrir á hv. Alþingi.
    Atvinnuástand er verra nú en dæmi eru til um langa tíð. Minnkandi atvinna er á flestum sviðum þjóðfélagsins. Þær tölur sem hafa sést um það segja því miður ekki alla söguna. Samdrátturinn í atvinnulífinu er raunverulega miklu meiri en tölurnar gefa til kynna. Þar kemur til viðbótar mikill samdráttur yfirvinnu hjá mörgum þegnum þjóðfélagsins. Sem dæmi má nefna að fiskvinnslufólk hefur byggt afkomu sína mikið á bónusgreiðslum og yfirvinnu. Kennarar við hina ýmsu skóla missa nú svo til alla eða alveg alla þá yfirvinnu sem þeir hafa haft og þannig er það um allt þjóðfélagið. En hvers vegna er þetta ástand eins og raun ber vitni? Hvað hefur gerst í íslensku þjóðfélagi sem veldur þessari kreppu? Er það minnkandi þorskafli? Er það lækkun dollarans? Er það lágt verð á útflutningsvörum okkar? Er það skortur á nýsköpun í atvinnulífinu? Er það kannski misheppnuð efnahagsstjórn og háir vextir?
    Auðvitað hafa þær ástæður sem ég hef rakið mikla þýðingu en aðalástæðuna fyrir því hversu stöðugt hallar undan í atvinnumálum má finna í hinni blindu trú á leiðsögn fjármagnsins. Það er ekki langt síðan flestir í þjóðfélaginu litu á peninga þeim augum að þeir væru ígildi vinnunnar. Vextir ættu að vera mjög hóflegir, fjármagnsokrarar væru hinir verstu menn. Samkvæmt þeim skilningi væru okkar virðulegu bankastjórar og bankaráðsmenn allir undir lás og slá í dag. En nú gilda önnur lögmál. Allir aðrir en fjármagnseigendur eru kallaðir til ábyrgðar á ástandinu í þjóðfélaginu.
    Það er talinn eðlilegur hluti af hinni þjóðfélagslegu ábyrgð verkafólks að beita samtökum sínum af fullri ábyrgð og þvinga ekki fram það há laun í krafti samtaka sinna að þjóðfélagið geti ekki risið undir þeim. Sá skilningur sem ég er hér að lýsa hlýtur að vera sá grundvöllur sem hugmyndir um þjóðarsátt hvíla á. Hvernig má það þá vera að fjármagnseigendur skuli vera nánast þeir einu sem eru undanþegnir skyldum við þjóðfélagið þegar það er í vanda statt?
    Ef við lítum yfir þann tíma sem liðinn er síðan verðtryggingunni var komið á og hinir svokölluðu frjálsu vextir hófu innreið sína í íslenskt efnahagslíf þá blasa við okkur afar miklar breytingar. Þegar stjórnvöld voru að koma verðtryggingunni á var almenningur fullvissaður um að í slíku kerfi yrði stöðugleiki og vextir á bilinu 1--3%. Á þessum forsendum byggðu einstaklingar og fyrirtæki fjárfestingarákvarðanir sínar. Þjóðfélagið, sem hafði í mörg ár verið að aðlaga sig óstöðugleikanum sem fylgdi verðbólgunni, varð á skammri stund að horfast í augu við alveg nýjar aðstæður. Fjárfestingar, sem virtust skynsamlegar þegar þær voru gerðar, voru nú allt í einu hin mesta firra. Einstaklingar, sem höfðu miðað við fyrri reynslu sína, talið að þeir hefðu efnahagslegt bolmagn til að standa undir íbúðarkaupum, urðu að horfast í augu við að dæmið gekk ekki upp. Margir drógu það uppgjör of lengi. Sama var að segja með mörg fyrirtæki í landinu. Skuldir, sem á þeim hvíldu og þau höfðu risið undir áður, urðu óviðráðanlegar. Gjaldþrotin tóku að dynja yfir. En spurningin var, var þá ekki nóg að gert í bili a.m.k. og rétt að leyfa efnahagslífinu að aðlagast verðtryggingunni og þeim hugsunarhætti sem er út af fyrir sig eðlilegur að menn

borgi það til baka sem þeir hafa fengið að láni?
    Nei, ekki var það svo. Nú var talin mikil nauðsyn á að vaxtamyndun yrði frjáls og svokölluð arðsemiskrafa fengi að ráða því hvað fjármagnseigendur fengju í sinn hlut. Sama þróun hélt áfram með vaxandi hraða. Fyrri fjárfestingarákvarðanir einstaklinga og fyrirtækja voru nú aftur tóm vitleysa þó að þær hefðu verið miðaðar við verðtryggingu því að vextir hækkuðu svo mikið og allar skuldbreytingar voru hafðar með enn hærri vöxtum --- því að þeir sem eiga í erfiðleikum með að standa í skilum eru auðvitað færastir um að borga hæstu vextina. Enn fjölgaði gjaldþrotum og 1. og 2. veðréttur hætti að duga bönkunum. Bankarnir tóku að tapa líka og gjaldþrotunum fjölgaði. Þá þurfti að hækka vexti til að leggja meira inn á afskriftareikninga bankanna. Og það kallaði á enn þá meiri vaxtamun því að bankarnir þurftu að hafa upp í töpin.
    En áfram er sama brautin fetuð. Vöxtunum skal haldið uppi hvað sem það kostar. Arðsemiskrafan skal ráða. Þjóðfélagið skal lúta lögmálinu. Háir vextir eru að festast í sessi vegna þess að leiðsögn fjármagnsins á svo agnarsmáum markaði sem hér er hlýtur að viðhalda þeim. Í skjóli þessa svokallaða frjálsa fjármagnsmarkaðar viðgengst gegndarlaust okur og arðrán sem ekki er hægt að líða lengur. Grípa þarf í taumana til að bjarga því sem enn er hægt að bjarga. Fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki munu verða gjaldþrota á næstu missirum og árum vegna þeirrar öfgastefnu sem hér hefur verið innleidd. Stjórnvöld hafa lagt blessun sína yfir okrið og hæstv. núsitjandi ríkisstjórn virðist hafa alveg sérstakt dálæti á þessari stefnu. Þau hafa innleitt hávaxtastefnuna í stærstu fjárfestingu heimilanna með nýjasta snilldarleiknum í húsnæðiskerfinu. Það heitir húsbréfakerfi og tryggir að húsakaup almennings verði örugglega að taka á sig ávöxtunarkröfuna sem leiðir af leiðsögn fjármagnsins. Ég fullyrði að fjöldi af því fólki, sem hefur farið út í húsakaup á forsendum húsbréfakerfisins, hefur ekki gert sér grein fyrir því hversu óréttlátt það er að innleiða þessa gífurlega auknu skuldabyrði í húsnæðiskerfið.
    Einnig er búið að hækka vextina í hinu svokallaða félagslega kerfi þannig að fólk sem hafði gert fjárfestingar þar miðað við getu sína fyrir fáum árum stendur nú frammi fyrir því í sumum tilfellum að þurfa að borga þrefalt hærri vexti en áður.
    Afleiðingarnar af þessari ofurtrú á leiðsögn fjármagnsins eru að koma í ljós betur og betur. Fyrirtæki sem áður höfðu rekstrargrundvöll hafa hann ekki lendur. Þau hætta rekstri eða fara á höfuðið. Ný fyrirtæki verða ekki til vegna þess að nánast enginn rekstur stenst ávöxtunarkröfuna. Einstaklingar, sem hefðu kannski haft áhuga á að fara út í atvinnurekstur, sjá gjaldþrotin allt í kringum sig. Það virðist óðs manns æði að hætta fjárhag fjölskyldunnar út í fyrirtækjarekstur. Þeim fækkar þess vegna sem leggja út í slíkt.
    Fleira dregur úr kjarki manna og möguleikum til að hefja nýja atvinnustarfsemi. Hin nýmóðins alþjóðahyggja er líka farin að hafa áhrif. Óttinn við samkeppni frá stórfyrirtækjum erlendis frá, jafnvel um okkar fátæklega heimamarkað, kemur í veg fyrir að menn leggi út í nýjungar. Menn vita fyrir fram af reynslunni að þeim verður ekki hjálpað í samkeppninni. Íslenskir iðnrekendur hafa ekki látið mikið í sér heyra vegna Evrópusamninganna. Þeir vita að hinn stóri markaður er markaður risafyrirtækja á okkar mælikvarða. Hinn nýi veruleiki virðist vera sá að innlendi markaðurinn verður gersamlega opinn fyrir samkeppni og hinn stóri sameiginlegi markaður verður handa risunum. Stóra spurning næstu framtíðar er: Hvað getum við framleitt á Íslandi sem ekki finnst einhvers staðar ódýrara á hinu Evrópska efnahagssvæði? Er eitthvað hægt að gera til að auka atvinnu eða koma í veg fyrir að hún dragist meira saman? Auðvitað er margt hægt að gera ef menn vilja bregðast við því. En þegar stefnan virðist vera sú hjá ríkisstjórninni að vilja láta leiðsögn fjármagnsins ráða þá gerist auðvitað ekki neitt.
    Það stefnir í slíkt óefni að fullkomlega er réttlætanlegt að beita neyðarráðum. Aðalatriðið er að menn geri sér grein fyrir því að ástandið núna er afleiðing þeirrar stefnu sem ríkir og að menn snúi frá henni. Annars mun atvinnuleysi festast hér í sessi og þjóðfélagslegt óréttlæti, sem tekist hafði að draga úr á undanförnum árum, mun aftur vaxa hröðum skrefum. Ríkisstjórninni ber skylda til að þvinga fram verulegar vaxtalækkanir. Geri hún það ekki hlýtur verkalýðshreyfingin að endurmeta stöðu sína til samningagerðar. Verkalýðshreyfingin hefur axlað ábyrgð í því ástandi sem verið hefur. Þjóðfélagið hefur hafnað kröfum hennar um leiðréttingar launa. Á sama tíma hafa fjármagnseigendur grætt sem aldrei fyrr. Það gengur ekki lengur. Einnig verður að stöðva þá þróun að atvinna verkafólks flytjist út á sjó. Ég tel reyndar að það að banna tímabundið að semja um skipasmíðaverkefni erlendis gæti verið lausn á því máli. Með slíkri ákvörðun yrði hægt verulega á smíði og fullvinnslu skipa og mikil vinna skapaðist innan lands við viðgerðir og nýsmíðar. Það er fullur rökstuðningur fyrir því að taka slíka ákvörðun.
    Í fyrsta lagi þurfum við að endurreisa skipasmíðaiðnaðinn. Í öðru lagi þurfum við að hægja á þróuninni af atvinnulegum ástæðum og í þriðja lagi þurfum við tíma til að meta hvort það verður okkur til hagsbóta í framtíðinni að færa frystinguna út á sjó. Útgerðarmenn í landinu munu taka slíkri ákvörðun með miklum skilningi vegna þess að þegar horft er til framtíðar þá er þjónusta við útgerðina bæði í nýsmíðum og viðgerðum best komin hér innan lands. Þeim er líka manna best ljóst að þeir hafa einkarétt á að nýta fiskimiðin við landið og þess vegna munu þeir glaðir una því að þeim sé gert að kaupa þjónustuna innan lands. Ég efast ekki um að aðaltalsmaður þeirra mun fagna slíkri ákvörðun vegna þess að hún mun tryggja útgerðinni góða þjónustu í framtíðinni og skapa um leið mörg hundruð störf í þjónustu og framleiðslu fyrir heimamarkað.

    Mér finnst það vera prófsteinn á vilja þessarar ríkisstjórnar til að bregðast við í atvinnumálum hvort hún er tilbúin að ýta undir þá þróun sem yrði með því að ákveða að þau skip sem verði smíðuð fyrir íslenska skipastólinn á næstunni verði smíðuð innan lands og viðgerðir, sem fari fram á íslenskum skipum, verði innan lands. Ef menn eru ekki tilbúnir einu sinni til þess, hvað eru menn þá tilbúnir til að gera til að auka atvinnu í landinu?