Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 15:29:10 (328)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég reyndi af mætti að hlusta á hæstv. forsrh. og lái mér hver sem vill þó að mér gengi illa að skilja sumt sem þar kom fram. En hinu breytir hæstv. forsrh. ekki að opinberar tölur liggja frammi um atvinnuleysi bæði á Íslandi og í öðrum löndum og þær getur hver sem er kynnt sér og lesið. Ég er með þær hér í höndunum úr Hagtölum mánaðarins, hæstv. forsrh. Ég var að vitna í spár sem fyrir liggja frá opinberum stofnunum eins og Þjóðhagsstofnun, Samtökum iðnrekenda og fleirum. Þær eru að vísu nokkuð mismunandi en ganga flestar út á 3,5--4% atvinnuleysi á næsta ári og ýmsar forsendur frá síðustu vikum benda til þess að því miður sé það vanmetið, því miður. Tilkynningar um uppsagnir til félmrn. núna síðustu dagana og vikurnar benda til að meira atvinnuleysi sé í pípunum en lá fyrir þegar Þjóðhagsstofnun safnaði gögnum sem hún grundvallaði síðustu spá á. Þetta hef ég m.a. fengið staðfest með viðtölum við starfsmenn þeirrar stofnunar í morgun. Atvinnuleysið er ekki nema 4,5% í Svíþjóð að mati OECD, 5,5--5,8% í Noregi og þó svo að Japan sé nokkuð langt í burtu er það eitt af OECD ríkjunum sem við miðum okkur gjarnan við í efnahagslegum skilningi. Reyndar er það svo ef farið er yfir pólinn þá er Japan ekkert fjarri því að vera eitt af nágrannalöndum Íslands, svo ég uppfræði hæstv. forsrh. pínulítið um landafræði. Hann er greinilega ekki vanur að hugsa hnattrænt, þ.e. að jörðin sé hnöttur eða kúla, heldur er hún sennilega enn þá flöt í hugarheimi hans. Það samræmist mjög vel hversu hæstv. forsrh. er upptekinn af fortíðinni því að einu sinni var skoðun manna að jörðin væri flöt.
    Varðandi afkomu sjávarútvegsins. Tölurnar sem ég nefndi í vinnuskjali frá Þjóðhagsstofnun eru því miður með inngreiðslum Verðjöfnunarsjóðs, þ.e. afkoma sjávarútvegsins í júlí sl. Það er vegna þess að þegar þær inngreiðslur hverfa á næsta ári sem afkoman sveiflast úr 7% og niður í tæp 12% í tapi og ætti hæstv. forsrh. sjálfur að reyna að fara rétt með og forðast misskilning áður en hann hefur uppi stór orð. En varðandi ummæli hans um ræðutíma þá læt ég mér það í léttu rúmi liggja. Aðalatriðið er að menn segi eitthvað af viti, hæstv. forsrh. Ef menn gera það þá er allt í lagi þótt menn haldi langa ræðu.